Ferill 136. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 136 . mál.


Nd.

141. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki.

Flm.: Þórhildur Þorleifsdóttir, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir,


Guðmundur G. Þórarinsson, Guðrún Helgadóttir,


Rannveig Guðmundsdóttir, Jóhann A. Jónsson.




1. gr.


     Við 2. mgr. laganna bætist eftirfarandi málsliður: Jafnframt er heimilt að veita einstæðum foreldrum fjárhagsaðstoð til framhaldsnáms, óháð aldri þeirra og eðli námsins.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    

G r e i n a r g e r ð .


     Frumvarp þetta er nú flutt í annað sinn. Á síðasta þingi var flutt frumvarp sama efnis og flutningsmenn þess voru úr öllum þingflokkum nema einum. Það hlaut ekki afgreiðslu, en er nú endurflutt sökum þess að um er að ræða brýnt hagsmunamál einstæðra foreldra og barna þeirra.
    Sú lagabreyting, sem hér er lögð til, gæti reynst drjúg til að jafna þann menntunarlega og þar af leiðandi efnahagslega mun sem greinir þann hóp, sem frumvarpið tekur til, þ.e. einstæða foreldra, frá öðrum.
    Einstæðir foreldrar og fjölskyldur þeirra eru um 12% allra fjölskyldna í landinu. Þetta er svo stór hluti þjóðarinnar að ekki verður fram hjá horft þegar verið er að meta aðstæður fjölskyldna og hvar úrbóta sé helst þörf.
     Einstæðir foreldrar eru auðvitað sundurleitur hópur með mismunandi aðstæður, rétt eins og gengur og gerist með aðra þjóðfélagsþegna. Þó er ýmislegt sem greinir þennan hóp frá öðrum og lýsir það sér helst í því að kjör hans og aðstæður ýmsar eru bágari en annarra fjölskyldna þegar á heildina er litið. Þetta kemur glögglega í ljós í niðurstöðum könnunar um kjör og félagslega stöðu einstæðra foreldra sem félagsvísindadeild Háskóla Íslands gerði fyrir félagsmálaráðuneytið og birtar voru í skýrslu frá því í maí 1984. Þó að nokkuð sé um liðið síðan könnun þessi var gerð er ekkert sem bendir til þess að þær breytingar hafi orðið sem raski niðurstöðum hennar.
     Helstu niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að fjárhagsleg staða þessa hóps er verri en annarra, með afleiðingum sem ekki verða frekar tíundaðar hér. Nærtækasta skýringin er sú að þar sem aðeins er ein fyrirvinna í fjölskyldu liggi það í hlutarins eðli að afkoman sé verri en þar sem eru tvær fyrirvinnur eins og nú er hjá þorra fjölskyldna.
     En við nánari athugun er sú skýring ekki einhlít. Skýringarinnar er fyrst og fremst að leita í því að fjárhagsleg staða kvenna er verri en karla. Meðaltekjur kvenna rétt losa 60% af meðaltekjum karla. Þar að auki kemur í ljós að yfir 70% einstæðra foreldra er ófaglært verkafólk eða stundar störf á sviði verslunar og þjónustu án sérmenntunar og er það hærra hlutfall en hjá konum í heild.
     Samkvæmt manntalsskýrslu frá 1. des. 1989 eru einstæðir foreldrar í landinu u.þ.b. 7.500, þar af eru einungis rúmlega 500 einstæðir feður. Hinir, þ.e. 7.000, eru einstæðar mæður. Samtals eru rúmlega 10.000 börn á framfæri einstæðra foreldra, þar af u.þ.b. 9.700 börn á framfæri einstæðra mæðra.
     Í ljósi alls þessa þarf engan að undra niðurstöður könnunarinnar.
     Þetta frumvarp tekur aðeins á einum þætti þessa vanda en það er sú staðreynd að einstæðir foreldrar (mæður) sem hópur hafa styttri skólagöngu að baki en sambærilegri aldurshópar kvenna. Eftirfarandi upplýsingar er að finna í skýrslunni á bls. 32:
     „Samanburður á menntun svarenda í jafnréttiskönnun (JK) og könnun á högum einstæðra foreldra (EF) eftir aldurshópum:

20-29 ára

30-39 ára

40-49 ára

50-59 ára


    EF     JK     EF     JK     EF     JK     EF     JK     Samtals
10 ár eða skemur

78%

51%

62%

59%

68%

72%

68%

78%

71%

64%


10 11 ár

19%

29%

24%

27%

27%

21%

32%

18%

22%

24%


14 ár eða lengur

3%

20%

14%

15%

5%

7%

    

