Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Ég skrifaði undir nál. á þskj. 1058 með fyrirvara og tel rétt að við 2. umr. málsins komi fram í hverju sá fyrirvari er fólginn. Hann varðar b-lið ákvæðis til bráðabirgða varðandi sölu til ríkissjóðs á fullvirðisrétti í sauðfjárframleiðslu. Rétt er að taka það fram að fyrir nefndarfundinn átti ég ásamt nokkrum úr þingflokki Alþfl. viðræður við ríkisskattstjóra um þetta mál, m.a. til að leita skýringa á ýmsum atriðum sem okkur þótti fremur óljós. Ríkisskattstjóri skilaði síðan greinargerð sem dreift var á fundi í fjh.- og viðskn. í gærmorgun. Rétt er að taka fram að hér er að vísu um mjög skilyrt atriði að ræða, þ.e. ákvæðið á eingöngu við þegar um er að ræða sölu til ríkissjóðs og á eingöngu við í ákveðinn tíma. Engu að síður þótti okkur og þykir mér sem þarna sé tæplega nægilega tryggilega frá því gengið að ekki sé unnt að skjótast fram hjá þessu ákvæði með ýmsum hætti og sjálfsagt erfitt að koma í veg fyrir slíkt að fullu og öllu. Svo er auðvitað álitamál þegar um er að ræða söluhagnað hvernig hin skattalega meðferð eigi að vera. Ég ætla alls ekki, herra forseti, að gera neinn ágreining um málið á þessu stigi. Ég veit að þetta ákvæði er liður í stærra samkomulagi en bendi einungis á og ítreka að e.t.v. hefði þetta mál þurft lengri aðdraganda, ítarlegri athugun, þannig að fulltryggt væri, eins og hægt er í skattalöggjöf, að koma í veg fyrir misnotkun þessa ákvæðis. Um þetta ætla ég annars ekki að hafa fleiri orð.