Ábyrgðadeild fiskeldislána
Þriðjudaginn 05. mars 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram hefur komið í þeim tveimur ræðum sem fluttar hafa verið um þetta sérkennilega frv. að miklar vonir voru bundnar við möguleika fiskeldis. Það var á grundvelli þessara vona sem samþykkt var frv. um Tryggingarsjóð fiskeldislána. Vonirnar hafa því miður ekki reynst raunhæfar þannig að ríkið hefur nú þegar tapað helmingnum af þeirri upphæð sem þar var lögð til grundvallar. Hún fellur á ríkissjóð, skattgreiðendur í landinu. Það voru miklar vonir sem leiddu til þess að opinberir sjóðir, eins og þeir sem eru í vörslu Byggðastofnunar, eins og Framkvæmdasjóður, og ríkisbankar eins og Landsbankinn lánuðu til fiskeldis. Kunnugir menn telja að þar kunni 4 -- 5 milljarðar að vera tapaðir af opinberu fé.
    Í framsöguræðu fyrir þessu frv. var lítið reynt að leita skýringa á því hvernig stendur á því að þessar vonir hafa ekki ræst, hver er vandi fiskeldisins á Íslandi, hvað hefur gerst. Af hverju hafa draumarnir breyst í martröð? Af hverju eru fyrirtækin gjaldþrota? Það var ekki gert. Í staðinn er flutt hér einhver skammarræða um ríkisstjórnina og án þess að víkja að kjarna þess frv. sem hér er mælt fyrir er skorað á þingið að samþykkja það en fjöður skotið yfir það hvað þetta frv. í raun og veru felur í sér. Frv. felur í sér að fyrirtæki sem Byggðastofnun, sem 1. flm. er stjórnarformaður í, hefur gefist upp á að lána og fyrirtæki sem Landsbankinn, þar sem 2. flm. frv., hv. þm. Friðrik Sophusson, er bankaráðsmaður, hefur gefist upp á að lána, að þessi fyrirtæki fái allt að þremur milljörðum úr ríkissjóði að láni. Þetta er frv. um það að lána þessum fyrirtækjum 3 milljarða úr ríkissjóði. En það stendur hvergi í frv. Það er klætt í dulmál frv. og í dulmál framsöguræðunnar. Hvaðan á ríkissjóður að taka þessa 3 milljarða? Um það segir ekkert í frv. Það hefði verið réttara að gera tillögu um það að skattgreiðendur í landinu væru látnir borga sérstakan skatt á bak við þetta frv. Um það er frv. Það er ekki um neitt annað. En það er svo snyrtilega samið að þeir sem lesa það telja, eins og frsm. gaf til kynna, ég tala nú ekki um þann sem talaði hér á eftir, að hér sé bara verið að tala um lán, nauðsynlega fyrirgreiðslu fyrir blómleg fyrirtæki. Hér er verið að biðja ríkissjóð um að taka að sér fyrirtæki sem Landsbankinn og Byggðastofnun hafa gefist upp á að lána. Um það er þetta frv. Það er verið að biðja skattgreiðendur í landinu að taka að sér þau fyrirtæki sem Landsbankinn, Byggðastofnun og aðrir hafa gefist upp á. Það á að segja alveg hreint út. Það á ekki að klæða það í eitthvert dulmál, sérstaklega ekki þegar jafnmiklir rétttrúnaðarmenn í ríkisfjármálum eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson fjárveitinganefndarmaður og formaður fjvn., Sighvatur Björgvinsson, standa að þessu frv. og fjárveitinganefndarmaðurinn Málmfríður Sigurðardóttir. Og svo eru hér miklar umræður á Alþingi um það að banna heimildarlausar greiðslur og allar greiðslur úr ríkissjóði verði að fara samkvæmt lánsfjárlögum og samkvæmt fjárlögum. Flm. frv. hafa

ekki svarað því hvaðan á að taka þá 3 milljarða sem falla á ríkissjóð samkvæmt þessu frv.
    Ég mun, virðulegi forseti, koma að þessu síðar en ég tel nauðsynlegt, af því að ég met vanda fiskeldisins mjög mikils, að hér fari fram í þingsölum raunhæf umræða um það hver er skýringin, hverjar eru ástæðurnar, hvað hefur gerst svo að raunhæft og skynsamlegt mat geti farið fram en ekki bara fylgt gömlu patentlausninni, að vísa öllum vanda greiningarlaust á ríkissjóð og skattborgarana í landinu.
    Samkvæmt þessu frv. er lagt til að breyta ábyrgðadeild fiskeldisins í banka. Það er kjarni frv. Þar er gert ráð fyrir því að deildin veiti fyrirtækjunum lán sem þá mundu kallast bústofnslán og komi í stað þeirra afurðalána sem bankakerfið í landinu hefur látið fiskeldisfyrirtækjunum í té fram að þessu. Með öðrum orðum, það er verið að leggja til að gera ábyrgðadeild fiskeldislána að ríkisbanka fiskeldisins vegna þess að Landsbankinn, Búnaðarbankinn og aðrir bankar og lánasjóðir hafa gefist upp á áhættunni sem felst í því að lána þessum fyrirtækjum.
    Hugmyndin um bústofnslán er ekki ný af nálinni. Frá því að fiskeldi hófst í stórum stíl hér á landi hefur verið vandræðagangur á fjármögnun kostnaðar við að byggja upp fiskinn sem alinn er upp í hverri stöð. Það er rétt að gera í upphafi stutta grein fyrir þróun þessa máls svo umræðan geti verið með raunhæfum hætti.
    Í upphafi þróunar fiskeldisins samþykktu nokkrir fjárfestingarlánasjóðir að veita stofnlán til fiskeldisins. Lánareglurnar sem mótuðust hjá sjóðunum voru að því leyti samræmdar að einungis var lánað út á kostnað við gerð mannvirkja og þá ákveðið hlutfall af kostnaðarverði. Hlutfallið var breytilegt milli sjóða en á bilinu 50 -- 70% af kostnaðarverði mannvirkjanna. Veðhæfni hjá hverju fyrirtæki um sig var skilgreind sem sama hlutfall og hámarkslánin voru 50 -- 70% af kostnaðarverði mannvirkjanna. Flestir gerðu sér grein fyrir því að tekjur mynduðust ekki hjá fiskeldisfyrirtækjunum fyrr en búið væri að ala upp svonefndan lífmassa eða fisk sem kominn væri í sláturhæfa stærð. Jafnframt var ljóst að fyrstu tvö til fjögur árin yrðu tekjulaus hjá hverju fyrirtæki. Rekstur á þessum fyrstu árum var því í raun hluti af stofnkostnaði fyrirtækjanna. Fram hjá þessari staðreynd var horft og bera sjóðirnir við að fyrirtækin hafi ekki haft nein veð að bjóða svo að þeir gætu lánað fyrir öllum stofnkostnaði, þ.e. bæði mannvirkjunum og lífmassanum.
