Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Á þskj. 851 er álit meiri hl. fjh.- og viðskn. sem hefur fjallað um þetta frv. og fékk umsagnir frá ýmsum aðilum: Sól hf., Búnaðarfélagi Íslands, útvarpsráði, Vegagerð ríkisins, Þjóðhagsstofnun, Íslandsbanka, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Landssambandi iðnaðarmanna, Landsbanka Íslands, Félagi íslenskra ferðaskrifstofa, Bandalagi háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, Náttúruverndarráði, Félagi íslenskra iðnrekenda, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Seðlabanka Íslands, Verslunarráði Íslands og Sölusamtökum lagmetis.
    Eftir að hafa farið yfir þessar mörgu umsagnir leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma.
    Að þessu nál. standa Guðmundur G. Þórarinsson, Ragnar Arnalds, Jón Sæmundur Sigurjónsson og Páll Pétursson.
    Minni hl. flytur hins vegar brtt. við frv. sem talsmaður minni hl. gerir vafalaust grein fyrir hér á eftir. Minni hlutarnir eru reyndar tveir og það er um þær brtt. að segja sem 2. minni hl. flytur að þær ganga flestar eða allar talsvert lengra en frv. í að opna hér fyrir útlendingum. Á það gat meiri hl. ekki fallist og ég legg til að við höldum okkur við það álit sem meiri hl. hafði, að afgreiða frv. eins og það er prentað á þingskjali.