Ferill 151. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 151 . mál.


Nd.

163. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 78/1980, um jöfnunargjald, með síðari breytingum.

Flm.: Friðrik Sophusson.



1. gr.


     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Á árinu 1990 skal veita 200 millj. kr. til að endurgreiða iðnfyrirtækjum uppsafnaðan söluskatt vegna ársins 1989.

2. gr.


     Við 6. gr. laganna bætist nýr málsliður svohljóðandi: Lög þessi falla úr gildi 31. desember 1990.

3. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .


     Frumvarp um sama efni var flutt á síðasta þingi og þá fylgdi því svofelld greinargerð:
     „Lög um jöfnunargjald voru fyrst samþykkt á Alþingi vorið 1978. Samkvæmt þeim var 3% jöfnunargjald lagt á innflutning sömu iðnvara og framleiddar voru hér á landi til að vega upp á móti þeim söluskatti sem varð hluti framleiðslukostnaðar þessara vara samkvæmt gildandi söluskattslögum. Tekjum af jöfnunargjaldinu átti að ráðstafa að hluta til að efla iðnþróun. Í greinargerð með frumvarpinu sagði m.a. orðrétt:
     „Leggja ber áherslu á að álagning þessa gjalds er tímabundin ráðstöfun þar sem við upptöku virðisaukaskatts félli gjaldið niður vegna þess að uppsöfnunaráhrifum yrði þar með eytt. Með álagningu þessa gjalds er ekki talið að farið sé út fyrir þau takmörk sem aðildarsamningur Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu og samningur við Efnahagsbandalag Evrópu setja okkur, svo framarlega sem gjaldið er ekki hlutfallslega hærra en nemur þeim kostnaðarauka sem uppsöfnun söluskatts nú veldur í verði innlendrar vöru.“
     Í greinargerð var einnig sagt að eðlilegt væri að verja hluta af tekjunum „til að tryggja að útflytjendur iðnaðarvara þurfi eigi að verðleggja vöru sína með hliðsjón af þeim söluskatti er orðið hefur hluti af framleiðslukostnaði vörunnar“. Lögin voru tímabundin og giltu til 31. desember 1980, enda var gert ráð fyrir að virðisaukaskattur tæki við af söluskatti í byrjun árs 1981.
    Á næsta þingi fluttu fjórir þingmenn, þar á meðal núverandi fjármálaráðherra, frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnunargjaldið. Í greinargerð frumvarpsins sagði orðrétt m.a. um tilgang laganna:
    „Lög þessi voru sett til að jafna samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar gagnvart iðnaði landa EFTA og EBE vegna ólíkra söluskattskerfa.“
    Núgildandi lög um jöfnunargjald, lög nr. 78/1980, eru byggð á lögunum frá 1978. Áfram er ætlast til að tekjunum af jöfnunargjaldinu sé ráðstafað að hluta til að efla iðnþróun. Í greinargerð með frumvarpinu er áhersla lögð á að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða vegna mismunandi söluskattskerfa.
    Þegar lög um virðisaukaskatt voru samþykkt á Alþingi var gengið út frá því að jöfnunargjaldið félli niður. Í töflum um áhrif virðisaukaskatts á tekjur ríkissjóðs, en þær fylgdu frumvarpinu, er sýnt hvaða áhrif slíkt hefur og þegar skatthlutfallið var ákveðið var gert ráð fyrir því tekjutapi.
    Í tengslum við gerð kjarasamninga á sl. ári var samið um ýmis atriði við ríkisstjórnina, þar á meðal um jöfnunargjaldið. Í bréfi forsætisráðherra, dags. 30. apríl 1989, til VSÍ og Vinnumálasambands samvinnufélaga segir orðrétt: „Jöfnunargjald af innfluttum vörum verður hækkað tímabundið úr 3% í 5% og fellur niður þegar virðisaukaskattur kemur til framkvæmda.“ Lögunum var síðan breytt og gjaldhlutfallið hækkað í samræmi við þessa yfirlýsingu.
    Við afgreiðslu fjárlaga varð ljóst að ríkisstjórnin ætlaði ekki að standa við loforð sitt og fella gjaldið niður. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að gjaldið verði innheimt í sex mánuði óbreytt. Hins vegar var ekki í fjárlögum ætlast til að ríkið endurgreiddi uppsafnaðan söluskatt vegna framleiðslu sl. árs. Í stað þess voru 390 millj. kr. veittar til þess með fjáraukalögum sem samþykkt voru í desember 1989. Af þeirri upphæð gengu 100 milljónir króna til iðnaðarins.
    Nú hefur komið í ljós að sú upphæð dugir ekki til. Iðnaðarráðherra gerði þetta að umtalsefni í ræðu sinni á ársþingi FÍI 15. mars sl. og sagði þá m.a.:
     „Frá upptöku virðisaukaskatts um síðustu áramót heyrir uppsöfnun söluskatts í aðfangakostnaði iðnfyrirtækja sögunni til. Í fjárlögum fyrir árið 1990 er því ekki gert ráð fyrir neinni fjárveitingu til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti í iðnaði. Jafnframt hefur verið gert ráð fyrir því að 5% jöfnunargjald á innfluttar iðnaðarvörur verði fellt niður frá miðju þessu ári.
    Því er hins vegar ekki að neita að sú fjárhæð, sem ákveðin var með fjáraukalögum á síðasta ári til að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt í iðnaði vegna framleiðslu á árinu 1989, hrekkur ekki til. Samkvæmt áætlunum gæti fjárvöntunin numið allt að 170 milljónum króna.“

