Lánsfjárlög 1991
Þriðjudaginn 19. mars 1991


     Kristín Einarsdóttir (frh.) :
    Virðulegur forseti. Það er nú svo hér í deildinni að svo ört er hlaupið á milli dagskrárliða að stundum er erfitt að henda reiður á hvenær líklegast er að maður sé á mælendaskrá. Þegar þetta mál var tekið á dagskrá var ég stödd hér í hliðarsal og þar af leiðandi var öðrum hleypt fram fyrir mig. En ég var stödd í miðri ræðu minni um þetta dagskrármál þegar umræðunni var frestað á síðasta fundi. Var ég búin að ræða nokkuð ítarlega um einstakar greinar frv. og var búin að fjalla um brtt. á þskj. 1005 og var þar stödd þar sem ég var að ræða brtt. á þskj. 1006.
    Áður en ég held áfram að ræða þær brtt. langar mig til að skýra hv. deild frá því varðandi brtt. um kaup á þyrlu, sem ég hafði reyndar rætt um, að fjöldi skeyta hefur borist mér og væntanlega öðrum hv. þm. varðandi það atriði. En eins og ég las upp hér í fyrri hluta ræðu minnar þá er það álit Landssambands hjálparsveita skáta og Landssambands flugbjörgunarsveita að fremur skuli farin sú leið sem valin er hér, þ.e. að setja inn í frv. til lánsfjárlaga, og vonandi að það verði að lögum, heimild til handa ríkisstjórninni til þess að festa kaup á björgunarþyrlu, en að gera það með happdrættisaðferðinni eins og hér var einnig tillaga um. Það hafa borist þó nokkur skeyti til stuðnings þessu bréfi frá Hjálparsveit skáta í Reykjavík, frá Björgunarhundasveit Íslands og frá Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík hef ég fengið skeyti og mér er kunnugt um að þingmenn hafa fengið fjölmörg skeyti til stuðnings þessu ákvæði lánsfjárlaganna, en það er brtt. sem er á þskj. 1005.
    Þetta vildi ég nú aðeins ítreka áður en ég héldi áfram umfjöllun minni um brtt. á þskj. 1006, en þar hafði ég farið nokkrum orðum um stofnlínuna sem gert er ráð fyrir að leggja frá Fljótsdalsvirkjun norður og suður um. Eins og ég greindi frá hafa verið miklar deilur um línustæðið þar sem það á að vera á milli Herðubreiðartagla og Dyngjufjalla. Vonast ég til að stjórn Landsvirkjunar sjái til þess að línustæðinu verði breytt þannig að línan verði lögð samhliða eða nálægt núverandi byggðalínu fremur en að velja línustæði eins og nú hefur verið gert.
    Ég var síðan að ræða um þessa 800 millj. kr. lánsheimild til handa Landsvirkjun og var búin að lýsa furðu minni á því að það skuli vera talið eðlilegt að ráðast í að taka 800 millj. kr. lán án þess að fyrirvaralaus raforkusamningur liggi fyrir og ekkert er ljóst um það að nokkuð verði af þessum samningum. Samkvæmt þeim fréttum sem berast af þessu þá er næsta víst að ekkert verður af þessum samningum, alla vega ekki á þessu ári og væntanlega ekki í náinni framtíð. Því að þessi þrjú fyrirtæki sem rætt hefur verið við, Atlantsál hf., og þá kannski sérstaklega bandaríska fyrirtækið Alumax, hafa ekki nokkurn áhuga á að reisa hér álver ef staðið verður á þeim kröfum sem eðlilegar eru varðandi mengunarvarnir, varðandi skattamál, varðandi raforkuverð, því að auðvitað hafa þessir aðilar engan áhuga á að koma hingað nema fá t.d. raforkuna á spottprís og þeir hafa heldur engan áhuga

á því að hafa hér fullkomnustu mengunarvarnir. Kom það greinilega fram hér sl. nótt þegar verið var að ræða um þessi mál að hæstv. umhvrh. telur að það sé í lagi að gefa þarna verulega eftir og telur raunar algjöran óþarfa að vera yfirleitt að hreinsa nokkuð frá álverinu. Mátti helst ráða af máli hans að mengun væri hvort sem er svo mikil hér að það skipti engu máli þó við bættum við eins og einu álveri sem yki mengunina hérna, það yrði hvort sem er bara dvergur á við það sem fyrir væri.
