Stjórnsýslulög
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Frsm. meiri hl. allshn. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 910 við frv. til stjórnsýslulaga frá meiri hl. allshn. Einnig eru lagðar fram brtt. við frv. eins og það kom frá forsrh. á sínum tíma þegar hann mælti fyrir því.
    Hér er verið að leggja til að setja almennar stjórnsýslureglur um meðferð mála í stjórnsýslunni, hvernig stjórnsýslan skuli haga sér þegar mál kemur til hennar, hver sé réttur einstaklingsins gagnvart stjórnsýslunni og einnig er hér verið að koma á miklu réttaröryggi og samræmingu á milli hinna einstöku stjórnsýsluaðila. Ég ætla ekki að hafa þennan inngang lengri en lesa upp nefndarálitið, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk á sinn fund Jón Sveinsson, aðstoðarmann forsrh., Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóra, Eirík Tómasson hæstaréttarlögmann, Björn Þ. Guðmundsson prófessor, Lúðvík Geirsson, formann Blaðamannafélags Íslands, og Ólaf Ásgeirsson þjóðskjalavörð. Umsagnir bárust frá Blaðamannafélagi Íslands, Birni Þ. Guðmundssyni prófessor, umboðsmanni Alþingis, Sýslumannafélagi Íslands, Dómarafélagi Íslands, Lögmannafélagi Íslands, stjórnsýslunefnd, Páli Hreinssyni lögfræðingi, forsrn. og Þjóðskjalasafni Íslands. Auk þess sendi forsrn. þær umsagnir sem nefndinni, er samdi frv., bárust.
    Með frv. þessu er lagt til að sett verði almenn löggjöf um stjórnsýslu og vinnureglur stjórnvalda. Settar eru meginreglur sem stjórnvöldum ber að virða við meðferð mála. Í lögum er að finna á víð og dreif ákvæði um málsmeðferð stjórnvalda við ákvarðanir, en almennar reglur hafa mestmegnis verið dregnar af dómaframkvæmd. Setning stjórnsýslulaga er gífurleg réttarbót fyrir almenning og felst í þeim öryggi fyrir því að stjórnsýslan starfi í anda jafnræðis og að hlutlæg sjónarmið ráði afgreiðslu mála.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frv. Lagt er til að gildissvið, sbr. 1. gr., verði skýrar afmarkað. Einnig er lagt til að heiti I. kafla breytist.
    Í umsögnum um frv. kom m.a. fram gagnrýni á hugtakanotkun í því. Leggur nefndin til lagfæringar þar að lútandi, m.a. með því að orðið ,,stjórnsýsluhafi`` verði ekki notað. Eru lagðar til breytingar á 2. gr. og mörgum öðrum greinum frv. vegna þessa.
    Breyting á 3. gr. felur í sér að reglur um sérstakt hæfi, ef aðili hefur haft afskipti af máli á fyrra stigi, gilda ekki um hæfi sveitarstjórnarmanns til að fjalla um mál þótt hann hafi haft afskipti af því í stjórn eða ráði á vegum sveitarstjórnarinnar.
    Lagt er til að reglur 6. gr. frv. um úrskurð um vanhæfi stjórnvalds breytist þannig að stjórnvaldið taki sjálft ákvörðun um hvort það eigi að víkja sæti. Ákvörðun þess getur yfirmaður breytt og hún getur einnig komið til endurskoðunar við stjórnsýslukæru. Fjölskipað stjórnvald tekur einnig ákvörðun um hvort maður, sem sæti á í því, telst vanhæfur og víkur hann þá sæti á meðan nema lög skipi á annan veg. Ef fjölskipað stjórnvald verður ekki ályktunarhæft vegna

hugsanlegs vanhæfis allra sem þar eiga sæti taka þeir allir þátt í ákvörðun um hvort stjórnvaldið sé vanhæft.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Undir þetta nefndarálit rita Guðmundur Ágústsson, Jóhann Einvarðsson, Skúli Alexandersson, Salome Þorkelsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir og Eyjólfur Konráð Jónsson. Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir skilar séráliti.
    Það skal tekið fram að umboðsmaður Alþingis leggur á það ríka áherslu að frv. af þessu tagi verði lögfest þar sem það hefur valdið honum mjög miklum erfiðleikum í starfi að almenn stjórnsýslulög eru ekki fyrir hendi. Þegar lög um umboðsmann Alþingis voru samþykkt fyrir fjórum árum síðan var gengið út frá því að stjórnsýslulög fylgdu í kjölfarið. Því miður hefur orðið mjög mikil bið á því að slík lög fengju afgreiðslu hér á þingi og valdið umboðsmanni mjög miklum erfiðleikum í starfi eins og ég sagði. Því er það mjög brýnt að þetta frv. verði afgreitt á þessu þingi. En því miður er mjög stutt til þingloka og að öllum líkindum mun þetta frv. sem og mörg önnur mikilvæg mál daga uppi. En ég skora á næsta þing að taka þetta mál til athugunar með það í huga að setja stjórnsýslulög. Það er ekki aðeins mikilvægt fyrir umboðsmann heldur og fyrir alla þjóðfélagsþegna að þeir megi treysta því að störf í stjórnsýslunni séu byggð á jafnræði og að það séu skýrar línur um það hvernig stjórnsýsluhafar skuli fara með það vald sem þeim er falið að lögum.
    Með vísan til þess sem ég hef nú sagt vil ég ítreka það sem fram kemur í nál. að mál þetta verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á þskj. 911 frá meiri hl. allshn.