Ferill 132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 132 . mál.


Nd.

136. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 56 16. maí 1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Á eftir 44. gr. laganna komi nýr kafli, VI. kafli, með tólf nýjum greinum. Fyrirsögn kaflans verði Auglýsingar . Töluröð annarra kafla og greina breytist samkvæmt því.

    a. (45. gr.)
    Ákvæði laga þessara og reglugerð á grundvelli þeirra taka til hvers kyns auglýsinga hér á landi og ná m.a., eftir því sem við á, til auglýsinga í sjónvarpi, hljóðvarpi, kvikmyndahúsum, kapalkerfum, tölvum og á myndböndum, í blöðum, tímaritum, bókum og bréfum, á flugritum, miðum, umbúðum, spjöldum, skiltum og í útstillingum.

    b. (46. gr.)
    Auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi skulu vera á lýtalausri íslensku. Erlendur söngtexti má þó vera hluti auglýsingar.
     Aðrar auglýsingar skulu og vera á lýtalausri íslensku. Þegar sérstaklega stendur á má auglýsingatexti þó vera á erlendu máli, t.d. þegar auglýsingum er aðallega beint til útlendinga. Nánar má kveða á um þetta í reglugerð.

    c. (47. gr.)
    Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum, enda séu upplýsingar þessar til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum.
     Auglýsingar mega ekki vera ósanngjarnar gagnvart keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála.

    d. (48. gr.)
    Auglýsingar skulu þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða. Skulu þær skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla.
     Auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi skulu fluttar í sérstökum auglýsingatímum.

    e. (49. gr.)
    Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og sérstakrar varúðar skal gætt þegar auglýsingar höfða til barna.
     Komi börn fram í auglýsingum skal þess gætt að sýna hvorki né lýsa hættulegu atferli eða atvikum er leitt geti til þess að þau eða önnur börn komist í hættu eða geri það sem óheimilt er.

    f. (50. gr.)
    Óheimilt er að setja auglýsingar á húsveggi eða önnur mannvirki án leyfis eigenda eða annarra réttra aðila.
    g. (51. gr.)
    Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara varðandi auglýsingar í reglugerð er byggist m.a. á siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi.

    h. (52. gr.)
    Ábyrgðin á því að ákvæðin í lögum þessum og reglugerð á grundvelli þeirra séu haldin hvílir á auglýsanda, semjanda auglýsingar eða auglýsingastofu og útgefanda, eiganda fjölmiðils eða öðrum birtingaraðila.

    i. (53. gr.)
    Ráðherra skal skipa til fjögurra ára í senn fimm menn og jafnmarga varamenn í auglýsinganefnd. Formann nefndarinnar, er vera skal lögfræðingur, skipar ráðherra án tilnefningar, svo og einn mann með sérþekkingu á sviði fjölmiðlunar, en að öðru leyti skulu nefndarmenn skipaðir samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra auglýsingastofa, Verslunarráðs Íslands og Neytendasamtakanna. Sami háttur skal hafður á um skipun varamanna. Auglýsinganefnd skal tryggja að ákvæðum laga þessara sé framfylgt og hefur nefndin eftir atvikum nauðsynlegt frumkvæði í því skyni.
     Nánari ákvæði um hlutverk auglýsinganefndar, starfshætti hennar, kærurétt, upplýsingaskyldu aðila og úrræði til að knýja á um lausn mála skulu sett í reglugerð.

    j. (54. gr.)
    Brot á ákvæðum laga þessara má kæra til auglýsinganefndar, en einnig getur nefndin tekið mál upp af sjálfsdáðum.
     Verðlagsstofnun tekur við kærum til auglýsinganefndar og annast daglegan rekstur vegna starfs nefndarinnar.

    k. (55. gr.)
    Telji formaður auglýsinganefndar eða starfandi formaður hennar að auglýsing sé ekki í samræmi við ákvæði laga þessara getur hann bannað hana til bráðabirgða. Skal bannið gilda þar til auglýsinganefnd kann að hnekkja því en fellur þó niður eftir viku hafi nefndin ekki tekið afstöðu. Bannið skal vera skriflegt og rökstutt. Skal það tilkynnt auglýsanda, svo og auglýsingastofu og fjölmiðli allt eftir því sem við á. Birting auglýsingar í andstöðu við bann varðar ábyrgð.
     Á sama hátt getur auglýsinganefnd lagt bann við auglýsingu er hún telur andstæða lögum þessum. Banni nefndarinnar má fylgja ákvörðun um févíti sem komi til framkvæmda ef bannið er brotið. Hámark févítis skal vera ein milljón króna og má breyta því í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu. Févíti má innheimta með lögtaki. Verk, sem felur í sér brot á banni að viðlögðu févíti, varðar ekki refsingu eftir lögum þessum.
     Ákvörðun um bann má fella niður ef ástæða þykir til, t.d. vegna nýrra upplýsinga sem þykja skipta máli.
     Eftir atvikum má krefjast þess að auglýsandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar.
     Nefndin getur lokið máli með sátt ef ástæða þykir til.

    l. (56. gr.)
    Auglýsinganefnd getur krafist allra nauðsynlegra upplýsinga af aðilum, tengdum auglýsingum sem eru til meðferðar hjá nefndinni, svo og kvatt menn á sinn fund til munnlegrar skýrslugjafar.

2. gr.


     27. gr. laganna hljóði svo:
     Óheimilt er í atvinnustarfsemi, sem lög þessi taka til, sbr. 2. gr. og VI. kafla, að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar, enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess sem haft er á boðstólum.
     Nú eru upplýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir óhæfilegar gagnvart öðrum keppinautum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála og eiga þá ákvæði 1. mgr. við.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga einnig við um félög og samtök sem vinna að hagsmunum atvinnurekenda og neytenda.

3. gr.


    Inn í 1. mgr. 52. gr. laganna skal skotið nýjum málslið er verði 2. málsl., svohljóðandi: Auk einstaklinga má dæma fyrirtæki og aðra lögaðila í fjársektir hafi brot verið framið á þeirra vegum.
     Við 1. mgr. 52. gr. bætist nýr málsliður er verði 5. málsl., svohljóðandi: Fyrir brot á ákvæðum um auglýsingar skal því aðeins refsa að brot sé framið af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.

4. gr.


     Í stað orðanna „ 4. mgr. 45. gr.“ í 5. mgr. 53. gr. laganna standi: 4. mgr. 57. gr.

5. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. október 1991.


A t h u g a s e m d i r v i ð l a g a f r u m v a r p þ e t t a .


    Alþingi samþykkti 18. mars 1987 svohljóðandi þingsályktun um auglýsingalöggjöf:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að undirbúa heildarlöggjöf um auglýsingar.“
    Þingsályktun þessi byggðist á tillögu Steingríms J. Sigfússonar til þingsályktunar um auglýsingalöggjöf á 109. löggjafarþingi 1986 (Sþ., 84. mál) en tillögunni var breytt í meðförum þingsins.
    Í viðskiptaráðuneytinu var hafist handa við að safna m.a. lögum og reglum annars staðar á Norðurlönduum og Bretlandi, svo og reglum og drögum að reglum á vettvangi Evrópuráðsins og Efnahagsbandalags Evrópu. Að svo búnu skipaði Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra 15. mars 1988 nefnd til að undirbúa heildarlöggjöf um auglýsingar á grundvelli ályktunarinnar. Nefndina skipuðu Jón Ögmundur Þormóðsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Jón Magnússon hdl., Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, Sólveig Ólafsdóttir lögfræðingur, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra auglýsingastofa, og Þórhildur Gunnarsdóttir, verslunar - og markaðsstjóri.
    Nefndin kynnti sér lög og reglur um auglýsingar hér á landi, svo og lög og reglur erlendis, m.a. annars staðar á Norðurlöndum og breska auglýsingasamþykkt. Af alþjóðlegum samþykktum má nefna í fyrsta lagi siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi, í öðru lagi af vettvangi Evrópubandalagsins, a) tilskipun ráðs Evrópubandalagsins frá 10. september 1984 um villandi auglýsingar og b) tilskipun ráðs Evrópubandalagsins frá 3. október 1989 um sjónvarpsstarfsemi og í þriðja lagi af vettvangi Evrópuráðsins, a) ályktun Evrópuráðsins frá 23. febrúar 1984 varðandi meginreglur um sjónvarpsauglýsingar, b) ályktun Evrópuráðsins frá 7. desember 1984 um notkun gervihnatta til sjónvarps - og hljóðvarpssendinga og c) Evrópusamning frá 5. maí 1989 um sjónvarpssendingar yfir landamæri. Helstu heimildir eru birtar í viðaukum hér á eftir. Auk þess kynnti nefndin sér ýmis önnur gögn, t.d. ritið „Marknadsrättslig kontroll av reklam TV“ eftir Ulf Bernitz sem tekið hafði verið saman í tengslum við starf norrænu neytendamálanefndarinnar. Einnig ræddu nefndarmenn við ýmsa aðila, t.d. auglýsingastjóra Stöðvar 2, Bylgjunnar og Morgunblaðsins.
    Staða auglýsingamála í Vestur - Evrópu er í stuttu máli sú að samræming laga er skammt á veg komin. Tilskipun ráðs Evrópubandalagsins frá 1984 tekur einungis til villandi auglýsinga og svipar því til ákvæða verðlagslaganna hér á landi og reyndar ákvæða í skyldum lögum annarra Norðurlanda. Þau lög geyma nokkru ítarlegri ákvæði um úrræði á þessu sviði en finna má í íslensku lögunum. Þá tekur tilskipun ráðs Evrópubandalagsins frá 1989 aðeins til sjónvarpsauglýsinga. Mikilvægasta samræming reglna á þessu sviði hefur til þessa falist í siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins sem aðallega hefur verið byggt á víðast hvar á Vesturlöndum, m.a. á Norðurlöndunum. Þær reglur taka til allra auglýsinga en geyma ekki sérreglur um sjónvarpsauglýsingar. Ályktun Evrópuráðsins um notkun gervihnatta til sjónvarps - og hljóðvarpssendinga og ályktun þess varðandi meginreglur um sjónvarpsauglýsingar eru stuttorðar og geyma einungis meginreglur sem almenn samstaða er um. Evrópusamningurinn um sjónvarpssendingar yfir landamæri, sem Evrópuráðið beitti sér fyrir að gerður yrði, er talinn hafa meira vægi en ályktanir ráðsins, en þó ekki síður tilskipun ráðs Evrópubandalagsins um sjónvarpsstarfsemi sem keppir að ýmsu leyti um áhrif við hann og geymir mörg efnislega samhljóða ákvæði.
    Ýmsar lágmarkskröfur eru settar í samningnum og tilskipuninni og er þar leitast við að taka tillit til hagsmuna mismunandi landa. Þannig er á báðum stöðum lagt bann við tóbaksauglýsingum en reistar skorður við áfengisauglýsingum. Breska auglýsingasamþykktin, sem er best þekkt af reglum einstakra landa í Vestur - Evrópu, byggist á lagaheimild og telst opinber. Í bresku reglunum er vikið sérstaklega að sjónvarpsauglýsingum. Varðandi Norðurlöndin má bæta því við að dönsk auglýsing frá 1987 og finnsk tilskipun fjalla eingöngu um sjónvarpsauglýsingar og geyma ýmsar reglur þar að lútandi. Finnska tilskipunin er talin geyma eins konar siðareglur.
    Af ofangreindu má sjá að í Vestur - Evrópu er aðallega um að ræða lagaákvæði um villandi auglýsingar, setningu lagaákvæða um sjónvarpsauglýsingar á grundvelli alþjóðasamstarfs innan vébanda Evrópubandalagsins og Evrópuráðsins og sjálfviljuga beitingu siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins sem kunna svo að hafa áhrif á lög og reglur einstakra landa að meira eða minna leyti.
    Nefndin kannaði mismunandi leiðir varðandi undirbúning heildarlöggjafar um auglýsingar á Íslandi. Taldi hún ekki rétt að ganga svo langt að steypa dreifðum ákvæðum laga og reglna um auglýsingar saman í eina heildarlöggjöf, fyrst og fremst vegna þess hve ólík ákvæðin eru og um margt sérfræðileg, t.d. ákvæði lyfjalaga. Þótti réttara að viðkomandi aðilar bæru áfram ábyrgð á þeim sérsviðum sem þeim stæðu næst. Heppilegra þótti að setja í eitt frumvarp ákvæði er byggðu á hinni almennu grein verðlagslaganna um villandi auglýsingar en frumvarpið gengur þó lengra, tekur á ýmsum grundvallaratriðum öðrum, auk þess sem byggt er upp lipurt kerfi til að taka á úrlausnaratriðum. Þá var talið rétt að skapa grundvöll fyrir setningu mjög ítarlegra reglna um auglýsingar er byggðust m.a. á siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi. Þeim reglum má svo auðveldlega breyta eftir þörfum í tímans rás.
    Hugað var að því í nefndinni hvort setja ætti sérstök lög um auglýsingar en horfið var að því að hafa frumvarpið í því formi að nýjum kafla væri skotið inn í verðlagslögin.
    Ekki er útilokað að ákvæðum auglýsingakafla verðlagslaga og auglýsingareglugerðar á grundvelli laganna megi að einhverju leyti beita um auglýsingar á sérsviðum þar sem þau kunna að vera almennara eðlis og til fyllingar þeim lögum. Aðalatriðið er þó að ekki er ætlunin að láta ákvæði verðlagslaganna og reglugerðarinnar skarast við ákvæði sérlaga. Það gæti haft óheppileg áhrif, t.d. ef mismunandi aðilar kærðu ákveðna auglýsingu fyrir ólíkum úrlausnaraðilum, svo sem fyrir Jafnréttisráði á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla annars vegar og fyrir auglýsinganefnd samkvæmt verðlagslögunum hins vegar. Auglýsinganefndin mundi væntanlega vísa þeim málum frá sér sem hún teldi heyra undir Jafnréttisráð.
    Nefndin, sem samdi frumvarpið, taldi æskilegt að hafa fá ákvæði í lögum, en mæla hins vegar fyrir um setningu reglugerðar sem tæki á hinum fjölbreytilegustu hliðum auglýsingamála og auðvelt væri að laga að þörfum tímans hverju sinni.
    Markmiðið með nýjum ákvæðum í lögum og reglugerð er að stuðla enn frekar en nú er gert að heilbrigðri samkeppni á auglýsingamarkaðinum og vernda betur hagsmuni neytenda, fyrst og fremst barna. Auglýsingaákvæði annarra íslenskra laga eða reglna á grundvelli þeirra, sem jafnframt þarf að virða, byggjast ekki endilega á sömu sjónarmiðum. Sem dæmi um sérlög má nefna lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, áfengislög, lög um tóbaksvarnir, læknalög, lyfjalög, útvarpslög, almenn hegningarlög, lög um þjóðfána Íslendinga og lög um þjóðsöng Íslendinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér á eftir verður fyrst fjallað um þær greinar er verða munu, ef Alþingi samþykkir, 45. 56. gr. verðlagslaganna.