    Skilgreining sjóðanna á veðhæfni var og er reyndar enn ákveðið hlutfall af kostnaði við mannvirkjagerðina sjálfa. Viðskiptabankar fiskeldisfyrirtækjanna veittu hins vegar rekstrarlán sem fljótlega voru kölluð afurðalán, þó það sé í reynd ekki réttnefni samkvæmt hefðbundnum skilningi þess orðs. Viðmiðun lánsupphæðarinnar var breytileg. Í fyrstu var lánað út á rekstraráætlanir og þar með ákveðið hlutfall af kostnaði við að byggja upp bústofn. Síðan fór upphæðin að miðast við ákveðið hlutfall af tryggingarverðmæti fisksins sem í stöðvunum var. Sumir bankanna létu sér nægja að taka veð í fiskinum en aðrir

kröfðust aukaveða og þá oftast sjálfskuldarábyrgða eða fasteignaveða hjá eigendum eða hluthöfum í fyrirtækjunum. Fljótlega kom í ljós að þetta var engan veginn nægilegt fyrirtækjunum til að þau gætu byggt sig upp. Því hefur með reglulegu millibili á síðustu þremur árum verið skoðað af hálfu stjórnvalda hvers konar kerfi væri hægt að byggja upp sem fullnægði þörfum fyrirtækjanna.
    Á árinu 1988 var starfandi nefnd sem þáv. landbrh. Jón Helgason, ráðherra í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, skipaði til þess að skoða lánakerfi það sem íslensk fiskeldisfyrirtæki bjuggu þá við og gera samanburð við það sem er í samkeppnislöndum okkar. Helstu niðurstöðum þessarar nefndar má lýsa með eftirfarandi:
    Í flestum löndunum voru veittir fjárfestingarstyrkir til að byggja upp fiskeldi. Styrkveitingarnar voru yfirleitt undir formerkjum byggðastyrkja. Uppbygging lífmassa var fjármögnuð með rekstrarlánum, nema í Skotlandi þar sem slíkt reiknast inn í stofnlánin. Aðeins í Noregi --- ég legg áherslu á það --- er ríkisábyrgð á rekstrarlánunum. Sú ríkisábyrgð var á alla upphæð rekstrarlánanna í upphafi, þ.e. fyrir 20 árum síðan, en hafði lækkað og var að jafnaði um 50% af upphæðinni árið 1988.
    Færeyingar --- og ég bið menn að taka eftir því --- byggðu sitt fiskeldi upp án styrkja og án ríkisábyrgða á rekstrarlán.
    Meginniðurstaða fyrrnefndrar skýrslu, sem unnin var fyrir Jón Helgason landbrh. árið 1988, er að fiskeldisfyrirtæki í samkeppnislöndum hafa átt greiðari aðgang að fjármagni til að byggja sig upp heldur en íslensk fyrirtæki. Á þessum tíma, og það er nauðsynlegt að rifja það upp vegna þess að þessi umræða um enn eitt ríkisábyrgðarkerfið í fiskeldinu er ekki ný hér í þingsölum, þetta er satt að segja þriðja umræðan síðan ég tók við embætti fjmrh. þar sem sótt er á um meiri ríkisábyrgðir gagnvart fiskeldisfyrirtækjunum, á árinu 1988, töldu fiskeldismenn að arðsemin í íslensku fiskeldi yrði mikil og spáðu því að á árunum 1990 og 1991 mundu fyrirtækin fara að skila það miklum arði að allt önnur tíð yrði þá gengin í garð og fyrirtækin mundu ráða við greiðslu af lánum á árunum 1990 og 1991. Spurningin væri einungis hvernig greininni yrði auðveldaður aðgangur að lánsfjármagni til að byggja sig upp.
    Þegar hér var komið sögu voru fyrirtækin að byggja upp lífmassa en lítið sem ekkert farið að koma til slátrunar. Verulegrar tregðu gætti í bankakerfinu til að veita rekstrarlán án aukaveða fyrir utan fyrirtækin sjálf. Niðurstaða þessara umræðna, og ég bið hv. þm. að rifja það upp, bæði í sínum eigin huga og í þingtíðindum, var að á árinu 1989 var stofnaður Tryggingasjóður fiskeldislána. Hann hafði það að markmiði að veita ábyrgð á hluta afurðalána greinarinnar. Með tilteknum skilyrðum áttu fyrirtækin að geta fengið allt að 75% af tryggingarverðmæti eldisstofns að láni sem afurðalán. Samkvæmt lögunum um sjóðinn átti að ákvarða iðgjöld af ábyrgðum með það fyrir augum að sjóðurinn yrði rekinn hallalaus. Með tilliti til áhættunnar sem þótti vera í rekstri svona sjóðs var meðaliðgjaldið ákveðið 6,5% af ábyrgðarupphæð. Auk þess var hvert fyrirtæki skyldað til að skrifa upp á jafnháa ábyrgðaryfirlýsingu ef iðgjaldið reyndist í framtíðinni of lágt.
    Tryggingasjóðurinn veitti einungis einfalda ábyrgð en bankarnir vildu fá sjálfskuldarábyrgð. Hvers vegna? Vegna þess að bankarnir vildu endilega fá það kerfi að þeir bæru enga áhættu heldur bæri ríkissjóður, og skattgreiðendur í landinu þar með, alla áhættuna. Framkvæmdasjóður Íslands var þá fenginn til að veita sjálfskuldarábyrgð til bankanna út á einfalda ábyrgð Tryggingasjóðs. Talsverð gagnrýni kom fram á þetta fyrirkomulag sem þótti þungt í vöfum og dýrt fyrir fyrirtækin. Síðan varð það niðurstaðan að lög um ábyrgðadeild fiskeldis voru samþykkt til að enn á ný koma til móts við þessi sjónarmið og yfirtók deildin allar skuldbindingar Tryggingasjóðsins. Við það varð kerfið vissulega einfaldara og nokkuð ódýrara fyrir fyrirtækin þó enn sé stunið yfir kostnaðinum af ábyrgðunum.
    Því miður verður að segja þá sögu eins og hún er að nú þegar hafa tapast 200 millj. kr. af þeim rúmlega 400 millj. sem Tryggingasjóðurinn gekkst í ábyrgð fyrir. Með öðrum orðum er þegar búið að færa yfir á skattgreiðendur í landinu helminginn af öllum þeim ábyrgðum sem Tryggingasjóður fiskeldisins samþykkti og var þó kvartað yfir því á þeim tíma að reynt væri að hafa skilyrðin svo ströng að einungis hin traustustu fyrirtæki fengju aðgang að þessum ábyrgðum.