    Það má kannski minnast þess hér nú vegna þess að ég talaði í fyrri ræðu minni um Ferðamálasjóð þar sem ég taldi það miður að enn væri skert framlag til sjóðsins, en ég áttaði mig á því þegar ég heyrði mál hæstv. umhvrh. hér í gær að hann er algjörlega á móti því að hér verði rekin ferðaþjónusta því að hann vill að sjálfsögðu, að því er mér skildist, fara eftir tilmælum Umhverfismálastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hann túlkaði svo að væri algjörlega á móti ferðamennsku og að lönd ættu að draga eins mikið og hægt væri úr því að fólk ferðaðist um löndin, og sé ég þá loksins af hverju hæstv. ríkisstjórn gerir ekki meira til þess að treysta undirstöðu þessa mikilvæga atvinnuvegar. En sjálfsagt hefur þá hæstv. umhvrh. beitt sér sérstaklega fyrir því að ekki væri nú verið að auka framlag til ferðamála, en það mátti einna helst skilja að það sem til ætti að leggja í umhverfismálum á Íslandi væri að leggja niður ferðaþjónustuna og loka landinu fyrir erlendum ferðamönnum. Þetta eru nú nokkur atriði.
    Ég vil enn og aftur lýsa furðu minni á þætti Alþb. í öllu þessu máli þar sem þeir hafa verið með stöðugt undanhald og hafa stöðugt verið að kyngja fleiru og fleiru. Er þar skemmst að minnast að sl. sumar voru þeir með hverja bókunina á fætur annarri og voru með miklar samþykktir um það að ekki mætti veita nema 100 millj. kr. í framkvæmdir en nú þegar er búið að veita hátt í 400 millj. kr. í framkvæmdir vegna undirbúnings þessara virkjana og enn á að halda áfram.
    Síðan kemur brtt. frá hv. 4. þm. Norðurl. v. varðandi þessa heimild til handa Landsvirkjun þar sem kveðið er á um að ekki skuli nýta þessa lánsheimild nema fyrirvaralaus raforkusamningur liggi fyrir.
    Ég vil lýsa því hér að ég styð brtt. á þskj. 1008 þar sem segir að við 1. tölul. brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., á þskj. 1006 bætist: enda liggi fyrir fyrirvaralaus raforkusamningur. Mér þykir algjört lágmarksatriði að þetta verði inni í heimildinni. Þó svo að ég geti ekki fallist á að yfirleitt sé verið að veita svona stóra heimild fyrir framkvæmdum, en ef fyrirvaralaus raforkusamningur liggur fyrir þá er miklu eðlilegra að þessi heimild sé veitt með þessum hætti. Ég tel hins vegar algjöran óþarfa að vera með þetta inni vegna þess að það er svo augljóst að það verða engar framkvæmdir á þessu ári þar sem margoft hefur komið fram að það er ekkert sem bendir til þess að þeir aðilar, sem eru í samningum við íslensk stjórnvöld, vilji koma hér, eins og ég sagði áðan, með þeim skilyrðum sem við hljótum að setja.

    Í bréfi sem ég hef undir höndum sem Landsvirkjun hefur skrifað hæstv. iðnrh. kemur fram ýmislegt merkilegt. Mig langar til, með leyfi forseta, að lesa úr þessu bréfi en þar segir m.a.:
    ,,Sú verkáætlun sem Landsvirkjun hefur unnið eftir undanfarið vegna virkjana í þágu nýs álvers gerir ráð fyrir að unnt sé að gera verksamning í lok maí nk. Nú bendir hins vegar allt til þess að þessum tímamörkum verði ekki náð þar sem Landsvirkjun treystir sér ekki til að fara í framkvæmdir fyrr en fyrirvaralaus rammasamningur við Atlantsál hf. liggur fyrir.``
    Síðan segir: ,,Ljúki lokasamningum og fjármögnun framkvæmda Atlantsáls hf. ekki fyrr en á tímabilinu ágúst/september 1991, eins og nú eru horfur á, er ljóst að ekki verður unnt að hefja orkuafhendingu til álvers fyrr en upp úr áramótum 1994 -- 1995 og ekki að fullu fyrr en átta mánuðum síðar. Fyrsta framleiðsla í álverinu gæti því hafist í ársbyrjun 1995 en fullum afköstum yrði þá náð um haustið. Til að tryggja þessa framvindu þyrfti Landsvirkjun að geta varið um 800 millj. kr. í ár til undirbúnings og framkvæmda við stækkun Búrfellsvirkjunar, byggingu Fljótsdalsvirkjunar og háspennulínu, en rúmur helmingur þeirrar fjárhæðar fellur á síðari helming ársins.``
    Þess vegna skil ég alls ekki hvers vegna þess hefur ekki verið krafist af hálfu ríkisstjórnarinnar að fyrirvaralaus raforkusamningur liggi fyrir áður en þessi heimild verði nýtt.
