Ferill 100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 100 . mál.


Nd.

103. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi Íslands.

Flm.: Ólafur Þ. Þórðarson, Árni Gunnarsson, Matthías Bjarnason,


Alexander Stefánsson, Kristinn Pétursson, Hreggviður Jónsson,


Geir Gunnarsson.



1. gr.


     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Fiskiskip frá Færeyjum og Grænlandi eru undanþegin ákvæðum síðari málsliðar 1. mgr. og ákvæðum 2. mgr. þessarar greinar.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .


    Tilgangur frumvarps þessa er að undanþiggja færeysk og grænlensk fiskiskip ákvæðum 66 ára gamalla laga sem banna erlendum fiskiskipum að landa afla sínum í íslenskum höfnum nema með sérstöku leyfi ráðherra.
    Mál þetta varðar þannig samskipti okkar Íslendinga við aðrar þjóðir, í þessu dæmi næstu nágranna okkar, Færeyinga og Grænlendinga. Lagt er til að fiskiskip þessara þjóða njóti jafnréttis á við íslensk fiskiskip að því er varðar löndun afla í íslenskum höfnum.
    Samskipti okkar við Færeyinga og Grænlendinga hafa stóraukist undanfarin ár en fyrir áratug voru þau næsta lítil. Algengt var fyrir örfáum árum að menn gerðu lítið úr því að við gætum haft nokkurn merkjanlegan hag af samskiptum við þessar smáþjóðir. En annað hefur komið í ljós. Þótt samanlagður íbúafjöldi þessara landa sé tæpur helmingur íbúatölu Íslands hefur komið í ljós að þar er að finna mikilvæga markaði fyrir íslenskar iðnaðarvörur, m.a. vegna þess að vinátta þessara þjóða í okkar garð er einlæg og þær velja viðskipti við okkur frekar en við aðra að öðru jöfnu. Þessi viðskipti vaxa stöðugt og má í því sambandi benda á aukinn þátt Flugleiða í að tryggja samgöngur við þessi lönd og vaxandi umsvif íslenskra verktakafyrirtækja í löndunum tveimur.
    Áframhaldandi uppbygging þessa samstarfs er eðlileg og væntanlega beggja hagur. Það er hagkvæmt bæði fyrir Grænlendinga og Færeyinga í mörgum tilvikum að landa afla sínum á Íslandi. Má þar nefna rækjuskip, loðnuskip o.s.frv. Afli þessara skipa og þjónusta við þau getur skapað aukna atvinnu í íslenskum sjávarþorpum og einhliða aðgerð af þessu tagi af okkar hálfu er til þess fallin að auka vináttuna, efla samstarfið og auka viðskiptin á öllum sviðum Íslendingum, Færeyingum og Grænlendingum til hagsbóta.