Vestnorrænt ár 1992
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að upplýsa í tengslum við þetta mál að félmrn. hefur nú óskað eftir tilnefningu frá nokkrum kvennasamtökum og verkalýðshreyfingu í nefnd til þess að undirbúa jafnréttisráðstefnu hér á Íslandi árið 1992.
    Mig langar líka að það komi fram að ég er algerlega sammála hæstv. umhvrh. þegar hann segir að hin Norðurlöndin sýni málefnum vestnorrænu ríkjanna mjög takmarkaðan áhuga og þetta sé málaflokkur sem hafi orðið verulega út undan á vettvangi Norðurlanda og Norðurlandaráðs. Mig langar að minna á það að það er orðið nokkuð langt síðan hv. Alþingi samþykkti tillögu frá Vestnorræna þingmannaráðinu um að komið yrði á fót alþjóðlegri rannsóknastöð á Íslandi til þess að fylgjast með mengun og vinna að vörnum gegn mengun Norður - Atlantshafsins. Bandaríski sendiherrann á Íslandi tók þetta mál raunar upp og gerði að sínu að hluta til. Ég hef ekkert frétt af hans störfum frekar. Hann var mjög bjartsýnn á það að þetta mætti takast, en ég get líka um leið upplýst það að Danir hafa nú mjög mikinn áhuga á þessu málefni og munu væntanlega hafa einhverja forgöngu á þessu sviði áður en langt um líður.