Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Í kvöld er jöfnuður á dagskrá, þó ekki allur jöfnuður heldur aðeins einn hluti af jöfnuði. Hér er t.d. ekki rætt um jafnan atkvæðisrétt heldur um jöfnun á kostnaði við húshitun.
    En jöfnuður eru nú einu sinni þannig í laginu að á honum eru tvær hliðar, annars vegar hlið þess sem fær jöfnuð í sinn hlut og hins vegar hlið þess sem lætur af sínum jöfnuði til þess að jafna hlut náungans. Í þessu tilfelli sem oftar er það hlutur Reykvíkinga sem er til skiptanna, en hlut landsbyggðarinnar á að auka. Reykvíkingar búa á ýmsan hátt vel að húshitun vegna þess að þeir hafa verið forsjálir og eiga hér til þeirra hluta ágæt ver. Það er í raun ekki Reykvíkingum að kenna þó að önnur sveitarfélög séu ekki jafn vel í sveit sett að því leyti. Það á ekki að bitna á Reykvíkingum að þeir hafi komið ár sinni vel fyrir borð. Það er ekki lengur jöfnuður. Því það er oft stutt á milli þess að jöfnuður breytist úr jöfnuði og yfir í ójöfnuð. Úr ójöfnuði er nú stutt í ranglætið og eignaupptöku. Þá erum við komin í rauninni í löggildan þjófnað. Hvers konar jöfnuður er það þegar verið er að taka hlut Reykvíkinga og skipta honum á milli annarra sem ekki hafa fyrir honum unnið? Fyrir hönd þolendanna í þessum jöfnuði, þá mótmæli ég þessu frv.