    Í framkvæmd var það þannig að bankinn, sem veitti afurðalán til fyrirtækjanna, hefur sinn hluta lánsins tryggðan á fyrsta veðrétti í fiskinum. Síðan hefur hann ábyrgð ábyrgðadeildar fiskeldislána sem aftur hefur veð á öðrum veðrétti í fiskinum. Reynslan er sú að ef fyrirtæki verður gjaldþrota og reynir á raunverulegt verðmæti fisksins þá fær bankinn eitthvað upp í fyrsta veðrétt en ekkert fæst upp í annan veðrétt sem ábyrgðadeild fiskeldisins er með. Það þýðir að ábyrgðadeildin þarf að greiða eins og ábyrgðirnar segja til um en fær ekkert út úr sölu á fiskinum.
    Því er það ljóst að ef öll fyrirtækin í greininni verða gjaldþrota munu allar --- ég bið hv. þm. að taka eftir því --- ábyrgðirnar tapast. Það er því nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því, þegar þetta frv. hér er flutt um að breyta þessu enn frekar á þann veg að auka áhættu ríkissjóðs stórfelldlega, hver hin raunverulega staða er og hvað það er sem hefur farið úrskeiðis. Því það er nauðsynlegt fyrir okkur sem höfum trú á fiskeldinu að við ræðum hér af fullri hreinskilni hvað það er sem hefur farið úrskeiðis. Ástæðurnar eru mjög margar. Bjartsýnin, sem ég nefndi í upphafi, hefur ekki staðist. Væntingarnar hafa reynst óraunhæfar. Hver er skýringin á því að tekjurnar hafa orðið svona miklu, miklu minni en menn bjuggust við? Ég ætla að nefna nokkrar.
    Fyrsta ástæðan er verðfall á erlendum mörkuðum. Verð á laxi, sem margir töldu að yrði hátt vegna þess að hér væri um svo dýrmæta og eftirsótta vöru að

ræða, hefur lækkað á tveimur, þremur síðustu árum úr 11 -- 12 Bandaríkjadollurum í 6 -- 8 dollara pr. kíló. Ýmsir erlendir og innlendir sérfræðingar telja að það kunni e.t.v. að vera svo að botninum sé náð í þessum verðum og það geti hugsanlega hækkað eitthvað þegar líður á þetta ár. Kannski á árinu þar á eftir ef minna framboð verður af fiskinum. Lax var áður á borði dýrra veitingahúsa og talinn vera lúxusvara. Nú er hann ekki lengur flokkaður þannig. Nú hefur hann yfirleitt lækkað svo í verði að hann er almennt ekki talinn vera sú lúxusvara sem verðspár fyrri ára lögðu til grundvallar. Það getur verið að hann nái því verði aftur, en það er engin trygging fyrir því.
    Önnur meginástæðan fyrir því hve illa hefur farið í fiskeldinu er hinn hægi vöxtur sem hefur einkennt þann laxastofn sem við höfum verið með hér. Við höfum kannski mörg talið að íslenski laxastofninn væri sérstakur gæðastofn og miklu betri en norski stofninn eins og við höfum ríka tilhneigingu til að halda að náttúrulegar íslenskar vörur séu meiri gæðavörur en erlendar. Staðreyndin er hins vegar sú að sá stofn sem við erum með, íslenski laxastofninn, vex hægar en þeir stofnar sem Norðmenn hafa ræktað upp og nota í eldinu hjá sér. Þar með er samkeppnishæfni íslenska fiskeldisins miklu verri. Þetta þýðir t.d. að eldið tekur lengri tíma en reiknað var með, laxinn er smærri þegar honum er slátrað og magnið minna en reiknað var með. Þetta vandamál leysist ekki nema með margra, margra ára kynbótum á íslenska laxastofninum eða með þeirri örlagaríku ákvörðun að innleiða hér erlendan laxastofn. Það er alveg nauðsynlegt að menn horfist í augu við það að því miður er það þannig að laxastofninn sem Norðmenn hafa ræktað upp hjá sér er samkeppnishæfari og arðbærari heldur en sá íslenski.
    Þetta er enn bagalegra fyrir þá sök að verðið á erlendum mörkuðum er hærra pr. kíló því stærri sem laxinn er. Sé stærð laxins þess vegna tvöfölduð þá vex áhrifavaldurinn hvað heildarverðmætið snertir. Það er líka rétt að horfast í augu við það að náttúrulegar aðstæður hafa reynst óhagstæðari en gert var ráð fyrir. Vatnshitinn, sem við bundum miklar vonir við, í strandeldisstöðvunum er víða talsvert lægri en það sem getur talist kjörhiti við laxeldi. Það er einmitt þessi vatnshiti sem ræður miklu um vaxtarhraðann. Ef hann er minni en reiknað var með verður vaxtarhraðinn minni. Sama er að segja um sjávarhitann þar sem kvíaeldi hefur verið reynt. Því miður er það þannig að það er aðeins á fáum stöðum á landinu þar sem hitastig sjávar hefur reynst heppilegt til laxeldis árið um kring.
    Þriðja ástæðan fyrir því að þessar björtu vonir hafa ekki ræst eru mikil afföll á eldistímanum, mun meiri afföll en reiknað var með. Þetta á sérstaklega við um kvíaeldi í sjó. Menn gerðu ráð fyrir að afföllin yrðu 20 -- 30% frá því að seiði voru sett í kví þar til að yrði slátrað. Reynslan hefur hins vegar sýnt að afföllin eru að meðaltali 50% og fara jafnvel allt upp í 70%. Þetta eru mun meiri afföll en hjá samkeppnisþjóðum okkar. Í upphafi var hins vegar reiknað með að afföllin

hér yrðu minni, m.a. vegna þess að menn töldu að mengunin væri minni og sjúkdómshættan væri minni hjá okkur á Íslandi. Því miður hefur íslenski laxastofninn reynst mjög sjúkdómasækinn. Afföll í strandeldisstöðvum hafa verið meiri af völdum sjúkdóma og tjóna en reiknað var með í því einangraða vistkerfi sem margir töldu hinn helsta kost laxeldis á Íslandi.
    E.t.v. er hluti af skýringunni á því hve illa hefur farið ekki skortur á lánum, ekki skortur á sjóðum, ekki skortur á peningum, heldur að íslenskir fiskeldismenn hafa ekki náð þeim tökum á eldinu sem nauðsynlegt er. Og ég segi þetta ekki til að áfellast þá með einum eða öðrum hætti. Það er bara staðreynd sem alþekkt er hvort sem það er úr landbúnaði eða iðnaðarframleiðslu að oft þarf langan tíma, talinn í árum og jafnvel áratugum, til að þróa gæði vöru sem stenst alþjóðlega samkeppni. Við Íslendingar viljum hins vegar taka gróðann strax. Við erum alltaf að flýta okkur svo mikið. Við trúum alltaf á gullfenginn, höldum að síldin sé í næsta firði, kaupum okkur skip, reisum dýr mannvirki, fjárfestum og tökum lán en sinnum ekki þeim nauðsynlega undirbúningi sem er tímafrekur, krefst þolinmæði og hefur það að frumforsendu að menn séu tilbúnir að bíða, jafnvel árum saman eftir að hagnaðurinn skili sér.
