Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Mig langar til að vita hvort hæstv. fjmrh. er einhvers staðar nálægt því að mér þykir nauðsynlegt að hann verði viðstaddur þessa umræðu. Það er greinilegt að það sem við ræðum hér kemur verulega inn á hans svið þar sem fullyrt er að búið sé að samþykkja í ríkisstjórninni ekki eingöngu framlagningu þessarar tillögu heldur einnig tæpra 900 millj. kr. aukningu á lánsfjárlögum til þessa máls. Ég vil jafnframt spyrja um hæstv. umhvrh. því mér finnst þetta koma mjög inn á hans svið. ( Forseti: Forseti vill upplýsa að hæstv. umhvrh. er ekki staddur í húsinu og að ég hygg ekki heldur hæstv. fjmrh. Venja er nú að sá ráðherra sem fer með mál af þessu tagi er talinn nægilegur málsvari málsins, ég tala nú ekki um þegar um er að ræða fund sem haldinn er að kvöldi. Óski hv. þm. eindregið eftir að þessir tveir hæstv. ráðherrar séu hér, þá skal forseti gera ráðstafanir til þess að fá þá hingað.) Ég óska eftir því já, ef hægt væri, að þeir væru hér viðstaddir. Mér þykir varla hægt að ræða þetta mál án þess að þeir séu hér þar sem þetta snertir svo mjög þeirra ráðuneyti. Auk þess sem hefði ég talið mjög eðlilegt að hæstv. forsrh. væri hér sem höfuð ríkisstjórnarinnar. En ég legg höfuðáherslu á að þessir tveir ráðherrar séu hér ef þess er nokkur kostur.
    Við erum hér að ræða till. til þál. sem er um margt mjög merkileg eða furðuleg. Fyrir það fyrsta vekur það athygli að Alþb. hefur nú lýst yfir samþykki sínu við byggingu álvers á Keilisnesi. Fyrst var Alþb. á móti álveri vegna þess að um var að ræða erlenda stóriðju. Það var ekki talið geta gengið á þeim bæ. Svo varð breyting á stefnunni að því er það varðaði. Þá var í lagi að byggja álver, en það mátti alls ekki hafa það á Keilisnesi. Og nú er í lagi að samþykkja hvað sem er, byggðasjónarmiðin mega bara eiga sig. Ég man ekki betur en það hafi verið eitt af höfuðatriðunum hjá Alþb. og ég man ekki betur en það væru fleiri sem töldu það höfuðatriði að álverið risi utan suðvesturhornsins.
    Þann 27. júlí 1990 skrifar hv. þm. Árni Gunnarsson grein í Morgunblaðið um álver og þróun byggðar í landinu. Fyrirsögnin er: ,,Enn um álver`` og undirfyrirsögnin: ,,Ræður stofnkostnaður eða þjóðhagsleg hagkvæmni?`` Ég ætla aðeins að vitna í lokaorðin, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin á aðeins einn kost í stöðunni. Það er hagkvæmara fyrir þjóðarheildina að reisa álver utan suðvesturhornsins.``
    Þetta sagði Árni Gunnarsson í grein í Morgunblaðinu. Þetta var ekkert einsdæmi. Ég man ekki betur en hæstv. landbrh. og samgrh. hafi verið þessarar skoðunar og hæstv. heilbrrh. Ég man heldur ekki betur en hv. 3. þm. Austurl. Jón Kristjánsson hafi einnig verið þessarar skoðunar. Ef ég man rétt, þá var það eitt af skilyrðum af hálfu þingflokks Alþb. að álverið yrði reist utan suðvesturhornsins en nú er það greinilega allt saman breytt. Auðvitað hafa flokkar leyfi til þess að endurskoða stefnu sína ef aðstæður breytast og sé

ég svo sem ekkert að því í sjálfu sér. En stefnan hjá Alþb. breytist nú svo hratt að ég hef varla við að fylgjast með öllum breytingunum. Það væri fróðlegt að vita hvað hefur breyst á þeim bænum. Hvaða forsendur það eru sem hafa breyst svo mikið að slíkar kúvendingar séu réttlætanlegar.
