Sektir vegna mengunarbrota á hafnarsvæðum
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Flm. (Elín S. Harðardóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um sektir vegna mengunarbrota á hafnarsvæðum sem er á þskj. 526. Till. er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að skora á samgrh. að setja nú þegar reglugerð um framkvæmd sektargerða skv. 29. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32 frá 5. maí 1986, og um sjóð sem verja skal til mengunarvarna á sjó skv. 32. gr. sömu laga.``
    Lengi vel héldum við Íslendingar að mengun væri eitthvað sem ætti sér bara stað í útlöndum. Hér væri landið fagurt og óspillt og sjórinn hreinn. Hegðun okkar var í samræmi við þetta. Drasli og úrgangsefnum var hent bæði á sjó og landi án þess að það þætti tiltökumál. Á íslenskum skipum var bæði venjulegt sorp og olíuúrgangur hvers konar einfaldlega látinn fyrir borð. ,,Lengi tekur sjórinn við`` sögðu menn ef á annað borð var eitthvað um málið rætt.
    Síðustu árin hafa verulegar framfarir átt sér stað varðandi þessi mál, bæði á sjó og landi. Árið 1985 setti samgrh. reglur um varnir gegn mengun sjávar frá skipum og árið 1986 samþykkti Alþingi lög um varnir gegn mengun sjávar. Hvort tveggja hefur verið til mikilla bóta. Núna skila skip drasli og öðrum úrgangi yfirleitt í land en henda því ekki í sjóinn. Hins vegar er olíumengun enn verulegt vandamál, bæði úti á sjó og í höfnum, þó ástandið hafi vissulega batnað frá því sem áður var.
    Þáltill. sem hér er mælt fyrir er tilraun til að draga úr olíumengun í höfnum. Samkvæmt lögunum frá 1986 er hafnarstjórum og lögreglustjórum heimilt að sekta menn vegna losunar eða úrkasts á hafnarsvæði sínu. Gert er ráð fyrir að sektirnar renni í sjóð sem verja skal til mengunarvarna á sjó eftir því sem nánar segir í reglugerð sem samgrh. setur. Samgönguráðherrar hafa hins vegar trassað það í fimm ár að setja reglugerð um þetta og því miður er slíkur trassaskapur víst algengur í íslenska stjórnkerfinu. Afleiðingin í þessu tilviki er sú að engar sektir hafa verið innheimtar og sjóðurinn til mengunarvarna er enn óstofnaður. Um þetta hafa lögin orðið dauður bókstafur.
    Á síðasta ári urðu um 20 slys í Reykjavíkurhöfn þar sem olía fór í höfnina. Hámarkssekt sem hafnarstjóri má ákveða skv. lögunum er 40 þús. kr. enda sé brot viðurkennt og hafi ekki valdið meiri háttar tjóni og sökunautar játist undir þessa ákvörðun og greiði sektina þegar í stað. Hámarkssekt sem lögreglustjóri má ákveða í sömu tilvikum er 100 þús. kr. Þessar upphæðir eru reyndar ekki háar. Víða erlendis, t.d. í Þýskalandi, þurfa menn að greiða hundruð þúsunda þegar þeir valda olíumengun af þessu tagi. Mér er sagt að í Hamborg sé lágmarkssektin um 360 þús. kr. og mun hærri t.d. í Kílarskurðinum.
    Fyrir þessi 20 mengunarslys í Reykjavíkurhöfn á síðasta ári var hins vegar ekkert greitt. Hefði hafnarstjóri beitt hámarkssekt hefðu um 800 þús. kr. runnið í sjóð til mengunarvarna. Er ekki að efa að t.d. þeir sem vinna að mengunarvörnum á vegum Siglingamálastofnunar ríkisins hefðu getað varið þeim fjármunum á skynsamlegan hátt, en þeir hafa einmitt unnið mjög gott starf á undanförnum árum. Auðvitað leysir það ekki allan vanda að sekta fyrir olíumengun í höfnum en það er gömul saga og ný að menn eru varkárari þegar þeir vita að þeir þurfa að punga út fjármunum fyrir trassaskapinn. Væru menn sektaðir eins og lögin gera ráð fyrir má þess vegna ætla að slysum vegna olíumengunar fækkaði í íslenskum höfnum. Þess vegna vona ég að Alþingi samþykki till. þessa og samgrh. kippi þessu í liðinn. Það er til lítils að setja lög og gleyma svo að setja reglugerðina.
    Raunar er ýmislegt fleira sem ástæða væri til að ráðherra hugaði að í þessu sambandi, þó ekki sé það tínt til í till. Í reglunum um varnir gegn mengun sjávar frá skipum frá 1985 eru t.d. ákvæði í 8. gr. um búnað til hreinsunar á olíuúrgangi og olíukenndri blöndu. Þar er sagt að öll ný skip 300 brl. og stærri skuli hafa viðurkenndan olíuvatnsskiljara eða olíusíubúnað og sama skuli gilda fyrir gömul skip sem eru 400 brl. eða stærri. Samkvæmt reglunum geta ný skip verið 11 -- 14 ára gömul. Þessar reglur gilda því ekki um suma minnstu togarana og fjölda báta. Ég tel eðlilegra að hér sé miðað við vélarstærð en ekki brúttólestir. Minnstu farskipin eru yfirleitt 700 brl. og reglurnar gilda þess vegna um þau eins og eðlilegt er. Vélarstærð þessara farskipa er hins vegar ekki nema rúmlega 700 kw. Bátarnir og litlu togararnir sem reglurnar ná ekki yfir hafa aftur á móti vélar sem eru kannski um 1200 kw. Hættan á því að úrgangur fari í sjóinn er meiri þegar vélarnar eru stærri. Mengunarhættan frá bátum og litlum togurum með stórar vélar er þannig meiri en af litlu farskipunum, jafnvel þótt þau síðarnefndu séu mun stærri þegar í brúttótonnum er talið.
    Ef við erum að hugsa um mengunarhættuna er þess vegna full ástæða til þess að herða reglurnar um báta og litla togara. Það er a.m.k. umhugsunarvert að stór hluti fiskveiðiflotans þarf ekki að uppfylla skilyrðin um olíuhreinsibúnað. Þessi fiskiskip geta verið að losa olíuúrgang um leið og verið er að taka inn fiskinn þannig að olían sullast yfir hann. Nú veit ég ekki nákvæmlega hversu mikið þetta spillir fiskinum en hitt þykist ég vita að fiskneytendur erlendis yrðu ekki hrifnir ef þetta bærist þeim til eyrna.
    Fleira mætti hér nefna en ég læt þetta nægja. Vegna þess að ég er sjómaður eru mér þessi mál hugleikin. Ég veit að sama gildir um marga sjómenn. Hins vegar er algengt meðal sjómanna að þeir geri grín að reglum sem ekkert er farið eftir eða þeim finnast vitlausar. Þess vegna legg ég fram þessa till. til þál. og skora jafnframt á ráðherra að hrista af sér slyðruorðið og taka duglega til hendinni í þessum málaflokki. Ég legg svo til að till. sé vísað til allshn.