Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég ætla ekki við lok þessara umræðna að hefja ádeilur á aðra flokka. Um málflutning Sjálfstfl. hér í kvöld mætti segja margt en eitt dugir: Verkin tala. Sjálfstfl. fékk fimm ár til að prófa sína stefnu. Þeir segja í kvöld: Stefnan er óbreytt. Vísum bara til öngþveitisins 1988.
    Ég ætla heldur ekki hér í kvöld að deila á samstarfsaðila mína í ríkisstjórn. En ég vil þó segja það að mér fannst það ekki stórmannlegt af vinum mínum, utanrrh. og iðnrh., að reyna báðir í ræðum sínum hér í kvöld að breiða yfir aðgerðarleysið í álmálinu, árangursleysið í álmálinu, með því að ráðast á aðra. Staðreynd málsins er sú að við höfum í ríkisstjórninni veitt Jóni Sigurðssyni iðnrh. allt það frelsi og allt það svigrúm sem hann hefur óskað eftir til þess að stýra þessum viðræðum en niðurstaðan er enginn árangur enn.
    Hér hefur mikið verið talað um tillögu sem flutt er hér á Alþingi. Þetta er tiltölulega sakleysisleg tillaga í álmálinu, einfaldlega um það að viðræðurnar eigi að halda áfram. Ef hún er samþykkt, þá gerist svo sem ekki neitt. Viðræðurnar halda bara áfram. En ef hún er ekki afgreidd, þá gerist heldur ekki neitt. Viðræðurnar halda bara áfram og áfram. Það er þess vegna ekki rétt að halda áfram þessari sýndarmennsku með árásum á aðra.
    Góðir Íslendingar. Það er framtíðin sem skiptir máli. Það er hvað við gerum á þessu ári og þeim næstu til þess að varðveita árangurinn í verðbólgunni og bæta lífskjörin, vegna þess að lífskjarajöfnunin er verkefni næstu ára. Alþb. afgreiddi um síðustu helgi ítarlega stefnuskrá, ,,Okkar Ísland``, þar sem við lýsum í fjölmörgum atriðum hvernig við viljum jafna lífskjörin á Íslandi. Við viljum hefja það verk með því að ná kaupmættinum upp á næstu tveimur árum eins og við náðum verðbólgunni niður á síðustu tveimur árum. Og hvernig viljum við gera það? Við viljum gera það með því að breyta skattakerfinu strax á þessu ári í tengslum við næstu kjarasamninga á þann veg að skattleysismörkin séu hækkuð og barnabæturnar séu hækkaðar og húsaleigubætur komi einnig til leigjenda. Við viljum sækja peningana í þessa réttindabót fyrir launafólkið með hátekjuskatti á þá sem hafa yfir 500 -- 600 þús. kr. á mánuði og með því að skattleggja fjármagnstekjur sem hingað til hafa verið skattfrjálsar. Og við höfum fundið á fundum um allt land að þessi stefna á mikinn hljómgrunn.
    Á fundi í Keflavík fyrir rúmri viku síðan tók formaður Verkamannafélagsins Hlífar í Hafnarfirði eindregið undir það að þessi stefna okkar alþýðubandalagsmanna væri grundvöllurinn að næstu kjarasamningum. Og það er ánægjulegt fyrir mig, sem ólst upp sem lítill drengur hjá afa mínum og ömmu á Þingeyri og var heimagangur í frystihúsinu, í smiðjunni og í kaupfélaginu í þessu merka sjávarplássi, að í dag bárust þær fréttir að fiskverkakonur á Þingeyri hafa einnig tekið forustu í að bera þessa stefnu fram. Við alþýðubandalagsmenn fögnum því. Við lýsum yfir

stuðningi við þennan málstað fiskvinnslukvennanna á Þingeyri. Við munum taka þátt í aðgerðum fiskvinnslufólks, sem krefst þess nú að meginþáttur í næstu kjarasamningum verði jöfnuður í skattamálum, með því að hækka skattleysismörkin og auka þannig kaupmáttinn í gegnum skattakerfið.
    Það er bara ein tillaga af mörgum. En þær eru margar fleiri sem þurfa að koma. Í skólamálum með samfelldum skóladegi og skólamáltíð. Í húsnæðismálum, í málefnum barna. Við eigum fagurt og gott land. Okkar Ísland getur verið fyrirmyndarríki en það gerist ekki ef hörðu hægri öflin í Sjálfstfl. fá vald og svigrúm til að leika sér með Ísland. Í næstu kosningum verður ekki bara kosið um flokka og menn. Það verður kosið um það hvort hin nýja harða valdablokk í Sjálfstfl., hægri öflin í Sjálfstfl., fá brautargengi til að leika sér með Ísland.
    Og hvert á að vera mótvægið gegn þessari nýju valdasókn hægri aflanna? Það er spurningin sem allt félagshyggjufólk og vinstri menn verða að svara. Er Framsfl. treystandi til þess sem undi glaður í fimm ár í ríkisstjórn með Sjálfstfl.? Er Alþfl. treystandi til þess sem í stjórnarandstöðu áður biðlaði til Sjálfstfl. og kaus helst ríkisstjórn með honum 1987 og er byrjaður aftur í viðtali Jóns Baldvins Hannibalssonar við Morgunblaðið að biðla til Sjálfstfl. um nýja viðreisn? Er Kvennalistanum treystandi til þess sem hér í fjögur ár á Alþingi hefur starfað með Sjálfstfl. í stjórnarandstöðu? Nei. Það þarf sterkan og öflugan vinstri flokk. Það þarf róttækan flokk sem ber merki endurbóta og vill virkja launafólk, félagshyggjufólk og vinstri sinna í samfellda fylkingu til þess að veita þetta mótvægi gegn hægri öflunum á Íslandi.
    Við erum tilbúnir, alþýðubandalagsmenn, til þess að vera þetta mótvægi gegn nýju, hörðu hægri öflunum í Sjálfstfl. Við biðjum um umboð til þess í næstu kosningum, ekki bara vegna næstu ríkisstjórnar heldur vegna þeirrar baráttu sem fram undan er. Við höfum lagt fram okkar stefnu. Hún er skýrt andsvar við því sem samþykkt var á landsfundi Sjálfstfl.
    Við höfum sýnt í verki að við erum flokkur sem getur. Við höfum sýnt í verki að við erum fólk sem þorir. Við viljum breyta Íslandi. Við viljum betra Ísland. Við viljum Ísland okkar allra sem við getum verið stolt af. Þess vegna höfum við kynnt okkar merki, okkar fána, þar sem rísandi rauð sól fer yfir grænu Íslandi, merki framtíðar, róttækni og umhverfisverndar.
    Góðir Íslendingar. Viljið þið veita nýju hörðu hægri öflunum í Sjálfstfl. brautargengi og þeim flokkum sem sóst hafa eftir því á undanförnum árum að starfa með Sjálfstfl.? Eða viljið þið koma með okkur í að byggja upp nýtt Ísland og veita það mótvægi sem þarf, þann vinnslukraft sem þarf, þá heilbrigðu félagshyggju sem þarf? --- Góða nótt.