    Fjórða ástæðan, sem líka kann að vera feimnismál í umræðum hér á landi, en er því miður einnig nauðsynlegt að vekja athygli á vegna þess að í framsögu fyrir þessu frv. virtist gæta þess skilnings að vandinn væri bara skortur á peningum, skortur á lánum og ef þeir kæmu, lánin og peningarnir og ríkisábyrgðirnar, þá mundi þetta allt saman leysast.
Fjórða ástæðan eru léleg gæði. Einfaldlega léleg gæði. Verðið sem fæst fyrir vöruna veltur í þessum efnum fyrst og fremst á gæðum hennar. Staðreyndin er sú, þó lítið hafi farið fyrir því í opinberri umræðu hér á landi, að á erlendum mörkuðum hefur íslenski eldislaxinn lélega gæðaímynd að dómi kunnáttumanna sem þessi mál hafa skoðað gaumgæfilega. Ég segi enn og aftur því miður. Við erum bara ekki með nógu góða vöru. Kunnáttuna hefur skort í meðhöndlun laxins fyrir slátrun og frágangi á laxinum eftir slátrun. Þá er það líka staðreynd að íslenski laxastofninn verður kynþroska snemma en við kynþroska breytist laxinn bæði að lit og gæðum og verður mun síðri söluvara. Engu að síður, því miður, er það þannig að töluvert af slíkri vöru hefur verið sent á markað erlendis og hún hefur eðlilega skemmt fyrir markaðsstöðunni, dregið úr þeim gæðaorðstír sem íslensk útflutningsvara þarf að hafa. Sem dæmi um það hvað gæði hafa að segja varðandi söluverð á mörkuðum má nefna að norski laxinn er að meðaltali um 90 centum hærri í Bandaríkjunum en sá íslenski að dómi kunnáttumanna eingöngu vegna gæðanna --- tæpur dollar sem munar á einingaverði eingöngu vegna gæðanna. ( Gripið fram í: Hver yrði munurinn á fjármálaráðherrunum ef þeir yrðu bornir saman?) Ég er alveg reiðubúinn að fara í þann samanburð, en það er alveg við hæfi þegar verið er að reyna að efna hér til alvarlegrar og raunhæfrar umræðu um hvers vegna hinir miklu draumar hafa

ekki ræst, þá sé verið að reyna að snúa því upp í einhverjar skætingsathugasemdir um fjármálaráðherra viðkomandi landa, eða með öðrum orðum gefa enn á ný til kynna að vandinn sé bara sá að það fáist ekki nægir peningar. Og segir það nú hinn mikli rétttrúnaðarboðberi ríkisfjármálanna hér í þingsalnum.
    Ef við drögum þetta saman þá er verðfall á erlendum mörkuðum aðeins að hluta til skýringin á minni tekjum en áætlað hafði verið. Meginskýringin að dómi þeirra kunnáttumanna sem þessi mál hafa skoðað felst í óhagstæðari náttúrulegum aðstæðum og að laxastofnarnir eru óhagstæðari hér á Íslandi en menn gerðu ráð fyrir. Menn ofmátu hinar náttúrulegu aðstæður fyrir fiskeldið á Íslandi, bæði hvað snertir sjálfan stofninn og hvað snertir hitann. Þar við bætist svo einnig skortur á nægilega vönduðum frágangi til að koma vörunni á markað.
    Ég vil svo einnig rekja hér með svipuðum hætti nokkrar meginástæður þess að útgjöld fiskeldisfyrirtækjanna hafa reynst meiri en ætlað var. Það er nauðsynlegt að gera það þegar umræðan hér er lögð upp á þann veg að vandinn sé bara sá að það skorti meira lánsfé. Fyrsta ástæðan fyrir því að útgjöld hafa reynst vera meiri eru hin miklu afföll sem hafa orðið í þessari grein. Afföll, sem eins og ég gat um áðan, stafa af verri náttúrulegum aðstæðum, lélegri laxastofni og ýmsum öðrum ytri náttúrulegum skilyrðum sem við ráðum lítið sem ekkert við. Sem dæmi er hægt að hugsa sér eldisstöð sem keypti seiði til eldis og hefði reiknað með afföllum 20 -- 30%, þ.e. 70 -- 80% seiðanna næðu fullum vexti, hún stendur frammi fyrir 60 -- 65% afföllum, eða að einungis 35 -- 40% seiðanna nái fullum vexti. Slík stöð er með helmingi hærri seiðakostnað á framleitt kíló en reiknað var með í upphafi. Ef menn hafa til viðbótar ekki fylgst nægilega með er hætt við að fóðurgjöfin hafi verið miðuð við þarfir fiskanna, sem menn héldu að væri verið að fóðra, en ekki helmingi færri fiska eins og raunveruleikinn fól í sér. Á sama hátt hefur þá tryggingaverðmætið verið of hátt og kostnaðurinn við tryggingarnar mun hærri en eðlilegt var.
    Önnur ástæðan fyrir hærri útgjöldum er hinn hægi vöxtur á fiskinum. Þessi hægi vöxtur þýðir meiri kostnað vegna þess að það tekur mun lengri tíma að ná upp þeim lífmassa sem þarf í hverja stöð til að það magn náist til slátrunar sem reiknað var með að hver stöð þyrfti til að vera rekstrarhæf. Líklegt er að það hafi tekið allt að einu ári lengur að ná upp þeim lífmassa sem stefnt var að í hverri stöð vegna hægari vaxtar og meiri affalla en ráð var fyrir gert. Þessi staðreynd ein eykur kostnaðinn við fiskeldið hér á Íslandi verulega umfram kostnaðinn við fiskeldið í samkeppnislöndum okkar. Tekjulaus tími fyrirtækjanna var því mun lengri en sem því nemur, fjármagnskostnaðurinn meiri og rekstrarkostnaðurinn í heild erfiðari viðureignar.
    Þriðja ástæðan fyrir hærri útgjöldum er hár stofnkostnaður. Mannvirkjagerð tengd fiskeldi hér á Íslandi er orðin mjög mikil og dýrust hefur mannvirkjagerðin verið hjá strandeldisstöðvunum. Í raun má segja

það að í flestum þeirra hafi verið um frumhönnun slíkra mannvirkja að ræða vegna þess að engin fordæmi voru til frá öðrum löndum og enn á ný var farin gamla íslenska leiðin, að stíga stóru stökkin strax í upphafi í stað þess að fara sér hægt, safna reynslu og sjá hvað mundi gerast. Í staðinn fyrir það var rokið til og dælt hundruðum milljóna, jafnvel þúsundum milljóna í mannvirki sem enginn vissi hvort gætu borið þann kostnað sem í þau var settur.
