Atvinnuleysistryggingar
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Frsm. minni hl. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið orðið. Ég mæli hér fyrir áliti minni hl. heilbr.- og trn. um frv. til laga um atvinnuleysistryggingar.
    Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa VSÍ, Vinnumálasambands samvinnufélaganna og ASÍ, eins og nánar er gerð grein fyrir í áliti meiri hl. nefndarinnar. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands lögðu áherslu á að þörf væri á að skoða löggjöf um atvinnuleysistryggingar heildstætt, og þá í samráði og í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, enda hafa málefni atvinnuleysistrygginga löngum tilheyrt efnisþáttum kjarasamninga. Fulltrúar ASÍ töldu því eðlilegast að öll mál varðandi atvinnuleysistryggingar verði tekin til meðferðar í einu. Minni hl. leggur eindregið til að orðið verði við tilmælum ASÍ, sérstaklega með tilliti til þess að í dag er 75 ára afmælisdagur Alþýðusambands Íslands.
    Ríkisstjórnin hefur heitið því að tekið verði á þessum málum í sambandi við upptöku tryggingagjalds, svo sem formælandi meiri hl. nefndarinnar minntist á, þar sem allir launþegar greiða sinn hluta til atvinnuleysistrygginga og ættu þar af leiðandi að fá rétt til þeirra. Í meðferð ríkisstjórnarinnar á máli þessu ætti einnig að taka sérstakt tillit til stöðu einyrkja atvinnurekenda þannig að þeir fengju rétt til atvinnuleysistrygginga enda greiði þeir sinn hlut til þeirra. Með tilliti til þessa leggur minni hl. nefndarinnar til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir þetta minnihlutaálit skrifa Jón Sæmundur Sigurjónsson og Geir Gunnarsson. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir var fjarstödd afgreiðslu málsins en er sammála þessu áliti.