Vaxtamál
Þriðjudaginn 12. mars 1991


     Kristinn Pétursson :
    Hæstv. forseti. Það er nokkuð merkilegt að fylgjast með þessari umræðu og þeim ágreiningi sem greinilega er innan ríkisstjórnarinnar um vaxta - og peningamál. Ég tel rétt að minna á að það er nú einu sinni skylda Seðlabankans að vinna eftir þeim lögum sem hann starfar eftir og m.a. er það hans hlutverk að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt sem varðar gjaldeyris - og peningamál. Sé Seðlabankinn ósammála ríkisstjórninni er rétt að lýsa ágreiningi sínum opinberlega, ef ég man lögin rétt, svo að það er mjög gott að umræða skuli fara fram um þetta. Ef má gagnrýna Seðlabankann fyrir eitthvað undanfarin ár, þá held ég að það megi gagnrýna hann einmitt fyrir að hafa ekki gagnrýnt stjórnmálamenn þegar allt hefur verið að fara úr böndunum eins og einmitt nú. Þegar vextir eru frjálsir kemur þetta fram þegar ríkisstjórnin tekur of mikið af fjármagni til sín því að það eyðist einu sinni það sem af er tekið. Hæstv. forsrh. neitar alfarið að viðurkenna að það gæti verið. Ef hæstv. forsrh. væri læknir og ætti að lækna sjúkling með 40 stiga hita, þá mundi vera hans ráð að setja sjúklinginn í frystiklefa þar til mælirinn sýndi 37, þá væri sjúklingur læknaður.
    Ástæða þess að hæstv. fjmrh. gekk svo vel að selja spariskírteini á síðasta ári er væntanlega sú að verð á sjávarafurðum hækkaði um 30% á árinu og inn í landið streymdu tugir milljarða sem björguðu andlitinu á þessum háu herrum. Hvar væru þeir staddir á skútunni sinni ef þeir hefðu ekki fengið alla þessa milljarða inn í þjóðarbúið og þjóðarsátt að auki í gjöf? Og þó þeir hafi fengið 30 -- 40 milljarða innstreymi af fjármagni hér extra á síðasta ári og þjóðarsátt að auki, þá er samt allt á tampi hjá þessum háu herrum.
    Hæstv. forsrh. hefur margsinnis talað um að afnema verðtryggingu og að vextir væru svo háir að þetta væri frjálshyggja. En hæstv. forsrh. innleiddi sjálfur þessa frjálshyggju, og af hverju hefur hann þá ekki breytt henni ef hann meinar eitthvað af því sem hann segir? Það er ekki gott að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri, að vilja afnema verðtryggingu og lækka vexti en gera svo ekki neitt í málinu. Af hverju gerir hæstv. forsrh. ekki eitthvað í þessu? Getur hæstv. forsrh. svarað því? Ræður hann engu í ríkisstjórninni eða hvað er það sem er að? Er það ekki einmitt það sem er að að hæstv. forsrh. er haldinn tvöföldu siðgæði og er alltaf með tvær skoðanir á hverju máli? Út af fyrir sig er hann sammála þessu. Hitt er svo allt annað mál að undir vissum kringumstæðum er ekki víst að hann sé sammála.