    Það er tími til kominn að við Íslendingar lærum það í uppbyggingu nýrra atvinnugreina að vænlegasta leiðin er ekki gamla steinsteypuleiðin, að reisa flott hús, dýr mannvirki, áður en rannsóknirnar eru gerðar, áður en reynsla fæst af fyrstu rekstrarárunum, að við eigum að safna reynslu og flýta okkur hægt til þess að þegar við leggjum í hinar stóru fjárfestingar sé arðurinn nokkurn veginn tryggður. Okkar litla þjóð hefur ekki efni á því að henda milljörðum og aftur milljörðum í tilraunastarfsemi sem ekki skilar sér og er illa undirbúin. Síðan eru það skattgreiðendur í landinu sem eiga að borga kostnaðinn eða fjölskyldurnar og eigendur fyrirtækjanna sem þurfa að fórna miklu vegna þess að draumarnir hafa ekki ræst.
    Í fjórða lagi er mikill fjármagnskostnaður. Miklu meiri fjármagnskostnaður í íslensku fyrirtækjunum heldur en í hinum erlendu. Ekki vegna þess að vextirnir hafi verið sérstaklega hærri hér heldur fyrst og fremst vegna þess að menn bundu svo mikið fjármagn í fyrirtækjunum strax í upphafi, nokkrum árum áður en nokkur sala gat farið fram, og höfðu enga von um að fá tekjur til þess að standa undir miklum fjármagnskostnaði af dýrri fjárfestingu. Sem hlutfall af heildarskuldum er hins vegar eigið fé, sem lagt hefur verið í greinina, ótrúlega lítið. Í flestum tilvikum hefur ekki verið fylgt þeirri meginreglu í nútímaatvinnurekstri að eiginfjárstaðan verður að vera styrk þegar ýtt er úr vör. Hvers vegna ættu fiskeldisfyrirtæki að getað þróast með litlu sem engu eigin fé þegar yfir höfuð engin önnur fyrirtæki geta gert það?
    Lausaskuldir hlóðust upp hjá fyrirtækjunum. Á þær safnaðist viðbótarfjármagnskostnaður, dráttarvextirnir urðu miklir. Í stuttu máli má segja að vegna mikils stofnkostnaðar og minni tekna urðu skuldir fyrirtækjanna miklu meiri og fjármagnskostnaðurinn miklu meiri en gert var ráð fyrir en það var ekki vegna þess að það vantaði peninga. Það var ekki vegna þess að vextirnir væru of háir. Það var vegna þess að það skorti fyrirhyggjuna.
    Ég hef nefnt þessa hluti hér vegna þess að þetta er í þriðja sinn, með þessu frv., sem komið er til Alþingis og beðið um meiri ríkisábyrgð. Það var gert þegar Tryggingasjóðurinn var settur á laggirnar veturinn 1989 -- 1989. Helmingurinn af þeim ríkisábyrgðum er nú tapaður. Það var gert þegar ábyrgðadeildin var sett á laggirnar og nú er stigið risavaxnara skref í því að biðja um ríkisábyrgðir fyrir þessi fyrirtæki heldur en nokkrum manni hefði dottið í hug í umræðum 1988 -- 1989 eða 1989 -- 1990.
    Við skulum hins vegar áður en ég kem að einstökum greinum þessa frv. líta aðeins yfir sviðið í fiskeldinu.
    Afleiðingar minni tekna og meiri útgjalda er að kostnaður við framleiðslu hvers kílós er meiri en tekjurnar. Breytilegur kostnaður pr. kíló er hærri hjá mörgum fyrirtækjum en skilaverð við sölu, þ.e. reksturinn, og ég bið menn að taka eftir þessu, reksturinn skilar bókstaflega engu upp í fjármagnskostnað og afskriftir. Þetta er meginskýringin á þeim miklu gjaldþrotum sem verið hafa hjá fyrirtækjum í greininni.
    Þegar menn gerðu sér grein fyrir þessum ágöllum, sem ég hef reynt að rekja hér að framan, og þeirra vegna mundi reksturinn engu skila, þá er það bara einföld staðreynd, því miður, að það er ekki hægt að komast hjá gjaldþrotum ef reksturinn skilar engu upp í fjármagnskostnað og afskriftir nema einhver annar, í þessu tilfelli ríkissjóður og skattborgarar, taki að sér að borga skuldirnar. Hvaða form er á afurðalánunum og hvaða kostnaður fellur á þau, eins og hér er gert að aðalatriði, skiptir engu máli fyrir þessi fyrirtæki. Vandinn liggur nefnilega allt annars staðar. Það er þess vegna sem ég hef kosið að verja hér löngu máli í umræðum um þetta þingmannafrv. þó yfirleitt sé það ekki vani ráðherra að gera það í umræðum hér á Alþingi. Vegna þess að ég tel að málið sé mikilvægt og að hér séum við að fást við vanda atvinnugreinar sem margir hafa bundið miklar vonir við.
    Það eru til fiskeldisfyrirtæki í landinu sem virðast hafa komist hjá, eða a.m.k. komist yfir, marga af þessum ókostum sem ég hef hér verið að nefna. Rekstur þessara fyrirtækja skilar upp í fjármagnskostnað og vexti og ef verðið á erlendum mörkuðum hækkar jafnvel lítillega, eins og ég rakti hér áðan, þá munu þessi fyrirtæki ráða við skuldbindingar sínar. ( Gripið fram í: Hver eru þau?) Ég ætla ekki að ræða þetta á grundvelli þess að nefna einstök fyrirtæki, virðulegi þingmaður. ( Gripið fram í: Það eru engin.) Jú, það er rangt hjá þingmanninum. Þessi staðreynd sem ég hef hér verið að nefna, kannski er spurning hvort þingheimur þorir að horfast í augu við það, sérstaklega flm. frv., að fiskeldið er enn þá og verður enn þá um nokkurra ára skeið tilraunastarfsemi hjá okkur Íslendingum. Það er útgangspunkturinn. Niðurstaðan af reynslu undanfarinna ára er að fiskeldið getur ekki verið annað en tilraunastarfsemi hjá okkur Íslendingum og á að byggjast upp sem slík með þeim aðferðum rannsókna, hógværðar og yfirvegaðra ákvarðana sem felst í því að byggja upp atvinnugreinar á grundvelli tilraunastarfsemi. Vandinn er sá að umræðan er ekkert um það. Umræðan er bara um meiri peninga, meiri ríkisábyrgðir, meiri lán.
    Virðulegi forseti. Í umræðunni um vanda fiskeldisins hefur verið vinsælast að ræða um rekstrarlánin og hvernig megi breyta formi þeirra og helst breyta nafninu í leiðinni. Þetta frv., sem hér hefur verið mælt fyrir og ýmsir virtir alþingismenn standa að, er því mjög hefðbundið innlegg í umræðuna um vanda fiskeldisins. Nafnbreytingar á lánum og auknar ríkisábyrgðir.
