Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Aðeins nokkur orð út af svörum hæstv. sjútvrh. Mér hefur borist bréf frá framkvæmdastjóra Félags smábátaeigenda og þar tekur hann það fram að þessi úthlutun hafi farið á enn verri veg í sumum tilvikum heldur en í bráðabirgðaúthlutuninni sem var gerð í nóvember, ef ég man rétt, eða snemma í desember.
    Þetta mál er mjög alvarlegt fyrir byggðirnar. Ég man það nú ekki svo að ég geti fullyrt það að það sé í valdi ráðherrans að leyfa bátum eins og var gert að vera með krókaleyfi og að velja sér sjálfir að einhverju leyti þann tíma sem þeir sækja sjóinn. Það er breytilegt veðurfar, sums staðar er það mjög hart yfir veturinn og ekki hægt að sækja á minni bátum. Kannski er það óvarlegt hvar sem er en er nú gert samt sem áður.
    En ég vil ítreka það að þessi mál eru komin þannig að byggðirnar sumar hverjar eru í hættu af þessum ástæðum. Mennirnir eru að gefast upp. Þeir missa bátana, viðkomandi byggð missir í mörgum tilvikum kvótann og það er engin leið að una því að þetta fyrirkomulag standi lengur. Það verður að rífa þetta upp og gera þær breytingar sem verða ásættanlegar, ekki síst fyrir þær byggðir sem standa verst að vígi.