Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 174 . mál.


Nd.

192. Frumvarp til laga



um grunnskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



I. KAFLI


Markmið og skólaskylda.


1. gr.


    Ríki og sveitarfélögum er skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára eftir því sem nánar segir í lögum þessum. Skóli þessi nefnist grunnskóli. Öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri er skylt að sækja skóla, en frá því má þó veita undanþágu, sbr. 5., 7. og 8. gr.
     Þegar tilgreindur er aldur nemanda í lögum þessum miðast hann við það almanaksár er nemandinn nær nefndum aldri.

2. gr.


     Hlutverk grunnskólans, í samvinnu við heimilin, er að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun. Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Skólinn skal temja nemendum víðsýni og efla skilning þeirra á kjörum fólks og umhverfi, á íslensku þjóðfélagi, sögu þess og sérkennum og á skyldum einstaklingsins við samfélagið.
     Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.
     Grunnskólinn skal veita nemendum tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni og temja sér vinnubrögð sem stuðli að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Skólastarfið skal því leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.

3. gr.


     Grunnskóli er tíu ára skóli.
     Stefnt skal að því að hver grunnskóli sé heildstæður og einsetinn.
Hverjum grunnskóla má skipa í einingar með ákvörðun hlutaðeigandi sveitarstjórna að fenginni umsögn fræðslustjóra og samþykki menntamálaráðuneytisins.

4. gr.


     Í strjálbýli skal stefnt að heimanakstri nemenda en ekki heimavist.
     Stefnt skal að því að börn yngri en tíu ára dvelji ekki í heimavist nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi að mati fræðslustjóra.
     Sveitarstjórn er heimilt að koma á fót skólaseljum frá aðalskóla, að fenginni umsögn fræðslustjóra og með samþykki menntamálaráðuneytisins.

5. gr.


     Skólanefnd getur borið fram við fræðslustjóra rökstudda beiðni um tímabundna undanþágu frá því að uppfylla að fullu ákvæði 1. gr. þessara laga um skólaskyldu eða lágmarksákvæði 44. gr. um starfstíma skóla. Að fenginni tillögu fræðslustjóra úrskurðar menntamálaráðuneytið hvort eða að hve miklu leyti slík undanþága skuli veitt.

6. gr.


    Forráðamaður skólaskylds barns ber ábyrgð á að það innritist í skóla, þegar það kemst á skólaskyldualdur, og sæki skólann. Verði verulegur misbrestur á skólasókn skólaskylds barns án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli skal skólastjóri reyna að leysa málið. Takist það ekki skal málinu vísað til fræðslustjóra. Vilji forráðamaður barnsins ekki hlíta ákvörðun fræðslustjóra getur hvor aðili um sig vísað málinu til barnaverndarnefndar.

7. gr.


     Undanþegin því að sækja grunnskóla skv. 1. gr. eru:
     börn sem sækja viðurkennda einkaskóla, sbr. 72. gr.,
     börn er búa í skólahverfum sem fengið hafa undanþágu skv. 5. gr. að því leyti sem undanþágan kveður á um.

8. gr.


     Sæki forráðamaður skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu, í samráði við umsjónarkennara, telji hann til þess gildar ástæður. Fræðslustjóra skal tilkynnt um slíkar undanþágur.

II. KAFLI


Stjórn grunnskóla.


9. gr.


    Menntamálaráðuneytið fer með yfirstjórn þeirra málefna er lög þessi taka til.
Grunnskólaráð er samstarfsvettvangur menntamálaráðuneytisins og annarra aðila er starfa að málefnum grunnskólans. Verkefni þess eru m.a. að hafa yfirlit yfir lög og reglur sem varða grunnskóla, gefa ábendingar um lagfæringar á þeim og samræmi á milli þeirra. Grunnskólaráð fylgist með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámsskrár, gerir tillögur um úrbætur og stuðlar að samvinnu og samræmi í starfi þeirra sem vinna að málefnum grunnskólans.
     Ráðið skal skipað ellefu fulltrúum: Tveimur fulltrúum kennarasamtaka, einum fulltrúa skólastjórnenda, einum fulltrúa foreldrafélaga eða samtaka þeirra, tveimur fulltrúum Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa Háskóla Íslands, einum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, einum fulltrúa Námsgagnastofnunar auk tveggja fulltrúa menntamálaráðuneytisins og skal annar þeirra vera fræðslustjóri. Jafnmargir skulu tilnefndir til vara.
     Grunnskólaráð skal skipað til tveggja ára í senn.
     Menntamálaráðuneytið setur grunnskólaráði erindisbréf, kveður nánar á um skipun þess, starfstilhögun og starfssvið.