    Í upphafi grg. segir að tilgangur frv. sé að vekja athygli á þeim gífurlegu vandamálum sem fiskeldisfyrirtækin eiga við að stríða. Í grg. er síðan tíundað mjög rækilega hvern kostnað fyrirtækin geti borið af veittri ríkisábyrgð á afurðalánum. Það er hins vegar lítið sem ekkert að finna um þá áhættu sem ríkissjóður eða skattborgarar kunna að taka ef þetta frv. verður samþykkt. Það er ekkert um þá áhættu. Af lestri grg. má skilja að vandamál fiskeldisins sé fyrst og síðast kostnaðurinn af þessum ríkisábyrgðum. Ef bara væri hægt að losna við kostnaðinn af ríkisábyrgðunum þá væri þetta allt í góðu gengi. En ég vona að sú greining á vanda fiskeldisins og þróunar þess á undanförnum árum, sem ég hef reynt að leiða inn í umræðuna, sýni mönnum að það er ekki vandinn. Kostnaðurinn af ríkisábyrgðunum er ekki vandinn.
    Ég velti því fyrir mér hvernig stendur á því að þessir ágætu þingmenn sem að þessu frv. standa, ég ber mikla virðingu fyrir þeim, leiða ekki fram í frv. ítarlega greinargerð um þennan vanda. Ég segi þetta vegna þess að 1. flm. er stjórnarformaður Byggðastofnunar, hv. þm. Matthías Bjarnason, 2. flm. er bankaráðsmaður í Landsbankanum, hv. þm. Friðrik Sophusson og þær stofnanir, sem þessir tveir menn stýra, Landsbankinn og Byggðastofnun, eru að tapa stórfé á þeim lánum sem þær hafa veitt til fiskeldisins. Landsbankinn, stofnunin sem hv. þm. Friðrik Sophusson stjórnar, hefur ákveðið að hætta þeirri lánafyrirgreiðslu sem bankinn hefur veitt fiskeldisfyrirtækjunum. Hefði ekki verið rétt hjá bankaráðsmanninum, og mér þykir leitt að hann skuli ekki vera í þingsölum hér í kvöld, að gera þingheimi grein fyrir því hvers vegna Landsbankinn, bankinn sem hann er þingkjörinn bankaráðsmaður í, hefur hætt? Þá hefðum við kannski haft einhvern vitrænan grundvöll til þess að ræða hvort þetta frv. væri skynsamlegt ef sá bankaráðsmaður, sá eini sem situr á Alþingi, sem Alþingi hefur kosið í bankaráð Landsbankans, gerði þinginu grein fyrir því í umræðum um þetta frv. hvers vegna Landsbankinn er hættur að lána. Hans eigin banki. Og hvers vegna bankaráðsmaðurinn gerist 2. flm. að frv. um að þá eigi ríkissjóður að taka við.
    Þetta er sérstaklega athyglisvert vegna þess að Landsbankinn, eins og ég veit að sumir þingmenn sem hér eru í þingsalnum vita, Landsbankinn er nú í fararbroddi þeirra banka sem eru að draga sig út úr lánafyrirgreiðslu fyrir fiskeldið. Hann fer fyrstur af þeim stofnunum sem vilja ekki lengur veðja á fiskeldið og taka áhættuna. Eða á það kannski að vera þannig að bankaráðsmenn í ríkisbönkunum, þegar þeirra eigin bankar hafa gefist upp á að lána tilteknum atvinnugreinum eða tilteknum fyrirtækjum, þá komi þeir hér inn í þingsalina og flytji frv. um að nú taki ríkissjóður við? Nú taki skattgreiðendur við. Er þá ekki rétt að leggja málið þannig fyrir og við ræðum það á þeim grundvelli? Erum við reiðubúnir að láta skattgreiðendur borga þrjá milljarða í þessa tilraunastarfsemi? Það er á þeim grundvelli sem á að ræða þetta frv. og taka afstöðu til þess á þeim grundvelli. Það má vel vera að menn komist að þeirri niðurstöðu að
það eigi að láta skattgreiðendur leggja 3 milljarða inn í þetta áhættudæmi. Þá eiga menn að gera það með

opnum augum en ekki klæða það í eitthvert dulmál nýrra nafngifta. Það er ekkert reifað hér í frv. hvaða upphæðir geti verið um að ræða, hver áhættan sé sem almenningur í landinu er að taka á sig með þessu frv.
    Í dag eru í gangi ábyrgðir hjá ábyrgðadeild fiskeldis, hjá starfandi fiskeldisfyrirtækjum, að upphæð 215 millj. kr. Það má ætla að bústofnslánin gætu numið 500 -- 800 millj. kr. á þessu ári og vaxið á næstu þremur árum upp í tæplega 3 milljarða kr. Það er staðreynd málsins. Bústofnslánin, sem hér er verið að opna fyrir, gætu á þremur árum vaxið upp í tæpa 3 milljarða. ( ÓÞÞ: Hárrétt athugað.) Þá á að segja það, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sem er einn af flm. þessa frv., svo að það sé ekki verið að dylja þingið og almenning í landinu þess hvað hér er verið að fara fram á. Að flytja greiðslurnar frá bankakerfinu í landinu, sem búið er að gefast upp, yfir á skattborgarana.
    Tryggingarnar á bak við þessi lán eiga að vera eldisfiskur í stöðvunum sem engin lánastofnun fæst nú til að líta á sem veð. Ég legg áherslu á það. Tryggingarnar sem þetta frv. bendir á er eldisfiskurinn í stöðvunum. Það er engin lánastofnun í landinu í dag sem er tilbúin að taka það sem veð. Hefði ekki verið rétt að segja: Þetta er frv. um að taka tryggingar í hlutum sem engin lánastofnun í landinu er tilbúin til að taka tryggingar í. Eldisstofninn hefur verið sá grundvöllur sem tryggingar fyrri tíma hafa miðast við. Þegar ríkið á skv. þessu frv. að fara að stunda beina lánastarfsemi, því það er það sem þetta frv. er um, þetta er frv. um beina lánastarfsemi af hálfu ríkisins, þá spyr ég: Eiga veðin sem ríkið tekur að vera hæpnari og lélegri en veðin sem lánastofnanir í landinu vilja taka almennt séð? Er þá ekki rétt að þingið standi frammi fyrir því að um það snýst þetta frv.?
    Í 1. gr. frv. skilgreina höfundarnir hið nýja hlutverk ábyrgðadeildarinnar. Núgildandi lög ábyrgðadeildarinnar gera ráð fyrir að deildin tryggi greiðslu eldislána sem lánastofnanir veita. Í frv. er hlutverki deildanna hins vegar breytt yfir í það að vera útlánastarfsemi. Hins vegar segir ekkert um það í frv., og ég vek líka athygli á því, það er ekki stafur um það í frv. hvernig ábyrgðadeildin á að fjármagna þessa útlánastarfsemi, útlánastarfsemi sem getur numið allt að 3 milljörðum á næstu þremur árum. Það er ekkert um það í frv. Það er hið stóra gat. Hvaðan á að taka þá peninga? Á að taka þá af fjárlögum? Á að taka þá af láni sem ríkissjóður tekur, t.d. með sölu spariskírteina, eða erlendu láni með ríkisábyrgð? Hvaðan á að taka þessa 3 milljarða? Á bara að prenta þá í Seðlabankanum? Ég er satt að segja alveg hissa vegna þess að í hópi flm. eru þeir menn sem hér hafa verið í fararbroddi um föst tök í ríkisfjármálum og að ekki sé gengið frá ábyrgðum og skuldbindingum nema þær séu gerðar alveg ljósar og skýrar, jafnvel í hinu smæsta, og er hér á dagskrá deildarinnar í dag frv. sem fjárveitinganefndarmenn flytja um það efni, þá er í þessu frv. ekki eitt orð, ekki ein setning, ekki einn stafur um það hvar á að taka peningana til að lána út í gegnum ábyrgðadeildina.
