Náttúrufræðistofnun Íslands
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra er þetta frv. samið af nefnd sem ég átti hlut að og sem skilaði áliti í mars á árinu 1990 og samdi frv. til laga um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúruskoðun en gerði einnig tillögur um náttúruhús í Reykjavík, byggingu þess, starfsemi og aðstandendur. Starf þessarar nefndar sem byrjaði sumarið 1989 tók þannig til allmargra þátta sem snerta náttúrurannsóknir í landinu og miðlun upplýsinga og fræðslu um náttúru Íslands. Ég vil geta þess hér að það var afar ánægjulegt að vinna að þessu verkefni sem er brýnt fyrir margra hluta sakir. Þau efni sem frv. fjallar um og bygging myndarlegs húss hér á höfuðborgarsvæðinu, sýningarhúsnæðis, er löngu tímabært verkefni sem hefur dregist allt of lengi. Nefndin leitaði víða fanga og ræddi við fjölmarga aðila sem mál þessi varða. Ég ætla ekki að dvelja lengi við þetta mál og þá fyrst og fremst að ræða þetta frv. en ekki hinn þátt í tillögum nefndarinnar sem er að ég vona kominn á góðan rekspöl, þ.e. frekari undirbúningur að byggingu náttúruhúss hér í Reykjavík.
    Hæstv. menntmrh. sem fékk tillögur nefndarinnar leitaði eftir því á síðasta þingi að flytja frv. um málið eins og nefndin hafði gert tillögu um en um það tókst ekki fullt samkomulag í ríkisstjórn fyrir þinglok 1990 þannig að af því varð ekki. Málið gekk síðan til umhvrn. sl. sumar sem hefur haft málið til athugunar síðan og leggur það nú fram undir lok þessa þings með nokkrum breytingum.
    Ég fagna því að málið skuli vera komið fram hér á Alþingi og tel það vera til bóta að hafa fengið það hér til sýnis inn í þingið því það í senn greiðir væntanlega götu málsins áfram og veitir auk þess kynningu á málinu sem alltaf er æskilegt í sambandi við einstök frv. að almenningur eigi þess kost að fylgjast með framgangi þeirra og umræðum um þau.
    Ég vil hins vegar nefna það að ég hefði talið að önnur málsmeðferð hefði verið æskilegri til að fá málið til efnislegrar meðferðar í þinginu og þá í því formi að ráðuneytið hefði lagt málið fyrir með þeim hætti sem nefndin gerði tillögu um og breytingar hefðu átt sér stað hér í þinginu að bestu manna yfirsýn, eins og að jafnaði er gert og að fengnum ábendingum og óskum frá hæstv. ráðherra. Þetta segi ég ekki vegna þess að mér séu þessar tillögur sérstaklega heilagar sem aðstandandi að þessari nefnd, heldur tel ég að þegar stjórnskipaðar nefndir vinna mál af þessum toga sé það skynsamlegt vinnulag að Alþingi fái tillögur slíkra nefnda eins og þær eru unnar, a.m.k. að það sé sem skýrast af framlagningu málsins um hvað gerðar eru tillögur af viðkomandi nefnd og hvað eru breytingar frá ráðuneyti.
    Nú má segja að þær breytingar sem hér hafa verið gerðar af hæstv. umhvrh. á þessu máli frá því sem var í tillögum nefndarinnar séu dregnar saman með það skilmerkilegum hætti að menn geti áttað sig á því eins og það liggur fyrir í greinargerð á bls. 6, en þó verður ekki ráðið með skýrum hætti af greinargerðinni að öðru leyti hvað er ráðuneytis og hvað er komið frá viðkomandi nefnd eins og menn geta áttað sig á þar sem segir á bls. 6, með leyfi hæstv. forseta: ,,Greinargerð þessi er að miklu leyti samhljóða þeirri sem NNN-nefndin samdi, að öðru leyti en því að tekið hefur verið tillit til allra breytinga sem gerðar voru á frv. á vegum umhvrn.`` Þetta er ekki stórt atriði í málinu, en það eru vissir veikleikar í þessari málafylgju af hálfu ráðuneytis sem ég vil vekja athygli á.
    Okkur var ljóst sem að þessu máli unnum að það var á marga lund býsna margslungið og tengist nokkuð viðkvæmum þáttum og viðkvæmum sjónarmiðum þeirra sem kannski telja sig eiga mest undir í þessum efnum. Af þeim sökum lagði nefndin sig í líma að ná samkomulagi á milli aðila þannig að þeir mættu við una og líkur væru á því að góð pólitísk samstaða tækist um málið. Þetta á m.a. við um þá aðila utan Reykjavíkur sem vinna að náttúrurannsóknum og vísindarannsóknum eða starfsemi sem tengist þessum málum, þar á meðal sýningarstarfsemi á sviði náttúrufræða. Við þessa aðila átti nefndin verulegt samstarf, þar á meðal við sérstaka viðræðunefnd Akureyrarbæjar sem skipuð var ég held sumarið 1988 og hafði átt í viðræðum við menntmrh. fyrri ríkisstjórnar, þ.e. hæstv. þáv. menntmrh. Birgi Ísl. Gunnarsson, um málið og tengdist síðan þeim sem við tók og þessari stjórnskipuðu nefnd.
