Lækkun húshitunarkostnaðar
Mánudaginn 18. mars 1991


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Enn er jöfnuður á dagskrá. Hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason útskýrði hér áðan jöfnuð Alþfl. og verð ég að segja að eftir þá ræðu er ég á báðum áttum. Ég var alltaf viss um að ójöfnuður Alþfl. væri slæmur en ég held eftir þessa ræðu að jöfnuður flokksins sé enn þá verri.
    Það eru margar tegundir af jöfnuði, eins og ég sagði frá áðan, en hér er aðeins ein tegund á dagskrá. Við höfum ekki talað um þann jöfnuð einan sem skiptir höfuðmáli á Íslandi og það er jöfnun atkvæðisréttar. Alþfl. hefur ekki flutt tillögu um þann jöfnuð hér í dag. Verðandi þingmaður Reykjaness og núverandi þingmaður Reykjavíkur hefur ekki lagt fram þykka þáltill. um að jafna mannréttindi þannig að við hér í Reykjavík og Reykjanesi stöndum jafnfætis öðrum þegnum landsins en búum ekki við það misrétti sem Íslendingar hafa fordæmt í öðrum löndum eins og í Suður - Afríku. Sá jöfnuður er ekki á kosningaplaggi Alþfl. og er það nokkuð merkilegt fyrir kjósendur að vita.
    En það er einn jöfnuður sem við Reykvíkingar búum við sem er lakari jöfnuður en t.d. í Búðardal. Í Búðardal eru landamærin ekki stærri en svo að hver og einn þegn getur auðveldlega gengið til sinnar vinnu. Hér í Reykjavík þurfum við flestir að nota bifreiðar. Frá mínu heimili í Breiðholtinu og niður á Lækjartorg kostar það mig 130 kr. á dag fram og til baka með strætisvagni. Það eru miðað við 20 vinnudaga 2600 kr. Er þá ekki rétt að íbúar Búðardals taki þátt í því að jafna þennan mismun og jafna út strætisvagnagjöldin fyrir okkur sem þurfum að ferðast á þann hátt til vinnu þegar aðrir geta gengið? Svona má spinna jöfnuðinn í allar áttir.
    Hv. þm. Eiður Guðnason leit svo á að þeir peningar sem væru teknir til þess að greiða niður húshitunarkostnað væru líklega gripnir af himnum ofan. Hér segir hins vegar í þáltill.: ,,Viðskrh. ákveði að á síðari helmingi þessa árs verði greiddar 35 millj. af því fé sem á fjárlögum er veitt til niðurgreiðslna á vöruverði á árinu 1991 . . . `` Það á þá ekki bara að taka þetta af Reykvíkingum heldur á að taka þetta af þeim niðurgreiðslum sem notaðar eru til að borga niður matinn og mjólkina í börnin. Nú á að láta börnin í Breiðholti greiða niður húshitunarkostnaðinn í Vesturlandskjördæmi. Það út af fyrir sig er eiginlega verra en ég átti von á frá Alþfl.
    Annars staðar í þessari sömu þáltill. segir: ,,Því fé sem Landsvirkjun kann í framtíðinni að verða gert að greiða ríkinu fyrir virkjunarréttindi verði að hluta varið til aukinnar verðjöfnunar á innlendri orku.`` Og hvaðan skyldi það fé koma að mestu leyti? Auðvitað ekki frá öðrum en Reykvíkingum. Reykvíkingar eiga sem sagt að standa undir að jafna húshitunarkostnað um allt landið vegna þess að þeir hafa verið forsjálir og búa vel að húshitun í sínu kjördæmi með góðum verum til þess.
    Þetta er kjarni málsins. Jöfnuður milli landshluta byggist á því að Reykvíkingar láta af hendi rakna til

annarra landshluta og það er kjarni málsins fyrir okkur sem í Reykjavík búum og við viljum ekki alltaf una. Það er málið, mín kæru.