Vegrið
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Flm. (Ingi Björn Albertsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram till. til þál. á þskj. 357 um áætlun um uppsetningu vegriða. Tilllögutextinn er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela samgrh. að móta hið fyrsta áætlun um uppsetningu vegriða í vegakerfi landsins.
    Áætlunina skal leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóv. 1991.``
    Í stuttri grg. með till. segir: ,,Sá þáttur sem orðið hefur út undan í uppbyggingu vegakerfis landsmanna er uppsetning vegriða. Það er reyndar með ólíkindum að jafnmikilvægur þáttur sem þessi skuli ekki vera inni á sérstakri áætlun. Tillögu þessari er ætlað að bæta þar úr.
    Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi vegriða á vegum, t.d. í bröttum fjallshlíðum. Á undanförnum árum hefur vegakerfið stórbatnað og ber að fagna því. Þó þykir flutningsmanni að forvarnastarf megi skipa æðri sess í vegaframkvæmdum landsmanna.``
    Hæstv. forseti. Um þetta þarf ekki að hafa langt mál, mér persónulega finnst þetta mjög einfalt og sjálfsagt mál að huga að. Við erum jú að gera langtímaáætlanir í hinu og þessu, í vegamálum, hafnamálum, flugmálum og guð má vita hvað og bráðum gerum við sennilega langtímaáætlanir í langtímaáætlunum. Ég skil reyndar ekki af hverju slíkur hlutur sem þessi er ekki tekinn með og þá sérstaklega í langtímaáætlun um vegamál.
    Auðvitað snýr þetta að öryggismálum vegfarenda sem er mál sem ég hef að nokkru látið mig varða síðan ég kom hér inn á þing. Má þar til að mynda nefna þál. um uppsetningu neyðarsíma á hættulegum heiðum og fjallvegum sem var samþykkt á þinginu 1987 -- 1988. En því miður hefur farið svo með þá till. eins og margar aðrar sem samþykktar hafa verið hér á hinu háa Alþingi að þær virðast fara ofan í einhverja djúpa skúffu einhvers staðar í ráðuneyti og koma aldrei þaðan upp aftur. Að vísu er kannski merkilegt að meðflm. minn á þeirri till. var sá maður sem nú fer með þann málaflokk, hæstv. samgrh. Steingrímur J. Sigfússon, en hann hefur ekki séð ástæðu til þess að kafa ofan í djúpu skúffuna sína og fylgja eftir sínu eigin máli. En það er nú kannski annað mál.
    Annað mál er varðar öryggi í umferðinni hef ég einnig lagt fram sem varðar þjóðveg nr. 1, hringveginn, um að gera hann að aðalbraut. Það halda það allflestir sem bruna eftir þjóðvegi 1 að þeir séu á aðalbraut og hafi allan rétt en svo er aldeilis ekki. Hinir smæstu sveitavegir eiga réttinn, þar gildir á mörgum stöðum varúð til hægri.
    En það má svo sem segja með þetta mál eins og það sem var hér síðast á dagskránni um björgunarþyrlu að það megi ekki bíða eftir slysunum áður en slík vegrið eru sett upp. Við höfum talandi dæmi um þetta mál úr Hvalfirðinum, fyrir tveimur árum hygg ég að það hafi verið. Þar varð hörmulegt slys og

skömmu seinna var þar sett upp vegrið.
    Þetta mál er því forvarnamál, Vegagerðinni yrði gert að setja upp áætlun, finna helstu hættupunktana og setja þar upp þessi vegrið.
    Ég geri mér grein fyrir því að hér er um mjög dýrt mál að ræða. Ég veit að á sumum stöðum getur uppsetning slíks vegriðs jafnvel verið jafndýr og vegurinn sjálfur. Og ég veit líka að á einstöku stöðum getur þetta haft ókosti í för með sér, sérstaklega vegna þess að vegrið kemur til með að safna í sig snjó. En þetta er að sjálfsögðu matsatriði þeirra vegagerðarmanna, þeim er gert að gera þessa áætlun og auðvitað taka þeir slíka hluti alla inn í þá mynd.
    Ég vil líka geta þess að ég hafði samband við vegamálastjóra út af þessu máli og var hann mjög jákvæður en benti jafnframt á þessa annmarka sem ég var hér að minnast á.
    Hæstv. forseti. Við þekkjum þessi vegrið, guard rail heitir þetta nú á ensku, erlendis frá þar sem nánast allir fjallvegir og meira að segja inni í borgum eru klæddir þessum vegriðum. Þar hafa þeir að vísu ekki við þetta snjóvandamál að stríða sem við höfum.
    Hæstv. forseti. Ég tel að við þurfum ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég óska því að þessu máli verði vísað til síðari umr. og allshn.