    Ég skil enn þá síður hvers vegna Alþb. setur fram þessa tillögu án þess að gera það að frágangsatriði af þeirra hálfu þannig að þeir setji það sem skilyrði fyrir því að þessi lánsfjárlög verði sett fram og vekur það sérstaklega athygli þar sem það er jú í höndum hæstv. fjmrh., sem er formaður Alþb., sem þessi lánsfjárlög eru sett fram og hlýtur þá að vera í hendi þeirra að gera kröfur að því er þetta varðar. En maður hefur einhvern veginn á tilfinningunni að þetta sé meira og minna sýndartillaga til þess að reyna að bjarga andlitinu. Þingflokkurinn hefur sem sagt ekki kosið að gera þetta að skilyrði eða að fráfararatriði og er þetta auðvitað í samræmi við framgöngu Alþb. í álmálinu frá því að ráðherrar þeirra tóku sæti í ríkisstjórninni. Þó að þessi brtt. sé auðvitað skárri heldur en að hafa greinina eins og hún er þá finnst mér að þarna fylgi ekki hugur máli og þetta sé að meira og minna leyti sett fram sem einhvers konar sýndarmennska. Ég vona auðvitað að svo sé ekki en af því sem hér hefur komið fram þá get ég ekki merkt neitt annað. En ég mun samt styðja það að þessi brtt. verði sett inn þarna þó að ég eigi ekki von á því að hún nái fram að ganga þar sem Alþb. hefur ekki gert það að skilyrði til þess að þeir styðji þessi lánsfjárlög.
    Ég vil líka benda á að forstjóri Landsvirkjunar hefur komið fram í fjölmiðlum og sagt þó nokkrum sinnum að Landsvirkjun geti ekki farið í þessar framkvæmdir og tekið á sig allar þær skuldbindingar sem í því felast að nýta svona mikla lánsheimild nema fyrirvaralaus raforkusamningur liggi fyrir. Þess vegna spyr ég: Hvaða krafa er það af hálfu hæstv. meiri hluta þessarar ríkisstjórnar eða hæstv. iðnrh. að setja

þetta inn svona opið ef ekki er meiningin að bíða þangað til að fyrirvaralaus raforkusamningur liggur fyrir?
    Ef brtt. verður samþykkt eins og hún liggur nú fyrir á þskj. 1006 þá er talað um það að ákvörðun um þennan undirbúning og nýtingu á heimildum eigi að vera tekin í ljósi framvindu samninganna. Ef farið er yfir málið núna síðastliðið ár þá hefur það sem fram hefur komið verið mjög misvísandi. Hæstv. iðnrh. segir alltaf: Lokahnykkurinn er bara eftir, nú er komið svo og svo langt í samningunum, þetta var mikilvægur áfangi, samningarnir verða í höfn á næstu mánuðum o.s.frv. Þannig að ef hann á að fara að meta framvindu málsins þá mundi hann sjálfsagt byrja strax á morgun. Það hefur hins vegar komið í ljós að þetta er ekki mat annarra og vil ég þá sérstaklega benda á að stjórnarmenn í Landsvirkjun hafa sett ofan í við ráðherrann og bent honum á að það sé langt frá því að þetta mál sé komið í höfn. Þeir keppast hver um annan þveran, gerðu það sérstaklega í september sl. þegar ráðherrann taldi sig vera búinn að koma þessu máli í höfn, þá komu stjórnarmenn í Landsvirkjun hver á fætur öðrum til að gera grein fyrir því að það væri nú langt frá því að neinn áfangi væri í þessu máli. Menn töluðu um það sem ráðherrann skrifaði undir ýmist sem minnisblað og þetta væru einhverjir sneplar sem enga þýðingu hefði sem ráðherrann væri að skrifa undir og væri meira og minna sýndarmennska af hans hálfu. Var m.a. einn stjórnarmaður í Landsvirkjun, Davíð Oddsson, sem talaði um það að þetta væri hið mesta glapræði og sagði að staðreyndin væri sú að Landsvirkjun mundi tapa á þessum samningum fyrstu 15 -- 20 árin.
    Ég man ekki betur en að annar stjórnarmaður í Landsvirkjun, hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson, hefði einnig tekið undir þetta og haft þar stór orð um hversu lítið væri að marka það sem ráðherrann segði, þetta væru einhver ómerkileg plögg sem hann skrifaði undir og að Landsvirkjun stæði engan veginn að baki honum í þessu máli. Þeir drifu sig í það að setja hv. 1. þm. Norðurl. v. í samninganefndina og breyttist þá hljóðið í honum þar sem hann virtist þá vera orðinn meira sammála því sem gert var og meira að segja svo sammála að þegar hann mælti fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. og þeim tillögum sem ég hef nú gert að umtalsefni, þá talar hann um að þetta séu bráðnauðsynlegar heimildir sem þarna þurfi að fá í málinu. Þannig að hann breytist frá því að vera svona frekar á móti álverinu og á móti framgöngu hæstv. iðnrh. í málinu yfir í það að tala um þetta bráðnauðsynlega mál sem þarna verður sem fyrst að komast í höfn.
