Ábyrgðadeild fiskeldislána
Föstudaginn 15. mars 1991


     Stefán Valgeirsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég verð nú að segja það að ef hæstv. fjmrh. hefur sér til ráðuneytis þannig menn sem hafa frætt hann um þessi mál eins og kom fram í hans ræðu um daginn, þá eru þeir ekki vandanum vaxnir. Og ég vil líka segja að það er hart fyrir þingmenn að það skuli vera þannig að þegar hæstv. fjmrh. flutti sína dæmalausu ræðu um daginn, þá kom hún að miklu leyti í fréttatíma útvarpsins en það kom ekki ein einasta setning af því sem ég t.d. hrakti í hans ræðu. Þannig er þingmönnum hér mismunað og það er eins og sumir fréttamennirnir séu á mála hjá vissum mönnum hér í þinginu.
    Ég mun ekki tefja hér tímann en ég vil bara í fullri vinsemd segja fjmrh. það að ef hans ráðgjafar eru svona vel upplýstir, þekkja málin svona vel eins og kom fram í hans ræðu, og ég veit að hann veit ekkert um þetta sjálfur, það er greinilegt, þá er ekki von á góðu.