    a. (45. gr.)
    Hér er greint frá því til hvaða tegunda auglýsinga lögunum og reglugerðinni á grundvelli þeirra er ætlað að ná en upptalningin er ekki tæmandi. Byggt er á ýmsum heimildum, m.a. læknalögum og bresku auglýsingasamþykktinni.
    Ákvæðin ná til auglýsinga hér á landi og því ekki til auglýsinga í erlendum sjónvarps - eða hljóðvarpssendingum né auglýsinga í erlendum blöðum, tímaritum og öðrum prentgögnum sem berast til Íslands nema þeim sé beint sérstaklega að Íslandi og unnt sé að koma fram ábyrgð á hendur þeim sem stendur að baki útsendingunum, beint eða óbeint, t.d. íslenskum umboðsmanni fyrir erlenda vöru eða þjónustu. Í þessu sambandi má vísa til 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi, sbr. 3. mgr. 6. gr. útvarpslaga, og laga um tóbaksvarnir, svo og að því er ábyrgð varðar til dóms er gengið hefur í Finnlandi, en greint er frá honum í framangreindu riti eftir Ulf Bernitz.
    Auglýsingar eru ekki skilgreindar í frumvarpinu. Taka má fram að í 2. gr. Evrópusamningsins um sjónvarpssendingar yfir landamæri (Evrópuráðssamningsins) eru auglýsingar skilgreindar sem svo að þar sé átt við almennar tilkynningar sem ætlað er að örva sölu, kaup eða leigu vöru eða þjónustu, vinna að framgangi málstaðar eða hugmyndar eða hafa önnur áhrif sem auglýsandi sækist eftir, enda komi fyrir greiðsla eða annað endurgjald. Í inngangi siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingar er sagt að auglýsing sé notuð í víðustu merkingu sinni og nái yfir auglýsingar sem snerta varning, þjónustu og aðstöðu.

    b. (46. gr.)
    Ákvæði 1. mgr. 46. gr., um það að auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi skuli vera á lýtalausri íslensku en erlendur söngtexti megi þó vera hluti auglýsingar, eru efnislega samhljóða ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi. Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar er fjallað um það þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða dagskrárefni er sýnir atburði sem gerast í sömu andrá. Skulu auglýsingar, sem eru hluti af slíku dagskrárefni, undanþegnar íslenskuskilyrðum í reglugerðinni. Eðli málsins samkvæmt hlýtur að verða að túlka 1. mgr. 46. gr. með sama fyrirvara, sbr. þó það sem segir í athugasemd við 45. gr. um auglýsingar sem beint er sérstaklega að Íslandi.
    Í 2. mgr. 46. gr. er það einnig sett fram sem aðalregla að aðrar auglýsingar en auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi skuli vera á lýtalausri íslensku. Með undantekningarheimildinni, þess efnis að auglýsingatexti megi vera á erlendu máli þegar sérstaklega stendur á, t.d. þegar auglýsingum er aðallega beint til útlendinga, eru m.a. hafðar í huga auglýsingar í alþjóðlegum flugstöðvum, á alþjóðlegum vörusýningum og í minjagripaverslunum. Ætla má að auglýsingar í dagblöðum verði í algerum undantekningartilvikum á erlendu máli eingöngu. Oft gæti farið saman í ofangreindum auglýsingum íslenskur og erlendur texti, t.d. á veggauglýsingu í flugstöð.

    c. (47. gr.)
    Þessi grein er efnislega samhljóða 27. gr. verðlagslaganna varðandi villandi auglýsingar. Orðið keppinautur er þó nokkru víðtækara en atvinnurekandi. Auglýsingar skulu og vera í samræmi við ákvæði reglugerðar sem kunna að vera ítarlegri.

    d. (48. gr.)
    Ákvæði 1. mgr. 48. gr. þess efnis að auglýsingar skuli þannig úr garði gerðar að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða og þær skuli skýrt aðgreindar frá öðru efni fjölmiðla eru efnislega samhljóða 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi en víðtækari að því leyti að þær ná ekki einungis til auglýsinga í hljóðvarpi og sjónvarpi, sbr. 11. gr. siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins. Í 4. gr. útvarpslaganna segir aðeins að auglýsingar skuli vera skýrt afmarkaðar frá öðrum dagskrárliðum.
    Meðal þeirra tilvika, sem snert geta 1. mgr. 48. gr., má nefna að orðið fréttir eða því um líkt væri notað til að auðkenna auglýsingar, t.d. í fyrirsögn þeirra.
    Í 2. mgr. 48. gr. er það áskilið að auglýsingar í sjónvarpi og hljóðvarpi skuli fluttar í sérstökum auglýsingatímum. Þetta ákvæði er í samræmi við 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi en þar er reyndar talað um sérstaka almenna auglýsingatíma, sbr. 3. mgr. 18. gr. útvarpslaga. Í 3. gr. reglugerðarinnar segir að auglýsingatímum skuli jafnan hagað þannig að ekki leiði til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi. Virðist því ekki útilokað að auglýsingar geti tengst dagskrá að einhverju leyti.
    Tekið skal fram að í 11. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins um sjónvarpsstarfsemi er aðalreglan sú að auglýsingar skuli birtar milli dagskrárliða. Að vissum skilyrðum uppfylltum má skjóta auglýsingum inn í dagskrárliði á þann hátt að þær spilli ekki heildaráhrifum og gildi dagskrárliða enda sé tekið tillit til eðlilegra hléa í dagskrárliðum, lengdar og eðlis þeirra og réttinda rétthafa. Í 11. gr. er m.a. mælt fyrir um það að auglýsingar skuli aðeins vera í hléum í íþróttaþáttum, þröngar skorður eru settar við rofi á kvikmyndum, fréttaþáttum og barnatímum en rýmri skorður settar við rofi á t.d. léttum skemmtiþáttum. Með tilliti til aukins samstarfs Evrópuríkja er útlit fyrir að reglur og framkvæmd hér á landi verði með svipuðum hætti er fram líða stundir.
    Um kostnaðaraðild er ekki fjallað í frumvarpi þessu. Þykir eðlilegast að henni sé gefinn gaumur í tengslum við útvarpslög þar eð hún tengist fyrst og fremst gerð þátta og annars dagskrárefnis í sjónvarpi eða hljóðvarpi. Í þessu sambandi vísast til skilgreiningar í d - lið 1. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins um sjónvarpsstarfsemi og 17. gr. sömu tilskipunar, svo og skilgreiningar í g - lið 2. gr. Evrópusamningsins um sjónvarpssendingar yfir landamæri og IV. kafla samningsins (17. 18. gr.).

    e. (49. gr.)
    Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar, sem snerta börn, eiga sér fyrirmynd í 8. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi en ná hér til auglýsinga almennt eftir því sem við getur átt. Útfæra mætti þessa grein í reglugerð, eftir því sem þurfa þætti, og taka t.d. mið af 13. gr. siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi, svo og leiðbeiningum ráðsins við siðareglurnar, þ.e. nokkrum greinum sem snerta börn, m.a. 4. gr. og jafnvel 3. tölul. 3. gr. siðareglnanna um að auglýsingar skuli ekki innihalda neitt sem getur hvatt til ofbeldisverka eða stutt slíkt athæfi.
    Að því er varðar 2. mgr. 49. gr. skal hér nefnt sem dæmi að auglýsing sýni barn við stýri ökutækis eða að leik aftan við það. Svipað ákvæði er að finna í 7. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi og 12. gr. siðareglna Alþjóðaverslunarráðsins auk 4. gr. leiðbeininga ráðsins við siðareglurnar, svo og í 1. viðauka við bresku samþykktina og í d - lið 16. gr. tilskipunar ráðs Evrópubandalagsins um sjónvarpsstarfsemi.

    f. (50. gr.)
    Rétt þótti að hafa í frumvarpi þessu ákvæði um uppsetningu auglýsinga á mannvirkjum. Kann þetta ákvæði að leiða til þess að menn fái fremur leyfi eigenda eða annarra réttra aðila til að setja auglýsingaspjöld upp innan á búðarglugga eða á annan þann hátt sem veldur eigi umhverfisspjöllum.
    Æskilegt er að ábyrgðaraðila sé getið á auglýsingum þessum.

    g. (51. gr.)
    Hér er mælt fyrir um það að ráðherra setji í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi er að finna í 2. viðauka við frumvarp þetta en auk þess kann að vera unnt að leita fanga í öðrum erlendum heimildum. Hafa sumar þeirra verið nefndar í almennum inngangi athugasemdakaflans hér að framan og eru þar að auki birtar í heild í viðaukum við frumvarpið.

    h. (52. gr.)
    Í grein þessari eru tekin af tvímæli um það á hverjum sú ábyrgð hvíli að ákvæði laga og reglugerðar á grundvelli þeirra séu haldin. Nánari útfærsla á ábyrgð mismunandi aðila yrði í reglugerð og þar grundvölluð á 14. gr. siðarreglna Alþjóðaverslunarráðsins.

    i. (53. gr.)
    Hér er mælt fyrir um það að viðskiptaráðherra skipi auglýsinganefnd sem gert er ráð fyrir að gegni lykilhlutverki í að framfylgja ákvæðum verðlagslaga og reglugerðar á grundvelli þeirra að því er varðar auglýsingar. Bent skal á að sérstök siðanefnd hefur starfað hér á landi að því að framfylgja siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins og er hún skipuð þremur fulltrúum Sambands íslenskra auglýsingastofa, einum fulltrúa frá Verslunarráði Íslands og einum fulltrúa frá Neytendasamtökunum. Auglýsinganefnd á grundvelli verðlagslaganna mun þó geta nýtt sér ýmis úrræði er hin nefndin getur ekki beitt, t.d. bannað auglýsingar, og kann það að skipta máli í ýmsum tilvikum.
    Rétt þótti með hliðsjón af efni laganna og væntanlegrar reglugerðar að gera þá kröfu að formaður nefndarinnar væri lögfræðingur, svo og að aðrir nefndarmenn væru sérfróðir um öll svið auglýsinga auk fulltrúa frá Neytendasamtökunum og þá tilnefndir af viðeigandi aðilum þar sem unnt væri. Má færa rök að því að þetta skapi meira traust á nefndinni en ella væri af hálfu þeirra er hafa afskipti af auglýsingum í starfi sínu. Þetta þykir og hafa gefist vel erlendis.

    j. (54. gr.)
    Ákvæði 1. mgr. eru eigi tæmandi varðandi það hvert aðilar geti snúið sér vegna ætlaðra brota á ákvæðum verðlagslaga eða reglugerðar á grundvelli þeirra. Í athugasemd við i - lið (53. gr.) var getið nefndar þeirrar sem starfar á frjálsum grundvelli að því að framfylgja siðareglum Alþjóðaverslunarráðsins hér á landi. Þá geta menn snúið sér til dómstóla eða kært beint til refsingar til réttra aðila.
    Verðlagsstofnun, sem af opinberri hálfu hefur fengist við kærur varðandi ætluð brot á auglýsingaákvæðum verðlagslaganna, mun samkvæmt ákvæðum frumvarpsins gegna þjónustuhlutverki við auglýsinganefnd og þarfnast 2. mgr. eigi nánari skýringar.

    k. (55. gr.)
    Í þessari grein er getið úrræða þeirra er auglýsinganefnd getur beitt. Hér er fyrst og fremst um að ræða heimild til að banna auglýsingar, en sams konar heimild hefur verðlagsráð nú. Má geta þess til skýringar að ráðið bannaði nýlega að nota í auglýsingu orðið leðurlúx vegna þess að um leðurlíki var að ræða. Þetta þótti villandi. Í verðlagslögunum er einnig févítisheimild nú þannig að hér er ekki um nýmæli að ræða. Rétt þótti hins vegar að formaður auglýsinganefndar, sem vera skal lögfræðingur, og jafnframt starfandi formaður hafi heimild til að banna auglýsingu til bráðabirgða til að auglýsingaákvæðin verði sem virkust. Sé vafi á ferðinni mundi formaður eða starfandi formaður kalla auglýsinganefndina saman í stað þess að grípa til bráðabirgðabanns. Brot á bráðabirgðabanni eða banni, sem févíti er eigi lagt við, getur haft áhrif á refsingu sem beita má.
    Í 4. mgr. segir að þess megi eftir atvikum krefjast að auglýsandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar. Þetta þarfnast ekki nánari skýringar.
    Að því er varðar sátt má vísa til 43. gr. verðlagslaga til hliðsjónar.
    Tekið skal fram að ekkert mundi banna auglýsinganefnd eða formanni hennar að birta skriflegt og rökstutt bann opinberlega.

    l. (56. gr.)
    Ákvæðið um upplýsingaskyldu er svipað öðru ákvæði í verðlagslögunum. Er það nauðsynlegt til að mál verði byggð á sem traustustum grunni að mati auglýsinganefndar.