    Ég get ekki betur séð af því sem skrifað hefur verið og rætt um þessi mál en að bygging álversins sé jafnmikið efnahagslegt og umhverfislegt glapræði og hingað til. En kannski þessi breyting fylgi nýja flokksfánanum hjá Alþb. sem formaðurinn vígði um helgina. Ég átta mig ekki alveg á hvernig þetta samræmist grænum grunni og áherslunni á umhverfisvernd sem svo mikið hefur verið talað um þar. Mér hefði þótt mjög fróðlegt að vita hvað þarna hefur breyst.
    En það er ekki bara þetta atriði sem er merkilegt við þessa tillögu. Það hvarflar að manni að hún sé fyrst og fremst lögð fram til þess að hæstv. iðnrh. geti talið kjósendum í Reykjaneskjördæmi trú um að álver verði byggt þar. (Gripið fram í.) Ég get endurtekið þetta fyrir hv. þm. Að tillagan sé fyrst og fremst lögð fram að því er manni virðist til þess að hæstv. iðnrh. geti talið kjósendum í Reykjaneskjördæmi trú um að álver verði byggt þar. Og það eru reyndar miklu fleiri sem reyna að telja fólki trú um að álver sé eina lausnin í atvinnumálum Reyknesinga en auðvitað er það tómur misskilningur. Þessu er fólk í æ ríkara mæli að gera sér grein fyrir. En það hlýtur að vera alveg sérstakt áhugamál ríkisstjórnarinnar og sérstaklega Alþb. að álverið skuli byggt á Reykjanesi eins og greinilegt virðist á öllu.
    En ef við lítum fyrst á tillöguna sjálfa, þá hljómar hún svo: ,,Alþingi ályktar að halda skuli áfram samningaviðræðum.`` Þetta er nokkuð merkilegt. Aldrei vorum við spurð að því hvort hægt væri að byrja og ég veit ekki til hvers er verið að spyrja okkur hvort eigi að halda þeim áfram. Þetta þótti mér merkileg tillaga og skal ég viðurkenna það að ég fór að hlæja þegar ég sá hana. Síðan komast þeir að þeirri merkilegu niðurstöðu að niðurstöðurnar skuli lagðar fyrir Alþingi. Ég hélt að það væri líka eitt af því sem væri skylda hvort eð væri. Við þurfum varla að álykta um það því að auðvitað þurfa niðurstöðurnar að leggjast fyrir Alþingi. Af tvennu varð ég því eiginlega hálfklumsa þegar ég sá þessa tillögu. Í fyrsta lagi af því að hún var nánast um ekki neitt og í öðru lagi að Alþb. skyldi vera platað með henni til þess að kyngja öllu sem það hafði sagt áður.
    Í greinargerð með tillögunni og máli hæstv. iðnrh. kom fram að það á ekki bara að biðja okkur um að leggja blessun okkar yfir það að halda skuli samningaviðræðum áfram, sem nú þegar eru búnar að standa þó nokkuð lengi, og samþykkja það að niðurstöðurnar skuli lagðar fyrir heldur er tekið fram að það eigi að taka 580 millj. kr. lán til þess að verja í virkjanaframkvæmdir. Í greinargerðinni segir að iðnrh. hafi lagt til að við 3. gr. frv. til lánsfjárlaga bættist ný grein sem orðist svo sem segir í greinargerðinni. Ég hef ekki séð þessar tillögur lagðar fram hér, en þær hafa kannski einhvers staðar komið fram,

væntanlega þá í fjh. - og viðskn. Þess vegna tel ég mjög nauðsynlegt að fá skýringar hjá hæstv. fjmrh. á öllum þessum lánsfjárheimildum. ( Forseti: Vegna fyrirspurnar hv. 6. þm. Reykv. vill forseti upplýsa að hvorugur umræddra hæstv. ráðherra er aðgengilegur í kvöld. Annar er á fundi í Keflavík og til hins næst ekki. Forseti harmar það en því miður verða þessir tveir hæstv. ráðherrar ekki hér í kvöld.) Það þykir mér slæm tíðindi því að ég hefði svo gjarnan viljað ræða við hæstv. ráðherra. Ég hef mjög margt við þessa tillögu að athuga. ( Forseti: Sé það vilji hv. þm. að þessari umræðu verði nú frestað, þá mun forseti ekki hafa á móti því. Fari einhver hv. þm. þessa á leit hlýtur forseti að verða við því. --- Hv. 6. þm. Reykv. lýkur að sjálfsögðu máli sínu en síðan mun hv. 1. þm. Norðurl. v. ræða um dagskrá.)
