Mannanöfn
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Herra forseti. Það er ekki oft sem ég sé tilefni til þess að biðja um orðið til að gera athugasemd við málflutning míns kæra vinar og bróður í andanum, hv. 14. þm. Reykv. En það er augljóst, þótt slæmt sé ákvæðið um dagsektir, ég viðurkenni það, að við létum gott heita eins og það fór frá nefndinni til að ná samkomulagi. En það er misskilningur að við höfum gert frv. enn lakara að þessu leyti. Við betrumbættum það nefnilega um helming. Gert var ráð fyrir 2000 kr. dagsektum. Þetta þótti okkur hin mesta ósvinna og sáum að það mætti ekki dragast í marga daga að koma nafni á barnið eftir þann frest sem stjórnvöld tilskilja og það gæti orðið býsna dýrt ef Stjórnarráðið féllist ekki á röksemdir foreldranna. Að því er varðar þær röksemdir, þá hafa sérvitringarnir nefnilega líka sinn rétt. Það getur vel verið að Stjórnarráðið mundi aldrei fallast á það sem röksemd gegn því að ausa barnið vatni ef t.d. móðir þess teldi að barnið fengi kvef, kæmi vatn á höfuðið. Röksemdir af þessu tagi væru alveg hugsanlegar. Líka vegna fjarvistar einhvers ættingja og sitthvað fleira. (Gripið fram í.) Ég þakka þá ábendingu sem hér barst til mín, en það er alveg ljóst að nefndin var andvíg því að hafa dagsektirnar 2000 kr. Sú upphæð var of há ef dagsektum verður þá nokkuð beitt. Það er þess vegna sem þessi upphæð er nefnd.