Fangelsi og fangavist
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Frsm. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Sú brtt. sem minni hl. allshn. leggur hér fram um breytingu á frv. um fangelsi og fangavist felur í sér að það þurfi að bera undir Fangelsismálastofnun áður en agaviðurlögum er beitt. Það er verið að færa valdið frá forstöðumanni fangelsis yfir til Fangelsismálastofnunar, enda segir þar beint að ákvörðun sé háð Fangelsismálastofnun þannig að telji forstöðumaður fangelsis að beita eigi agaviðurlögum, þá getur hann það ekki ef Fangelsismálastofnun er á móti því.
    Þegar mál þetta var til umræðu í nefndinni þá var einmitt þetta töluvert mikið rætt og reynt að finna einhvern veginn leið til þess að Fangelsismálastofnun kæmi meira inn í málið þegar agaviðurlögum er beitt. Ég reyndi að finna lausnir á því, en þegar mér varð ljóst hver afstaða hv. Nd. er til málsins og forstöðumanna fangelsismála, fangavarða og forstöðumanna þessara fangelsa, þá leit ég þannig á að það væri verið að tefla þessu máli í tvísýnu, kæmust þessar breytingar í gegn, út af því að þá mundi málið þurfa aftur að fá afgreiðslu í hv. allshn. Nd., þar sem mjög líklegt var að málinu yrði breytt aftur til samræmis við það sem þeir afgreiddu á sínum tíma og síðan sent aftur hingað til Ed.
    Aðalatriði þessa máls er ekki hverjir eigi að taka ákvörðun heldur hitt að sú refsing sem beitt er í fangelsi komi ekki til viðbótar þeirri refsingu sem dæmt er til. Það er kjarni málsins og það er það atriði sem verið er að breyta frá því sem er. Eins og staðan er í dag er það ákvörðun forstöðumanna fangelsa að beita agaviðurlögum og senda Fangelsismálastofnun tilkynningu um það. Þannig er skipan mála nú, en minni hl. leggur til að því verði líka breytt.
    Ég leggst gegn þessu á þeim forsendum sem ég hef núna rakið og tel það tefla málinu í tvísýnu ef þessi brtt. verður samþykkt.