    Ég vil gjarnan fá að halda máli mínu áfram en mér þykir mjög slæmt að þurfa að ljúka umræðunni án þess að ræða við þessa menn. Það eru nokkur atriði sem ég vil gjarnan koma á framfæri nú strax þó mér þyki nánast útilokað að umræðunni ljúki án þess að þessir hæstv. ráðherrar hlýði á það sem ég hef fram að færa til þeirra. Ég vil samt fá að halda áfram máli mínu þrátt fyrir það að þeir séu ekki til staðar um sinn.
    Í tillögunni og greinargerð með henni er gert ráð fyrir að lánsfjárheimild til virkjanaundirbúnings í þágu nýs álvers verði 800 millj. kr. og að fjmrh. geti fyrir hönd ríkissjóðs ábyrgst 300 millj. kr. til kaupa á jörðinni Flekkuvík í Vatnsleysustrandarhreppi. Þetta eru miklar breytingar sem þá munu væntanlega eiga sér stað á frv. til lánsfjárlaga og mikil aukning frá því sem nú er. Í lok greinargerðarinnar segir að brýnt sé að þessi tillaga og ofangreindar lánsfjárheimildir verði samþykktar á þessu þingi. Ég get ómögulega séð hvers vegna er svo brýnt að samþykkja þessa tillögu. Það er mjög sérkennilegt að þetta skuli vera svona mikilvægt og hefði ég gjarnan viljað fá nánari skýringu á því. Mér þykir sú skýring sem þarna er alls ekki nógu sannfærandi og er algerlega ósammála henni.
    Það hefur ekkert breytt þeirri skoðun minni, sem ég hef margítrekað reyndar úr þessum ræðustól, að álver er ekki lausn á efnahags - og atvinnumálum þjóðarinnar. Það hefur mikið verið rætt um aukningu á hagvexti og hafa reiknimeistarar ríkisstjórnarinnar komist að því að álver muni auka hagvöxt á mælikvarða landsframleiðslu næstu árin. En það er nú ýmislegt athugavert við þá útreikninga sem hingað til hafa verið birtir. M.a. hafa ekki verið tekin inn í dæmið arðgreiðslur og vextir sem fara til útlendinga og skilja ekki neitt eftir í landinu. Það kemur að vísu fram í þeirri nýju skýrslu ráðherra, sem lögð var fram í tengslum við þessa tillögu og við munum væntanlega ræða hér síðar, að ef hagvöxturinn er reiknaður eingöngu út frá þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum, þá mun hann auðvitað vera miklu lægri, reiknast þá auðvitað mikið minni.
    Ekki hefur verið gerð nein tilraun til að meta hvaða áhrif það hefði ef hliðstæð fjárfesting yrði í íslenskri atvinnustarfsemi. Það er ekki gerð tilraun til þess að athuga hversu mikill hagvöxtur og hversu mikil aukning mundi verða ef sömu upphæð væri varið til annarra framkvæmda. Það er ekki langt síðan við vorum að ræða á Alþingi tillögur frá hæstv. fjmrh. um að setja peninga í allt aðrar framkvæmdir. Menn getur auðvitað greint á um þær framkvæmdir sem hann vildi setja peninga í, en þá var allt í einu hægt að leggja fé í ýmsar framkvæmdir vegna þess að þá taldi fjmrh. væntanlega engar líkur á því að þetta álver yrði reist á næstu mánuðum eða árum.
    Ekki er heldur tekið tillit til félagslegrar röskunar og umhverfisáhrifa við útreikninga á þjóðhagsstærðum yfirleitt. Aukning á hagvexti, eins og hann er reiknaður núna, er því mjög slæmur mælikvarði á hag fólks og velferð þegar til lengri tíma er litið. Það er kannski sláandi að ekki er gerð hin minnsta tilraun til að meta neikvæð áhrif á umhverfið. Það kom fram í máli hæstv. iðnrh. áðan að við værum að bæta umhverfið miðað við það að álver væru reist annars staðar og að þau fengju þá rafmagn sitt frá kolum. Ég veit ekki til að það sé nokkurs staðar í heiminum í nýjum álverum reynt að framleiða rafmagn með kolum og lætur sér enginn maður detta það í hug. Ég veit því ekki hvaðan hann hefur það dæmi og þætti mér fróðlegt að heyra um það. En ef við færum að reikna út hagvöxt og tækjum inn áhrifin á umhverfið, þá held ég að við yrðum fljót að fá út neikvæðar tölur fyrir þetta álver sem hér á að rísa.
