Ferðaþjónusta
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um ferðaþjónustu. Þetta er allmikill bálkur af frv. að vera enda er hér á ferðinni heildarendurskoðun tveggja meginlaga ferðaþjónustunnar í landinu, þ.e. annars vegar laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála, og hins vegar laga nr. 67/1985, um veitinga- og gististaði.
    Frv. er afrakstur starfs svonefndrar ferðanefndar samgrn. sem unnið hefur linnulaust að þessu verkefni í um eitt og hálft ár, átt viðræður við fjölmarga aðila, aflað umsagna um frv. og með ýmsum öðrum hætti undirbúið þá ítarlegu málsmeðferð sem hér er á ferðinni. Samferða þessu frv. er í hv. sameinuðu þingi till. til þál. um stefnumörkun í ferðamálum. Sameiginlega eiga þessi tvö þingmál, annars vegar frv. til laga um ferðaþjónustu og hins vegar þáltill. um stefnumörkun í ferðamálum, að marka ferðaþjónustunni sem atvinnugrein framtíðarstarfsgrundvöll og lagaramma.
    Ég hygg að ekki sé ástæða til að fara að rekja í einstökum atriðum efnisliði þessa frv. Það byggir að stofni til á eldri lögum, þeim tvennum eldri lögum sem ég áðan nefndi, en þó eru þarna ýmis nýmæli og þau kannski stærst sem lúta að breyttri skipan og meðferð þessara mála í stjórnkerfinu þar sem til sögunnar kemur ferðamálaþing, allfjölmennt ferðaþing þar sem verður æðsti vettvangur ferðaþjónustunnar þar sem m.a. verða kosnir fulltrúar ferðaþjónustunnar í nýtt og breytt Ferðamálaráð.
    Fjölmörg atriði önnur mætti þar nefna, ýmislegt hefur verið gert til einföldunar skipulagi ferðaþjónustunnar. Þannig eru til að mynda felld út úr lögum ákvæði um flokkun gististaða og þeim verður síðan skipað með reglugerð. Skráning aðila sem sinna ferðaþjónustu er gerð einfaldari. Það er gert auðveldara fyrir minni aðila sem starfa á þessu sviði að fá ferðaskrifstofuleyfi eða skráningarleyfi. Þetta er m.a. gert vegna þess að ákvæði laga um skipan ferðamála frá 1985 og þær miklu tryggingar sem lögin gera ráð fyrir að ferðaskrifstofur skuli setja, og eru fullkomlega eðlilegar og sjálfsagðar þegar stórir aðilar eiga í hlut, hafa reynst minni aðilum á þessu sviði allerfiður þröskuldur að klífa. Með þessari tilhögun, að skipta ferðþjónustuaðilunum upp í mismunandi hópa eftir umfangi og eðli þjónustunnar, er verið að koma til móts við og auðvelda minni aðilum að sinna sinni starfsemi á grundvelli viðurkenningar frá stjórnvöldum. Það þykir ekki ástæða til t.d. að litlir aðilar sem annast þjónustu við ferðamenn hér innan lands í smáum stíl setji milljóna eða milljóna tuga tryggingar af þeirri stærðargráðu sem stórar ferðaskrifstofur með hundruð viðskiptavina jafnvel erlendis samtímis þurfa að gera og sjálfsagt er.
    Um meðferð þessa máls hefur tekist hin ágætasta samstaða, hæstv. forseti, enda áttu með einum eða öðrum hætti fulltrúar flestra ef ekki allra stjórnmálasamtaka aðild að undirbúningi málsins í ferðanefnd

samgrn., en í fskj. kemur fram hverjir þá nefnd skipuðu. Sömuleiðis tókst góð samstaða um nokkrar lagfæringar á frv. í samgn. hv. Nd. Ég leyfi mér því að vænta þess að frv. eins og það kemur hér til hv. Ed. sé þannig úr garði gert að um það eigi að geta skapast þokkaleg samstaða. Ég fullyrði að í yfirgnæfandi meiri hluta er meðal hagsmunaaðila beðið með velvilja eftir því að þessar breytingar nái fram að ganga, enda hefur verið leitast við á öllum stigum að eiga sem nánast samstarf við þá um undirbúning málsins.
    Ég hygg, herra forseti, að það sé ekki af minni hálfu ástæða til að hafa um þetta fleiri orð. Ég vil færa hér í hv. Ed., sem ég hef áður gert í Nd., öllum þeim, sem að undirbúningi þessa máls hafa komið, kærar þakkir. Hér hefur geysimikið starf verið innt af hendi sem ekki bara sér stað í þessu frv. heldur og ekki síður í geysimikilli upplýsingasöfnun sem að hluta til kemur fram í fskj. og í margháttuðum tilraunum og starfi ráðuneytis, Ferðamálaráðs og ferðamálanefndar við að kynna málefni ferðaþjónustunnar og vekja athygli þings og þjóðar á því hversu mikilvæg og vaxandi atvinnugrein er hér á ferðinni og þar með nauðsyn þess að henni sé vel og myndarlega sinnt.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.