Frsm. 1. minni hl. allshn. (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 807 um frv. til laga um sjóðshappdrætti til stuðnings flugbjörgunarmálum og skák. Nál. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Lífsafkoma Íslendinga byggist á því sem hafið gefur en um leið því að í landinu búi fólk sem er reiðubúið til að stunda fiskveiðar. Því hlýtur það að vera sameiginlegt hagsmunamál allrar þjóðarinnar að vel sé að sjómönnum búið í alla staði og öryggi þeirra tryggt eftir því sem kostur er.
    Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur margsannað gildi sitt, bæði við björgun sjómanna úr sjóslysum og björgun á landi, að ógleymdu mikilvægi hennar við sjúkraflutninga, bæði milli staða innan lands og frá skipum á hafi úti.
    Það er löngu ljóst og viðurkennt að ein þyrla af þeirri stærð, sem nú er í eigu Landhelgisgæslunnar, nægir ekki til að sinna því mikilvæga hlutverki sem henni er ætlað. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur tvisvar sinnum verið flutt þáltill. þar sem skorað er á ríkisstjórnina að kaupa nýja björgunarþyrlu. Í lok 110. löggjafarþings, 11. maí 1988, var slík tillaga samþykkt einróma sem ályktun Alþingis. Fyrirspurnir um afdrif tillögunnar voru lagðar fram á 111. og 112. löggjafarþingi. Á 113. löggjafarþingi var aftur lögð fram till. til þál. um sama efni, en hún hefur ekki enn hlotið afgreiðslu.
    Þær ríkisstjórnir, sem setið hafa á kjörtímabilinu, hafa þannig ekki orðið við áskorun Alþingis þrátt fyrir þá staðreynd að flestir viðurkenni að löngu sé tímabært að ganga til samninga um kaup á annarri þyrlu.
    Með þessu frv. er lagt til að stofnað verði til sérstaks happdrættis til að fjármagna kaup nýrrar björgunarþyrlu.
    Fyrsti minni hl. telur óverjandi að ríkisstjórnin víki sér á þennan hátt undan að tryggja nauðsynlegt fjármagn til þyrlukaupa en velji frekar þá leið að láta happdrættisgleði íslensku þjóðarinnar ákvarða hvenær ný þyrla verður keypt.
    Í síðustu viku kom fram að fjmrh. telur mögulegt að leggja fram fé að upphæð 2 milljörðum króna, m.a. til að flýta framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar, byggingu flugskýlis í Keflavík og stækkun hafnar í Þorlákshöfn.
    Fyrsti minni hl. telur að kaup á björgunarþyrlu þoli enga bið og skorar því á ríkisstjórnina að nota það fé, sem virðist vera á lausu til ýmissa framkvæmda, til að sinna þessum brýna öryggisþætti í þágu allrar þjóðarinnar.``
    Undir þetta nefndarálit skrifar Danfríður Skarphéðinsdóttir.
    Virðulegur forseti. Það hefði verið full ástæða til að fara nokkrum orðum um þetta mál allt, eins og það kemur mér fyrir sjónir. Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er alls ekki sammála þeirri heimildargrein sem er í fjárlögum þar sem kveðið er á um að m.a. með happdrætti skuli þyrlan fjármögnuð og það hefur reyndar þegar komið fram í þessu nál. Þess vegna tel ég ástæðu til að benda sérstaklega á þá 2 milljarða sem nú hefur verið tilkynnt að séu til reiðu til þess að flýta öðrum framkvæmdum. Það hefur reyndar komið í ljós líka að fyrirhugað er að leita eftir heimildum fyrir hæstv. viðskrh. til þess að leita eftir enn frekari lánsheimildum til fjárfestinga vegna fyrirhugaðs álvers á Keilisnesi. Það er því greinilegt að vilji hæstv. ríkisstjórnar til þess að fjárfesta í ýmsu er til staðar og þar af leiðandi er það auðvitað alveg óskiljanlegt hvers vegna ekki er hægt að fara einhverja slíka leið varðandi kaup á því nauðsynjatæki sem björgunarþyrla er.
    Það kom fram í starfi nefndarinnar að nú mun vera um það bil tveggja ára afgreiðslufrestur á nýjum þyrlum. En það kom einnig fram að hægt er að fá hagstæð lán til þeirra fjárfestinga og því hefði verið hægt að hugsa sér ýmsar aðrar leiðir til þess að fjármagna þá þyrlu sem við þurfum svo mjög á að halda. Það kom fram hjá sumum nefndarmönnum að mikill áhugi væri meðal þjóðarinnar að styðja við kaup á björgunarþyrlu og ég tel að það hefði eins mátt hugsa sér einhvers konar átak með frjálsum framlögum einstaklinga og fyrirtækja. Það er í tísku hjá þessari hæstv. ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju að hvetja fólk til þess að taka þátt í rekstri samfélagsins með því að veita skattafslátt vegna kaupa á hlutabréfum í fyrirtækjum og hefði e.t.v. mátt hugsa sér eitthvað í þá áttina fyrst ríkisstjórnin er á annað borð inni á þeirri línu.
    Það kom einnig fram í störfum nefndarinnar frá embættismönnum dómsmrn. að mjög mikil þörf er á því að skoða happdrættismálin í heild sinni og endurskoða hugtakið happdrætti. Það hafa mörg peningahappdrætti bæst við á seinni árum í formi skafmiða eða jafnvel spilakassa. Það kom einnig fram að okkar hefðbundnu gömlu happdrætti hafa svo sannarlega fundið fyrir því hin seinni ár að þar hefur orðið samdráttur vegna aukins framboðs. Það liggja ekki frammi neinar áætlanir um það hversu mikið happdrætti sem þetta gæti gefið og þar af leiðandi ekki hvenær stjórnvöld gætu treyst sér til þess að ganga til samninga um kaup á þyrlunni.
    Það má hins vegar segja með hin happdrættin, eins og t.d. happdrætti Háskóla Íslands sem hefur staðið fyrir uppbyggingu Háskóla Íslands, að við getum lifað lengur jafnvel þótt byggingartími húsa lengist aðeins, en við getum ekki tekið þá áhættu að bíða enn með kaup á björgunarþyrlu. Því hlýtur það að verða að gerast með sama hætti og verið er að leggja til að taka lánsfé til ýmissa framkvæmda og fjárfestinga. Það er auðvitað alveg óskiljanlegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki treysta sér í þessa fjárfestingu sem mun vera 400 -- 500 millj., en mér telst til að það sé a.m.k. um 3 milljarða að ræða sem hægt er að gera eitthvað fyrir ef við tökum 2 milljarða hæstv. fjmrh. og síðan það sem fyrirhugað er í sambandi við nýtt álver.
    Eins og ég gat um í upphafi máls míns hefur þetta mál verið allt hið undarlegasta og tekið óvænta stefnu. Það kom fram á síðustu dögum þingsins fyrir jól og síðan hefur það verið á dagskrá allshn. nokkrum sinnum. Ég vil leggja áherslu á það að við hljótum að sjá þeim sem vinna við þann atvinnuveg sem er grundvöllur lífs okkar hér í þessu landi fyrir nauðsynlegum björgunartækjum með framlögum úr sameiginlegum sjóðum okkar allra. Það er í þágu allrar þjóðarinnar.