    Það kemur fram í greinargerðinni að breytingar hafi verið gerðar að því er varðar stöðu seturs Náttúrufræðistofnunar Íslands í Reykjavík gagnvart setrum úti um land. Og ég vil kannski áður en ég vík frekar að því nefna það, virðulegur forseti, að þessi hugmynd, þessi tilhögun sem hér er gert ráð fyrir, er nýmæli í sambandi við uppbyggingu á starfsemi í landinu, þ.e. að koma upp stofnunum undir sameiginlegri stjórn á nokkrum stöðum á landinu sem hafa sömu stöðu og eru ekki byggðar upp sem útibú út frá móðurstofnun heldur sem sjálfstæðar einingar í stofnun sem lýtur sameiginlegri stjórn sem ætlað er að samræma störf hennar. Við þessu hefur ekki verið hróflað í grundvallaratriðum af hæstv. umhvrh. nema að því leyti að settur er forstjóri yfir Náttúrufræðistofnun í heild sem starfar við eða tengist setrinu í Reykjavík. Þegar við áttum viðræður um þetta mál, ég og hæstv. ráðherra sem leitaði til mín um hugmyndir varðandi breytingar, þá réði ég honum frá því að taka upp breytingu af þessum toga vegna þess að það raskaði þeim hugmyndalega grunni sem nefndin hafði staðið að og sem við töldum að væri mikilsverður þáttur í því væntanlega samstarfi rannsókna á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands með setrum á nokkrum stöðum á landinu sem til var stofnað.
    Það kemur einnig fram í greinargerðinni, neðst á bls. 5, að umhvrn. hafi m.a. átt viðræður við starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands og þá er átt við núverandi stofnun hér í Reykjavík væntanlega. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort einnig hafi farið fram viðræður við aðila utan Reykjavíkur sem ætlað er að tengjast Náttúrufræðistofnun Íslands í breyttu formi því að ég tel að það hefðu verið sjálfsögð málstök að gefa þeim einnig kost á að segja álit sitt og þannig hefði hæstv. ráðherra væntanlega fengið tilfinningu fyrir viðhorfum frá þessum aðilum.
    Það er þetta atriði sem ég tel að varði mestu en einnig hafa verið gerðar breytingar varðandi skipun stjórnunar. Ég tel nauðsynlegt að á þessi mál verði litið sérstaklega af þeirri þingnefnd sem fær þetta mál til meðferðar, hvort sem það er sú nefnd sem nú er ætlað að taka við málinu eða við endurflutning málsins í einhverju formi, að þess sé gætt að líta á málið út frá þeim hugmyndalega grunni og þeirri samstöðu sem nefndinni sem vann að málinu tókst að skapa. Ég tel óeðlilegt að eingöngu þeir aðilar sem fyrir eru í þessu starfi fái að komast að með sín sjónarmið, sem auðvitað er sjálfsagt að hlýða á og svo sannarlega var gert, enda átti Náttúrufræðistofnun Íslands fulltrúa í þeirri nefnd sem hér gerði tillögur og sá var aðili að þessu og rækilegar viðræður fóru fram við starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands varðandi málið og við töldum að við hefðum náð þar ásættanlegu samkomulagi einnig við þá aðila.
    Í tillögunum og frv. er gert ráð fyrir náttúrufræðistofum með ríkisaðild til viðbótar við setur Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þessi tilhögun, að koma upp slíkum stofum á nokkrum stöðum á landinu, er m.a. til að koma til móts við þróunarmöguleika á þessu sviði á svæðum þar sem ekki kæmi til setur. M.a. af þeim sökum taldi nefndin sig geta takmarkað sig í tillögum sínum við fimm setur hið mesta utan Reykjavíkur þar eð á öðrum svæðum í öðrum kjördæmum kæmu til náttúrustofur með gildisaðild með skilgreindum verkefnum.
    Virðulegur forseti. Þetta eru þær helstu ábendingar sem ég vildi gera varðandi mál þetta. Ég fagna því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra varðandi þessi verkefni, þann skilning sem fram kom hjá honum á þýðingu málsins og ég tek það fram aftur að ég tel það betra en ekki að málið skuli þó koma fram hér á þinginu heldur en það rykfélli í skúffum ráðuneyta. Ég tel að sú skipan mála sem hér er lögð til í aðalatriðum geti orðið til verulegs framdráttar fyrir náttúrurannsóknir í landinu, svo og náttúruvernd í landinu en báðum þessum einingum, Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofum, er ætlaður verulegur hlutur í þeim efnum að stuðla að bættri meðferð landsins og auðlinda þess, og að tengjast öðrum aðilum sem fjalla um náttúrurannsóknir í víðara samhengi. Það var haft samráð við Vísindaráð m.a. sem er lögum samkvæmt sá aðili sem á að taka yfir sviðið í heild og tókst skilningur á grundvelli viðræðna milli þessara aðila og það er auðvitað afar nauðsynlegt í málum af þessum toga að þar leggist menn saman á árar. Ég hef stundum orðað það svo að þeir sem hafa unnið að náttúrurannsóknum í landinu og ætla sér þar hlut, hafa ekki efni á því að deila kröftunum, þeir þurfa að leggjast saman á árar því að fjármagn er takmarkað og skilningur því miður hefur verið það einnig allt of lengi.