3%

6%

12%



     Eins og sjá má kemur mesti hlutfallsmunurinn fram í aldurshópunum 20 29 ára og 30 39 ára. Yngstu einstæðu foreldrarnir virðast hafa mun minni skólagöngu en sambærilegur hópur úti í þjóðfélaginu.“
     Að sjálfsögðu er stutt skólaganga ekki alltaf afleiðing barneigna en eins og segir í skýrslunni á bls. 33:
     „Barneignir hafa að sjálfsögðu í för með sér miklar breytingar á högum fólks og fátt er líklegra til að koma fyrir kattarnef námsáformum kvenna en barneign. Ef barnið er aðeins á vegum annars foreldrisins eru röskunaráhrifin þeim mun sterkari fyrir það foreldrið sem í hlut á.“
     Enn fremur segir í skýrslunni á bls. 32:
     „Engum blöðum er um það að fletta að því unga fólki, sem leggur út í lífið um þessar mundir án annarrar formlegrar menntunar en þess lágmarks sem fræðslulög kveða á um, eru settar sýnu þrengri skorður en hinum sem hafa aflað sér viðbótarréttinda eða jafnvel starfsréttinda. Fyrir þá sök eina stendur það þegar höllum fæti á vinnumarkaði sem margir telja að muni einkennast af harðnandi samkeppni í náinni framtíð. Það verður því að teljast sérstakt íhugunarefni þegar hér kemur í ljós að ungir einstæðir foreldrar, sem augljóslega standa höllum fæti á þessum vettvangi í krafti þeirrar stöðu sinnar einnar, virðast í óvenjuríkum mæli jafnframt fylla flokk hinna minnst menntuðu. Þetta unga fólk er að hefja lífsbaráttuna með léttari mal, en um leið þyngri byrði en flestir jafnaldrar þeirra.“
     Aðspurðir svöruðu því margir til í könnuninni að þeir hefðu áhuga á frekari skólagöngu, en flestir sögðu að fjárhagsaðstæður leyfðu það ekki. Af svörunum mátti helst ráða að frekara nám einstæðra foreldra væri undir því komið hvort foreldrar þeirra gætu veitt þeim fjárhagsaðstoð. Það er óviðunandi að framtíð og möguleikar fólks til náms og starfa sé háð efnahag og skilningi foreldra. En það er fáum ætlandi að stunda nám jafnframt því að sjá fyrir barni og annast það upp á eigin spýtur.
     Þegar þess er gætt hve margir ungir einstæðir foreldrar hafa skamma skólagöngu að baki virðist brýnast að gera þeim fjárhagslega kleift með lagabreytingu að ljúka almennu framhaldsskólanámi, t.d. í mennta - , fjölbrauta - eða verslunarskólum, en það nám er ekki lánshæft samkvæmt núgildandi úthlutunarreglum. Einnig er gert ráð fyrir með þessu frumvarpi að ýmiss konar styttra nám eða námskeið, sem tengjast þjálfun eða undirbúningi til ákveðinna starfa, verði lánshæf. Má nefna einkaritaraskóla, málanám, leiðsögumannanám og tölvunám. Oftast er nám af þessum toga nokkuð dýrt og getur reynst fjárvana fólki þungt í skauti. Allt slíkt nám er þó fjölsótt af konum og getur ráðið úrslitum um kjör þeirra.
     Það er brýnt í nútímaþjóðfélagi að búa sig sem best undir lífsstarf og með síauknum menntunarkröfum verður skólaganga æ mikilvægari í þeim undirbúningi. Það er því engin ofrausn að koma til móts við einstæða foreldra í þessum efnum með þeim hætti sem lagt er til í frumvarpinu og gera þeim betur fært að afla sér þeirrar menntunar sem þeir æskja, þeim sjálfum og börnum þeirra til hagsbóta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    

Um 1. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir að vikið sé frá núgildandi úthlutunarreglum LÍN, bæði hvað varðar aldur lánþega og eðli náms, í því skyni að gera einstæðum foreldrum kleift að afla sér almennrar menntunar eða sérmenntunar til undirbúnings frekara námi eða starfi. Þarna er átt við nám sem að öllu jöfnu er ekki lánshæft nú. Til samræmis þarf að breyta 2. gr. reglugerðarinnar um námslán og námsstyrki þannig að við bætist:
A. Almennir framhaldsskólar, ef um einstæða foreldra er að ræða.
B. Starfsþjálfunarnám og/eða námskeið þar sem skólagjalda er krafist, ef um er að ræða einstæða foreldra.
     Sérstaklega þarf í reglugerð að kveða á um lágmarks - og hámarksviðmiðun skólagjalda og endurgreiðsluákvæði vegna síðasttalda liðarins.

Um 2. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.