Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 134 . mál.


Sþ.

139. Tillaga til þingsályktunar



um framleiðslu vetnis.

Flm.: Kristín Einarsdóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir,


Málmfríður Sigurðardóttir, Snjólaug Guðmundsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja skipulagðar rannsóknir og undirbúning að framleiðslu vetnis til notkunar sem eldsneyti til innanlandsnota og til útflutnings. Jafnframt verði athugað hvaða breytingar þurfi að gera á bifreiða - , skipa - og flugvélaflota og öðrum vélakosti landsins til að notkun á vetni sem eldsneyti yrði möguleg, umfang þeirra breytinga og kostnaður við þær.


G r e i n a r g e r ð .


    Mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga að renna styrkari stoðum undir efnahags - og atvinnulíf þjóðarinnar. Miklar vonir eru bundnar við orkulindir landsins í því sambandi. Áætlað hefur verið að aðeins sé búið að virkja 10 15% af þeirri orku í fallvötnunum sem hagkvæmt er talið að virkja þegar tekið hefur verið tillit til umhverfissjónarmiða. Það er því eðlilegt að nýta þessa auðlind til hagsbóta fyrir alla landsmenn.
    Æ meiri áhersla er nú lögð á það víða um heim að finna mengunarlaust eldsneyti. Mengun vegna olíubrennslu er mikil og af þeirri ástæðu talið nauðsynlegt að draga úr notkun hennar. Auk þess eru olíulindir jarðar taldar geta gengið til þurrðar eftir hálfa öld ef ekki dregur verulega úr notkun á olíu. Það er því mat sérfræðinga að tilbúið eldsneyti verði verulegur hluti þeirrar orku sem notuð verður í framtíðinni, jafnvel strax í byrjun næstu aldar.
    Árið 1980 komu út skýrslur um framleiðslu eldsneytis á Íslandi og um vetni og vetnissambönd á vegum Orkustofnunar og skýrsla á vegum iðnaðarráðuneytisins með tillögu að rannsóknaráætlun varðandi hugsanlega framleiðslu eldsneytis hér á landi með hliðsjón af orkubúskap landsmanna. Ekki hefur því sem fram kemur í þessum skýrslum verið fylgt eftir sem skyldi af hálfu stjórnvalda, en nú er nauðsynlegt að gera átak í þessum efnum og byggja á þeim grunni sem er til staðar. Við verðum að fylgjast vel með á þessu sviði og vera þátttakendur.
    Mörg efni hafa verið nefnd til sögunnar sem eldsneyti framtíðarinnar. Nú hallast flestir að því að fyrir valinu verði hreint vetni, en ekki efni sem innihalda kolefni vegna þess að þau munu halda áfram að auka koldíoxíðmagn andrúmsloftsins og þar með auka hættu á gróðurhúsaáhrifunum svonefndu. Vetni er framleitt með rafgreiningu á vatni. Nú er gert ráð fyrir að flytja það á milli landa sem hreint vetni, en ekki tengt öðrum mengandi efnasamböndum eins og talað var um fyrir nokkrum árum. Þegar vetni brennur myndast aðeins vatn. Erfitt er að gera sér í hugarlund að betri lausn finnist á þeim eldsneytisskorti sem blasir við í náinni framtíð.
    Miklar rannsóknir hafa verið gerðar á undanförnum árum á möguleikum þess að nota vetni sem eldsneyti. Tækni til að framleiða, meðhöndla og nota vetni hefur fleygt svo fram á síðustu árum að nú er ekkert því til fyrirstöðu tæknilega að hefja notkun slíks eldsneytis í miklu magni. Hins vegar hefur vetni eða annað tilbúið eldsneyti ekki verið talið samkeppnisfært við olíu reiknað á þröngan efnahagslegan mælikvarða.
