Mannanöfn
Miðvikudaginn 13. mars 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þetta mál er nú hér til 8. umr. í þinginu. Það hefur fengið þrjár reglulegar umræður í báðum deildum þingsins og síðan eina aukaumræðu í Ed. og er komið hér á ný til Nd.
    Það er satt að segja góður vitnisburður um þessa stofnun, Alþingi, sem ekki fær svo oft mjög góða vitnisburði, hvað þingið hefur í raun og veru vandað sig við það mál sem hér er á ferðinni og látið sig það miklu skipta. Hér er ekki um að ræða hefðbundið pólitískt mál af neinu tagi heldur mál sem snertir vissulega tiltekið grundvallaratriði í þróun íslenskrar tungu. Og um leið og ég segi þetta vil ég þakka hv. 14. og 12. þm. Reykv. fyrir þær ræður sem þau fluttu hér og lýstu því yfir að till. þær sem þau lögðu fram vegna þessarar umræðu væru nú dregnar til baka, fyrst og fremst til að greiða almennt fyrir framgangi málsins, þó að hv. 12. þm. Reykv. áskildi sér og sínum flokki á síðari tíma rétt til að halda til haga þeim sjónarmiðum sem hún gerði grein fyrir.
    Um leið er það mjög mikilvægt að láta það koma fram að meðferð millinafna hlýtur að verða samkvæmt almennum reglum um eiginnöfn í frv. þessu ef að lögum verður. Þar með tel ég að þar sé að nokkru komið til móts við þau sjónarmið sem hv. þm. Geir H. Haarde hefur gert grein fyrir með mjög skilmerkilegum hætti. Ég vænti þess að þessi niðurstaða geti orðið til þess að leysa málið og þakka hv. þm. báðum fyrir sanngirni og víðsýni við afgreiðslu þessa máls.