Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Kæru Reykvíkingar og aðrir landsmenn. Það eru tveir sjóðir sem skipta mestu máli í lífi okkar Reykvíkinga. Það eru ríkissjóður og það er borgarsjóður en misjafnlega hefur verið farið með þá tvo sjóði og misjafnlega hefur fénu úr þeim verið varið. Peningum borgarbúa úr borgarsjóði hefur verið varið til þess að ýta undir þenslu á meðan peningum ríkissjóðs hefur verið varið til þess að draga úr þenslu og halda jafnvægi í ríkisbúskapnum síðustu árin. Borgarstjórn hefur fellt allt verslunarhúsnæði í Reykjavík í verði með því að reisa Kringluna, verslunarhúsið í Kringlunni. Núna fyrir skömmu kom út skýrsla sem unnin var fyrir Reykjavíkurborg þar sem kemur í ljós að verslunarhúsnæði í miðborg Reykjavíkur hefur fallið í verði um 35 -- 50% frá því Kringlan opnaði. Þetta er það gjald sem eigendur verslunarhúsnæðis í Reykjavík þurfa að borga fyrir skrauthýsin sem núverandi meiri hluti borgarstjórnar í Reykjavík er að reisa yfir sig, fyrir minnisvarðana sem þeir reisa í Reykjavíkurborg.
    Góðir kjósendur. Senn líður að kosningum og við kjósum um fleira heldur en borgarsjóð Reykjavíkur. Við kjósum og þurfum að velja okkur fulltrúa sem vilja breyta okkar kosningalöggjöf þannig að við tökum upp einmenningskjördæmi. Þannig að við kjósum okkar eiginn þingmann sjálf en ekki halarófu af þingmönnum án þess að vita hvern við hreppum. Við þurfum persónukvóta þannig að fiskurinn í sjónum, sem er sameign okkar landsmanna, komi jafnt til góða fyrir húsmóðurina í Breiðholti eins og útgerðarmanninn á landsbyggðinni. Við þurfum að afnema alræmdan matarskatt sem ríkisstjórn Sjálfstfl. lagði á á sínum tíma og við þurfum að standa vörð um eignir okkar, að borgarsjóður nái ekki að fella þær meira í verði. Við þurfum að standa vörð um ríkissjóð því að nú sækjast handhafar borgarsjóðs eftir því að koma höndum sínum yfir ríkissjóð. Við þurfum að verjast þeirri atlögu, Reykvíkingar. Við þurfum að standa vörð um ríkissjóð. Við þurfum að hafna skrauthýsagenginu sem Sjálfstfl. teflir fram því að íhaldið sem áður var heiðblátt er nú orðið helblátt.
    Góðir kjósendur. Ég býð ykkur góða nótt. Við sjáumst síðar. Við sjáumst eigi síðar en við kjörkassana.