    Árið 1986 ákváðu nokkrir háskólar í Evrópu ásamt þýskum fyrirtækjum að kanna möguleika á því að setja af stað rannsóknarverkefni þar sem gerð yrði tilraun með framleiðslu og notkun vetnis. Áætlað var að framleiða verulegt magn vetnis úr vatni með raforku, þar sem hún er framleidd án mengunar og flytja það með tankskipum til borgar í Þýskalandi. Hafa þessir aðilar samið um kaup á 100 megavöttum af raforku í Kanada til að framleiða vetni, flytja það til Hamborgar, nota í orkukerfum borgarinnar og til að knýja 900 strætisvagna. Einnig á að gera tilraun með vetnisflugvél og er miðað við að hún fari í loftið eigi síðar en árið 1996. Tilraunin á að geta gefið raunverulega mynd af möguleikum vetnis sem eldneytis eftir að tilraunatímabilinu lýkur, sem áætlað er sjö ár. Í útreikningum þeirra, sem standa að tilraunaverkefninu, er gert ráð fyrir að kaupa orkuna á 18 mill hverja kwst. til ársins 1995 en 36 mill eftir það (mill er einn þúsundasti úr bandarískum dal). Þetta er verulega hærra verð en það sem nefnt hefur verið í tengslum við raforkusölu til nýs álvers á Keilisnesi. Frekari tilraunir með vetnisframleiðslu eru fyrirsjáanlegar og gætu Íslendingar orðið þátttakendur í þeim tilraunum ef rétt er á málum haldið.
    Hér á landi er vetnisframleiðsla vel þekktur iðnaður. Áburðarverksmiðjan í Gufunesi hefur framleitt vetni í nær 40 ár. Hér höfum við mikla möguleika á að framleiða raforku og íslenskir vísinda - og tæknimenn standa framarlega á þessu sviði. Við Háskóla Íslands hafa vísindamenn unnið að rannsóknum og könnun á aðferðum til að framleiða eldsneyti og flytja milli heimshluta. Þessar rannsóknir ber að styðja og gera íslenskum vísindamönnum kleift að hafa samvinnu við erlenda vísindamenn og taka þátt í rannsóknarverkefnum á þessu sviði. Mikilvægt er að við tökum virkan þátt í rannsóknum og undirbúningi að þessu mikilvægu máli. Það á ekkert að vera því til fyrirstöðu að á Íslandi verði framleitt vetni með íslenskri orku, hráefni og hugviti.
    Með notkun vetnis í stað olíu er hægt að draga verulega úr mengun í heiminum. Hér er um að ræða stóriðju sem veldur engri mengun ef undan er skilið jarðrask af völdum byggingarframkvæmda og landnotkun vegna virkjana. Íslendingar flytja inn verulegt magn af olíu og bensíni eða um þriðjung af heildarorkunotkuninni sem er um 10 teravattstundir (ein teravattstund jafngildir þúsund milljónum kílóvattstunda). Talið hefur verið hagkvæmt að framleiða hérlendis um 20 25 teravattstundir af raforku með vatnsafli á ári og um 20 teravattstundir með jarðvarma og er því fyrirsjáanlegt að við getum ekki aðeins fullnægt innanlandsþörf heldur getum við einnig flutt út orku, t.d. í formi vetnis.
    Kosturinn við að nota vetni í stað olíu er einnig sá að hægt er að nota það á vélar sem nú eru í notkun án þess að gera þurfi á þeim verulegar breytingar. Aðeins þarf að breyta eldsneytisgeymum og gera ytri breytingar á vélinni.
    Einn af kostum vetnisframleiðslu er að vel getur hentað að byggja nokkrar fremur smáar verksmiðjur. Stórar einingar eru tiltölulega lítið hagkvæmari en litlar. Þetta þýðir að hægt væri að hafa verksmiðjur allvíða um landið, t.d. við hafnir, og gera þannig skipaflotanum auðvelt að ná í eldsneyti í sjálfa verksmiðjuna fremur en að flytja það langar leiðir með miklum tilkostnaði. Þetta mundi einnig veita fólki víða um land atvinnu.
    Það er kominn tími til að leita nýrra leiða í atvinnu - og efnahagsmálum þjóðarinnar. Undanfarin ár hafa ráðamenn verið svo uppteknir af byggingu álvers að ekkert annað hefur komist að. Orkusölumennirnir hafa verið ótrúlega einsýnir og virðast ekki hafa komið auga á aðra kosti til að koma orku fallvatnanna í verð en að lokka hingað mengandi stóriðju. Íslendingar eiga að leggja áherslu á að koma hér upp iðnaði sem ekki er mengandi, nýtir íslenskt hráefni og hugvit og er í sátt við landið og það fólk sem það byggir.