Ferill 173. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 173 . mál.


Nd.

191. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 63 28. maí 1969, um verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf.

Flm.: Matthías Bjarnason, Ingi Björn Albertsson.



1. gr.


     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðist svo:
     Sé áfengi og tóbak selt gegn greiðslu póstkröfu skal Áfengis - og tóbaksverslun ríkisins greiða umbúða - og sendingarkostnað.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

G r e i n a r g e r ð .


    Áfengis - og tóbaksverslun ríkisins rekur nú 19 verslanir er selja áfengi. Utan Stór - Reykjavíkursvæðisins er þessar verslanir að finna á Akranesi, í Ólafsvík, á Ísafirði, Sauðárkróki, Siglufirði, Akureyri, Seyðisfirði, Neskaupstað, Höfn, í Vestmannaeyjum, á Selfossi og í Keflavík. Þeir sem ekki hafa búsetu á þessum stöðum eða í nágrenni þeirra skipta gjarnan við Áfengis - og tóbaksverslunina með aðstoð póstþjónustunnar. Kostnað við þá þjónustu verða þeir að bera sjálfir. Samkvæmt upplýsingum Áfengis - og tóbaksverslunarinnar hefur fyrirtækið krafið viðskiptavini sína um 6,7 milljónir króna í póstburðargjöld fyrstu 10 mánuði þessa árs og áætlar fyrirtækið að sú upphæð muni nema 8,8 milljónum króna í árslok.
    Kostnaður við sölu vöru gegn greiðslu á póstkröfu er umtalsverður þegar þess er gætt að hann leggst á mjög lítinn hluta landsmanna. Þessi kostnaður er óréttlátur þar sem Áfengis - og tóbaksverslunin ber sjálf allan kostnað af dreifingu vöru í byggðum þar sem áfengisverslanir eru. Á það má minna að sumum sveitarfélögum er meinað að hafa áfengisverslanir innan marka sinna vegna ákvæða 10. gr. áfengislaga, nr. 82/1969, með síðari breytingum, en þar segir að aðeins megi setja á stofn útsölustaði áfengis í sveitarfélögum þar sem meiri hluti íbúanna býr í þéttbýli og íbúar hafa verið a.m.k. 1.000 í þrjú ár samfellt.
    Áfengis - og tóbaksverslun ríkisins hefur áratugum saman borið allan kostnað af dreifingu tóbaks til verslana þannig að jafnaðarverð hefur verið á tóbaki um land allt. Með tilliti til þessa, svo og þeirra takmarkana sem lög setja einstökum byggðum til að fá áfengisútsölur innan sinna marka, er lagt til með frumvarpi þessu að Áfengis - og tóbaksverslun ríkisins beri kostnað sem samfara er sölu vöru gegn greiðslu á póstkröfu og sendingarkostnaði. Kostnaður við minnstu sendingu er 525 kr. og sendingar - og póstkröfukostnaður við sendingu á einum bjórkassa er 660 kr. Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að allir landsmenn eigi að búa við sama verð hjá þessari stærstu verslun ríkisins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


     Í 3. gr. laga um verslun ríkisins með með áfengi og tóbak segir að fjármálaráðherra ákveði útsöluverð áfengis og tóbaks á hverjum tíma. Í 3. gr. er einnig að finna leiðbeinandi reglu um verðlagningu tóbaks. Með hliðsjón af því að í öðrum greinum laganna er ekki vikið að verðlagningu á vörum ÁTVR þykir eðlilegt að bæta ákvæðum þeim, sem hér er lagt til að lögfest verði, við þá grein.

Um 2. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.