Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Ég stend nú eiginlega hér upp vegna þess að mér er alveg nóg boðið að hlusta á það með hvaða hætti hv. formaður fjh. - og viðskn. gerir grein fyrir störfum nefndarinnar. Hér er lögð fram brtt. á þskj. 974 við þetta mál sem mér sýnist í fljótu bragði að sé nokkuð flókin og þarfnist nokkurra skýringa en hv. þm. gerir ekki minnstu tilraun til þess að útskýra það fyrir deildarmönnum í hverju þessar breytingar felast. Hann bara fleygir þessu hér í deildina og segir að nefndin hafi komið saman, afgreitt málið og leggi til að það verði samþykkt. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð, herra forseti.