    Þær miklu fjárfestingar sem gert er ráð fyrir vegna álversins munu hafa í för með sér röskun og verðbólgu ef ekkert verður að gert. Til að draga úr þenslu hefur verið talað um að minnka framkvæmdir hins opinbera á öðrum sviðum og virðist nú helst litið til vegagerðar og byggingarframkvæmda og ýmissa framkvæmda á vegum hins opinbera. Þá er auðvitað helst litið til annarra staða á landinu og ekki er ég nú viss um að allir yrðu jafnánægðir með það.
    Ef við lítum á raforkuverðið og það sem hingað til hefur komið í ljós um það, þá er gert ráð fyrir að selja um 3000 gwst. af raforku til þessa álvers. Í lögum um Landsvirkjun segir að orkusölusamningar við álver til langs tíma megi ekki valda hærra raforkuverði til almenningsveitna en ella hefði orðið. Ég held að seint verði hægt að sýna fram á að hægt sé að standa við þetta ákvæði. Tel ég eiginlega víst af þeim upplýsingum sem við höfum fengið hingað til varðandi orkuverð að við þetta ákvæði verði ekki hægt að standa að því er varðar álverið, sem nú er verið að gæla við.
    Af þeim upplýsingum sem fengist hafa virðist sem Landsvirkjun sé tilbúin til að selja álveri raforkuna jafnvel undir kostnaðarverði. Hefur það meira að segja heyrst frá sumum stjórnarmanna í Landsvirkjun að það megi nánast gefa orkuna frá Blöndu bara ef útlendingarnir vilja koma hingað til lands. Þetta er einkennileg niðurstaða einkum þegar haft er í huga að þegar á næsta ári verður þörf fyrir orkuna frá Blönduvirkjun í raforkukerfinu og virkjunin verður fullnýtt á fáum árum. Farsælla væri því fyrir Íslendinga að nota þessa

orku innan lands fremur en að færa hana útlendingum á silfurfati.
    Í septemberblaði blaðs sem heitir Á döfinni og er gefið út af samtökum iðnaðarins kemur fram að það hefur orðið stórhækkun á raforkuverði til iðnaðarins og hækkun hjá sumum fyrirtækjum um 20 -- 30% að raungildi. Er það þetta sem við erum að leita eftir, að hækka raforkuverðið til innlenda iðnaðarins en selja raforkuna til erlendra aðila helst undir kostnaðarverði? Þetta þykir mér ekki vera rétt stefna. Hingað til hefur verið gert ráð fyrir að raforkuverðið tengdist álverði. Því fylgir auðvitað veruleg áhætta. Á undanförnum árum hefur verð á áli sveiflast mjög. Ef sveiflur verða álíka og verið hefur munu tekjur af orkusölu verða mjög breytilegar og miklar líkur á að tap verði þegar á heildina er litið.
    Það kom fram í máli hæstv. iðnrh. áðan að hann teldi miklar líkur á hækkun álverðs og þar með raforkuverðs í framtíðinni. Það hafa margir bent á að miklar líkur séu á að þetta muni alls ekki standast og get ég bent á mörg rök því til sönnunar. Það má nefna t.d. afvopnun í heiminum, sem allir vonast til að verði að veruleika. Þar með muni vopnaframleiðsla minnka verulega og vonandi hverfa algerlega og einungis þess vegna muni þörf fyrir ál minnka mjög mikið. Einnig hefur verið bent á að mjög miklar líkur eru á að notkun á áli í umbúðir fyrir matvæli muni ekki aukast, frekar minnka, vegna þess að á það hefur verið bent að það geti verið hætta á tengslum milli notkunar á áli í matvælaumbúðir og ákveðinna sjúkdóma þó að engar sannanir séu fyrir því. Um leið og farið er að benda á slíkt hefur það í för með sér að eftirspurn minnkar. Þess hefur þegar orðið vart að fólk óttast það þó að einungis sé um ákveðnar vísbendingar að ræða.