    Þetta er því allt hið furðulegasta mál og get ég ómögulega séð í hverra höndum það á að vera að meta hvenær á að nýta þessa lánsheimild sem Alþingi er ætlað að veita Landsvirkjun. Veit ég ekki hvort Landsvirkjun er nokkur greiði gerður með því að þvinga þá nánast til að taka þessi lán og síðan verður ekkert af og mun það þá lenda á hinum almenna raforkuneytanda ef lagt verður út í svo miklar fjárfestingar án þess að hægt sé að selja raforkuna frá þessari virkjun.
    Ég hef þá svona nokkurn veginn gert grein fyrir áliti mínu á 1. brtt. á þskj. 1006 og tel ég hana vera langt frá því að vera nauðsynlega og raunar mjög ónauðsynlega.
    Ég vil fullyrða það í ljósi þess hve margir hv. þm. hafa tjáð sig um þetta mál, og þá sérstaklega um staðsetningu álvers, að það sé alls ekki meiri hluti fyrir því hér á Alþingi að álver sé byggt á Keilisnesi, þetta sé nánast þvingun að þetta álver skuli vera staðsett á Keilisnesi, miðað við alla þá þingmenn sem hér hafa tjáð sig og ég get nefnt til sögunnar. Ef ég tek Framsfl., þá man ég ekki betur en að hv. 3. þm. Austurl. Jón Kristjánsson og hæstv. sjútvrh., sem einnig er þm. Austurl., hafi báðir tjáð sig mjög ákveðið um að álverið skuli ekki staðsett á suðvesturhorninu. Af þingmönnum Sjálfstfl. man ég eftir hv. 4. þm. Austurl. Agli Jónssyni og hv. 2. þm. Norðurl. e. Halldóri Blöndal. Síðan get ég nefnt hv. 3. þm. Norðurl. e. Árna Gunnarsson, svo ég taki þetta nú eftir minni, auk þess sem allur þingflokkur Alþb. hefur lýst því yfir að álver skuli ekki reist á Keilisnesi eða á suðvesturhorninu og það var eitt af skilyrðunum sem voru sett hérna fyrr á þessu kjörtímabili. Þannig að ég efast stórlega um að í raun sé meiri hluti fyrir þessari staðsetningu.
    En síðan kem ég að 2. brtt. á þskj. 1006 og þykir mér hún nokkuð einkennileg, þar sem talað er um að fjmrh. sé fyrir hönd ríkissjóðs veitt sjálfskuldarábyrgð til þess að kaupa jörðina Flekkuvík í Vatnsleysustrandarhreppi, auk hluta af jörðunum Stóru- og Minni-Vatnsleysu þar ásamt mannvirkjum. Gert var ráð fyrir því, og hefur flogið hér fyrir, að um væri að ræða um 300 millj. kr., en það er búið að fella það út úr þessari tillögu þannig að það er ekki sérstaklega kveðið á um hversu há þessi upphæð muni vera. En það sem mér þykir einna sérkennilegast er að þarna er í lánsfjárlögum verið að veita eignarnámsheimild. Ég hefði talið eðlilegra að ef Alþingi ætlaði að veita heimild til eignarnáms þá væri það gert með sérstökum heimildarlögum en ekki sett inn í lánsfjárlög að taka megi þetta land eignarnámi. Mér þykir þetta mjög sérkennilegt og hefði viljað spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er reyndar ekki hér í salnum en ég vænti nú að heyri mál mitt, hvort nefndin hafi farið ofan í þetta mál og hvort það sé eðlilegt að standa svona að málum eins og þarna er gert ráð fyrir.
    Síðan er gert ráð fyrir að ef ekki verði af byggingu og rekstri álvers þá skuli hinar keyptu eignir falla til ríkissjóðs. Þarna er ekki gert ráð fyrir því að bíða eða athuga hvort ástæða sé til að kaupa þessar eignir í ljósi framvindu samninga eins og gert er ráð fyrir í 1. brtt. Þetta þykir mér mjög einkennilega að staðið og hefði viljað fá frekari skýringar á því af hverju þessi leið er valin varðandi eignarnámsheimildina.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra að sinni en hefði gjarnan viljað ræða meira um aðrar leiðir í atvinnumálum þar sem ég tel

það vera mjög misráðið að leggja út í alla þessa fjárfestingu með allri þeirri þenslu og ég tala nú ekki um allri þeirri óvissu sem þarna er á ferðinni. Ég tel að Íslendingar hafi ekki efni á því að leggja út í slíkan gífurlegan kostnað, þetta sé allt of mikið happdrætti til að réttlætanlegt sé að verja öllum þessum peningum í svona mikla óvissu.