Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Eiður Guðnason :
    Virðulegur forseti. Hér er mikilvægt mál til umræðu nú síðla þings, till. til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar. Hæstv. iðnrh. hefur þegar hann mælti fyrir till. gert allítarlega grein fyrir efni hennar og tilgangi. Það væri vissulega ástæða til að ræða þetta mál hér allítarlega en í ljósi þess hvernig vinnutíma þingsins er nú háttað mun ég ekki gera það.
    Svo vildi til að ég gegndi formennsku í þeirri nefnd sem samdi skýrslu þá er prentuð er sem fylgiskjal með till. Sú nefnd starfaði nokkuð lengi og lengur en ætlunin var í upphafi fyrst og fremst vegna þess að starfssvið hennar var víkkað. Svo er ekki því að leyna að ekki sýndist öllum eitt sem í nefndinni sátu og fór því verulegur tími í að reyna að fá fram þá málamiðlun sem væri bærilega ásættanleg fyrir alla sem í nefndinni voru, þ.e. fulltrúa allra þingflokka. Það tókst að nokkru, ekki öllu, en ágætt samstarf var í nefndinni og vil ég nota tækifærið til að þakka fulltrúum þingflokkanna sem þar voru fyrir gott samstarf. Hér er um réttlætismál að ræða, verðjöfnun á orku til húshitunar. Þar hafa þegar verið stigin allmörg skref til jöfnunar eins og ítarlega er gerð grein fyrir í skýrslu nefndarinnar. Í rauninni hygg ég að hvergi sé á einum stað að finna ítarlegri upplýsingar um sögu þess máls og stöðu en í þessari skýrslu.
    Ég endurtek, virðulegur forseti, að hér er um mikið réttlætismál að ræða fyrir þá sem búa á hinum svonefndu köldu svæðum eða búa við mjög dýrar hitaveitur. Það kom fram í máli iðnrh. hér áðan að 62% þjóðarinnar njóta orkuverðs sem er Reykjavíkurverð eða lægra. Engu að síður er það svo að verulegur hluti býr við allháan orkukostnað að því er varðar húshitun og í þessari till. er gert ráð fyrir því að stíga mjög mikilvæg skref til að jafna þennan aðstöðumun, ekki að fullu og öllu en að draga mjög verulega úr þeim mun sem nú er í þessum efnum hjá þeim einstaklingum og fjölskyldum sem búa við rafhitun eða mjög dýrar hitaveitur.
    Það er alveg ljóst að milli þessa máls og þáltill. um álver á Keilisnesi eru nokkur tengsl. Það hefur komið fram hér að samþykki eins af stjórnarflokkunum, Framsfl., við það að till. um álver á Keilisnesi kæmi fram var með nokkrum hætti bundið því, þ.e. þeir áskildu að jafnframt yrði lögð fram og samþykkt till. um jöfnun húshitunarkostnaðar. Öllum mega því vera ljós tengslin á milli þessara mála og menn hljóta því að velta því fyrir sér hvernig þeim reiði af báðum í sameiningu. Um það skal ég ekki fullyrða á þessari stundu. En þeim sem hart standa gegn till. um álver á Keilisnesi hlýtur að vera ljóst að sú afstaða kann --- og ég undirstrika: kann einnig að hafa áhrif á framgang þessa máls hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að lengja þessa umræðu frekar. Ég legg aðeins áherslu á að hér er um réttlætismál að ræða, réttlætismál sem ég tel mjög brýnt að nái fram að ganga nú á þessu þingi áður en þing verður rofið. Ég sé ekki á því neina vankanta og

vona svo sannarlega að hér í sameinuðu þingi megi takast samstaða um það að auka nú réttlæti í þessum efnum og draga úr aðstöðumun einstaklinga og fjölskyldna á Íslandi. Það er að ég hygg á stefnuskrá allra stjórnmálaflokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Ég sé ekki neina betri eða hugnanlegri leið til að gera það stefnumið flokkanna að veruleika en að samþykkja þessa till. og stuðla þannig að því að þessi aukni jöfnuður komist í framkvæmd.
    Ég endurtek, virðulegur forseti, þakkir til meðnefndarmanna minna sem störfuðu að þessu verkefni og vona að málið fái góðan framgang.