Um 2. gr.


    Hér eru gerðar nauðsynlegar breytingar á 27. gr. verðlagslaga eftir að þau ákvæði greinarinnar, er varða auglýsingar, hafa verið numin brott.

Um 3. gr.


    Rétt þykir að hafa í lögunum heimild til að dæma fyrirtæki og aðra lögaðila í fjársektir en slíkt ákvæði á sér fyrirmyndir í refsirétti.
    Ekki þykir ástæða til þess að hafa í lögunum heimild til að dæma í refsingu vegna einfalds gáleysis heldur þarf til að koma ásetningur eða stórfellt gáleysi. Önnur úrræði þykja duga gegn einföldum gáleysisbrotum, t.d. bann ef þurfa þykir.

Um 4. gr.


    Þessi grein þarfnast eigi skýringar.

Um 5. gr.


    Með gildistökuákvæðinu þykir rétt að veita svigrúm til að undirbúa framkvæmd laganna, m.a. með setningu reglugerðar.



Viðauki 1.

Ýmis lög og reglur er varða auglýsingar.


(Miðað við aldursröð laganna.)



Lög nr. 32/1933, um tilbúning og verslun með smjörlíki o.fl.


4. gr.


     Þegar vörur þær, sem um getur í 1. gr. laga þessara, eru boðnar til sölu, sýndar eða auglýstar, fluttar inn í landið eða út úr því skulu þær nefndar, eftir því sem við á, smjörlíki, ostlíki, rjómalíki eða mjólkurlíki, svo og skal geta nafns framleiðanda. Bannað er að orðin smjör, mjólk og rjómi eða nokkur orð eða myndir, sem minnt geti á landbúnaðarafurðir, séu notuð í sambandi við vörur þær, sem lög þessi fjalla um, á nokkurn annan hátt en í vöruheitunum sjálfum, svo sem þau eru skilgreind í 1. gr.

Úr 1. mgr. 10. gr.


     Landbúnaðarráðuneytið sér um að ákvæðum laga þessara sé fylgt ...

13. gr.


     Brot gegn lögum þessum varða sektum nema þyngri hegning liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál út af brotum á lögunum skal fara að hætti opinberra mála.

Lög nr. 34/1944, um þjóðfána Íslendinga.

4. mgr. 12. gr.


     Óheimilt er að nota fánann í firmamerki, vörumerki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vörum.

14. gr.


     Brot gegn 4. og 5. gr. og 1. mgr. 12. gr. varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að einu ári.
    Brot gegn öðrum ákvæðum laga þessara og gegn forsetaúrskurðum eða reglugerðum, settum samkvæmt þeim, varða sektum.
    Mál út af brotum þessum fara að hætti opinberra mála.

Lög nr. 53/1966, um vernd barna og ungmenna.

43. gr.


     Barnaverndarnefnd er skylt að hafa í umdæmi sínu eftirlit með leiksýningum og öðrum opinberum sýningum, svo og hvers konar öðrum skemmtunum. Er þeim sem veita slíkum skemmtunum forstöðu skylt að veita barnaverndarnefnd kost á því að kynna sér efni þeirra á undan almenningi. Ef barnaverndarnefnd telur skemmtun skaðlega eða óholla sálarlífi barna getur hún bannað að börn innan ákveðins aldurs fái aðgang að henni, sbr. þó um kvikmyndasýningar 5. mgr. 58. gr. Skulu þá forstöðumenn skemmtunar geta þess á sinn kostnað í auglýsingum um hana. Þegar börnum og ungmennum er bannaður aðgangur að þeim skemmtunum sem að ofan greinir, þar með taldar kvikmyndasýningar, sbr. 58. gr. þessara laga, skal miða aldur þeirra við fæðingarár en ekki fæðingardag.
    Ef forstöðumaður brýtur gegn reglum sem honum eru settar samkvæmt ákvæðum greinar þessarar varðar það sektum eða varðhaldi allt að fjórum mánuðum nema þyngri refsing liggi við að lögum.

59. gr.


     Um rannsókn og meðferð brota, sem refsing er lögð við í lögum þessum, fer að hætti opinberra mála.

Lög nr. 82/1969, áfengislög.

4. 5. mgr. 16. gr.


     Áfengisauglýsingar eru bannaðar.
    Nánari ákvæði skal setja í reglugerð.

1. mgr. 33. gr.


     Brot gegn lögum þessum eða reglum, settum samkvæmt þeim, varða sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum.

49. gr.


     Fara skal með mál út af brotum á lögum þessum og reglum að hætti opinberra mála.

Reglugerð nr. 62/1989 um bann við áfengisauglýsingum.

1. gr.


     Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar.
    Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.

2. gr.


     Með auglýsingu er í reglugerð þessari átt við hvers konar tilkynningar til almennings þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar á áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar.
    Ákvæðið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda, sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur, heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi áfengislaga og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.

3. gr.


     Undanþegið banni við áfengisauglýsingum er:
     Auglýsingar á erlendum tungumálum í erlendum prentritum, sem flutt eru til landsins, nema megintilgangur ritsins eða innflutningsins sé að auglýsa áfengi.
     Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á venjulegum búnaði til áfengisveitinga á veitingastað þar sem áfengisveitingar eru heimilar.
     Auðkenni með firmanafni og/eða firmamerki á flutningatækjum áfengisframleiðanda, vöruumbúðum, bréfsefni eða öðru sem beinlínis tengist starfsemi hans.

4. gr.


     Með brot á ákvæðum reglugerðar þessarar skal farið að hætti opinberra mála. Um refsingar fer samkvæmt áfengislögum, nr. 82/1969, með síðari breytingum.

5. gr.


     Reglugerð þessi, sem sett er skv. 5. mgr. 16. gr. áfengislaga, nr. 82 2. júlí 1969, öðlast þegar gildi.
    Jafnframt fellur úr gildi 16. gr. reglugerðar um sölu og veitingar áfengis, nr. 335 18. maí 1983.

Lög nr. 47/1971, um náttúruvernd.

19. gr.


     Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á eign þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram.
    Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar. Spjöld með leiðbeiningum fyrir vegfarendur, svo sem um leiðir, nöfn bæja, áningarstaði, þjóðgarða og friðunarsvæði, falla ekki undir ákvæði þessi.
    Náttúruverndarráð setur reglur um auglýsingar og leiðbeiningar samkvæmt þessari grein og úrskurðar vafaatriði.

37. gr.


     Brot gegn lögum þessum og reglum, er settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða varðhaldi.
    Sektir renna í ríkissjóð.
    Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 2.000 krónum, til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum, sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögunum, eða til þess að láta af atferli sem er ólögmætt.
    Menntamálaráðuneytið skal setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

Reglugerð nr. 205/1973, um náttúruvernd.

15. gr.


     Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Heimilar eru þó látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á eign þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram.
    Spjöld með leiðbeiningum um leiðir, nöfn bæja, áningarstaði, þjóðgarða og friðunarsvæði falla ekki undir ákvæði þessi.

16. gr.


     Eign telst samkvæmt reglugerð þessari hús, hlað eða hliðstæð athafnasvæði, svo og girðingar umhverfis þau.
    Þéttbýli telst í reglugerð þessari samfelld byggð sem reist hefur verið samkvæmt samþykktu eða staðfestu skipulagi.

17. gr.


     Vilji eigendur þjónustustaða koma upp leiðbeiningum fyrir ferðafólk er þeim heimilt að setja upp stöðluð merki, sem ákveðin verði í umferðarmerkjareglugerð, á þeim stöðum sem Vegagerð ríkisins, lögreglustjóri og Náttúruverndarráð samþykkja og reglur um slík merki leyfa.

18. gr.


     Náttúruverndarráð gerir tillögur til dómsmálaráðuneytisins um það hvers konar þjónustu skuli leyfa að auglýsa á þennan hátt og hvaða reglur skuli gilda hverju sinni um hvert merki.

41. gr.


     Brot á reglugerð þessari varða sektum í ríkissjóð eða varðhaldi.
    Ef aðili sinnir ekki, innan tiltekins frests, fyrirmælum sveitarstjórnar, náttúruverndarnefndar eða Náttúruverndarráðs getur lögreglustjóri ákveðið honum dagsektir, allt að 2.000 kr., þar til úr er bætt, er renni í ríkissjóð.
    Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 47/1971, um náttúruvernd, öðlast þegar gildi.

Lög nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti.
Úr V. kafla. Óréttmætir viðskiptahættir og neytendavernd.

26. gr.


     Í atvinnustarfsemi, sbr. 2. gr., er óheimilt að hafast nokkuð það að sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti, sem tíðkaðir eru í slíkri starfsemi, eða er óhæfilegt gagnvart neytendum.

27. gr.


     Óheimilt er að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum eða með öðrum hætti eða beita öðrum slíkum viðskiptaaðferðum sem sama marki eru brenndar, enda séu upplýsingar þessar og viðskiptaaðferðir til þess fallnar að hafa áhrif á eftirspurn eða framboð vara, fasteigna, þjónustu eða annars þess, sem haft er á boðstólum í atvinnustarfsemi, sem lög þessi taka til, sbr. 2. gr.
    Nú eru upplýsingar og aðrar viðskiptaaðferðir óhæfilegar gagnvart öðrum atvinnurekendum eða neytendum vegna forms þeirra eða sökum þess að skírskotað er til óviðkomandi mála og eiga þá ákvæði 1. mgr. við.
    Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga einnig við um félög og samtök sem vinna að hagsmunum atvinnurekenda og neytenda.

29. gr.


     Yfirlýsingu um ábyrgð má því aðeins gefa að ábyrgðaryfirlýsingin veiti viðtakanda betri rétt en hann hefur samkvæmt gildandi lögum.

30. gr.


     Óheimilt er að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt sem sá hefur ekki rétt til er notar eða rekur atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.

31. gr.


     Óheimilt er við framboð vara, þjónustu eða annars þess sem látið er í té og lög þessi taka til að bjóða neytendum kaupbæti eða eitthvað það sem jafna má til kaupbætis, nema verðmæti það sem í kaupbætinum felst sé óverulegt. Auglýsingar um kaupbæti, sem óheimill er samkvæmt ákvæðum 1. málsl., eru bannaðar.
    Greiðsla, sem að öllu leyti er sömu tegundar og aðalgreiðslan, telst ekki kaupbætir.

32. gr.


     Óheimilt er að bjóða neytendum annað en peninga gegn afhendingu merkis eða annars skilríkis sem afhent er við sölu vöru eða þjónustu.
    Nú veitir merki eða skilríki aðeins rétt til eftirlits, viðgerðar eða því um líks á hinu selda og eiga þá ákvæði 1. mgr. ekki við.

33. gr.


     Óheimilt er í því skyni að örva sölu á vöru, þjónustu eða öðru því sem í té er látið og lög þessi taka til að úthluta vinningum með hlutkesti, í formi verðlaunasamkeppni eða á annan hliðstæðan hátt þar sem tilviljun ræður að öllu leyti eða að hluta hver niðurstaðan verður.
    Útgefendum blaða og tímarita er þó heimilt að úthluta vinningum með hlutkesti í sambandi við lausn verðlaunasamkeppni.

36. gr.


     Útsölu eða aðra sölu, þar sem selt er á lækkuðu verði, má því aðeins auglýsa eða tilkynna að um raunverulega verðlækkun sé að ræða.
    Þess skal gætt að greinilegt sé með verðmerkingum hvert hið upprunalega verð vörunnar var.

37. gr.


     Óheimilt er að selja eða hafa á boðstólum vörur sem merktar eru sjálfar eða á miða eða umbúðir eða með tilsvarandi heitum alþjóðamerki hjúkrunar - og mannúðarstarfsemi eða öðrum hliðstæðum auðkennum, svo og að nota slík merki, auðkenni eða nöfn í heimildarleysi á auglýsingaspjöldum, auglýsingum, reikningum, vöruskrám eða öðrum verslunarskjölum.
    Við framboð vöru, þjónustu eða annars þess sem í té er látið og lög þessi taka til er óheimilt að nota í heimildarleysi íslenska ríkisskjaldarmerkið og skjaldarmerki íslenskra sveitarfélaga, svo og erlend ríkisskjaldarmerki.
    Óheimilt er að selja eða bjóða til sölu vörur af erlendum uppruna ef á þær eða umbúðir þeirra hefur verið sett mynd af íslenska fánanum, skjaldarmerki íslenska ríkisins eða öðrum hliðstæðum þjóðlegum auðkennum eða skírskotað til þeirra á annan hátt.

38. gr.