10. gr.


     Skipuð skal samstarfsnefnd menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framkvæmd laga þessara.
     Verkefni nefndarinnar skulu m.a. vera að gera áætlun um einsetinn skóla, lengdan og samfelldan skóladag og skólamáltíðir, sbr. bráðabirgðaákvæði laga þessara, skólasöfn, heimavistir og félagsstörf nemenda og aðstöðu vegna sérkennslu. Nefndin fær til umsagnar reglugerðir, sem varða samskipti ríkis og sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum, áður en þær eru gefnar út. Enn fremur fær hún til umsagnar ágreiningsatriði, sem kunna að koma upp varðandi þessi samskipti, áður en þau koma til úrskurðar.
     Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum frá menntamálaráðuneytinu og tveimur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn.

11. gr.


     Landið skiptist í fræðsluumdæmi sem hér segir:
     Reykjavíkurumdæmi sem nær yfir Reykjavík.
     Reykjanesumdæmi sem nær yfir Gullbringu - og Kjósarsýslu, Hafnarfjörð, Keflavík, Grindavík, Njarðvík, Garðabæ, Seltjarnarnes, Kópavog og Mosfellsbæ.
     Vesturlandsumdæmi sem nær yfir Borgarfjarðarsýslu, Akranes og Borgarnes, Mýrasýslu, Snæfellsnes - og Hnappadalssýslu, Ólafsvík, Stykkishólm og Dalasýslu.
     Vestfjarðaumdæmi sem nær yfir Austur - Barðastrandarsýslu, Vestur - Barðastrandarsýslu, Vestur - Ísafjarðarsýslu, Ísafjörð, Bolungarvík, Norður - Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu.
     Norðurlandsumdæmi vestra sem nær yfir Vestur - Húnavatnssýslu, Austur - Húnavatnssýslu, Blönduós, Skagafjarðarsýslu, Sauðárkrók og Siglufjörð.
     Norðurlandsumdæmi eystra sem nær yfir Eyjafjarðarsýslu, Akureyri, Ólafsfjörð, Dalvík, Suður - Þingeyjarsýslu, Húsavík og Norður - Þingeyjarsýslu.
     Austurlandsumdæmi sem nær yfir Norður - Múlasýslu, Seyðisfjörð, Suður - Múlasýslu, Neskaupstað, Eskifjörð, Egilsstaði, Austur - Skaftafellssýslu og Höfn.
     Suðurlandsumdæmi sem nær yfir Vestur - Skaftafellssýslu, Vestmannaeyjar, Rangárvallasýslu, Árnessýslu, Selfoss og Hveragerði.
    Í hverju fræðsluumdæmi skal vera fræðsluskrifstofa.

12. gr.


     Í hverju fræðsluumdæmi skal vera fræðsluráð.
     Fræðsluráð er samstarfsvettvangur sveitarfélaga og grunnskóla í viðkomandi umdæmi. Hlutverk þess er m.a. að vinna að eflingu skólastarfs í fræðsluumdæminu, stuðla að samvinnu og hagræðingu milli skóla, fjalla um sameiginleg verkefni og styðja starf skólanefnda og fræðsluskrifstofu.

13. gr.


