Þinglausnir
Miðvikudaginn 20. mars 1991


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Háttvirtir þingmenn. 113. löggjafarþing var stutt og starfsamt og senn gengur íslenska þjóðin að kjörborðunum og kýs sér nýtt þing.
    Þing það sem nú er að ljúka stóð yfir frá 10. okt. til 21. des. 1990 og frá 14. jan. til 20. mars 1991, alls 139 daga. Fundir munu samtals hafa staðið í 456 klukkustundir. Þingfundir hafa verið haldnir eins og hér segir:
    Í Nd.     78
    Í Ed.     100
    Í Sþ.     76



            Alls 254

     Þingmál og úrslit þeirra:

     Lagafrumvörp voru samtals 190. Stjórnarfrumvörp voru 107 og þingmannafrumvörp 83.
    a. Lögð voru fyrir Nd.     115
    b. Lögð voru fyrir Ed.     72
    c. Lögð voru fyrir Sþ.     3



            Alls 190

    65 stjórnarfrumvörp voru afgreidd sem lög en óútrædd stjórnarfrumvörp eru 42.
    7 þingmannafrumvörp urðu að lögum, eitt frumvarp til stjórnarskipunarlaga var samþykkt, fjórum vísað til ríkisstjórnarinnar en 71 þingmannafrumvarp varð óútrætt.
    Af 190 frumvörpum urðu alls 72 að lögum.

     Þingsályktunartillögur voru alls 96.
    a. Stjórnartillögur     16
    b. Þingmannatillögur     80



            Alls 96

    31 tillaga var samþykkt sem ályktun Alþingis, 4 var vísað til ríkisstjórnarinnar, 2 kallaðar aftur og 59 urðu óútræddar.
     Skýrslur voru samtals 28
    a. Beiðnir um skýrslur ráðherra     3
    b. Aðrar skýrslur lagðar fram í Sþ.     25



            Alls 28

    Öllum beiðnum um skýrslur ráðherra var svarað með skýrslum.

     Fyrirspurnir. Í Sþ. voru bornar fram 162 fyrirspurnir. Allar voru fyrirspurnir þessar afgreiddar nema 13.
    a.    Munnlegar fyrirspurnir     124
            Svarað     111
            Kallaðar aftur     2
    b.    Skriflegar fyrirspurnir     38
            Svarað     36

    Alls voru til meðferðar í þinginu 476 mál. Þar af

voru 266 afgreidd og tala prentaðra þingskjala var 1130.

    Þeir hv. þingmenn sem nú ljúka þingstörfum geta litið yfir annasamt kjörtímabil. Vel má vera að menn greini á um árangur þeirra starfa, en varla verður um það deilt að mörgu hefur miðað í átt til betri vegar fyrir land og lýð.
    Hornsteinn lýðræðis og þjóðfrelsis hverrar þjóðar er þjóðþingið sjálft. Því ber að efla það og styrkja á allan máta svo að það sé sem best fært um að setja þjóðinni réttlát lög og skynsamleg, lög sem þjóðin er sátt við. Forsetum Alþingis hafði lengi verið það ljóst að ýmislegt í rekstri Alþingis var á annan veg en gerist í nútímaþjóðþingum. Þjóðþingum er eins farið og öðrum stofnunum að nýjum tímum fylgja nýjar kröfur um verklag og vinnubrögð. Á árinu 1989 var skrifstofu þingsins því sett starfsskipulag og starfsmannnahald og rekstur endurskoðað. Rekstrinum var skipt í tvö svið, þingsvið og fjármálasvið, og þeim settir yfirmenn sem bera skulu ábyrgð hvor á sínu sviði. Vinna við þingnefndir var skipulögð og starfsmenn ráðnir þeim til aðstoðar. Starfsemi tölvudeildar var efld og fjölmargar aðrar breytingar hafa orðið á starfsmannahaldi, ýmist með tilfærslum í starfi eða nýráðningum. Þá var starfsaðstaða fjvn. verulega bætt.
    Þegar ljóst var að frestun yrði á byggingu nýs alþingishúss var óhjákvæmilegt að auka húsakost þingsins með öðrum hætti. Húsið nr. 14 við Austurstræti er nú nær allt leigt fyrir starfsemi Alþingis. Bókasafnið var flutt í Skólabrú 2 til að rýma fyrir tölvu - og útgáfudeild. Starfar Alþingi nú í átta húsum og er óþarft að lýsa því hér hver bagi er að því. Verður vart við það unað til langframa svo að krafan um lausn á húsnæðismálum þingsins verður enn knýjandi.
    Miklar endurbætur hafa farið fram á þeim húsakosti sem þingið hefur nú til umráða og ekki síst umhverfi þinghússins. Verður mönnum það enn frekar ljóst með hækkandi sól þegar unnt verður að gróðursetja í þá reiti sem til þess eru ætlaðir. Þessar framkvæmdir hafa verið undir umsjón eftirlitsmanns sem ráðinn var á árinu 1989 til að annast viðhald og framkvæmdir.
    Ein er sú húseign sem Alþingi ræður yfir sem sjaldan hefur orðið umræðuefni hér á hinu háa Alþingi. Það er Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn sem um árabil hefur verið menningarmiðstöð þeirra 5.000 Íslendinga sem borgina við sundið gista. Þar standa nú yfir miklar viðgerðir og breytingar sem ætlað er að gera húsið þannig úr garði að það standi undir nafni sem ,,Islands Kulturhus``, eins og það heitir í símaskrá borgarinnar Hefur þess verið gætt í samráði við kunnáttumenn að upprunalegri gerð húsins sé í engu spillt. Fyrirhugað er að opna Hús Jóns Sigurðssonar að nýju nú í vor. Kunna forsetar Alþingis séra Lárusi Guðmundssyni, sóknarpresti í Kaupmannahöfn, sérstakar þakkir fyrir mikla og góða aðstoð og áhuga á þessu verki.
    Eins og menn rekur minni til samþykkti Alþingi á síðasta þingi og raunar áður að skrá skyldi áhrif

kristnitökunnar á þjóðlíf allt og þenkingar á Íslandi í tilefni af 1000 ára afmæli hennar árið 2000. Skipuð var ritstjórn og ritstjóri ráðinn og í upphafi þess þings sem nú er að ljúka var haldin ráðstefna um þetta verðuga verkefni. Var hún fjölsótt og áhugi augljós og er þetta verk nú þegar hafið.
    Í réttindamálum starfsmanna hefur nokkurt verk verið unnið. Allir starfsmenn eiga nú kost á orlofshúsi sem Alþingi hefur fest kaup á og endurmenntunarsjóður hefur verið stofnaður og nú er unnið að því í framhaldi af tilraunum fyrri forseta að sameina alla starfsmenn Alþingis í eitt félag.
    Og síðast en ekki síst. Þegar þessu þingi nú lýkur hefur verið skráður nýr kafli í sögu Alþingis. Samþykkt hefur verið að þingið starfi framvegis í einni málstofu. Trúi ég vart að nýkjörið þing muni breyta þeirri ákvörðun. Sú samstaða sem tókst um þessa breytingu sýnir ljóslega að þegar heill og heiður hins háa Alþingis er í húfi er þingheimur einhuga. Miklar vonir eru bundnar við þessa breytingu á störfum þingsins og margt hefur verið um hana sagt. En því aðeins geta þær vonir ræst að mikil vinna verði lögð í að búa þinginu réttlát þingskapalög svo að í engu verði skertur réttur minni hluta né meiri hluta og þinghald allt fari fram eins og sæmir virðingu Alþingis. Forsetar færa formönnum þingflokka og alþingismönnum öllum þakkir fyrir það mikla starf sem hér hefur verið unnið og má sérstaklega tilnefna hv. 2. þm. Reykn. Ólaf G. Einarsson sem veitti þeirri nefnd forstöðu sem undirbjó frumvarpið.
    Að lokum þetta, hv. þingmenn. Umboði mínu sem forseta sameinaðs Alþingis lýkur nú senn. Ég er hreykin af því að hafa orðið fyrst kvenna til að gegna þessu embætti. Það hefur víða vakið athygli og er því mikilvægt spor í átt til jafnréttis kynjanna. Þetta hafa verið annasöm ár en ánægjuleg að mestu. Hæstv. forsetum deilda þakka ég framúrskarandi samstarf sem sjaldan hefur fallið skuggi á. Sömu þakkir færi ég varaforsetum þingsins. Hv. þingmönnum öllum þakka ég góða og heiðarlega samvinnu.
    Svo stendur nú á að þeir fimm hv. þingmenn sem lengsta eiga þingsetu hafa ákveðið að sækjast ekki eftir frekari þingmennsku. Þessir hv. þingmenn eru Ragnhildur Helgadóttir, 2. þm. Reykv., Friðjón Þórðarson, 2. þm. Vesturl., Matthías Á. Mathiesen, 1. þm. Reykn., Geir Gunnarsson, 5. þm. Reykn. og Þorv. Garðar Kristjánsson, 4. þm. Vestf. Lengst hafa þeir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, sem raunar kom til þings sem síðasti þingmaður Hafnfirðinga, og Geir Gunnarsson setið á Alþingi. Töluglöggir menn halda því fram að nær 40% allra þeirra þingfunda sem haldnir hafa verið síðan Alþingi var endurreist árið 1845 hafi verið haldnir í tíð þessara tveggja hv. þingmanna.
    Þeim hv. þingmönnum sem nú kveðja hið háa Alþingi óska ég allrar farsældar og þakka þeim vel unnin störf í þágu lands og lýðs.
    Allar breytingar á starfsháttum í þinginu hafa forsetar unnið í góðri samvinnu við starfsmenn þess. Fyrir það þakka ég heils hugar og vona að breytingarnar verði til bóta, ekki síður fyrir starfslið Alþingis en þingið sjálft, enda er þjóðþing því aðeins starfhæft að vel sé að báðum aðilum búið. Hv. þingmenn kveðjast nú hér í dag eftir langa og erfiða vinnulotu og er margur eflaust lúinn. En stjórnmálamenn eru seinþreyttir og því leggja nú mörg okkar út í baráttu fyrir áframhaldandi þingsetu. Sú er ósk mín best okkur öllum til handa að okkur auðnist að vera verðugir andstæðingar. Vináttan á erfitt þar sem valdið býr. Þó hygg ég að við lok þessa kjörtímabils skilji menn í vinsemd og ég óska öllum hv. þingmönnum góðrar heimferðar og heimkomu. Íslendingum öllum óska ég heilla og hamingju.