Fjáraukalög
Föstudaginn 15. mars 1991


     Sighvatur Björgvinsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka það fram að sú yfirlýsing sem ég gaf hér fyrr í vetur varðandi ríkisspítalana var yfirlýsing sem var gefin fyrir hönd fjvn., þ.e. það var ekki bara viljayfirlýsing formannsins um það hvernig á málum skyldi tekið heldur var það viljayfirlýsing nefndarinnar um það hvernig hún hygðist haga sínum störfum í sambandi við uppgjör ársins 1990. Forsenda þess var að sjálfsögðu sú að fjáraukalagafrv. væri lagt fram. Öðruvísi getur nefndin ekki tekið á þessu eða öðrum málum. Forsenda þess að hún geti gert það er að fjáraukalagafrv. sé lagt fram á Alþingi. Það hefur ekki gerst, eins og fram hefur komið. Þess vegna hefur okkur ekki reynst unnt að standa við það fyrirheit sem við gáfum og þykir okkur það öllum mjög miður.
    Ég vil aðeins taka það fram og staðfesta það einnig að bæði varaformaður fjvn. og ég höfum óskað eftir því við fjmrn. að fjáraukalagafrv. yrði flutt fyrir árið 1990 núna á þessu þingi. Það er reynsla fyrir því að fjvn. hafi byrjað að athuga og vinna að afgreiðslu fjáraukalagafrv. þó svo að frv. hafi ekki verið komið inn í þingið sem þingskjal. Það er reynsla fyrir því að menn hafi byrjað að skoða fjáraukalagafrumvarpsvinnuna í fjvn. í samvinnu við fjmrn. á meðan samning fjáraukalagafrv. hefur staðið yfir þannig að það þyrfti ekki að bíða eftir því að þingskjalið væri komið fram svo að nefndin gæti hafið störf. Svona höfum við áður unnið og ég vil einnig láta það koma fram að ég hef a.m.k. tvívegis óskað eftir því við embættismenn í fjmrn. að reynt yrði að haga vinnunni þannig, með öðrum orðum að þegar lægju fyrir í fjmrn. grófar upplýsingar um útkomu ársins, þá gæti nefndin þegar í stað byrjað að vinna með það þannig að miklu af vinnunni væri lokið þegar frv. kæmi fram. Því miður hefur ekki þetta heldur orðið þannig að úr vöndu er að ráða. Við getum ósköp lítið gert í fjvn. til þess að leysa þetta mál nú.
    Ég vil hins vegar eindregið taka undir með fjmrh. þegar hann segir að hann telji það rétt, hann og hans flokkur, að Alþingi komi saman í vor, m.a. til þess að fjalla um þetta mál og önnur af sama toga. Mín skoðun er sú að það sé ekki eðlilegt að kosið sé 20. apríl eins og nú stendur til og síðan komi Alþingi ekki saman til starfa fyrr en um haustið 10. okt. Það er eðlilegt og í samræmi við þær venjur sem hæstv. fjmrh. hefur tekið upp í sambandi við afgreiðslu ríkisfjármála, fjáraukalagafrumvarpsflutning bæði fyrir yfirstandandi ár og liðið ár, það er eðlilegt að slíkri vinnu sé fram haldið, en það verður að sjálfsögðu ekki gert nema með því móti að Alþingi komi saman ekki síðar en í maímánuði á þessu vori.
    Sjálfsagt eru til úrræði sem hægt er að grípa til af hæstv. ráðherrum, heilbrrh. og fjmrh., til þess að koma í veg fyrir það að til mjög verulegs samdráttar þurfi að koma í rekstri ríkisspítalanna þrátt fyrir það að okkur gefist ekki tækifæri á því að afgreiða fjáraukalög endanlega nú áður en við förum í kosningar, og ég vil hvetja þá hæstv. ráðherra báða til þess að

leita leiða til að tryggja það að til niðurskurðar í rekstri, samdráttar í rekstri þurfi ekki að koma þó að einhverra vikna bið verði auðsjáanlega á því að fjáraukalagaafgreiðsla fyrir árið 1990 geti farið fram.
    Hins vegar er það líka alveg rétt að upplýsingar um afkomu ársins verða náttúrlega ekki endanlegar fyrr en fjáraukalagaafgreiðsla hefur farið fram vegna þess að þó svo að menn hafi niðurstöður eins og málin standa í dag, þá er það alveg ljóst, og vísa ég þá bara til þessarar stöðu ríkisspítalanna, að Alþingi mun að sjálfsögðu gera einhverjar breytingar á þeim tölum sem nú liggja fyrir, m.a. til þess að leysa vandamál eins og þau sem við erum að ræða um hér. Og fyrr en endanleg afgreiðsla á fjáraukalögum ársins 1990 hefur farið fram hér á Alþingi eru allar tölur um afkomu ársins að sjálfsögðu hreinar bráðabirgðatölur.