Efnahagsaðgerðir
Föstudaginn 15. mars 1991


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Ég bjóst nú ekki við því að það yrði mikil umræða hér um þetta frv. nú á lokastundum þinghaldsins, en ég hefði ekki viljað missa af þeirri ræðu sem hér var flutt af hv. 2. þm. Norðurl. e. þar sem hann var með ýmsar yfirlýsingar og reyndar nokkrar fyrirspurnir. Þó fannst mér merkilegust yfirlýsing hans um það að þeir sjálfstæðismenn hefðu getað fallist á það að í frumvarpsgreininni sem við erum að fjalla hér um samþykktu þeir það að forsrh. og fjmrh. yrðu að samþykkja það ef atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar teldi ástæðu til þess að fella niður, skuldbreyta eða gera aðrar breytingar á lánum vegna þess að hann taldi líklegra að þessir aðilar, þ.e. forsrh. og fjmrh., hefðu önnur sjónarmið í huga þegar þeir fjölluðu um þessi mál heldur en Ríkisábyrgðasjóður sem er til þess að fylgjast með því að við þær ábyrgðir, sem ríkið tekur að sér, sé staðið og fengið út úr þeim ábyrgðum allt það sem mögulegt er og eðlilegt getur talist.
    Ég tel að hér sé komin yfirlýsing frá Sjálfstfl. um það að hann viðurkenni að ástandið haustið 1988 hafi verið á þann hátt að það sé nauðsynlegt að ,,hantéra``, ef ég má orða það þannig, þau lán sem veitt voru fyrirtækjum vegna stöðu þeirra á því tímabili á þann máta að stjórn Byggðastofnunar geti við breytilegar aðstæður afskrifað þetta svo gott sem upp á eigin spýtur og þá með samþykkt pólitísks ráðherra en ekki þess embættiskerfis sem byggt hefur verið upp til þess að tryggja það að staðið sé við ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðir séu endurgreiddar. Það er varla hægt að fá ljósari yfirlýsingu um samábyrgð Sjálfstfl. á öllu þessu lánafyrirkomulagi heldur en þá yfirlýsingu hv. 2. þm. Norðurl. e., sem nú er greinilega kominn í forustuhóp Sjálfstfl. svo sem taka mátti eftir í sambandi við umræðurnar hér á hv. Alþingi í gærkvöldi. Hann er að tilkynna hér að Sjálfstfl. sé samábyrgur við úthlutun þeirra lána og síðan ætli hann að vera samábyrgur við það hverjir eigi að endurgreiða og hverjir ekki. ( EgJ: Ekki við úthlutunina.) Þannig að ég fagna mjög þeirri ræðu sem hér var flutt þó að við værum sjálfsagt margir að vonast eftir því að það yrðu ekki miklar umræður um þetta mál hér í deildinni.
    Hv. þm. gaf þær upplýsingar að nú þegar væru tapaðir um 2 milljarðar af þessum fjármunum sem lánaðir voru í sambandi við það að endurreisa útgerðina og önnur fyrirtæki eftir stjórnartíma Sjálfstfl. og gaf það undir fótinn að vitaskuld gæti meira legið fyrir, að það þyrfti að skuldbreyta og gera ýmsar ráðstafanir á vegum deildarinnar þegar fram liðu stundir og Byggðastofnun ætti að ráða því hvað þar yrði gert. Og hann var að undrast það að ég hefði látið í ljós þá skoðun hér að ég teldi að meginhlutinn af því fé, sem lánað var í gegnum Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina og ráðstafað var í gegnum Hlutafjársjóð Byggðastofnunar, mundi tapast eða stór hluti af því, það er kannski réttara að segja það. Og hann spurði: Hvaða upplýsingar hefur þingmaðurinn --- hann kallaði mig reyndar þingmann Hellissands, ég tók það vel

til mín --- um það að hlutir standi á þann veg? Ég geri ráð fyrir því að ég sé með mjög svipaðar upplýsingar og hv. þm. Það eru þær upplýsingar sem okkur voru veittar á fundi í fjh. - og viðskn. nú fyrir nokkrum dögum. Þær voru á þann veg að það væri verið að upplýsa okkur um ríkisfyrirgreiðslur eða að það mætti búast við því að það væri fjármagn sem ríkið væri að tapa út úr höndunum á sér og því var lýst yfir að með þessar upplýsingar ætti að fara eins og með bankaleynd. Það mátti ekki fara með þetta á annan máta, þetta fjármagn sem var notað til þess að styrkja íslenskar atvinnugreinar á tímabilinu frá 1988 til síðustu áramóta, það mátti ekki upplýsa það almenningi í þjóðfélaginu. Það mátti aðeins opna þessa bók fyrir nefndarmenn í fjh. - og viðskn. og lofa þeim að líta yfir þennan lista í nokkrar mínútur.
    Ég hef mínar upplýsingar þaðan að útlitið sé ekki bjart með þau lán sem Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina hefur veitt miðað við skil á vöxtum á fyrstu gjalddögum þessara lána. Og vitaskuld er það kannski vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal fékk þessar upplýsingar og a.m.k. var það fyrst og fremst eftir að hann hafði fengið þessar upplýsingar að það var lögð ofuráhersla á það að Ríkisábyrgðasjóður fengi ekki að fylgjast með því hvernig yrði staðið að hugsanlegum skuldbreytingum, hugsanlegum niðurfellingum, heldur yrði það deildin sjálf eða stjórn Byggðastofnunar.
    Nú er reyndar orðið að samkomulagi, og ég bjóst við að það yrðu ekki miklar umræður, eins og ég er búinn að nefna áður, um þetta mál, að við samþykkjum að í staðinn fyrir að Ríkisábyrgðasjóður fylgist með því hvað verður afskrifað og hverju verður skuldbreytt, þá verður það gert aðeins með samþykki forsrh. og fjmrh. Ég samþykki það fyrst og fremst út frá því að ég lít svo á að fjmrh. og forsrh. séu ábyrgir yfirmenn Ríkisábyrgðasjóðs og þar með sé verið að samþykkja það sama og þingmenn Sjálfstfl. lögðust mjög gegn að yrði í lögunum eins og það var í frv. þegar það var lagt fram. Ég tel að með því að samþykkja að forsrh. og fjmrh. samþykki gerðir atvinnutryggingardeildarinnar, þá sé verið að staðfesta það að reglum Ríkisábyrgðasjóðs verði fylgt. Ekki út frá þeirri forsendu sem hv. 2. þm. Norðurl. e. nefndi, að forsrh. og fjmrh. mundu taka öðruvísi á þessum málum heldur en Ríkisábyrgðasjóður.
    Ég taldi nauðsynlegt að þetta kæmi fram og ég treysti því að þeir sem fara með þessi mál á komandi árum fari ekki að gefa óskyldri stofnun heimild til þess að afskrifa skuldir sem ábyrgðar eru af Ríkisábyrgðasjóði án þess að samþykki þeirrar stofnunar komi til.