Varnir gegn vímuefnum
Mánudaginn 11. mars 1991


     Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu undirtektir sem komu fram í máli hv. 18. þm. Reykv. í þessu mikilvæga máli. Mig langar að nefna eitt í sambandi við það sem hún sagði um viðkvæman þátt þess að bæta stöðugt við skyldunám í skólum. Það kom fram í umsögn menntmrn. að það kemur vel til greina í sambandi við t.d. fjármálaumsýslu í skólum að útbúa gott myndband sem væri tengt ákveðnum kennsluformum. Við skulum gæta okkar á því að við erum ekki alltaf að tala um að taka inn í skyldunámið einhverjar vikulegar kennslustundir til langs tíma. Þetta eru oft og tíðum mikilvægir þættir sem hægt er að flétta inni í það nám sem til staðar er. Margt af því sem við erum að tala um er þegar í valfögum og í sumum skólum er þetta alls staðar inni en í öðrum ekki. Það er það sem máli skiptir. Ég þakka góðar undirtektir.