Lækkun raunvaxta
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ásamt hv. fyrirspyrjanda ræddum hér, þann 26. febr. sl. á fundi í Nd., um verðtryggingar fjárskuldbindinga og fleira sem tengist raunvöxtum. Ég vil vísa til þeirrar umræðu um leið og ég svara fsp. sem hér er fram borin. Ég tel að fyrirspyrjandi leggi ekki rétt út af seðlabankalögunum þegar hann heldur því blákalt fram að Seðlabankinn hafi ekki framfylgt lagaákvæðum um raunvexti. Fyrirspyrjandi heldur því fram að hér sé um hrein og bein lagaákvæði að ræða. Hér er vitnað af ónákvæmni til laganna. Með breytingu sem gerð var á þeim lögum um Seðlabankann sem nú gilda, sem eru nr. 36 5. maí 1986, en breytingin var gerð með lögum nr. 11 30. mars 1989, segir í 9. gr. að Seðlabankinn geti að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði hóflegir og eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslendinga. Ég tel að eðlilegt sé að líta á þessi ákvæði 9. gr. sem varúðar- og aðhaldsákvæði meðan samkeppni er ónóg á hinum íslenska fjármagnsmarkaði.
    En svo ég svari spurningunni beint þá hefur Seðlabankinn ekki leitað samþykkis míns á slíkri íhlutun í frjálsa ákvörðun vaxta. Ég tel slíka íhlutun reyndar ekki skynsamlega aðgerð við þær aðstæður sem hafa verið á fjármagnsmarkaðnum að undanförnu. Seðlabankinn hefur stuðlað að lægri raunvöxtum með beinum viðræðum við innlánsstofnanir, með breytingum á ákvæðum um innlánsbindingu og lausafjárkröfur. Þetta hefur gert minni vaxtamun mögulegan en annars væri. Seðlabankinn hefur líka fyrir sitt leyti reynt að beita kaupum og sölu á skuldabréfum þannig að stuðli að lægri vöxtum. Ég tel að vaxtalækkun
náist best til frambúðar með óbeinum aðgerðum og fyrst og fremst með því að draga úr lánsfjárþörf hins opinbera og með því að auka samkeppnina á lánamarkaðnum við önnur lönd.
    Ég kem svo í öðru lagi að því sem fyrirspyrjandi vék hér að í sinni spurningu hvernig Seðlabankinn hyggist tryggja að raunvextir lækki. Um þá afstöðu vil ég í fyrsta lagi vísa til skýrslu um vexti og lánskjör sem hefur verið dreift í þinginu og hefur að geyma greinargerð Seðlabankans um þetta mál.
    19. febr. sl. samdi ríkisstjórnin að fela Seðlabanka Íslands að ná fram frekari lækkun raunvaxta og var ítrekað að stefnt skyldi að því að þeir yrðu sem næst því sem tíðkast í helstu viðskiptalöndum okkar í Vestur - Evrópu. Það var bent á þrjár leiðir til þess að ná þessu marki: að innlánsbinding banka og sparisjóða verði tekin til endurskoðunar og samræmd reglum sem um hana gilda í öðrum ríkjum Vestur - Evrópu, að Seðlabankinn hefji virkari kaup og sölu markaðsverðbréfa í því skyni að hafa áhrif á vextina og svo að vaxtaákvörðunardögum banka og sparisjóða verði fækkað og vaxtaákvarðanir þeirra ekki byggðar á spám um verðlagsþróun heldur á þekktri verðþróun og raunverulegri afkomu innlánsstofnana.
    Seðlabankinn hefur þetta mál nú til athugunar en

þegar til lengdar lætur er það, eins og ég sagði áðan, lánsfjárþörf ríkisins sem þarf að stilla í hóf til þess að vöxtum megi stilla í hóf.
    Loks fullyrti fyrirspyrjandi að þegar verðtrygging var tekin upp á árunum 1979 -- 1980 hafi verið talað um 2% raunvexti sem eðlilega vexti og spyr hverjir þeir séu í dag. Ég tel nú að þarna sé hallað réttu máli því að ég kannast ekki við að nein opinber yfirlýsing hafi verið gefin um það að hvaða vaxtastigi væri stefnt. Það er rétt að í umræðum þann 26. febr. í Nd. sem ég vitnaði til áðan kom það fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. að hér væri átt við blaðagrein sem Pétur Blöndal hagfræðingur hefði skrifað á þessum tíma. Ég tel útilokað að binda raunvextina fyrir fram við einhverja ákveðna tölu, hvorki 2% né eitthvað annað. Þeir hljóta að ráðast af framboði og eftirspurn á markaðnum, kostnaði innlánsstofnana og fleiri atriðum, arðvænlegum fjárfestingartækifærum. Dæmigerðir raunvextir á markaðnum í dag eru vextir almennra víxla, skuldabréfalána og afurðalána, ef maður tekur þetta allt í einu lagi er það 7,5 -- 8%. Ég vísa um fyllri upplýsingar til þeirrar skýrslu sem hér hefur verið dreift í þinginu um vexti og lánskjör og segi það að lokum að það hefur náðst veruleg lækkun raunvaxta frá því á árinu 1988. Þá fóru þeir í 9,5% á skuldabréfum með verðtryggingu, eru nú komnir niður fyrir 8%. Það er afar athyglisvert að nafnvextirnir hafa lækkað frá því að þeir fóru hæst á árinu 1988 í 41% niður í 15,5% ef maður lítur á nafnvexti skuldabréfalána.