    Þess vegna er tekin mjög mikil áhætta með því að tengja orkusölu við álverð og hef ég ekki fundið neitt í því sem liggur á borðum okkar sem bendir til þess að horfið sé frá þessari tengingu. Ef það yrði mundi eftir byggingu þessa 200 þús. tonna álvers rúmlega 60% af orku Landsvirkjunar tengd álverði og þannig mjög mikil áhætta tekin. Þess vegna tel ég glapræði að fara út í byggingu þessa álvers þó ekki væri nema af þessari einu ástæðu.
    En það er ekki bara það. Það eru líka skattamálin. Og enn sakna ég hæstv. fjmrh. og verð bara að fá að endurtaka eitthvað af því sem ég hef hér að segja. Ég hefði viljað spyrja hann, þar sem hann hefur m.a. talað um að verulegar fjárhæðir muni koma inn í ríkiskassann í formi skatta ef af byggingu álvers verður, en eins og venjulega skipta forsendurnar og útreikningarnir mjög miklu máli.
    Í skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi fyrr á þessu þingi kom það fram að ekki væri gert ráð fyrir að álverið mundi greiða neina tekjuskatta fyrr en níu árum eftir að það tæki til starfa, þrátt fyrir að gert væri ráð fyrir hámarksverði á áli og lækkandi vöxtum. Eins og flestir vita spá mjög fáir því að vextir fari lækkandi á næstu árum, frekar hækkandi, og ekki síst eftir Persaflóastríðið þar sem fjármagnsþörfin eykst mjög

mikið samfara aukinni fjármagnsþörf í Austur - Evrópu vegna uppbyggingar þar. Það er því margföld aukning á fjárþörf í heiminum og engar líkur á því, því miður, að vextir fari lækkandi. Þess vegna eru útreikningar á hagnaði Íslendinga, t.d. í formi skatta og það gildir að vísu líka um orkusöluna, mjög ýktir. Fullyrðingar um miklar skattatekjur eru því eins og annað varðandi þetta álver.
    Margháttaður kostnaður, t.d. kostnaður af samningaviðræðum, byggingu og viðhaldi vega, tjón af völdum mengunar og fleira er ekkert inni í dæminu. Kostnaður Íslendinga af álverinu er því miklu meiri heldur en látið er í veðri vaka.
    Einn alvarlegasti þátturinn í þessu máli er þó undanhald stjórnvalda að því er varðar mengunarvarnir og þá skortir mig mjög umhvrh. hér. Ég hefði viljað spyrja hann um þær fréttir sem berast núna af því að hann sé í viðræðum erlendis, við erlendu álfurstana, um hversu mikilli mengun þeir megi spúa hér út í umhverfið. Ég skil ekki hvers vegna umhvrn. er að semja um slíka hluti. Auðvitað eiga Íslendingar að setja fram kröfur um mengunarvarnir sem samræmast þeirri ímynd sem við viljum gefa af landinu sem hreinu og óspilltu. Síðan verða þeir sem hér starfa, erlendir sem innlendir, að haga sér í samræmi við það. Þeir sem reisa hér verksmiðjur án þess að fullkomnustu mengunarvarna sé gætt fá að nýta náttúruauðlindina án endurgjalds.
    Þessi þáttur, þ.e. umhverfisþátturinn og þáttur umhvrh. í þessu máli, hefur valdið mér miklum heilabrotum og undrun á undanförnum mánuðum og á ég mjög erfitt með að átta mig á hvers vegna hann þarf að vera að semja um þetta atriði við aðra. Við setjum okkar kröfur og aðrir eiga síðan að fara eftir þeim.
    Ég skil það auðvitað eins og allir aðrir að ef við getum framleitt eitthvað, hvaða efni sem er eða hvaða vörur sem er, hér á landi með minni mengun heldur en annars staðar, þá auðvitað er það til hagsbóta fyrir heiminn í heild. Hins vegar er það skylda okkar að krefjast
ýtrustu mengunarvarna og hafa mengunina í algeru lágmarki og krefjast þess að það sé ekkert undanhald. Við megum ekki gera okkur sek um nokkurt undanhald í þessum efnum vegna þess að það er ekkert síður í þágu heimsins alls. Umræður um að álver hér á landi sé heiminum til hagsbóta eru alveg út í bláinn ef við ætlum ekki að krefjast fullkomnustu mengunarvarna og þá meina ég fullkomnustu mengunarvarna.