     Verðlagsráð getur bannað athafnir sem brjóta í bága við ákvæði 26. og 27. gr. Banni má fylgja ákvörðun um févíti sem kemur til framkvæmda ef bannið er brotið. Févíti má innheimta með lögtaki.

39. gr.


     Verk, sem felur í sér brot á banni að viðlögðu févíti, varðar ekki refsingu eftir lögum þessum.

40. gr.


    Bann skv. 38. gr. skal tekið til meðferðar eftir umsókn verðlagsstofnunar. Ákveði verðlagsstofnun í ákveðnu tilfelli að sækja ekki um bann getur sá gert það sem hefur á boðstólum vörur, þjónustu eða annað sem í té er látið og lög þessi taka til og málið snertir eða samtök þeirra sem það hafa, samtök neytenda og launþega.

41. gr.


     Ákvörðun um bann samkvæmt þessum kafla er því ekki til fyrirstöðu að sama mál sé tekið til meðferðar á ný þegar breyttar aðstæður eða aðrar sérstakar ástæður gefa tilefni til þess.

42. gr.


     Við sérstakar aðstæður má leggja á bann til bráðabirgða sem gildir til þess tíma er endanleg ákvörðun liggur fyrir. Endanlega ákvörðun verður að taka innan sex vikna frá því að bann til bráðabirgða var lagt á.

43. gr.


     Máli um bann við athöfn, er brýtur í bága við ákvæði 26. 27. gr., getur verðlagsstofnun lokið með sátt ef það er ekki mikilvægt.
    Sáttin felst í því að fyrir þann sem talinn er hafa unnið verk sem fellur undir 26. eða 27. gr. eru til samþykktar strax eða innan ákveðins tíma lögð fyrirmæli um bann að viðlögðu févíti við að halda verknaðinum áfram eða framkvæma annan slíkan verknað.
    Nú hefur sátt komist á og gildir hún þá sem bann samkvæmt ákvörðun verðlagsráðs skv. 38. gr. Viðurkenning, sem gerð er, eftir að sá tími er liðinn sem til þess var settur í sáttaboðinu, hefur þá ekkert gildi.

44. gr.


     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd ákvæða þessa kafla.

52. gr.


         Brot gegn lögum þessum, reglum og fyrirmælum, settum samkvæmt þeim, varða sektum. Ef miklar sakir eru eða brot ítrekað má beita varðhaldi eða fangelsi allt að fjórum árum. Heimilt er að beita sektum jafnframt refsivist eftir því sem við á skv. 49. gr. almennra hegningarlaga.
    Sá sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd þessara laga, rangar skýrslur, skal sæta refsingu skv. XV. kafla almennra hegningarlaga.
    Svipta má sökunaut rétti til að stunda starfsemi, er opinbert leyfi eða löggildingu þarf til, um tiltekinn tíma allt að fimm árum eða ævilangt.
    Upptaka eigna skv. 69. gr. almennra hegningarlaga skal og heimil.

1. mgr. 53. gr.


     Mál vegna brota á lögum þessum sæta meðferð að hætti opinberra mála. Lög nr. 7/1983, um þjóðsöng Íslendinga.

3. gr.


     Þjóðsönginn skal ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu gerð. Ekki er heimilt að nota þjóðsönginn á nokkurn hátt í viðskipta - eða auglýsingaskyni.

4. gr.


     Nú rís ágreiningur um rétta notkun þjóðsöngsins og sker þá forsætisráðherra úr.

5. gr.


     Með forsetaúrskurði skal setja nánari ákvæði um notkun þjóðsöngsins ef þörf þykir.

6. gr.


     Brot gegn ákvæðum laga þessara varða sektum eða varðhaldi. Með mál út af slíkum brotum skal farið að hætti opinberra mála.


Lög nr. 74/1984, um tóbaksvarnir.

7. gr.


7.1.          Hvers konar auglýsingar á tóbaki og reykfærum eru bannaðar hér á landi. Þetta nær þó ekki til auglýsinga í ritum sem út eru gefin utan lands af erlendum aðilum á erlendum tungumálum, enda sé megintilgangur þeirra ekki að auglýsa slíkar vörur.
7.2.          Bannað er enn fremur að sýna neyslu eða hvers konar meðferð tóbaks eða reykfæra í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu.
7.3.          Með auglýsingum er í lögum þessum m.a. átt við hvers konar tilkynningar til almennings, eftirlíkingar af tóbaksvarningi, skilti og svipaðan búnað, útstillingar og notkun tóbaksvöruheita og auðkenna.

16. gr.


16.1.      Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

17. gr.


17.1.      Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hafa eftirlit með útsölustöðum tóbaks og fylgjast með því í umdæmi sínu að virt séu ákvæði II. kafla laga þessara um merkingar, auglýsingar og sölu tóbaks.
17.2.      Nú er brotið gegn ákvæðum II.kafla og ekki farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar og getur nefndin þá beitt sömu úrræðum og talin eru upp í 27. gr. laga nr. 50/1981 (nú 109/1984, sbr. texta hér á eftir).1. og 4. mgr.

19. gr.


19.1.      Sá sem brýtur gegn ákvæðum 6. og 7. gr. skal sæta sektum en varðhaldi séu sektir miklar eða brot ítrekað.
19.4.      Um tilraun til brots eða hlutdeild gilda ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.


21. gr.


21.1.      Með mál, sem kunna að rísa vegna brota á lögum þessum og reglugerðum, settum samkvæmt þeim, skal farið að hætti opinberra mála.

Lög nr. 108/1984, lyfjalög.
VII. kafli. Auglýsing og kynning lyfja, lækningaáhalda, sjúkravarnings og lyfjagagna.

18. gr.


     Auglýsa má og kynna fullgerð lyf, sbr. 7. gr., lyfjavöru, læknis - og lækningaáhöld og lyfjagögn á íslensku í tímaritum eða blöðum lækna, lyfjafræðinga, tannlækna, dýralækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, ljósmæðra og lyfjatækna og annarra sem vinna áþekk störf, svo og nemenda í þessum greinum.
    Í lyfjaauglýsingum skal, auk þeirra atriða er getur í 1., 2., 3. og 5. tölul. 17. gr., greina helstu ábendingar (indicationes) og frábendingar (contraindicationes) er varða notkun hlutaðeigandi lyfja og pakkningastærðir. Enn fremur stærð skammta og helstu atriði önnur en notkun og hjáverkanir. Skulu framangreindar upplýsingar ætíð vera í samræmi við það sem greinir í lyfjaskrá, lyfjastöðlum, sérlyfjaskrá eða skrá um stöðluð lyf, sbr. 13. gr.

19. gr.


     Heimilt er að senda slíkar upplýsingar í pósti til fyrrgreindra einstaklinga. Heimilt er og að kynna þeim lyf og áðurtalinn varning munnlega eða á myndum, kvikmyndum eða í sjónvarpi, en þó á þann hátt að ekki sé líklegt að auglýsingin komi almenningi fyrir sjónir.

20. gr.


         Ráðherra er heimilt, að fengnum tillögum lyfjanefndar, að leyfa auglýsingu eða kynningu á lausasölulyfjum í lyfjabúðum, lyfjaútibúum, lyfjahlöðum og í sérstökum tilvikum á öðrum stöðum eða á annan hátt, enda skal texti auglýsingar eða kynningar vera í samræmi við ákvæði reglugerðar um gerð lyfseðla og afgreiðslu lyfja, svo og annarra fyrirmæla er að þessu lúta.

21. gr.


     Bannaðar eru hvers konar aðrar auglýsingar um lyf og annan þann varning sem talinn er í 18. gr.

22. gr.


     Óheimilt er að senda eða afhenda lyfjafræðingum, aðstoðarlyfjafræðingum, hjúkrunarfræðingum, sjúkraþjálfurum, ljósmæðrum og lyfjatæknum og öðrum, sem vinna áþekk störf við heilbrigðisþjónustu, lyfjasýnishorn.
    Heimilt er hins vegar að senda eða afhenda lækni, tannlækni eða dýralækni lyfjasýnishorn í minnstu pakkningu og án greiðslu, enda sé um að ræða lyf sem hér eru á markaði, sbr. 7. gr., og ekki teljast ávana - eða fíknilyf.
    Óheimilt er að senda lyfjasýnishorn á einkaheimili.

23. gr.


     Lyfjaeftirlit ríkisins gætir þess að lyfjaauglýsingar séu réttar. Getur eftirlitið bannað tilteknar auglýsingar sem gefa rangar eða ófullnægjandi upplýsingar um lyf. Eftirlitið getur og krafist þess að auglýsandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar. Lyfjaeftirlitið leitar álits lyfjanefndar eða lyfjaverðlagsnefndar í þeim tilvikum er vafi leikur á réttmæti lyfjaauglýsingar. Vefengi auglýsandi úrskurði lyfjaeftirlitsins sker landlæknir úr.

24. gr.


     Landlækni er heimilt að senda út tilkynningar um lyf, m.a. til þess að vara við hjáverkunum þeirra, sbr. 29. gr. 3. tölul. og 54. gr.

25. gr.


     Landlæknir getur bannað auglýsingar um læknis - og lækningaáhöld eða lyfjagögn, sbr. 1. mgr. 18. gr., er gefa rangar eða villandi upplýsingar. Auk þess getur hann krafist að auglýsandi sendi út leiðréttingar eða viðbótarskýringar.

26. gr.


     Heimilt er ráðherra, að fengnum tillögum Lyfjaeftirlits ríkisins og landlæknis, að kveða nánar á í reglugerð um gerð auglýsinga er um ræðir í þessum kafla. Reglugerðin skal einnig kveða nánar á um meðferð og afhendingu lyfjasýnishorna, sbr. 22. gr. Leita skal álits lyfjanefndar og lyfjaverðlagsnefndar um reglugerð þessa.

Úr 50. gr.


     Hlutverk Lyfjaeftirlits ríkisins er sem hér segir:
    ...
6.      Að hafa eftirlit með lyfjaauglýsingum og sjá til þess að kynning og dreifing lyfja sé almennt í samræmi við gildandi lög og reglur, sbr. 18. 26. gr.

1. 3. mgr. 58. gr.


     Brot á lögum þessum og reglugerðum, settum samkvæmt þeim, varða sektum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Nú er brot ítrekað eða stórfellt og skal þá refsa með varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverðar eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Lög nr. 109/1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.
(Sbr. tilvísun í 17. gr. laga nr. 74/1984, um tóbaksvarnir.)

27.1.          Til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum þessum, heilbrigðisreglugerð, mengunarvarnareglugerð, heilbrigðissamþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt þessum ákvæðum getur heilbrigðisnefnd beitt eftirfarandi aðgerðum:
                    1.      Veitt áminningu.
                    2.      Veitt áminningu og tilhlýðilegan frest til úrbóta.
                    3.      Stöðvað viðkomandi starfsemi eða notkun að öllu leyti eða að hluta til með aðstoð lögreglu ef með þarf.
27.2.          Stöðvun skal því aðeins beitt að um alvarlegri tilvik eða ítrekuð sé að ræða eða ef aðilar sinna ekki úrbótum innan tiltekins frests. Sé um slíkt brot að ræða getur heilbrigðisnefnd afturkallað starfsleyfi viðkomandi rekstrar teljist rík ástæða til.
27.3.          Þar sem innsiglun er beitt við stöðvun skulu heilbrigðisnefndir nota sérstök innsigli er auðkenni þær.
27.4.          Ef aðili sinnir ekki innan tiltekins frests fyrirmælum heilbrigðisnefndar getur hún ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Dagsektir renna í sveitarsjóð. Hámark dagsekta skal ákveðið í heilbrigðisreglugerð og mengunarvarnareglugerð.
27.5.          Ef aðili vanrækir að vinna verk sem heilbrigðisnefnd hefur fyrirskipað í samræmi við þessi lög og reglur er nefndinni heimilt að láta vinna verkið á kostnað hins vinnuskylda. Kostnaður skal til bráðabirgða greiddur úr sveitarsjóði en innheimtast síðar hjá hlutaðeigandi.
27.6.          Kostnað og dagsektir skv. 27. gr. 4. og 5. tölul. má innheimta með lögtaki.
27.7.          Sé vinna sú, sem heilbrigðisnefnd lætur framkvæma skv. 27. gr. 5. tölul. til komin vegna vanhirðu, óþrifa eða heilsuspillandi aðstæðna í húsi, á lóð eða í farartæki er kostnaður tryggður með lögveðsrétti í viðkomandi húsi, lóð eða farartæki tvö ár eftir að greiðslu er krafist.
27.8.          Heilbrigðisnefndum skal heimill aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal sýna - og myndatöku, að öllum þeim stöðum sem lög þessi, heilbrigðisreglugerð, mengunarvarnareglugerð og heilbrigðissamþykktir ná yfir og geta leitað aðstoðar lögreglu ef með þarf.
27.9.          Heilbrigðisnefndum er heimilt að gefa fyrirmæli um meðferð og notkun matvæla og annarra vara þar sem settum reglum hefur ekki verið fylgt. Nefndirnar geta lagt hald á slíkar vörur og fyrirskipað förgun þeirra teljist slíkt nauðsynlegt.
27.10.      Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að veita heilbrigðisnefndum allar nauðsynlegar upplýsingar sem krafist er vegna heilbrigðiseftirlitsins.
27.11.      Eftirlitsskyldum aðilum er skylt að afhenda heilbrigðisnefndum nauðsynleg sýni vegna heilbrigðiseftirlitsins endurgjaldslaust.

Lög nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

2. 3. mgr. 6. gr.


     Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er til kynna að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu.
    Ákvæði þetta gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni.

