Dreifð og sveigjanleg kennaramenntun
Föstudaginn 15. mars 1991


     Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 637 hef ég borið fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun. Fyrirspurnin er einföld. Hún er á þessa leið:
    ,,Hvað líður undirbúningi dreifðrar og sveigjanlegrar kennaramenntunar á vegum Kennaraháskóla Íslands fyrir grunnskólakennara sem áform eru um að hefja árið 1991?``
    Eins og fram kemur í fyrirspurninni hefur undanfarið verið í undirbúningi á vegum Kennaraháskólans í samráði við menntmrn. starfsréttindanám fyrir grunnskólakennara. Þetta nám hefur verið kallað dreifð og sveigjanleg kennaramenntun. Hún á að fara fram sem næst starfsvettvangi kennara. Tilgangurinn er sá að bæta úr skorti á menntuðum kennurum sem er tilfinnanlegur, t.d. víða á landsbyggðinni. Þörfin sést mætavel á því að skólaárið 1989 -- 1990 voru stöðugildi á grunnskólastigi um 2600. Þar af voru 400 skipuð leiðbeinendum. Sama ár voru stöðugildi í framhaldsskólum tæplega 1300 og um þriðjungur þeirra voru leiðbeinendur. Áform voru um að Kennaraháskóli Íslands mundi hrinda þessu námi af stað haustið 1991. Nú hefur það heyrst að bakslag sé í þessum áformum og óvissa sé um hvort við þetta verður staðið. Fyrirspurnin er einfaldlega borin fram til að fá það fram hver áform eru í þessu efni.