    Við erum búin að hlusta á það nokkra undanfarna mánuði og ár að nú séu álsamningarnir í höfn. Það eru haldnir blaðamannafundir og nýir blaðamannafundir og það eru viðtöl í sjónvarpinu og útvarpinu og alltaf er þetta að koma. En ég held að það hljóti öllum að vera ljóst að það voru blekkingar einar og átta ég mig ekki á í hvaða tilgangi þær allar voru settar fram.
    Það er hins vegar umhugsunarefni að Landsvirkjun, verktakar og aðrir, sem sáu fram á virkjanir og álver, litu þannig á að búið væri að taka ákvörðun um byggingu álvers áður en Alþingi hafði nokkuð sagt

um málið. Alþingi hafði aldrei tekið afstöðu til málsins. Svo virðist sem þessum aðilum þyki eðlilegt að einstakir ráðherrar taki sér vald til að ákveða upp á eigin spýtur fjárfestingar eins og álver og noti síðan Alþingi eins og stimpilstofnun. Þannig virðist komið fyrir lýðræðinu. En eftir höfðinu dansa limirnir. Það er öðrum fremur hæstv. iðnrh. sem hefur vaðið á undan af fyrirhyggjuleysi með lofgjörð um hinn hvíta málm og hinir fylgt á eftir.
    Svo virðist komið að í öllum stjórnmálaflokkum nema Kvennalistanum er sú stefna ríkjandi að álver verði þjóðinni til bjargar. Þetta er varhugavert fyrir Ísland. Álver leysir ekki þörfina fyrir fleiri störf og meiri fjölbreytni í atvinnulífi. Það er óveruleg aukning í fjölda starfa og það verður meiri og meiri fábreytni í atvinnulífinu. Enn stærri hluti útflutningsins er háður einni tegund afurða. Hráefni. Við stefnum í það að vera hráefnisframleiðendur fyrir iðnríkin annars staðar í heiminum.
    Fullvinnsla sjávarafla og annar iðnaður og þjónusta sem hentar okkar fámenna og viðkvæma landi er vænlegri kostur en þau stóriðjuáform sem nú er einblínt á. Ekki voru undirtektir hæstv. iðnrh. miklar við þá tillögu sem kvennalistakonur fluttu í vetur um framleiðslu á vetni. Það þótti alveg fráleitt að nýta orku fallvatnanna á þann hátt og tala um að það væri langt frammi í framtíðinni að hugsa um framleiðslu á vetni og þá var talað um aldamótin. Þau eru nú ekki langt undan og ef eitthvað á að gera, þá verður að taka af einhverri alvöru og festu á máli eins og slíku. En álver skal það vera, hvað sem það kostar.
    Stóriðja á borð við álver mun skaða uppbyggingu annarra atvinnugreina, svo sem ferðaþjónustu. Það er sama hve margir verða til þess kallaðir að þeysast um heiminn til að sannfæra fólk um að hér sé að finna ró og frið og óspillta, ómengaða náttúru. Staðreyndin sem við þeim blasir við komuna til landsins verður allt önnur ef ekki á sér stað stefnubreyting hið bráðasta.
    Mér þykir það, virðulegur forseti, mjög slæmt að geta ekki lokið því að ræða við hæstv. umhvrh. og hæstv. fjmrh. hér í kvöld og veit ég ekki hvort ég á að óska eftir að fá að gera hlé á ræðu minni eða hvernig hæstv. forseti vill halda á máli. Ég átta mig ekki á hvort þar er möguleiki. ( Forseti: Það hefur komið í ljós að þessir tveir hæstv. ráðherrar munu ekki verða hér í kvöld. Óski hv. ræðumaður eftir að fresta máli sínu mun forseti að sjálfsögðu virða það og þeirri ræðu yrði þá haldið áfram þegar þeir hæstv. ráðherrar eru viðstaddir.) Ég vildi óska þess ef ég mætti.