    Öllum hlýtur að vera ljóst að deildin mun ekki

fjármagna útlánin af eigin fé sínu. Af hverju ekki? Vegna þess að eigið féð er nú þegar neikvætt upp á hundruð milljóna. Það er í mínus, sem á eftir að standa skil á í gegnum fjárlögin með hluta af skattpeningum almennings. Væri þetta raunhæft frv. og væru menn að takast á við þennan vanda með opnum augum með því að gera þinginu og þjóðinni grein fyrir hvað er á ferðinni í þessu frv., í stað þess að vera með þetta dulmál, þá ætti í frv. að vera grein um það að ríkissjóður legði fram á fjárlögum a.m.k. 1 milljarð á ári næstu þrjú árin til að standa undir þessari deild. Ef á að taka þetta frv. alvarlega, þá er þetta frv. um að það komi 1 milljarður inn í fjáraukalög á þessu ári og fjárlagafrv. fyrir 1992 og þriðji milljarðurinn í fjárlagafrv. 1993 til þess að standa undir þessari starfsemi. Þá væri hægt að ræða þetta í alvöru. Þá væri heil brú í því sem hér er verið að leggja til.
    2. gr. frv. gerir síðan grein fyrir því hvernig ákveða skuli upphæð bústofnslánanna og hvernig útlánakjörin skuli vera. Hér kemur einmitt fram megintilgangur frv. Hvert fiskeldisfyrirtæki á að geta fengið lán út á bústofn sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að fullnýta eigin framleiðslugetu. Ég bið menn að taka eftir þessu. Ég ætla að segja þetta aftur. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv. að sérhvert fiskeldisfyrirtæki eigi að geta fengið lán út á bústofn sem nauðsynlegur er á hverjum tíma til að fullnýta alla þá óraunhæfu framleiðslugetu sem byggð hefur verið upp á undanförnum árum og leitt hefur til þessara fjöldagjaldþrota. Á að fara í aðra hringrás með nákvæmlega sama hætti og hefur leitt til þessara gjaldþrota? Ég spyr. Er það það sem verið er að leggja til? Í raun og veru er verið að leggja hér til að enn meiri lánum verði veitt í fiskeldið á næstu árum en gert hefur verið hingað til vegna þess að framleiðslugetan hefur ekki verið fullnýtt hingað til. Af því að bankarnir hafa sagt stopp, af því að Byggðastofnun hefur sagt stopp. Af því að Framkvæmdasjóður hefur sagt stopp. Af því að þær lánastofnanir, sem flm. frv. stjórna sjálfir, hafa sagt stopp, þá hefur getan ekki verið fullnýtt. En nú á allt í einu að fara að fullnýta hana út á ríkissjóð af því að það er einfalt patent að láta skattborgarana í landinu borga tapið í gegnum fjárlögin.
    Kjör lánanna eiga að vera þau sömu og fjárfestingarlánasjóða. Þá spyr ég 1. flm. frv.: Af hverju lána þá ekki fjárfestingarlánasjóðirnir sjálfir? Af hverju lánar ekki Byggðastofnun? Af hverju lánar ekki Framkvæmdasjóður? Af hverju lánar ekki Landsbankinn ef kjörin eiga að vera þau sömu? Svarið er einfalt. Hvorki Byggðastofnun né Landsbankinn hafa efni á að taka áhættuna.
    Ég spyr: Hefur 1. flm. þessa frumvarps flutt tillögu í Byggðastofnun um það að hún stórauki lánin á þessum kjörum? Hefur bankaráðsmaðurinn í Landsbankanum, sem því miður er fjarverandi, flutt tillögu í bankaráðinu um að Landsbankinn auki lánveitingarnar? Eða er það aukning sem á að koma í gegnum fjárlögin og sjóð skattgreiðenda sem verið er að leggja til? Af hverju á ríkissjóður að fara að vera banki? Ég hélt satt að segja að allir straumar í efnahagsbreytingum á Íslandi væru í þá átt að við værum að hverfa frá svona kerfi. Það er þess vegna sem mér finnst enn merkilegra, og mér þykir leitt að þurfa að segja það fyrst hv. þm. Friðrik Sophusson er fjarverandi, satt að segja alveg stórkostlegt, að hv. þm. Friðrik Sophusson er að leggja hér til að ríkissjóður fari að vera banki. Er það módernisminn í efnahagsmálum sem Sjálfstfl. stendur fyrir? Er það það sem koma skal? Aukin ríkisumsvif, aukin ríkislánastarfsemi, auknar ríkisábyrgðir. Þetta er frumvarp um það og ekkert annað.
    2. gr., eins og hér hefur komið fram, hefur í för með sér að sólarlagsákvæðið, sem allir voru sammála um að setja inn á sínum tíma til að koma í veg fyrir eilífðarvél ríkisábyrgðanna --- það var tilgangur sólarlagsákvæðisins á sínum tíma að koma í veg fyrir eilífðarvél ríkisábyrgðanna --- verður fellt brott.
    3. gr. í frv. þýðir, og ég bið þingmenn að taka eftir, að það þarf ekki lengur að tryggja eldisstofninn. Tryggingar verða óþarfar. Ákvæði um það í gildandi lögum mundi falla brott við samþykkt þessarar greinar. Af hverju þarf ekki tryggingarnar? Vegna þess að það er búið að skrifa skattgreiðendurna fyrir allri ábyrgðinni. Hins vegar er greinilegt að flm. vilja einhverja snertingu fiskeldisins við bankakerfið með því að gera það að skilyrði að einhver viðskipti verði við viðskiptabankana.
    4. gr. gerir ráð fyrir óbreyttri skipan á stjórn deildarinnar. Hins vegar er það afar upplýsandi, af því að ég held að ekki sé gerð grein fyrir því í greinargerðinni, að lykilsetning er felld brott úr gildandi lögum. Hver er sú lykilsetning? Hún er á þessa leið í gildandi lögum, með leyfi forseta:
    ,,Fyrirtæki koma því aðeins til álita við veitingu sjálfskuldarábyrgða að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra til lengri tíma litið.`` Ég endurtek: ,,Fyrirtæki koma því aðeins til álita við veitingu sjálfskuldarábyrgða að grundvöllur teljist vera fyrir rekstri þeirra til lengri tíma litið.`` Með öðrum orðum nú á að fara að lána fyrirtækjum án þess að það sé talinn rekstrargrundvöllur fyrir þeim þegar til lengri tíma er litið. Það á sem sagt að opna upp á gátt. Það á að taka alla varnagla burtu. Það á að opna upp á gátt fyrir hvaða fyrirtæki sem er, hversu illa staddur sem reksturinn er og hversu vonlaus sem hann kann að vera. Allir varnaglarnir, sem settir voru inn einróma á Alþingi á sínum tíma, eiga að fara.
