Samningar um álver
Mánudaginn 11. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa nokkurri undrun á því að það skuli vera efnt til kvöldfundar um það mál sem hér er til umræðu og sem borið er fram sem ríkisstjórnarmálefni og sem varðar jafnmörg svið landsstjórnarinnar eins og augljóst er, að þá skuli aðeins tveir ráðherrar úr ríkisstjórninni vera við þessa umræðu. Aðrir ráðherrar, sem eiga nú ekkert lítið undir þessu máli eins og t.d. hæstv. umhvrh. og hæstv. fjmrh., að ég tali ekki um sjálfan formann ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsrh., að hann skuli láta sig vanta hér á kvöldfundi þegar verið er að taka svo mikilsvert mál til umræðu.
    Ég er næstur á mælendaskrá og sannarlega hef ég ýmislegt að segja við hæstv. iðnrh. um málið og gæti talað nokkra stund við hann um það efni og það mál sem hann flutti hér áðan. En hitt er jafnljóst að ég á margt vantalað við aðra hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni um þetta mál og ég sé ekki fram á það að ég geti lokið mínu máli án þess að þeir komi hingað til þings, ( FrS: Er ekki hægt að skrifa þeim bréf í Tímanum?) enda veit ég ekki betur en að þeim sé ætlað að vera hér eins og okkur óbreyttum þingmönnum, sem svo erum kallaðir.
    En það er auðvitað jafnljóst að menn ætla sér hér drjúgan tíma til þingstarfa. Það er alveg ljóst að þegar ríkisstjórnin leggur fyrir mál af þessu tagi, og ég hygg að hæstv. iðnrh. sé nokkuð í mun að fá svona afar þýðingarmikla tillögu samþykkta á Alþingi, efnismikla og þýðingarmikla tillögu, þá er nokkuð ljóst að menn geta alveg gleymt hugmyndinni um það að fara að kjósa til Alþingis undir sumarmálin. Það er á valdi hæstv. forsrh. að segja eitthvað um það efni, en hvernig dettur ríkisstjórninni það í hug að hægt sé að fjalla um og taka afstöðu á Alþingi til svo þýðingarmikils máls og það eigi að gerast á viku eða tíu dögum eða eitthvað svoleiðis? Þetta mál hlýtur að þurfa að vera lengi í nefnd. Það er útilokað annað en að sú nefnd sem hæstv. ráðherra lagði til að fengi málið til meðferðar, atvmn. þingsins, taki sér viku til hálfan mánuð til þess að fjalla um þetta mál. Það getur enginn ætlað Alþingi Íslendinga að fara að álykta um það að fram skuli haldið samningaviðræðum, jafntvísýnum og hv. 1. þm. Norðurl. v. veit nú kannski betur en margur annar um, þar sem hann er sérstakur trúnaðarmaður stjórnar Landsvirkjunar, til þess að fjalla um orkuverðssamningana þá blasir það við að þingið og þingnefnd getur ekki ætlað sér aðeins nokkra daga til þess að ræða og skoða mál af þessum toga. Þess vegna held ég að það sé alveg ljóst að hæstv. forsrh. hlýtur að tala við sína samstarfsmenn við ríkisstjórnarborðið um það hversu langt hann ætli að ganga fram á næsta kjörtímabil með starfstíma þingsins eða starfstíma ríkisstjórnarinnar áður en til greina komi að rjúfa þing og efna til kosninga. Og þá gæti sem best það gerst að Kvennalistanum og talsmönnum hans, sem eru komnir hér nokkrir á mælendaskrá, verði að ósk sinni að ekki bara þessir hæstv. þrír, fjórir ráðherrar sem hefur verið óskað eftir viðveru vegna þessa

máls verði viðstaddir, heldur einnig hinn nýkjörni formaður Sjálfstfl., að hann verði mættur til þings þegar um þetta mál verður fjallað. En það kom fram hjá oddvita Kvennalistans í fjölmiðlum í dag mjög skýrt og endurtekið, hinum nýja formanni Kvennalistans, að þær vildu endilega ræða um nýja ríkisstjórn við hinn nýja formann Sjálfstfl. ( Gripið fram í: Hvaða mál er á dagskrá?) Virðulegur forseti, ég geri ( Forseti: Hann er að ræða dagskrá.) ráð fyrir því að talsmönnum Kvennalistans geti orðið að þessari ósk sinni,
að þær geti átt viðtal við væntanlegan 1. þm. Reykv., sem ætlar sér talsvert áberandi stól í framhaldinu, til að spjalla við hann um sameiginlegt áhugamál væntanlega í næstu ríkisstjórn, sameiginlegt áhugamál að koma upp álveri á Íslandi. Ég skildi oddvita Kvennalistans þannig í útvarpinu í dag að hún teldi það allt eins koma til greina að mynda ríkisstjórn með Sjálfstfl. sem öllum flokkum fremur, jafnvel að Alþfl. undanskildum, hefur áhuga á því að koma upp stóriðjufyrirtækjum í landinu. ( Forseti: Nú er hv. þm. farinn aðeins út fyrir þá dagskrá sem leyfð er.) Virðulegur forseti. Hér er verið að ræða um þann vanda sem blasir við þinginu. Og ég ítreka það að auðvitað er sjálfsagt að taka hér allan þann tíma sem þarf til þess að ræða um hugðarefni hæstv. iðnrh., alveg sjálfsagt að taka allan tíma sem þarf. Ég mun ekki spara það við mig að sitja hér dögum saman í þinginu og eiga viðræður við hæstv. ráðherra um þetta efni, svo brýnt sem það er og þýðingarmikið og mikið í húfi fyrir þjóðina að ekki verði ráðist í það óefni sem lagt er til og stefnt er að af hæstv. ráðherra. Við hljótum að leggja mikið á okkur til þess að lýsa inn í skúmaskotin í þessu máli. En til þess að það verði gert með viðhlítandi hætti, þá verður ríkisstjórnin öll að sitja hér á stólum og taka þátt í þessari umræðu og hlýða á mál okkar alþingismanna um þetta efni.