Efndir við loðdýrabændur
Fimmtudaginn 07. mars 1991


     Árni Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ábyrgð stjórnvalda gagnvart loðdýrabændum er mjög mikil. Á erfiðleikatímum í íslenskum landbúnaði voru bændur hvattir til þess að fara í aukabúgreinar eins og loðdýrarækt og fiskeldi. Það má segja það berlega að þeir sem sneru sér að loðdýraræktinni fengu peninga og fyrirgreiðslu á færibandi. Það var jafnvel svo að þeir fengu 110% af stofnkostnaði. Það ber brýna nauðsyn til þess að reyna að aðstoða það fólk sem nú á í mjög alvarlegum erfiðleikum og í þeirra hópi er fólk sem á ekki lengur fyrir mat frá degi til dags.
    Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir hans svör og það sem hefur verið gert. Það sem auðvitað þarf að vinda bráðan bug að er að framlög í Bjargráðasjóð verði aukin til þess að unnt verði að greiða framfærslustyrki. Ég hef ritað hæstv. félmrh. út af þessu og hún hefur gert ráðstafanir til þess að reyna að afla fjár til þess að leggja í Bjargráðasjóð í þessum tilgangi.
    Eitt atriði varðandi skuldbreytingu þessara manna þykir mér með öllu óþolandi. Það er það að ríkisbankarnir skuli leyfa sér að taka 1,8% lántökugjald vegna skuldbreytinga af þessu fólki og bæta ofan á skuldir þess. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta nemur 10 millj. kr. á þá upphæð sem ábyrgst hefur verið. Ef ríkisbankarnir geta ekki í þessu tilviki fallið frá þessari kröfu til lántökugjalds, þá fylgir ekki mikil alvara aðgerðunum. Það er verið að bæta í raun og veru 10 millj. ofan á aðrar skuldir þessa fólks. Ég er líka þeirrar skoðunar að Stofnlánadeild landbúnaðarins eigi hikstalaust að færa niður skuldir loðdýrabænda til samræmis við greiðslugetu þeirra og möguleika til þess að greiða af lánum. Það þjónar engum tilgangi, og er raunverulega margt til í því sem hv. þm. Ásgeir Hannes Eiríksson sagði hér áðan, að það væri langbest að strika yfir þetta með einu pennastriki. Ég hygg að sú barátta sem fram undan er hjá þessu fólki sé svo mikil og svo erfið að það verði að taka til allra þeirra ráða sem möguleg eru til þess að reyna að gera út á þá von, sem nú er að vakna, að loðskinn hækki í verði. Það gerðist á síðasta skinnauppboði í Kaupmannahöfn að verð á skinnum hækkaði nokkuð og það vakti vonir um að það væri þó hugsanlega einhver framtíð í þessari búgrein. En stjórnvald sem hefur hvatt fólk með þeim hætti sem íslensk stjórnvöld gerðu til þess að hefja þennan búskap, lét þeim í té alla þá peninga sem fólkið bað um, ber líka nokkra ábyrgð á þessu máli og verður að standa sig í því að reyna að leysa þennan vanda.