Sjúkratryggingar
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Þetta skal verða örstutt. Ég vil aðeins ítreka það enn frekar sem ég hef verið að reyna að gera grein fyrir. Ef breyting yrði á þeirri reglugerð sem kveður á um þátttöku sjúklinga í lyfjakostnaði hafði ég hugsað mér, og það eru reyndar tillögur úr þessu nál. sem fyrir liggur sem gera ráð fyrir því að sett verði bæði lágmark á lyfjagreiðsluna svipað því sem er nú en lægra en það er í dag, það er 500 -- 700 kr. í dag, gæti kannski verið 300 kr. en þá tölu nefni ég án þess að það sé nein endanleg ákvörðun fyrirliggjandi, og síðan þak á upphæðina einnig þannig að hin dýrustu lyf, við skulum segja kannski 50.000 kr. lyf sem eru til dæmi um, en t.d. 10% þátttaka sjúklings þýddi ekki það að hann þyrfti að greiða 5.000 kr. heldur yrði einnig þak á upphæðinni. Með þessum hugmyndum viljum við bæta verðskyn almennings og fá almenning til þess að taka þátt í viðleitni stjórnvalda til að spara lyfjaútgjöld með því að breyta þessu formi á greiðslunum en ekki auka heildarhlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði.