Frelsi í útflutningsverslun
Fimmtudaginn 24. janúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég átti reyndar ekki von á því að í sambandi við þessa umræðu mundi koma hér ráðherra, hæstv. utanrrh., og fara bara vítt og breitt yfir sviðið, ekki aðeins í sambandi við það sem þessi till. fjallar um heldur tengja það fiskveiðistefnu og allsherjarverslunarstefnu Íslendinga á næstu árum, sérstaklega næstu mánuðum. Ég held að það hafi einmitt verið mjög gott til þess að benda á það að þessi till. er ekki tímabær. Ég tel hana ekki tímabæra við þær aðstæður sem hæstv. utanrrh. var að lýsa. Það er ekki búið að ganga frá samningum þó að von sé um það að gengið verði frá samningum um evrópskt efnahagssvæði og fyrr en að gengið verði frá slíkum samningum og jafnvel ekki þá er hægt að stíga það skref sem lagt er til í þessari till.
    Það eru margir þættir sem þarf að skoða í sambandi við verslun okkar með sjávarafurðir á næstu mánuðum og næstu árum, jafnvel þó að við gerumst aðilar að evrópsku efnahagssvæði og jafnvel þó að hlutirnir séu á þann veg sem hæstv. utanrrh. var að lýsa, að allt mundi koma með frelsinu. Staðreyndin er nefnilega sú að þeir aðilar sem við komum til með að semja við um verslun í sambandi við evrópska verslunarsvæðið eru haftapostular á ýmsa vegu, eru haftapostular á þann veg að þeir eru með ýmiss konar styrkjum að styðja sínar atvinnugreinar í beinni samkeppni við þann útflutning sem hér er verið að ræða um.
    Núna er Evrópubandalagið að leggja milljarða til þess að byggja upp fiskvinnslustöðvar í Þýskalandi og Englandi beint í samkeppni við íslenskar fiskvinnslustöðvar. Það er verið að breyta stöðunni á þann máta að þeir þarna niðri í Evrópu þurfa ekki nema að litlu leyti að hugsa um fjárfestingu í sínum fiskvinnslustöðvum á sama tíma og við þurfum að standa undir öllum okkar kostnaði. Á meðan svona staða er og það má nefna mörg önnur dæmi sem eru í gangi í Evrópu einmitt í sambandi við sjávarútveginn, er ekki eðlilegt frelsi í viðskiptum vegna ýmissa styrkja og fyrirgreiðslu sem opinberir aðilar og beinlínis Efnahagsbandalagið standa fyrir, á meðan staðan er þannig er ekki hægt að taka mál eins og þetta og segja: Við skulum gefa allt frjálst.
    Ég get tekið undir meginhlutann af því sem hæstv. utanrrh. var að segja í sambandi við þá þróun sem eðlileg er í þessum málum. En við getum ekki hlaupið í neinum hvelli, eins og þessi till. gerir ráð fyrir, í það að opna okkar viðskipti á þann veg sem hér er gert ráð fyrir. Það eru allt of margar hættur á leiðinni.
    Fleira í þessu mætti náttúrlega spjalla ýmislegt um, en ég ætla ekki að gera það, t.d. eins og með aflamiðlun. Ég get að mörgu leyti tekið undir það að það er ekki eðlilegt að hagsmunaaðilar, eins og þar standa að, annist þessa skömmtun eins og hefur verið gert á undanförnum mánuðum. Ég held að það hafi átt sér stað ýmiss konar mistök líka þegar þetta var í ráðuneytinu. Að opna þetta alveg held ég að sé ómöguleiki eins og stendur í dag.
    Ég gæti vel tekið undir það sem frsm. nefndi að það væri kannski eðlilegt í sambandi við útflutning á ferskum fiski að það væri skylda að selja allan þann fisk á íslenskum mörkuðum á undan þannig að það væri jafnræði í verði a.m.k. til að byrja með á milli þeirra aðila sem eru að kaupa fisk til vinnslu.
    Ég er svo ekki alveg viss um að það sé óskaplega mikið skref, sem er þó jákvætt, að við komumst í þá stöðu að flytja út fersk flök. Það er ekki nema skref í því sem við hljótum að stefna að í sambandi við útflutning á íslenskum sjávarafurðum, og dálítið stórt skref frá því að selja ferskan fisk eins og við gerum núna beinlínis til flökunar úti í Englandi og Þýskalandi. En það sem skiptir máli hjá okkur er að vinna þessar vörur enn þá meira, vinna þetta beinlínis í það sem hægt er að kalla á diskinn hjá viðskiptavinum okkar úti í Evrópu eða hvar sem við teljum okkur hagstæðast að hafa viðskipti.
    Ég vil sem sagt undirstrika það að ýmislegt af því sem kom fram í ræðu hæstv. utanrrh. bendir til þess að till. sem þessi sé ekki alveg tímabær og ég held að hún mætti þess vegna liggja og hljóta ekki eðlilega afgreiðslu á þessu þingi. En hún getur kannski að einhverju leyti verið til þess að benda á þau stóru vandamál sem við búum við og við okkur blasa í sambandi við samninga bæði við EB og núna í sambandi við evrópska efnahagssvæðið. Það er meira en að segja það að við fáum frelsi. Það eru ýmsir agnúar og ýmsir hryggir þar á leiðinni sem við verðum að komast yfir áður en hægt er að gefa allsherjarfrelsi í þessum viðskiptum.