Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Þetta kvótamál yfirleitt er að mínu mati komið í harðan hnút, t.d. í sambandi við smábátana verður ekki annað séð en fjöldi þeirra verði gjaldþrota og þar komi nokkuð mikil viðbót við þá sem verða gjaldþrota nú í hverri viku.
    Ég hef haldið því fram áður, og mín skoðun hefur ekki breyst, að þessi stefna sé gengin sér algjörlega til húðar og verði að taka öðruvísi á þessum málum, þ.e. að byggðirnar fái einhvern hluta af kvótanum og örfáir fjársterkir einstaklingar geti ekki náð þessari auðlind alveg undir sig.
    Ég get vel tekið undir það sem hefur komið hér fram að það er auðvitað mikil spurning hvort á að taka Hagræðingarsjóðinn til að leysa þetta mál, sjóðinn sem var lofað að láta þær byggðir njóta sem verst eru settar og hafa misst mikinn kvóta, svo að þær fái eitthvað í staðinn. Hins vegar finnst mér fráleit tillaga hv. þm. Sighvats Björgvinssonar o.fl. og hef ég ekki fleiri orð um það.
    Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh. hvort það sé rétt sem verið er að segja okkur að hin endanlega úthlutun til smábátanna hafi reynst enn verr í mörgum tilvikum heldur en þó var í þeirri bráðabirgðaúthlutun sem fyrst var gerð. Sé það svo hlýtur það að vera umhugsunarefni hvort á að láta það bara lönd og leið miðað við t.d. þá stefnu að bæta loðnuskipum það áfall sem þau verða sannarlega fyrir þó að það sé nú í minna mæli heldur en leit út fyrir um tíma.
    Ég vil ekki vera að tefja þessa umræðu, það þjónar engum tilgangi. Ég vonast aðeins til að hæstv. ráðherra svari þessari spurningu, og svari annarri spurningu: Hvort þess sé ekki að vænta þá á þessu úthlutunartímabili, þ.e. fyrstu átta mánuði ársins, að byggðarlög, sem heitið var aðstoð hér í umræðum þegar Hagræðingarsjóðurinn var fyrir hv. deild, fái ekki neina úrlausn á þessu tímabili. Mér sýnist það frv. sem liggur hér fyrir gera það a.m.k. mjög örðugt.
    Ég mun fylgja tillögu Kvennalistans í þessu máli, enda væri annað ekki í samræmi við minn málflutning, mínar tillögur, mínar skoðanir á þessum málum og læt að sinni máli mínu lokið.