    Það hefði þótt saga til næsta bæjar í umræðunum um Hlutafjársjóð og Aflatryggingarsjóð, sem Sjálfstfl. gagnrýndi dag eftir dag og mánuð eftir mánuð á þinginu, ef í þeim lögum hefði verið tekið brott ákvæðið um það að fyrirtækin ættu að hafa rekstrargrundvöll þegar til lengri tíma væri litið. Það er merkilegt að sjá þá sömu menn sem fluttu messurnar hér í þingsölum um hvers konar hneyksli Aflatryggingarsjóðurinn og Hlutafjársjóðurinn væru og þeir reyndu að kenna við hv. þm. Stefán Valgeirsson
sem eitthvert skammaryrði og gáfu alls konar nafngiftir, m.a. hv. þm. Friðrik Sophusson og aðrir sem standa að þessu frv., en flytja nú frv. sem er svoleiðis í reynd að það er verið að opna ríkissjóð fyrir hvaða skussafyrirtæki sem er. Það væri gaman að lesa hér upp ræðurnar sem þessir sömu þingmenn fluttu um Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð á sínum tíma.
    Í raun og veru hefði ég getað sparað mér þessa ræðu og spurt þessarar einföldu spurningar: Er það virkilega vilji flm. þessa frv. að það eigi að fara að veita nánast ótakmörkuð lán úr ríkissjóði hvaða fyrirtæki sem er án þess að nokkur rekstrargrundvöllur sé fyrir fyrirtækinu þegar til lengri tíma er litið? Hvar erum við staddir? 5. gr. frv. fellir úr gildi heimild til að ákveða einhverja ábyrgðarþóknun eða áhættuþóknun af þessum útlánum. Þess í stað er sett hámark á lántökugjaldið og það ákveðið eins og tíðkast hjá flestum fjárfestingarlánasjóðum. Þá hefur flm. þótt greinilega rétt að bæta um betur og fella niður ákvæði um tekjuafgang deildarinnar. Þar verð ég nú að segja að ég geri ekki ágreining um það. Það er afar skynsamlegt að fella á brott ákvæði um tekjuafgang deildarinnar vegna þess að verði þetta frv. samþykkt verður aldrei neinn tekjuafgangur hjá þessari deild heldur bara spurning um það hvað mörgum hundruðum milljóna eða milljörðum verður veitt í gegnum fjárlögin á hverju ári inn í þennan nýja banka.
    Virðulegi forseti. Menn velta því kannski fyrir sér hvers vegna ég hef tekið svona langan tíma í að ræða þetta frv. Ástæðan er sú að vandi fiskeldisins er mjög mikill. Það er afar brýnt að þingið og stjórnvöld reyni að draga lærdóma af því sem gerst hefur. En það er líka alveg nauðsynlegt, þegar menn flytja frv. af því tagi sem hér er flutt, að menn segi nákvæmlega hvers konar frv. þetta er. Mér þykir leitt að hafa þurft að rekja það lið fyrir lið hvað felst í reynd í þessu frv. Það má vel vera að flm. séu þeirrar skoðunar að nú þurfi að taka 3 milljarða, jafnvel meira, af skattpeningum almennings í landinu og setja inn í fiskeldið. En þá á að segja það í frv. og greinargerðinni og reikna með tillögum í fjárlög næstu ára til að standa undir því en ekki klæða þetta í eitthvert dulmál og láta það síðan koma á daginn einhvern tíma seinna að það þurfi þessa peninga.
    Ég vil þess vegna spyrja hv. flm.: Er það virkilega þeirra ætlan að gera fiskeldið út á ríkissjóð með þeim hætti sem lagt er til í þessu frv.? Ef svo er, þá skulum við ræða frv. á þeim grundvelli og ekkert vera að skafa þá utan af því. Ef það hefur ekki verið ætlunin, þá væri mjög fróðlegt að vita hver hafi verið ætlunin með þessu frv.
    Umræðan um fiskeldið á Íslandi má ekki snúast um að vandinn felist í því að ríkisábyrgðirnar og lántökugjöldin hafi verið of há. Það er ekki vandinn. Vandinn er sá sem ég hef hér verið að reyna að rekja: of miklar fjárfestingar, of lélegur stofn, of lítil gæði, minni hiti við eldisstöðvarnar en við væntum, betri laxastofn hjá samkeppnisaðilum okkar og margt annað sem við ráðum ekki við að breyta með peningum, nema þá kannski sumu á mjög löngum tíma með því að leggja í kostnaðarsamar rannsóknir
og kynbótastarfsemi á íslenska laxastofninum. Það er

þess vegna sem á vettvangi ríkisstjórnarinnar hefur verið rætt um og teknar ákvarðanir um að setja fjármagn og beita sér fyrir því að forgangsverkefnið í fiskeldi á Íslandi á næstu missirum sé að kynbæta íslenska laxastofninn. Ef okkur tekst ekki að kynbæta íslenska laxastofninn þá er þetta allt saman unnið fyrir gýg, þá er alveg sama hvað við setjum mikið af lánum í þetta, alveg sama hvað við tökum mikið af ríkisábyrgðum inn í fjárlögin, dæmið gengur aldrei upp. Og ef við endurmetum ekki hitaskilyrðin á hinum ýmsu laxeldisstöðvum sem menn hafa bundið miklar vonir við, þá er það auðvitað líka unnið fyrir gýg. Og ef við gerum okkur ekki grein fyrir því að fjárfestingarnar í mörgum af þessum stöðum eru allt of miklar, þá verður þetta líka unnið fyrir gýg. Við verðum að átta okkur á því að fiskeldið getur átt sér mikla framtíð á Íslandi en þá verðum við að byggja upp það sem fyrst þarf að byggja upp. Og hvað er það? Það er stofninn sjálfur og það eru gæðin við verkunina, við slátrunina og við markaðssetninguna. Þegar það er komið í lag þá er hægt að fara að láta sig dreyma stóra drauma um fiskeldi á Íslandi. Þess vegna skulum við sameinast um það hér í þingsölum að gera þær ráðstafanir sem þarf til að koma þessum stoðum undir greinina en fara ekki að samþykkja enn á ný einhverja patentlausn sem gefur enn á ný falskar vonir hjá því fólki sem hefur fórnað miklum fjármunum, miklum tíma og dýrmætum árum ævi sinnar í að reyna að byggja upp þessa atvinnugrein.