Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 74 . mál.


Sþ.

76. Tillaga til þingsályktunar



um aukinn þátt bænda í landgræðslu - og skógræktarstarfi.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.



    Alþingi ályktar að skora á landbúnaðarráðherra að kanna möguleika á að auka þátt bænda í landgræðslu- og skógræktarstarfi með því að þeir taki að sér verkefni sem núna eru unnin af ríkisstofnunum og jafnframt beiti ráðherra sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum í því skyni.
    

G r e i n a r g e r ð .


     Á undanförnum árum hefur verulegur samdráttur verið í hefðbundnum búskap um allt land, sérstaklega í sauðfjárrækt, og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun eins og drög að búvörusamningi bera með sér. Áherslu þarf að leggja á að finna ný störf til að styrkja búsetu til sveita og þar kemur til greina að virkja bændur í landgræðslu- og skógræktarstarfi. Það er fátt sem mælir á móti því að bændur taki að verulegu leyti við verkefnum sem núna eru unnin af ríkisstofnunum. Þeir þekkja landið, þeir eiga nauðsynlegan tækjabúnað og þeir kunna til verka og eru þess vegna reiðubúnir til að takast á við þessi verkefni.
     Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins sjá að mestu leyti um framkvæmdir í landgræðslu og skógrækt. Þarna gæti sú breyting orðið að bændur kæmu að ræktunarstarfinu sem verktakar en stofnanir ríkisins sæju um stefnumótun og áætlanagerð og hefðu faglega umsjón með verkefnum. Starfsmenn ríkisstofnananna fengju það hlutverk að meta ástand gróðurlendanna í samráði við heimamenn á hverjum stað og gera áætlanir um úrbætur þar sem svæðum og verkefnum er raðað niður eftir forgangi. Verkefnin sjálf yrðu unnin af bændum samkvæmt samningum.
     Verði þessi breyting að veruleika vinnst margt. Í fyrsta lagi væri verið að virkja fleiri aðila en áður í landgræðslu- og gróðurbótastarfi um leið og atvinnulíf yrði styrkt um landið.
     Í öðru lagi mundi breytingin leiða til aukins skilnings á ræktunarstarfinu, sérstaklega meðal þeirra sem nýta landið.
     Í þriðja lagi yrði ræktunarstarfið markvissara og öflugra. Áhersla yrði lögð á áætlanagerð og skýrar verklýsingar og auk þess fæli þetta nýja skipulag í sér meira eftirlit með framkvæmdum og árangri einstakra aðgerða. Það fyrirkomulag, sem nú er unnið eftir, er með þeim hætti að sami aðili metur þörfina fyrir verkefni, skipuleggur aðgerðir, vinnur verkið og dæmir síðan sjálfur um árangurinn.
     Í fjórða lagi mun bein aðild bænda að ræktunarstarfinu, þar sem þeir koma að sem ábyrgir verktakar, draga úr þeirri togstreitu sem óneitanlega hefur átt sér stað á milli bænda og þeirra sem vinna að gróðurverndarmálum.
     Fátt bendir til að skógrækt geti komið í staðinn fyrir annan búskap, eins og t.d. sauðfjárrækt, þótt sú skoðun hafi þó heyrst á undanförnum árum. Skógrækt er hins vegar valkostur ef hún er skoðuð sem aukabúgrein til styrktar annarri starfsemi á bújörðum. Möguleikar skógræktar til nytja felast í því að nýta land sem ekki er til annarra nota og skapa tímabundna vinnu og tekjur sem draga úr kröfum um tekjur af annarri starfsemi á jörðinni. Áratugum síðar, þegar skógur er fullvaxinn, skapast aðrir og meiri möguleikar til skógarbúskapar. Á síðustu árum hafa bændur tekið að sér einstök verkefni á vegum Skógræktar ríkisins, t.d. plöntuframleiðslu fyrir ákveðin skógræktarverkefni. Þar hefur vel tekist til og er ekkert sem bendir til annars en að þeir gætu sinnt þessari vinnu eins vel og þær stofnanir ríkisins sem sjá um plöntuframleiðsluna. Áhugi bænda hefur aukist eins og best sést á því að bændur hafa nú ráðist í stórt skógræktarverkefni austur á Héraði.
     Eins og segir í upphafi greinargerðarinnar þarf að leggja áherslu á að finna ný störf til að styrkja búsetu til sveita í kjölfar þess samdráttar sem orðið hefur í hefðbundnum búgreinum. Það þarf þó ekki að þýða stofnun nýrra fyrirtækja. Með því að færa hluta þeirra starfa, sem í dag eru unnin á vegum ríkisins hjá Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins, yrði hér aðeins um að ræða tilfærslur.
     Ákvörðun sem þessi gæti líka haft í för með sér að um minni byggðarröskun yrði að ræða þar sem áfram er gert ráð fyrir að bændur nýti jarðir sínar.