Fullorðinsfræðsla
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir það sem hér var rætt undir liðnum um þingsköp, að þessi tvö mál koma dálítið sérkennilega fyrir. Var ég reyndar búin að minnast á það í ræðu minni þegar rætt var um frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu að mér fannst mjög einkennilegt að þurfa að ræða þessi tvö mál, sem væru svona samtengd, aðskilin á sama fundi. Ég vil samt fagna því almennt að þetta frv. kemur fram, frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu, þó ég eigi mjög erfitt með að sjá hvernig við eigum að geta afgreitt þetta mál á þeim stutta tíma sem nú er eftir til þingloka ef af verður sem nú horfir.
    Þetta frv. um fullorðinsfræðslu er mjög mikilvægt kvenfrelsismál. Eins og kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. er meiri hluti þeirra sem stunda nám í öldungadeildum og fulllorðinsfræðslu konur. Þess vegna hlýt ég að fagna frv. en hefði talið eðlilegt að starfsmenntun væri einnig í þessum lögum og hefði viljað að starfsmenntunin, eins og hún kemur fyrir í frv. til laga um starfsmennun í atvinnulífinu, hefði fallið undir menntmrn. Mér þykir það vera mikill galli að hafa þennan hátt á eins og gert er með þessi tvö frv.
    Það kom reyndar fram í máli hæstv. menntmrh. fyrr á fundinum að hann telur þetta óeðlilegt fyrirkomulag, þ.e. að hluti menntunarinnar falli undir önnur ráðuneyti en menntmrn. Lýsti hann því yfir að hann væri mér sammála um að Félagsmálaskóli alþýðu ætti að heyra undir menntmrn. Þó að ég geti fallist á meiri hluta þess sem stendur í frv., að vísu hef ég ekki farið mjög nákvæmlega ofan í það, þá finnst mér það vera einn stærsti gallinn að ekki skuli vera gert ráð fyrir starfsmenntun í atvinnulífi í þessu frv.
    Að vísu kemur fram á bls. 14 í fylgiskjölum með frv. að þar er talað um samtengingu fullorðinsfræðslu og laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er sem sagt talað um samtengingu án þess að það sé gert á viðunandi hátt að mínu mati.
    Á bls. 10 er talað um kostnað vegna frv. og það er líka gert ráð fyrir því að frv. taki nú þegar gildi. Ég vildi spyrja hvort gert sé ráð fyrir einhverjum kostnaði á þessu ári því að ef á að framkvæma þessi lög, þá hlýtur að vera gert ráð fyrir einhverjum kostnaðarauka til að hægt sé að byrja núna í haust. Þetta vildi ég spyrja ráðherrann um þar sem þarna er gert ráð fyrir 150 -- 200 millj. kr. framlagi úr ríkissjóði til þess að mæta kostnaðarauka ríkissjóðs ef þetta frv. verður að lögum.
    Ég hefði kosið að fá það skýrt fram, og ekki síst við þessa umræðu, af hálfu menntmrh. þó að það sé kannski á vissan hátt óþarfi að fá aftur yfirlýsingu hans um að hann sé óánægður með frv. sitt, óánægður með að ekki skuli vera fleiri þættir inni í því, þ.e. að menntun sú sem færð er undir sjútvrn., félmrn. og landbrn. skuli ekki falla undir menntmrn. Ég held að hann ætti að drífa sig í að taka til á bænum og byrja þá kannski þar sem hægust eru heimatökin, byrja á

landbrn. sem hann gaf nú reyndar í skyn fyrr í dag.
    Mig langar til að spyrja: Af hverju kemur þetta frv. svona seint fram? Ég tel þetta mjög mikilvægt frv. Í nefnd þeirri sem samdi þetta frv. er Guðrún J. Halldórsdóttir sem er þingkona Kvennalistans. Ég spurði hana hvenær frv. hefði verið tilbúið og hún sagði að það hefði verið tilbúið nú í haust, ef ég man rétt. Þess vegna langar mig til þess að spyrja hvað hafi staðið í vegi fyrir því að það væri flutt fyrr, hver hafi staðið í vegi fyrir því og af hverju það kemur svona seint fram. Það er nánast borin von að við getum afgreitt það fyrir þinglok nema við drífum okkur nú og vinnum hratt og örugglega, sem við gerum nú reyndar mjög oft. En mér þykir það mjög slæmt að fá þetta mál svona seint inn.
    Það hvarflar að manni að þarna sé verið að koma fram með einhvers konar kosningaáróður en ekki raunveruleg mál sem fólk í raun og veru vill fá fram. Finnst mér þetta bera svolítinn keim af því hversu mörg mál við fáum nú. Það er eins og skæðadrífa af nýjum málum sem koma yfir okkur og er erfitt að vita hvað er meiningin að leggja áherslu á fyrir þinglok, ef þau geta orðið í næstu viku eins og hingað til hefur verið talað um. Þetta langar mig nú til að segja um 1. umr. málsins þó að ég muni auðvitað alls ekki leggja stein í götu þessa frv. Ég vil styðja það eins og það er þó að ég hefði gjarnan viljað sjá starfsmenntunina inni í því líka.