    Í fjárlögum er gert ráð fyrir að jöfnunargjaldið færi ríkissjóði 500 millj. kr. í tekjur. Eina réttlætingin, sem ríkisstjórnin hafði fyrir því að ganga á bak orða sinna og fresta niðurfellingu gjaldsins, var að tekjurnar þyrfti til að mæta útgjöldum vegna endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti af framleiðslu sl. árs. Það kom því verulega á óvart þegar iðnaðarráðherra sagði eftirfarandi í áðurgreindri ræðu:
     „Við þær erfiðu aðstæður, sem nú eru í ríkisfjármálunum, verður því ef til vill ekki hjá því komist að fresta niðurfellingu jöfnunargjaldsins um nokkra mánuði til þess að afla fjár til endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til iðnaðar vegna framleiðslu á síðasta ári. Það er í fullu samræmi við lögin um jöfnunargjaldið sem enn eru í gildi og ákveða að hluta af tekjum af því skuli varið í þágu iðnaðarins. Ég hef undirbúið um þetta tillögu sem ég mun leggja fram í ríkisstjórn á morgun.“
    Tilgangurinn með flutningi þessa frumvarps er annars vegar að tryggja endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti til iðnfyrirtækja vegna framleiðslu síðasta árs með sama hætti og tíðkast hefur undanfarin ár. Hins vegar er það tilgangurinn að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin gangi á bak orða sinna og haldi áfram innheimtu jöfnunargjalds í ríkissjóð lengur en eðlilegt getur talist og fjárlög gera ráð fyrir.“
    Við afgreiðslu fjáraukalaga í maí sl. flutti flutningsmaður þessa frumvarps breytingartillögur sama efnis. Í umræðum um tillögurnar skoraði iðnaðarráðherra á flutningsmann að kalla þær aftur. Á það var fallist í trausti þess að ríkisstjórnin afgreiddi málið síðar á árinu með viðlíka hætti og tillögurnar gerðu ráð fyrir. Í fjáraukalögum þeim, sem nú liggja fyrir þinginu, er gert ráð fyrir að 150 millj. kr. verði endurgreiddar, en ekki 200 millj. kr. sem er viðurkennt að vanti til að endurgreiða að fullu. Mismunurinn stafar af því að ríkisstjórnin hefur ákveðið að endurgreiða ekki uppsafnaðan söluskatt af framleiðslu iðnfyrirtækja í desember 1989. Þá er í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 1991 áætlað að innheimta 700 millj. kr. í jöfnunargjald sem renna skulu óskiptar í ríkissjóð.
    Af því sem hér hefur verið rakið er ljóst að jöfnunargjald mun skila tæpum milljarði króna í tekjur á yfirstandandi ári, en aðeins 150 millj. kr. verða endurgreiddar, ef fjáraukalagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt. Og áfram verður jöfnunargjaldið innheimt þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.
    Að lokum skal þess getið að flutningsmaður hefur tvívegis ritað utanríkisráðherra bréf og spurst fyrir um álit hans á því, hvort það samræmist fríverslunarsamningum Íslands við önnur ríki að halda áfram álagningu og innheimtu jöfnunargjalds eftir að virðisaukaskattur hefur verið tekinn upp. Svör hafa ekki borist enn.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eðlilegt er að ríkissjóður endurgreiði uppsafnaðan söluskatt iðnfyrirtækja af framleiðslu sl. árs eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Af þeim 390 millj. kr., sem ætlaðar voru til greiðslu á uppsöfnuðum söluskatti samkvæmt fjáraukalögum á sl. ári, gengu 100 millj. kr. til iðnaðarins. Upplýst er að enn vanti 190 200 millj. kr. til greiðslu á uppsöfnuðum söluskatti af framleiðslu sl. árs. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, er ríkissjóði skylt að greiða út allt að 200 millj. kr. af þeim tæpum 1.000 millj. kr. sem innheimtast á árinu.

Um 2. gr.


     Hér er lagt til í samræmi við margyfirlýstan vilja Alþingis og loforð ríkisstjórnarinnar að fella niður jöfnunargjaldið. Áætlað var að gjaldið yrði afnumið á miðju þessu ári og skilaði 500 millj. kr. Samkvæmt þessari grein verður jöfnunargjaldið fellt niður í árslok og hefur þá skilað tæpum 500 milljónum króna umfram það sem áætlað var í fjárlögum yfirstandandi árs.

Um 3. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal.
.......



Fjármálaráðuneytið, hagdeild:


Tekjur af jöfnunargjaldi 1981 1989

.



    Hér með fylgir yfirlit um tekjur ríkissjóðs af jöfnunargjaldi 1981 1989, svo og þær endurgreiðslur sem því eru tengdar.

Innheimta
Þar af
tekjur
endurgreitt
(m.kr.)
(m.kr.)
    Árið 1981     
37,8
20,9
    Árið 1982     
66,6
37,8
    Árið 1983     
110,4
57,1
    Árið 1984     
142,6
79,4
    Árið 1985     
217,9
113,1
    Árið 1986     
282,7
169,9
    Árið 1987     
403,9
263,2
    Árið 1988     
513,4
225,5
    Árið 1989, brb     
833,5
337,2
    Árið 1990, brb.     
960,0
1
150,0
2


     1 Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1991.
     2 Samkvæmt fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 1990.