11. gr.


    Auglýsandi og sá sem hannar eða birtir auglýsingu skal sjá til þess að auglýsingin sé öðru kyninu ekki til minnkunar, lítilsvirðingar eða stríði gegn jafnri stöðu og jafnrétti kynjanna á nokkurn hátt.

1. mgr. 13. gr.


    Jafnréttisráð skal annast framkvæmd laga þessara.

Úr 1. mgr. 15. gr.


     Verkefni Jafnréttisráðs eru að:
1.      Sjá um að ákvæðum 2. 12. gr. laga þessara sé framfylgt.

16. gr.


     Nú telur Jafnréttisráð að ákvæði 2. 12. gr. laga þessara séu brotin og beinir þá ráðið rökstuddum tilmælum um ákveðnar úrbætur til viðkomandi aðila.

17. gr.


     Fallist viðkomandi aðili ekki á tilmæli ráðsins skv. 16. gr. er ráðinu heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti aðila í samráði við hann. Gildir það einnig þótt ekki sé um skaðabótakröfu að ræða.

18. gr.


     Sá sem af ásettu ráði eða gáleysi brýtur gegn lögum þessum er skaðabótaskyldur samkvæmt almennum reglum.

19. gr.


     Brot á lögum þessum skal varða fésektum nema þyngri refsing liggi við að lögum.
Félög, fyrirtæki og stofnanir má dæma í fésektir hafi brot á lögum þessum verið framið á þeirra vegum, þau átt þátt í því eða hagnast á brotinu.

20. gr.


     Þegar héraðsdómari fer með mál vegna brota á lögum þessum kveður hann til tvo meðdómendur.
    Kveðja skal öðrum fremur til menn sem hafa víðtæka þekkingu á jafnréttismálum og á öðrum þeim sviðum sem málið varða.

21. gr.


     Félagsmálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessara laga í reglugerð, að fengnum tillögum Jafnréttisráðs.

Lög nr. 68/1985, útvarpslög.

Úr 3. gr.


     Útvarpsréttarnefnd getur veitt sveitarfélögum og öðrum lögaðilum tímabundið leyfi til útvarps fyrir almenning á afmörkuðum svæðum.
    Slík leyfi eru háð eftirfarandi almennum skilyrðum:
...
4.      Skylt er útvarpsstöðvum að lesa tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og gera hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst.
5.      Útvarpsstöðvar bera ábyrgð á því efni, sem þær senda út, í samræmi við lög um vernd barna og ungmenna, hegningarlög eða önnur lög eftir því sem við á.


4. gr.


    Útvarpsstöðvum er heimilt að afla tekna með auglýsingum, afnotagjaldi eða sérstöku gjaldi vegna útsendingar fræðslu - og skýringarefnis. Auglýsingar skulu vera skýrt afmarkaðar frá öðrum dagskrárliðum. Gjaldskrár fyrir auglýsingar skulu háðar samþykki útvarpsréttarnefndar.

3. mgr. 6. gr.


     Dreifing þráðlaust eða um þráð á dagskrá, sem komin er til móttökustöðvar um gervihnött, er óheimil nema með samningi við viðkomandi útvarpsstöð, er dagskrána sendi, og með samþykki Póst - og símamálastofnunar. Útvarpsstöð, sem einungis dreifir efni sem móttekið er um gervihnött, er háð skilyrðum 3. og 5. gr. laga þessara eftir því sem við á. Þó eru auglýsingar, sem fylgja dagskrá um gervihnött, heimilar brjóti þær ekki í bága við íslensk lög.

8. gr.


     Heimilt er með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd 3. 7. gr.
     Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða.

1. mgr. 11. gr.


     Tekjur Menningarsjóðs útvarpsstöðva eru sérstakt gjald, menningarsjóðsgjald, sem skal vera 10% og leggjast á allar auglýsingar í útvarpi.

3. mgr. 18. gr.


    

[í kaflanum um Ríkisútvarpið]


    Útvarpsstjóri gefur út reglur um fréttaflutning og auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi, þar á meðal auglýsingatíma, að fengnu samþykki útvarpsráðs.

2. og 5. mgr. 22. gr.


     Megintekjustofnar Ríkisútvarpsins eru gjöld fyrir útvarpsafnot, gjöld fyrir auglýsingar í hljóðvarpi og sjónvarpi, aðflutningsgjöld af hljóðvarps - og sjónvarpstækjum og hlutum í þau og aðrir tekjustofnar sem Alþingi kann að ákveða.
...
    Útvarpsstjóri staðfestir auglýsingataxta og aðrar gjaldskrár eftir tillögu framkvæmdastjóra fjármáladeildar.

Úr 35. gr.


     Ef útsending á útvarpsefni brýtur í bága við lög fer um refsi - og fébótaábyrgð svo sem hér segir:
...
    Auglýsandi ber ábyrgð á auglýsingu.

36. gr.


     Engan skal dæma til ábyrgðar vegna útsendingar á útvarpsefni né fyrir hlutdeild í útsendingu annan en þann sem ábyrgð ber eftir ákvæðum 35. gr.
    Skylt er útvarpsstöð að veita hverjum þeim sem telur rétti sínum hafa verið hallað með útsendingu á útvarpsefni fullnægjandi upplýsingar um hver hafi borið ábyrgð á útsendingunni samkvæmt ákvæðum 35. gr.
    Um rétt til málssóknar út af brotum í sambandi við útsendingu útvarpsefnis fer eftir almennum reglum laga. Refsiábyrgð og fébótaskylda falla niður ef sex mánuðir líða frá útsendingu án þess að einkamál sé höfðað, krafa hafi verið borin fram um opinbera málssókn, þegar það á við, eða hafin sé opinber réttarrannsókn út af broti ef það á að sæta skilyrðislausri opinberri saksókn.

37. gr.


     Óheimil hagnýting útvarpsefnis skv. 33. gr. varðar sektum. Beita má varðhaldsrefsingu ef sök er stórfelld. Upptæk má gera viðtæki sem notuð hafa verið til hagnýtingar á útvarpsefni í fjárgróðaskyni, sbr. 33. gr.
    Vanræksla á tilkynningum skv. 25. gr. varðar sektum.
    Um önnur brot á lögum þessum fer eftir ákvæðum almennra hegningarlaga.

38. gr.


     Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna í heild eða einstakra kafla þeirra. Ákveða má í reglugerð að brot gegn ákvæðum hennar varði refsingu samkvæmt lögum.

Reglur frá 1. nóvember 1983 um flutning auglýsinga í útvarpi og sjónvarpi [með breytingu á 8. gr. 2. mars 1990].

1. gr.


     Ríkisútvarpið tekur auglýsingar til flutnings með eftirtöldum skilyrðum:
     Þess skal gætt að þær séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar en segi það eitt sem er satt og rétt í öllum greinum.
     Að þær brjóti ekki í bága við íslensk lög, svo sem almenn hegningarlög, útvarpslög, lög um lækningaleyfi o.fl., lyfsölulög, áfengislög eða lög um óréttmæta viðskiptahætti.
     Að þær brjóti ekki í bága við smekk og velsæmi.
     Að enginn vafi leiki á því í augum og eyrum hlustenda að um auglýsingu sé að ræða.

2. gr.


     Auglýsingar skulu aðeins fluttar á tilteknum nánar ákveðnum tímum. Þær skulu ætíð aðgreindar frá öðru óskyldu dagskrárefni.
    Á öðrum tímum er eingöngu heimilt að flytja tilkynningar frá Ríkisútvarpinu, svo og aðvaranir eða neyðartilkynningar.
    Við ákvörðun um lengd og fjölda auglýsingatíma skal ætíð hafa í huga að meginhlutverk Ríkisútvarpsins er á sviði upplýsinga, menntunar og skemmtunar.

3. gr.


     1. Ráðherra ákveður gjald fyrir auglýsingar, að fengnum tillögum útvarpsstjóra. Heimilt er að ákveða mismunandi gjald fyrir hina ýmsu auglýsingatíma.
Útvarpsstjóri setur reglur um greiðslu auglýsinga.
    2. Auglýsandi eða umboðsaðili hans ber fulla ábyrgð á pöntunum og greiðslu auglýsinga fyrir umbjóðendur sína.

4. gr.


     Auglýsandi ber fulla ábyrgð á efni auglýsingar.
    Auglýsandi eða umboðsaðili hans skilar auglýsingu mynd - og/eða hljóðritaðri og tilbúinni til flutnings. Ríkisútvarpið setur nánari reglur um tæknileg atriði og hafnar auglýsingu sem það telur tæknilega ófullnægjandi.
    Falli birting auglýsingar niður eða komi fram galli í útsendingu, sem rekja má til mistaka eða tæknilegra örðugleika hjá Ríkisútvarpinu, skal það bætt með: a) aukabirtingu án endurgjalds, b) niðurfellingu gjalds í þeim tilvikum sem endurbirtingu verður ekki við komið.
    Auglýsandi ber allan kostnað af gerð auglýsingar og flutningi hennar, þar á meðal greiðslum vegna höfundaréttar eða flytjendaréttar tóna eða talaðs máls og birtingarréttar kyrr - eða kvikmynda.

5. gr.


     Ríkisútvarpið áskilur sér rétt til þess að takmarka lengd auglýsinga. Hafna skal auglýsingu ef á henni eru eftirtaldir annmarkar:
     Ef vafi leikur á hvort telja beri auglýsingu til dagskrárefnis eða auglýsingar.
     Ef auglýsing (eða heiti auglýsanda) er mengað ádeilu eða hlutsamri umsögn um einstaka menn, stofnanir, félagsheildir, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokka.
     Ef í auglýsingu felst ósanngjarn samanburður við aðra vöru eða þjónustu.
     Ef tal eða texti auglýsingar er ekki á réttu íslensku máli.
     Ef auglýsing er eingöngu á erlendu máli.
     Ef auglýsing er fallin til að vekja ótta.
     Ef auglýsing hvetur til ofbeldis.
     Ef auglýst er áfengi eða tóbak.
     Ef auglýsing fjallar um peningalán annarra en innlánsstofnana.
     Ef auglýsa á hjónabandsmiðlun, hvers konar spádóma eða dulrænar lækningar.
     Ef ætla má að auglýsing hafi önnur áhrif á áhorfendur en verða þeim þegar ljós. Forðast skal óhóflega há eða snögg hljóð.

6. gr.


     Auglýsingaskrifstofu Ríkisútvarpsins er heimilt að gera breytingar á texta auglýsingar, ef nauðsynlegar eru, til þess að hún samrýmist þessum reglum, enda skulu breytingarnar gerðar í samráði við auglýsanda. Ef ekki næst til auglýsanda skal auglýsingu skotið á frest eða hún felld niður fremur en að efni hennar sé verulega raskað eða gildi hennar rýrt án samþykkis hans.

7. gr.


     Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim. Ekki má í auglýsingum notfæra sér vanþroska eða trúgirni barna eða vekja hjá þeim þá trú að þeim sé eitt eða annað nauðsynlegt af annarlegum ástæðum, svo sem samanburði við önnur börn eða vegna útlits.

8. gr.


     Auglýsingar fyrir hvers konar almennar kosningar skulu í einu og öllu fullnægja skilyrðum 2. gr., 5. tölul., og 4. gr. reglugerðar um auglýsingar í útvarpi nr. 611/1989.
    Auglýsingar frá stjórnmálaflokkum og öðrum þeim sem að framboði standa skulu falla innan þess tíma sem í almennri dagskrá er ætlaður til auglýsinga. Lengd þessara auglýsinga skal vera sambærileg við aðrar auglýsingar og óheimilt er að veita einum framboðsaðila afnot af heilum auglýsingatíma.
    Magn auglýsinga frá einum samtökum í framboði má ekki verða til þess að hindra birtingu auglýsinga annarra framboðsaðila. Áskilur Ríkisútvarpið sér rétt til niðurröðunar þeirra og að panta þurfi þær með ákveðnum fyrirvara. Um ágreiningsatriði skal farið að ákvæðum 10. gr.
    Á kjördag mega auglýsingar frá samtökum, sem að framboði standa, aðeins fjalla um skrifstofur, heiti skrifstofa, stað og símanúmer og leiðbeiningar til kjósenda um kosningu og kjörstaði.

9. gr.


     Ríkisútvarpið ákveður röð auglýsinga í hverjum auglýsingatíma. Sé um samfellda röð kyrrmynda í sjónvarpi að ræða skal samanlagður birtingartími lagður til grundvallar um birtingarverð.
    Auglýsingar skulu berast sjónvarpi og Rás 2 eigi síðar en viku áður en þær eiga að birtast. Heimilt er að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Auglýsendum er heimilt að leggja handrit að auglýsingum eða sýnishorn fyrir auglýsingadeildir Ríkisútvarpsins. Skal þá, svo fljótt sem unnt er, fella bráðabirgðaúrskurð um hvort auglýsingin verður flutt. Reynist endanleg gerð auglýsingar önnur en ætlað varð af handriti eða sýnishorni má breyta þeim úrskurði.
    Heimilt er að afturkalla auglýsingu án aukakostnaðar ef um slíkt er tilkynnt a.m.k. viku fyrir pantaðan birtingardag. Ella er Ríkisútvarpinu heimilt að innheimta 10% af birtingargjaldi og fullt birtingargjald ef auglýsing er afturkölluð innan tveggja sólarhringa fyrir pantaðan birtingardag.

10. gr.


