Ferill 117. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 117 . mál.


Ed.

121. Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)1. gr.


     Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem samþykktar voru af yfirstjórn sjóðsins 28. júní 1990.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


1.      Stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fyrri breytingar á henni.
    Ísland gerðist aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við stofnun hans samkvæmt lögum nr. 105/1945. Stofnskrá sjóðsins var undirrituð af Íslands hálfu 27. desember 1945, sbr. auglýsingu nr. 1/1946. Stofnskráin var fyrst birt sem samningur nr. 54 í ritinu Samningar Íslands við erlend ríki , sbr. auglýsingu nr. 17/1946 í C - deild Stjórnartíðinda .
    Með lögum nr. 82/1968 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá sjóðsins. Með þeirri breytingu var m.a. komið á mynteiningunni SDR við sjóðinn sem úthlutað er til aðildarríkja hans og myndar hluta af gjaldeyrisforða þeirra.
    Með lögum nr. 15/1977 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingu á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Breytingin á stofnskránni var umfangsmikil og staðfesti fráhvarf frá gulltengdu fastgengisfyrirkomulagi eftirstríðsáranna. Hún kvað einnig á um að hætt skyldi að nota gull í viðskiptum sjóðsins við aðildarríki sín, formi og umfangi SDR skyldi breytt, heimilt skyldi að stofnsetja sérstakt ráð (council) við sjóðinn og nokkrum skipulagsbreytingum skyldi hrint í framkvæmd. Stofnskráin, með áorðnum breytingum og viðaukum, var birt í heild sem auglýsing nr. 18/1978 í C - deild Stjórnartíðinda .

2.      Tillaga að breytingu á stofnskránni.
    Sjóðsráð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti 28. júní 1990 að breyta stofnskránni í þriðja sinn frá stofnun sjóðsins. Breytingin tekur gildi þegar þrír fimmtu hlutar aðildarríkja sjóðsins, sem til samans ráða 85% af heildaratkvæðamagni í sjóðnum, hafa samþykkt hana. Gert er ráð fyrir að breytingin taki gildi eigi síðar en í ársbyrjun 1992. Breytingin á stofnskránni er birt í heild sem fylgiskjal með þessu frumvarpi en hér verður gerð grein fyrir megintilgangi með þessari breytingu og meginefni hennar.
    Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, líkt og Alþjóðabankinn, getur gripið til þeirra ráða að svipta aðildarríki, sem brýtur gegn ákvæðum stofnskrárinnar, réttinum til að nota fjármagn sjóðsins. Bæti aðildarríkið ekki ráð sitt er heimilt að vísa því úr sjóðnum. Ólíkt bankanum getur sjóðurinn hins vegar ekki gengið skrefi skemur og svipt aðildarríki tímabundið atkvæðisrétti. Samþykkt var í júní sl. að breyta stofnskránni, eins og þegar hefur komið fram, sem felur í sér heimild í ofangreinda átt, og er leitað eftir staðfestingu aðildarríkja á henni. Meginástæða þess að talin var þörf á þessari breytingu á stofnskránni nú er sú að nokkur aðildarríki hafa ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart sjóðnum og látið hjá líða að endurgreiða lán sem þau hafa fengið úr honum. Þessar vanskilaskuldir fara vaxandi og nokkur af þessum skuldugu aðildarríkjum hafa hafnað því að eiga samstarf við sjóðinn til að leita leiða til að geta staðið í skilum. Vanskilaskuldir við sjóðinn veikja fjárhagsstöðu hans, hækka vexti af lánum til annarra aðildarríkja og gera honum erfiðara um vik að standa við skuldbindingar sínar gagnvart öðrum aðildarríkjum. Tillagan um stofnskrárbreytinguna er gerð samhliða tillögu um hækkun á kvótum sjóðsins og samkomulag er innan sjóðsins um að þær verði afgreiddar samhliða. Frumvarp til laga um heimild til ríkisstjórnarinnar til að semja um hækkun á kvóta Íslands í tengslum við níundu almennu kvótahækkun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er lagt fram á Alþingi samtímis þessu frumvarpi.
    Verður nú helstu ákvæðum þessarar stofnskrárbreytingar lýst. Samkvæmt stofnskrárbreytingunni munu ákvæði stofnskrárauka L gilda ef sjóðurinn ákveður að svipta aðildarríki tímabundið atkvæðisrétti, en til þess þarf 70% af atkvæðamagni hans,. Áhrif af tímabundinni sviptingu atkvæðisréttar, eins og þau eru tilgreind í stofnskrárauka L, eru þessi helst:
     Aðildarríkinu er óheimilt að greiða atkvæði um breytingartillögu við stofnskrána. Sömuleiðis er atkvæðamagn þess ekki talið með til heildaratkvæðamagns í sjóðnum þegar reiknað er út hvort breytingartillaga hafi hlotið tilskilinn stuðning til að skoðast samþykkt.
     Aðildarríkinu er óheimilt að tilnefna eða taka þátt í kjöri á þeim fulltrúum í stjórnkerfi sjóðsins sem fara með atkvæði aðildarríkja, þ.e. ráðsmanni og varamanni hans og sjóðstjóra (ráðgjafi og varamaður hans eru einnig nefndir ef svo kynni að fara að sérstakt ráð yrði sett á laggirnar, sbr. stofnskrárauka D). Slíkir fulltrúar verða að láta af störfum innan tiltekins tíma, þó svo að aðrar þjóðir, sem ekki hafa tímabundið verið sviptar atkvæðisrétti, hafi staðið að kjöri þeirra. Í þeirra stað skulu nýir fulltrúar kosnir án þátttöku þess aðildarríkis sem tímabundið hefur verið svipt atkvæðisrétti.
     Aðildarríkinu er óheimilt að nýta atkvæðisrétt sinn innan ráða og stjórna sjóðsins.
     Þrátt fyrir að aðildarríki hafi tímabundið verið svipt atkvæðisrétti er því engu að síður heimilt að senda fulltrúa sinn á fundi í sjóðsráðinu, ráðinu, ef það verður sett á laggirnar, og sjóðstjórninni, ef til umræðu eru mál að beiðni aðildarríkisins eða mál sem snerta það sérstaklega. Hins vegar er aðildarríkinu ekki heimilt að senda fulltrúa sinn á fundi í nefndum sem settar hafa verið á laggirnar af fyrrgreindum aðilum.
         Heimilt er með fulltingi aðildarríkja, sem ráða 70% af atkvæðamagni í sjóðnum, að upphefja tímabundna sviptingu á atkvæðisrétti.
Fylgiskjal - repró.