     Ef vafi leikur á hvernig með auglýsingu skuli fara samkvæmt reglum þessum skal bera auglýsinguna undir útvarpsstjóra. Heimilt er útvarpsstjóra að skjóta vafaatriðum undir úrskurð útvarpsráðs. Leiki vafi á um óhlutdrægni sker útvarpsráð úr.

11. gr.


     Ákvæði 4. gr. um ábyrgð auglýsanda skulu jafnan vera hluti af samningi þeirra og Ríkisútvarpsins um birtingu auglýsingar.

12. gr.


     Ekkert ákvæði í reglum þessum verður skýrt svo að það feli í sér skyldu til birtingar á auglýsingu í Ríkisútvarpinu. Ef óskað er birtingar á meira auglýsingaefni en svo að unnt sé að birta það á þeim tíma, sem ætlaður er til auglýsinga, eða birting auglýsingar er talin óæskileg af öðrum orsökum en þeim sem taldar eru í þessum reglum úrskurðar útvarpsstjóri um ágreining, en þeim úrskurði má skjóta til útvarpsráðs. Ríkisútvarpið greiðir ekki bætur vegna tjóns af því að auglýsing birtist ekki.

Reglugerð nr. 611/1989 22. desember um auglýsingar í útvarpi.

1. gr.


     Auglýsingar, skulu vera skýrt afmarkaðar frá öðru dagskrárefni útvarps, hljóðvarps eða sjónvarps, þannig að ekki leiki vafi á að um auglýsingar sé að ræða og skulu þær fluttar í sérstökum almennum auglýsingatímum.
    Óheimilt er að birta auglýsingar með þeim hætti að sýna firmamerki eða vörumerki sem innfellda mynd í útsendri sjónvarpsdagskrá.

2. gr.


     Auglýsingar sem ætlaðar eru til flutnings í útvarpi, hljóðvarpi eða sjónvarpi, skulu fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
     Auglýsingar skulu vera á lýtalausu íslensku máli. Heimilt er þó að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar.
     Auglýsingar skulu ekki brjóta í bága við almennt velsæmi.
     Auglýsingar mega ekki brjóta í bága við íslensk lög, svo sem almenn hegningarlög, útvarpslög, lög um lækningaleyfi, lyfsölulög, áfengislög, lög um tóbaksvarnir, lög um óréttmæta viðskiptahætti og lög um jafnrétti kynjanna.
     Þess skal gætt að auglýsingar séu látlaust orðaðar, lausar við skrum og hæpnar fullyrðingar en segi það eitt sem er satt og rétt.
     Auglýsing skal ekki fela í sér ádeilu og hlutdræga umsögn um einstaka menn, stofnanir, félög, félagssamtök, stefnur í almennum málum eða stjórnmálaflokka.
     Í auglýsingum má ekki felast ósanngjarn samanburður við aðra vöru eða þjónustu.
     Auglýsingar skulu ekki sýna eða lýsa á neinn hátt hættulegu atferli eða atvikum þar sem öryggis er ekki gætt, nema sérstök ástæða sé til í menntunarlegum eða félagslegum tilgangi, svo sem auglýsingar vegna slysavarna eða tóbaksvarna. Varúð skal sérstaklega viðhöfð í auglýsingum sem höfða til barna eða unglinga eða sýna slíka aldursflokka.
     Auglýsingar skulu miðast við að börn sjái þær og heyri og mega þær á engan hátt misbjóða þeim. Ekki má í auglýsingum notfæra sér trúgirni og reynsluleysi barna eða vekja hjá þeim þá trú að þeim sé eitt eða annað nauðsynlegt, svo sem vegna samanburðar við önnur börn eða vegna útlits. Auglýsingar, sem beint er til barna eða eru líklegar til að hafa áhrif á börn, skulu ekki geyma staðhæfingar eða myndir sem gætu skaðað þau geðrænt eða siðferðilega.
     Auglýsing má ekki vera til þess fallin að vekja ótta.
     Auglýsing má ekki hvetja til ofbeldis.
     Hafna ber auglýsingu ef gerð hennar hefur miðast við að hún hefði önnur áhrif á áhorfendur en verða mega þeim ljós.
    Þegar dreift er viðstöðulaust um gervihnött og móttökustöð fréttum eða dagskrárefni, er sýnir atburði sem gerast í sömu andrá, skulu auglýsingar, sem eru hluti af slíku dagskrárefni, undanþegnar ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. þessarar greinar.

3. gr.


     Auglýsingatímum skal jafnan hagað þannig að ekki leiði til afbökunar á dagskrárefni eða verulegrar röskunar á samfelldum flutningi.

4. gr.


     Gæta skal þess að auglýsingar séu lausar við ótilhlýðilegan áróður eða árásir.

5. gr.


     Auglýsandi ber fulla ábyrgð á efni auglýsingar. Hann skal bera allan kostnað af gerð auglýsingar og flutningi hennar, þar á meðal greiðslum vegna höfundaréttar eða flytjendaréttar tóna eða talaðs máls og birtingarréttar kyrr - og kvikmynda.

6. gr.


     Heimilt er að ákveða mismunandi gjald fyrir hina ýmsu auglýsingatíma.
     Á allar auglýsingar í útvarpi skal leggjast sérstakt gjald, menningarsjóðsgjald, sem skal vera 10% og rennur það til Menningarsjóðs útvarpsstöðva.

7. gr.


     Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins setur nánari reglur um auglýsingar í Ríkisútvarpinu.
     Aðrir aðilar, sem fengið hafa leyfi til útvarps, geta sett nánari reglur um auglýsingar í sínum útvarpsstöðvum.
    Reglur, sem settar eru skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, mega ekki ganga gegn ákvæðum þessarar reglugerðar.

8. gr.


     Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu lögum samkvæmt.

9. gr.


     Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 8. gr. og 38. gr. útvarpslaga nr. 68/1985 og kemur í stað reglugerða nr. 512/1986, nr. 608/1987, nr. 496/1988 og nr. 550/1988. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Lög nr. 86/1985, um viðskiptabanka.

2. mgr. 4. gr.


    Viðskiptabönkum er skylt og einum heimilt, nema lög ákveði annað, að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið banki eitt sér eða samtengt öðrum orðum.

Úr athugasemdum við 2. mgr. 4. gr.


    Jafnframt er í 2. mgr. lagt til að viðskiptabönkum einum sé rétt og skylt að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðið banki. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að aðrir aðilar, einkum þeir er reka starfsemi sem er hliðstæð viðskiptabankastarfsemi, villi á sér heimildir. Ýmis fyrirtæki, sem bera heiti er felur í sér orðið banki, eru skráð í firmaskrá. Því þykir ekki fært að kveða svo á í frumvarpinu að þeir sem þegar nota orðið banki í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni skuli leggja það niður. Það er og ljóst að þau fyrirtæki, sem bera þessi firmaheiti, reka starfsemi sem lítil hætta er á að almenningur rugli saman við bankastarfsemi. Lög nr. 34/1986, um fasteigna - og skipasölu.

1. málsl. 8. gr.


     Fasteignasali skal í hvívetna leysa af hendi störf sín svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða.

10. gr.


     Nú hefur fasteignasali fengið eign til sölumeðferðar eða leitað er liðsinnis hans til að gera tilboð í eign. Skal hann þá semja rækilegt yfirlit yfir öll grundvallaratriði, sem máli skipta fyrir aðila, til þess að gera sér glögga hugmynd um verð eignarinnar. Yfirlit þetta skal geyma eftirfarandi upplýsingar og atriði svo sem kostur er:
     Upplýsingar um söluverð eignar, ef það er ákveðið, og hverjir eru söluskilmálar, þar á meðal um þann hluta söluverðs sem staðgreiða á og hversu haga eigi öðrum greiðslum og hversu þær eigi að vera tryggðar.
     Glöggar upplýsingar og gögn um stærð húss og lóðar, fyrirkomulag innan húss, byggingarlag og byggingarefni húss, aldur þess og endurbyggingar eða viðbyggingar, ef því er að skipta, ástand húss, þar á meðal um galla, sem kunnir eru á því, hversu upphitun sé háttað og hversu hús sé glerjað, staðsetningu og atriði sem máli skipta vegna byggingar - og skipulagslaga. Einnig skal greina ástand lóðar. Teikning af húsi skal vera fyrir hendi, ef kostur er, og að jafnaði ljósmyndir af því ef eigi er unnt að skoða það eða vitað er að skoðun muni ekki fara fram. Ef um sameign er að ræða skal greina glögglega eignarhlutdeild í húsi og lóð, svo og um óskipta sameign.
     Upplýsingar um matsverð eignar samkvæmt fasteignamati og brunabótamati, svo og önnur matsgögn ef til eru.
     Nú er seld fasteign eða skip í smíðum og skal þá gera nákvæma grein fyrir því á hvaða stigi smíðin er þegar kaupandi á að taka við eigninni og hversu staða aðilanna verði tryggð.
     Grein skal gerð fyrir veðskuldum og öðrum eignarhöftum sem kunna að hvíla á eigninni, stutt vottorði úr þinglýsingabókum. Greina ber hvers eðlis eignarhöftin eru, þar á meðal kvaðir sem á eign kunna að hvíla. Greina skal glögglega um eftirstöðvar veðskulda sem hvíla eiga á eign og kaupandi tekur að sér að greiða, afborganir af þeim og vexti, hvort skuld sé verðtrygggð, hvenær henni eigi að vera lokið og hverjar eftirstöðvar hennar eru að viðbættri verðtryggingu. Þá skal greina kostnað við samningsgerð, þinglýsingu og stimplun skjala og í hvors hlut komi.
     Upplýsingar eftir föngum um tekjumöguleika af eigninni, einkum þegar um atvinnuhúsnæði (jörð) er að ræða eða skip er gera skal út, svo og um heildarútgjöld sem ætla má að stafi af eign.
    Hliðstæðar upplýsingar skulu greindar um skip eftir því sem við á.

11. gr.


     Yfirlit það, sem greinir í 10. gr., skal vera svo rækilegt og traust að það ásamt skoðun á eign, sem fram skal fara ef kostur er og vanda skal til, sé sem tryggastur grundvöllur undir mati á verðmæti eignarinnar og á arðsemi hennar.
    Ráðuneytið getur mælt svo fyrir í reglugerð að upplýsingar um eignir séu greindar á stöðluðum eyðublöðum og kveðið nánar á í reglugerð um þær upplýsingar sem greina skal, þar á meðal sérstaklega varðandi skip.

2. og 3. málsl. 1. mgr. 12. gr.


    Enn fremur skulu þeir sem annast fasteignaviðskipti samkvæmt framansögðu geta nafns síns í auglýsingum um eignir þessar. Nafngreining skal vera persónuleg samkvæmt þessari málsgrein.

2. mgr. 20. gr.


     Brot gegn lögum þessum og reglum, settum samkvæmt þeim, varða sektum nema þyngri hegning liggi við skv. öðrum lögum.


Lög nr. 53/1988, læknalög.

17. gr.


     Lækni er einungis heimilt að auglýsa læknastarfsemi sína með efnislegum og látlausum auglýsingum í blöðum sem birta má í hæsta lagi þrisvar þegar hann hefur störf eða breyting verður á aðsetri eða viðtalstíma. Lækni er heimilt að auðkenna sig með nafni, sérgrein, aðsetri, síma og viðtalstíma á dyraspjöldum, nafnspjöldum og lyfseðlum.

22. gr.


     Hvers konar skottulækningar eru bannaðar hér á landi.
    Það eru skottulækningar er sá sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögum þessum býðst til þess að taka sjúklinga til lækninga, gerir sér lækningar að atvinnu, auglýsir sig eða kallar sig lækni, ráðleggur mönnum og afhendir þeim lyf sem lyfsalar mega einir selja.

23. gr.


     Um lyfja - og lækningaáhaldaauglýsingar fer skv. VII. kafla lyfjalaga, nr. 108/1984. Auglýsingar um lækningamátt drykkja, matvæla, neyslu - og nauðsynjavara og annars eru bannaðar.
    Bannaðar eru auglýsingar um sjúkrahús og hvers konar heilbrigðisstofnanir fram yfir nafn og stað.
    Auglýsingar um lyf, lækningaáhöld, sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir eru þó leyfðar í blöðum og tímaritum sem gefin eru út fyrir heilbrigðisstéttir.

24. gr.


     Lækni, sem ekki hefur til þess leyfi, er óheimilt að kalla sig, auglýsa sig eða gefa á annan hátt í skyn að hann sé sérfræðingur og gildir hið sama um sérfræðing ef hann gefur í skyn að hann sé sérfræðingur í annarri grein en þeirri sem hann hefur sérfræðingsleyfi í ...

30. gr.


     Brot gegn ákvæðum laga þessara varða auk sviptingar lækningaleyfis, sbr. 27. og 28. gr., sektum, varðhaldi eða fangelsi.
    Sé um að ræða brot af ásetningi eða vítaverðu gáleysi skal refsa með fangelsi og/eða sektum. Fyrir minni háttar brot skal refsa með sektum, en með varðhaldi og/eða sektum hafi viðkomandi sætt áminningu landlæknis áður.
    Sé um ítrekuð brot að ræða skal dæma í fangelsi og/eða sektir.

31. gr.


    Með brot gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.



Viðauki 2.

Siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi.


(Úr bæklingi, útgefnum af Sambandi íslenskra auglýsingastofa 1985.)



Inngangur.

Í bæklingi þessum eru birtar siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins (International Chamber of Commerce) ...

Siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi voru fyrst birtar árið 1937 og hafa síðan verið rækilega endurskoðaðar með vissu millibili. Þær reglur, sem hér birtast, eru frá árinu 1973 ásamt viðbót um auglýsingar og börn frá 1984.

Siðareglurnar eru aðallega ætlaðar auglýsingaaðilum sem sjálfir vilja beita viðteknum reglum um starfsemi sína og eru þær lagðar til grundvallar í starfsemi yfir 200 stofnana í um það bil 30 löndum. Siðareglunum er einnig ætlað að vera til viðmiðunar fyrir dómstóla við lögskýringar í einstökum löndum.

Reglurnar fjalla um alla auglýsingastarfsemi hvort sem um er að ræða vörur, þjónustu eða aðstöðu. Hins vegar falla kynningarmál og markaðsrannsóknir undir aðrar reglur Alþjóðaverslunarráðsins. Reglurnar eiga að vera grundvallarmælikvarði fyrir alla aðila, sem starfa á sviði auglýsinga, jafnt auglýsendur, auglýsingastofur og fjölmiðla. Þar sem reglurnar hvetja einkum til sjálfsaga skulu landssamtök með slíkt markmið nota þær í starfi sínu. Á víðara grundvelli skal reglunum beitt af markaðsmáladeild Alþjóðaverslunarráðsins eftir því sem þörf gerist.

Við túlkun reglnanna skal tekið mið af tilgangi þeirra eigi síður en bókstaf. Vegna þess að mismunandi auglýsingaaðferðir (í blöðum, sjónvarpi, útvarpi, utan dyra, í kvikmyndahúsum o.s.frv.) eru ólíkar í eðli sínu kann svo að fara að sama auglýsing hljóti samþykki hjá einum slíkum aðila en ekki hjá öðrum.

Auglýsingar skal meta eftir því hvaða áhrif þær eru líklegar til að hafa á neytendur með það í huga að neytendur líta yfirleitt einungis lauslega á auglýsingar er ber fyrir augu þeirra.

Reglurnar ná til alls innihalds í auglýsingum og teljast þar með orð og tölur (í ræðu og riti), myndir, notkun á tónlist og öðrum hljóðáhrifum.
Í siðareglunum er orðið auglýsing notað í víðustu merkingu sinni og nær yfir auglýsingar sem snerta varning, þjónustu og aðstöðu, án tillits til þess hvar auglýsingin birtist. Meðtaldar eru auglýsingar utan á umbúðum, á áfestum miðum o.s.frv. Orðið söluvara (product) nær yfir þjónustu og aðstöðu. Orðið neytandi nær yfir alla einstaklinga, sem auglýsingunni er beint til, og einnig yfir þá sem verða varir við auglýsinguna yfirleitt hvort sem það eru dreifingaraðilar eða endanlegir notendur.

Grundvallarhugmyndir siðareglnanna eru að allar auglýsingar skulu vera löglegar, siðlegar, heiðarlegar og segja sannleikann. Auglýsing skal samin með tilliti til félagslegrar ábyrgðar og þess gætt að viðteknum hefðum um sanngirni í samkeppni sé fylgt.


Siðareglur um auglýsingar.

1. gr.      Velsæmi.
                    Auglýsingar skulu ekki innihalda boðskap, í orðum eða myndum, sem brýtur gegn almennri velsæmiskennd.

2. gr.      Heiðarleiki.
                    Auglýsingar skal semja þannig að traust neytandans, takmörkuð reynsla hans eða þekking sé ekki misnotuð.

3. gr.      1.      Auglýsingar skulu ekki að ástæðulausu höfða til ótta fólks.
                    2.      Auglýsingar skulu ekki höfða til hjátrúar.
                    3.      Auglýsingar skulu ekki innihalda neitt sem getur hvatt til ofbeldisverka eða stutt slíkt athæfi.

4. gr. Sannleiksgildi.
                    1.       Auglýsingar skulu ekki innihalda staðhæfingar eða myndir sem líklegar eru til að villa um fyrir neytandanum, beint eða óbeint, með því að gefa eitthvað í skyn, halda eftir nauðsynlegum upplýsingum eða með því að nota tvíræða framsetningu eða ýkjur. Þetta snertir einkum:

                         a.      Eðli söluvarnings, samsetningu hans, framleiðsluaðferð og framleiðslutíma, notagildi miðað við tilgang, notkunarsvið, magn, nafn upprunalegs framleiðanda og framleiðsluland.
                         b.      Verð vörunnar og heildarkostnað við afhendingu.
                         c.      Sérstaka söluskilmála, svo sem kaupleigusamninga og reikningsviðskipti (sjá viðauka).
                         d.      Afhendingarskilmála, skipti á varningi, endursendingu og viðgerðar - og viðhaldsþjónustu.
                        e.      Ábyrgðarskilmála (sjá viðauka).
                        f.      Útgáfurétt og réttindi iðnaðaraðila, svo sem einkaleyfi, vörumerki, hönnunaraðferðir og módel og vörunöfn framleiðenda.
                         g.      Opinbera viðurkenningu eða gæðastimpil, einnig verðlaun af margvíslegu tagi.

                   2.      Í auglýsingum skal ekki misnota niðurstöður rannsókna né heldur tilvitnanir í tæknileg eða vísindaleg rit. Tölfræðilegar upplýsingar skulu ekki notaðar þannig að þær gefi í skyn annað en það sem er sannleikanum samkvæmt. Ekki skal nota tækniorð á villandi hátt. Ekki skal nota óþarfa fræðiorð til að gefa í skyn að auglýstir eiginleikar séu vísindalega staðfestir ef svo er ekki.

5. gr.      Samanburður.
                    Ef samanburður er notaður í auglýsingum skal þess gætt að samanburðurinn sjálfur sé ekki villandi og að hann brjóti ekki gegn grundvallarreglum um sanngirni í samkeppni. Samanburðaratriði skulu byggð á staðreyndum sem ganga má úr skugga um og slík atriði skulu valin sanngjarnlega.

6. gr.      Vitnisburður.
                    Auglýsingar skulu ekki innihalda vitnisburð eða meðmæli, nema slík umsögn sé raunverulega fyrir hendi og reynsla vitnisburðargjafa málinu skyld. Ekki skal nota í auglýsingum úreltan vitnisburð eða meðmæli né heldur slíkan stuðning ef hann er fallinn úr gildi af öðrum ástæðum.

7. gr.      Last.
                    Í auglýsingum skal ekki hallmæla neinu fyrirtæki eða samkeppnisvöru hvorki beint né með því að gefa ókosti í skyn. Gildir þetta jafnt um fyrirlitningu, skop og önnur brögð í sama tilgangi.

8. gr.      Verndun einkalífs.
                    Í auglýsingum skal ekki sýna eða minnast á einstaklinga hvort sem þeir starfa á eigin eða opinberu sviði, nema áður fengin heimild sé fyrir hendi. Ekki skal í auglýsingum heldur sýna eða minnast á eignir fólks á neinn hátt, sem túlka mætti sem meðmæli eigandans, nema að fengnu samþykki hans.

9. gr.      Misnotkun á velvild.
                    1.      Í auglýsingum skal ekki nota nafn eða upphafsstafi neins fyrirtækis eða stofnunar, nema ástæða sé til og heimild fyrir hendi.
                    2.      Í auglýsingum skal ekki hagnýta óheiðarlega þá velvild, sem vöruheiti, tákn eða framleiðsla óviðkomandi aðila hefur áunnið sér, né heldur árangur sem fengist hefur í auglýsingaherferðum þeirra.

10. gr.      Eftirlíking.
                    1.      Við gerð auglýsingar skal ekki stæla uppsetningu (layout), texta, mynd, tónlistar - eða hljóðnotkun annarrar auglýsingar né líkja eftir henni á annan hátt sem sennilegt er að villi um fyrir neytendum.
                    2.      Þegar auglýsandi starfar í mörgum löndum og hefur áunnið vissri vöru nokkurt orð í einhverju landanna skulu aðrir auglýsendur í hinum löndunum ekki stæla óheiðarlega auglýsingar hins fyrstnefnda þar sem slíkt mundi koma í veg fyrir eðlilegt gagn hans af auglýsingaverki sínu annars staðar.

11. gr.      Sérkenni auglýsinga.
                    Auglýsingar skulu hafa greinileg sérkenni í hvaða formi sem þær birtast og án tillits til hvar þær koma fram. Ef auglýsing birtist í fjölmiðli, sem einnig dreifir fréttum eða stefnumarkandi greinum, skal sjá til þess að hún sé auðþekkjanleg sem auglýsing.

12. gr.      Virðing fyrir öryggi.
                    Auglýsingar skulu ekki sýna eða lýsa á neinn hátt hættulegu atferli eða atvikum þar sem öryggi er vanvirt, nema sérstök ástæða sé til í menntunarlegum eða félagslegum tilgangi. Varúð skal sérstaklega viðhöfð í auglýsingum sem höfða til barna eða unglinga eða sýna slíka aldursflokka.

13. gr.      Börn og unglingar.
                    1.      Í auglýsingum skal ekki misnota hina eðlilegu trúgirni barna né reynsluskort yngri kynslóðarinnar og skal þess gætt að auglýsingar raski ekki samlyndi innan fjölskyldunnar.
                    2.      Auglýsingar, sem beint er til barna eða unglinga eða eru líklegar til að hafa áhrif á þá aldursflokka, skulu ekki innihalda staðhæfingar eða myndir sem gætu skaðað hina yngri geðrænt, siðferðislega eða líkamlega.

14. gr.      Ábyrgð á auglýsingum.
                    1.      Ábyrgðin á því að ákvæðin í þessum reglum séu haldin hvílir á auglýsanda, semjanda auglýsingar eða auglýsingastofu og einnig á útgefanda, eiganda fjölmiðils eða öðrum slíkum samningsaðila við birtingu.
                         a.      Auglýsandi skal taka á sig heildarábyrgð vegna auglýsinga á sínum vegum.
                         b.      Semjandi auglýsingar eða auglýsingastofa skal vinna verkið af fyllstu kostgæfni og á þann hátt að auglýsandi sé fær um að inna skyldur sínar af hendi sem honum ber.
                         c.      Útgefandi, eigandi fjölmiðils eða hver annar aðili, sem birtir, miðlar eða dreifir auglýsingum, skal viðhafa réttmæta varúð er hann tekur við auglýsingum og kemur þeim á framfæri við almenning.

                    2.      Öllum, sem starfa hjá fyrirtæki eða stofnun, sem fellur undir einhverja af áðurnefndum þremur skilgreiningum, og taka þátt í undirbúningi auglýsinga, gerð þeirra, birtingu eða miðlun til annarra, ber skylda til, í samræmi við stöðu sína, að sjá um að reglunum sé fylgt.

15. gr.
                    Ábyrgðin á að reglunum sé fylgt nær yfir allt innihald og form auglýsingar. Þar telst með vitnisburður og yfirlýsingar ásamt myndaefni jafnvel þótt slíkt sé aðfengið.

16. gr.
                    Villandi auglýsing skal ekki réttlætt með því að benda á að auglýsandi hafi síðar séð neytendum fyrir réttri vitneskju.

17. gr.
                    Vörulýsingar og staðhæfingar um eðli eða myndameðferð skulu ávallt vera sannleikanum samkvæmar. Auglýsendur skulu fúsir til að leggja fram sönnunargögn án tafar sé þess óskað af aðilum sem sjá um að reglunum sé framfylgt.

18. gr.
                    Enginn auglýsandi, semjandi auglýsingar eða auglýsingastofa, útgefandi, eigandi fjölmiðils eða annar birtingaraðili skal taka þátt í birtingu auglýsingar ef hún hefur verið dæmd óframbærileg af þeim aðila sem sér um að reglunum sé framfylgt.


                    Aukaákvæði um auglýsingar á sérsviðum.

                    Atriðin, sem fjallað er um í þessum viðauka, krefjast sérstakrar varúðar af hálfu auglýsenda gagnvart hinum endanlega neytanda og skal bera eftirfarandi ákvæði saman við almennu ákvæðin í reglunum.

A.                     Verslunarhættir.

A. 1.           Ábyrgð.

                    Í auglýsingum skal ekki minnast á ábyrgð sem bótalaust ógildir eða skerðir réttindi sem kaupandi annars hefur. ÁBYRGÐ og önnur orð sömu merkingar mega því aðeins koma fram í auglýsingu að greint sé fyllilega frá öllum skilmálum. Enn fremur skal auglýsingin skýra á fullnægjandi hátt hvernig kaupandi getur leitað réttar síns en slíkar upplýsingar skulu að öðrum kosti látnar honum í té skriflega við sölu eða með varningnum.

A. 2. Afborganir og annar greiðslufrestur.
                    Auglýsingar, sem geta um leigu er gangi upp í kaup, greiðslufrest eða hvers konar afborgunarskilmála fyrir neytendur, skulu settar fram þannig að enginn misskilningur geti orðið um staðgreiðsluverð, útborgun, vexti og heildarkostnað þess sem auglýst er né heldur um söluskilmála.

A. 3.           Póstverslun.
                    Auglýsingar á vörum til afhendingar í pósti skulu gerðar þannig að neytendur hafi ekki ástæðu til að verða óánægðir þótt þeir geti yfirleitt ekki skoðað vöru fyrir móttöku. Í lýsingu á póstsöluvarningi skal einkum:
                    a.      gefa ljósa og nákvæma vitneskju um það sem stendur til boða, verð, greiðsluskilmála, afhendingu (þar með teljast áætlaðar tímasetningar, burðargjald, áhætta við flutning og trygging). Einnig skal greina frá endursendingarskilmálum og full skýring skal gefin á öllu, sem boðið er „ókeypis“, og á öllum samningum um áframhaldandi viðskipti.
                    b.      Tilgreina skal fullt nafn og varanlegt heimilisfang auglýsanda svo að neytendur geti haft samband við hann beint. Ekki skal taka til dreifingar auglýsingar sem gefa aðeins upp heimilisfang eða pósthólf.

A. 4.           Ópantaðar sendingar.
                    Ekki skal fást við auglýsingar á varningi sem dreift er án þess að pantanir hafi borist. Aðferðin, sem vikið er að hér, byggist á að senda ópantaða vöru og krefjast þess að viðtakandi greiði eða endursendi varninginn. Annað afbrigði er að gefa slíkt í skyn.

A. 5.           Umboðssala (franchise).
                    Ef auglýst er eftir umboðssöluaðilum skal gæta þess að gefa ekki upplýsingar sem eru villandi, beint eða óbeint, um stuðning og sennilegan hagnað eða tilkostnað og fyrirhöfn. Fullt nafn umboðsbjóðanda og varanlegt heimilisfang skal tilgreint í auglýsingunni.

A. 6.           Góðgerðarstarfsemi.
                    Í auglýsingum, sem bjóða til sölu varning til styrktar góðu málefni, skal ekki gefa villandi upplýsingar um hver hlutur góðgerðarstarfseminnar er.

A. 7.           Sölukynning.
                    Ef auglýsingar bjóða neytendum happdrætti eða samkeppni í því skyni að örva sölu, ef boðnar eru „gjafir“ eða verðlaun eða ef auglýsing fjallar um kynningu er snýst um afsláttarmerki (trading stamps), sameinuð tilboð o.s.frv. skal í öllum tilvikum greina skýrt frá skilyrðum. Ekki skal villa um fyrir neytendum þannig að tilboðið verði óeðlilegra en efni standa til.

B.                     Sérstakar vörutegundir og þjónusta.

B. 1.           Lög eða reglur um einstakar vörutegundir eða þjónustu.

                    Auglýsendur, semjendur auglýsinga og auglýsingastofur, svo og útgefendur og eigendur fjölmiðla, skulu gæta þess að farið sé að lögum er kveða á um auglýsingar á einstökum vörutegundum og þjónustu hvort sem um er að ræða sérstakar reglur um meðferð þeirra eða bann við auglýsingum.

B. 2.           Lán og fjárfesting.
                    Auglýsingar skulu ekki hafa orðalag sem líklegt er til að villa um fyrir almenningi hvað snertir lánakjör, eðli boðinna verðbréfa, raunverulegan eða áætlaðan hagnað eða innlausnarskilmála.

B. 3.           Atvinna og námskeið.
                    1.      Ef starf er auglýst skal ekki gefa villandi eða ýktar upplýsingar um eðli starfsins, launamöguleika, vinnuskilyrði eða húsnæðishorfur á staðnum.
                    2.      Auglýsingar, sem bjóða námskeið, skulu ekki gefa villandi loforð um atvinnu né heldur gylla atvinnumöguleika eða væntanlegar tekjuhorfur þeirra er slík námskeið sækja. Ekki skal bjóða „próf“ eða hæfnisvottorð, sem ekki njóta viðurkenningar, eða rangfæra gildi viðurkenndra prófa.

B. 4.           Vinna í heimahúsum.
                    1.      Auglýsingar um vinnu í heimahúsum skulu gefa fullnægjandi lýsingu á starfinu og á væntanlegum tekjum af því.
                    2.      Auglýsingin skal greina á fullnægjandi hátt frá fyrirkomulagi ef verkþega er ætlað að kaupa vélar, hráefni eða panta efni til samsetningar eða ef auglýsandi býðst til að kaupa framleiðsluna. Tilgreina skal fullt nafn auglýsanda og heimilisfang hans.

B. 5.           Ferðalög.
                    Auglýsingar um ferðalög af ýmsu tagi skulu orðaðar þannig að ólíklegt sé að neytandinn verði fyrir vonbrigðum. Þess vegna skal í kynningarefni gera nákvæma og rétta grein fyrir eftirfarandi atriðum:
                    a.      fyrirtækinu sem stendur að ferðinni,
                    b.      hvernig ferðast verður (tilgreina skal hvort um er að ræða leigu - eða áætlunarferð og, ef kostur er, skal gefa upp nafn fyrirtækis í fólksflutningum, tegund flugvélar eða annars farartækis og gæðaflokk farrýmis),
                    c.      áfangastað og ferðaáætlun,
                    d.      lengd ferðar (nákvæmlega) og dvalartíma á hverjum stað,
                    e.      aðbúnaði á gististað og fæði sem boðið er,
                    f.      hvers kyns aukatilboðum sem í boði eru (skemmtanalífi, kynnisferðum o.s.frv.),
                    g.      auglýstu heildarverði ferðalagsins (að minnsta kosti hámarks - og lágmarksverði) og kostnaðarliðum sem felast í því (flugvallarsköttum, ýmsum útgjöldum, fargjöldum á styttri leiðum, greiðslu fyrir burðarþjónustu, þjórfé o.s. frv.).
                    h.      skilyrðum um afturköllun pantana.

B. 6.           Hættulegur varningur.
                    Ef auglýsingar fjalla um vörur sem hætta getur stafað af vegna hugsanlegra eiturverkana, eldfimi o.s.frv. án þess þó að neytendur geti auðveldlega gert sér slíkt ljóst skal gera grein fyrir áhættunni.

B. 7.           Fasteignir, sala og leiga.
                    1.      Auglýsingar á þessu sviði, hvort sem um er að ræða sölu eða leigu á fasteignum, skulu ekki vera villandi eða ýktar að því er snertir:
                         a.      lóðina sjálfa og allar byggingar á henni eða hús sem þar á að byggja,
                         b.      eðli húsnæðisins innan húss og utan (þar með telst húsbúnaður og þægindi), útlit byggingar og íbúðar, svo og umhverfi,
                         c.      eignarrétt og formsatriði,
                         d.      réttindi eiganda og annarra hlutaðaeigandi aðila (rights and easements),
                         e.      kröfur skipulagsnefnda bæjar - eða sveitarfélaga og aðrar skyldar reglur,
                         f.      skatta, gjöld og skylda liði,
                         g.      verð, greiðsluskilmála og lánafyrirgreiðslu.
                    2.      Sérstaka varúð skal viðhafa ef um er að ræða auglýsingar um fasteignir í öðru landi. Í þeim tilvikum skal gæta þess að nákvæm og rétt lýsing sé gefin á fasteigninni og skal sú lýsing ná yfir öll atriði sem máli skipta eins og að ofan greinir.


                    Auglýsingar og börn.

                    Alþjóðaverslunarráðið hefur samþykkt eftirfarandi leiðbeiningar við siðareglur sínar um auglýsingar:
1. gr.      Auðkenning.
               Vegna þess hve börn eru viðkvæm og til þess að auka áhrif 11. gr. siðareglnanna ætti að merkja auglýsingar og auglýsingaefni greinilega „Auglýsing“ eða á annan jafntryggan hátt ef hætta er á að villst verði á auglýsingum og öðru efni blaða og tímarita eða dagskrárefni hljóðvarps og sjónvarps.

2. gr.      Ofbeldi.
               Í samræmi við grein 13.2. skal haft í huga að auglýsingar mega ekki sýna ofbeldi þar sem það er andstætt lögum eða siðvenjum.

3. gr.      Gildismat.
               Auglýsingar ættu ekki að rýra gildismat viðkomandi þjóðfélags með því að gefa í skyn að umráð eða notkun vöru veiti barni líkamlega, félagslega eða sálfræðilega yfirburði yfir jafnaldra sína eða að það hafi öfug áhrif að vera án vörunnar. Auglýsingar ættu ekki að grafa undan valdi og áliti foreldra, ábyrgð þeirra, dómgreind og smekk, að teknu tilliti til ríkjandi gildismats á hverjum tíma.

4. gr.      Öryggi.
               Í samræmi við 12. gr. og grein 13.2. ættu auglýsingar ekki að innihalda yfirlýsingar með myndefni sem gæti orðið þess valdandi að börn komist í hættu, séu hvött til að hafa samneyti við ókunnuga eða sækja heim óvenjulega eða hættulega staði.

5. gr.      Sannfæring.
               Auglýsingar ættu ekki að innihalda áskorun til barna um að telja aðra á að kaupa hina auglýstu vöru handa þeim.

6. gr.      Framsetning.
               Í samræmi við 4. gr. siðareglnanna ætti að gæta þess sérstaklega að tryggja að auglýsingar villi ekki um fyrir börnum hvað varðar rétta stærð, verðmæti, eðli, endingu og notagildi auglýstra vara. Sé aukahluta þörf, t.d. rafhlöðu, til að nota vöruna eða til að ná þeim árangri sem lýst er eða er sýndur, t.d. málningar, ætti að gefa slíkt skýrt til kynna. Sé vara hluti af flokki, röð eða stærri heild, „t.d. sería“ ætti að taka slíkt skýrt fram, svo og hvar og hvernig megi afla sér þess sem á vantar. Auglýsingar ættu ekki að gera minna en efni standa til úr þeirri hæfni sem þörf er á til að nota vöruna. Þegar árangur af notkun vöru er sýndur eða honum lýst ætti auglýsingin að kynna einungis það sem eðlilega má ætlast til af barni á þeim aldri sem varan er ætluð.

7. gr.      Verð.
               Hugmynd um verð á ekki að gefa þannig að börn ofmeti raunverulegt verðmæti vörunnar, t.d. vegna notkunar orðanna einungis eða aðeins . Auglýsingar ættu aldrei að gefa í skyn að allar fjölskyldur hafi ráð á að eignast tiltekna vöru.

               Siðanefnd.

               Til þess að framfylgja framanskráðum siðareglum um auglýsingar skal sett á stofn siðanefnd. Í nefndinni eiga sæti þrír fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra auglýsingastofa, einn fulltrúi tilnefndur af Verslunarráði Íslands og einn fulltrúi tilnefndur af Neytendasamtökunum. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum og setur sér starfsreglur.

               Starfsreglur siðanefndar um auglýsingar.

1. gr.
               Siðanefnd er skipuð fimm mönnum. Skulu þrír tilnefndir af Sambandi íslenskra auglýsingastofa (SÍA), einn tilnefndur af Verslunarráði Íslands (VÍ) og einn tilnefndur af Neytendasamtökunum (NS).
               Ef einhver nefndarmanna á hagsmuna að gæta eða er í nánum tengslum við aðila kærumáls skal hann víkja sæti og varamaður skipaður í hans stað.
2. gr.
              
Siðanefnd skiptir sjálf með sér verkum, velur sér formann, varaformann og ritara.
               Nefndin skal halda gjörðabók þar sem skráðar eru fundargerðir og afgreiðsla mála.
3. gr.
               Hver sem er (einstaklingar, fyrirtæki eða stofnanir) getur kært til siðanefndar brot á Siðareglum um auglýsingar eða brot á öðrum reglum um auglýsingar. Einnig getur siðanefnd tekið mál til athugunar að eigin frumkvæði.
4. gr.
               Kæra skal vera skrifleg og rökstudd. Hafi auglýsingar birst á prenti skal eintak af henni eða ljósrit fylgja kæru. Hafi auglýsing birst í útvarpi eða sjónvarpi skal nákvæmlega tilgreint hvenær það var, um hvað auglýsingin fjallar og hvaða aðili auglýsti.
               Kærur skal senda til skrifstofu Sambands íslenskra auglýsingastofa.
5. gr.
               Siðanefnd getur afgreitt kærur með eftirfarandi hætti:
               1.      Ef siðanefnd telur auglýsingu ekki brjóta í bága við siðareglur vísar hún kærunni frá með bréfi til kæranda og greinargerð til aðildarsamtaka siðanefndar.
               2.      Ef siðanefnd telur vera um minni háttar brot að ræða fer nefndin fram á leiðréttingu auglýsingarinnar og sendir síðan greinargerð til aðildarsamtaka siðanefndar og svarbréf til kæranda.
               3.      Ef um meiri háttar brot er að ræða á siðareglum skal siðanefnd fyrst fara fram á stöðvun birtingar og leiðréttingu auglýsingar. Jafnframt óskar siðanefnd eftir greinargerð frá ábyrgðarmanni auglýsingar. Ef neitað er að stöðva birtingu eða leiðrétta auglýsingu skal aðilum boðið að leggja deiluefnið fyrir gerðardóm Verslunarráðs Íslands. Hafni aðilar gerðardómsmeðferð getur siðanefnd ráðlagt kæranda málsókn fyrir almennum dómstólum. Siðanefnd skal senda greinargerð um málsmeðferð sína og afgreiðslu til aðildarsamtaka siðanefndar og til kæranda.
6. gr.
               Siðanefnd er heimilt að birta úrskurði sína opinberlega. Nöfn aðila skulu þó ekki birt nema um meiri háttar brot sé að ræða og aðeins samkvæmt ákvörðun siðanefndar hverju sinni.

Um viðauka o.fl.


    
Frumvarp þetta er óbreytt frá frumvarpi því er lagt var fyrir 112. löggjafarþing 1989 1990, nema hvað gildistökuákvæði er breytt og frumvarpinu fylgja þar að auki aðeins eftirfarandi viðaukar:

Viðauki 1.      Ýmis lög og reglur er varða auglýsingar.
Viðauki 2.      Siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins um auglýsingastarfsemi.