     Í fræðsluráði eiga sæti níu fulltrúar sem skipaðir eru að loknum hverjum sveitarstjórnarkosningum. Fjórir fulltrúar eru kjörnir af sveitarstjórnum eða samtökum sveitarfélaga í hlutaðeigandi fræðsluumdæmi, fjórir af samtökum kennara og skólastjórnenda í umdæminu og fræðslustjóri sem jafnframt er formaður fræðsluráðs. Jafnmargir skulu kjörnir til vara.
     Fræðsluráð kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári.
     Fulltrúi foreldra á rétt til setu á fundum fræðsluráðs með málfrelsi og tillögurétti.
     Kostnaður vegna fundarsetu fulltrúa sveitarfélaga greiðist af sveitarfélögum en kostnaður vegna fundarsetu annarra fulltrúa greiðist úr ríkissjóði.

14. gr.


     Menntamálaráðuneytið ræður í stöðu fræðslustjóra að undangenginni auglýsingu. Við ráðningu fræðslustjóra er skylt að taka tillit til kennslufræðilegrar menntunar umsækjenda, stjórnunarreynslu innan skólakerfisins og þekkingar á skólamálum.

15. gr.


     Fræðslustjóri er fulltrúi menntamálaráðuneytisins um skólamál í umdæmi sínu og skal búsettur sem næst fræðsluskrifstofu þess. Hann er forstöðumaður fræðsluskrifstofu og formaður fræðsluráðs.
     Í umboði menntamálaráðuneytisins og í samvinnu við skólanefndir hefur fræðslustjóri umsjón og eftirlit með framkvæmd laga um grunnskóla í umdæmi sínu. Hann sér til þess að nemendur njóti kennslu og þjónustu samkvæmt lögum og öðrum fyrirmælum menntamálaráðuneytisins, hefur forgöngu um umbætur í skólamálum og eftirlit og umsjón með aðbúnaði, skipulagi og árangri skólastarfs.
     Menntamálaráðuneytið samræmir störf fræðslustjóra og setur um þau reglugerð.

16. gr.


     Menntamálaráðuneytið ákveður fræðsluskrifstofu stað í samráði við sveitarfélög í viðkomandi fræðsluumdæmi.
     Starfsmenn fræðsluskrifstofu eru ríkisstarfsmenn. Um ráðningu og starfskjör þeirra fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
     Verkefni fræðsluskrifstofu eru einkum þessi: áætlanagerð og eftirlit með námi og kennslu, sálfræðiþjónusta, kennsluráðgjöf, skólaþróun og nýbreytnistarf, endurmenntun og símenntun kennara í samráði við skóla sem veita kennaramenntun.
     Að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins er fræðslustjóra heimilt að semja svo við samtök sveitarfélaga, einstök skólahverfi og sveitarfélög að fræðsluskrifstofa taki að sér tiltekin verkefni fyrir þessa aðila, enda komi greiðsla fyrir. Á hliðstæðan hátt er fræðslustjóra heimilt að semja svo við samtök sveitarfélaga að skrifstofa þeirra eða einstakar starfsdeildir innan þeirra annist störf fyrir fræðsluskrifstofu, enda komi samþykki menntamálaráðuneytis til.

17. gr.


     Skólahverfi er sú eining sem stendur að einum grunnskóla eða fleiri. Sveitarfélög geta sameinast um rekstur grunnskóla og mynda þá eitt skólahverfi.
     Sveitarfélag sem rekur tvo eða fleiri grunnskóla telst eitt skólahverfi séu íbúar færri en 10 þúsund. Fjölmennari sveitarfélögum skal skipta í skólahverfi og annast viðkomandi sveitarstjórn þá skiptingu með samþykki menntamálaráðuneytisins. Miða skal við að íbúar í hverju skólahverfi séu að jafnaði ekki fleiri en 15 þúsund. Sama sveitarfélag getur átt aðild að fleiri en einu skólahverfi ef börn og unglingar á skólaskyldualdri úr viðkomandi sveitarfélagi eiga skólasókn til tveggja eða fleiri skólahverfa.

18. gr.


     Í hverju skólahverfi skal vera skólanefnd sem fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög þessi og reglugerðir ákveða og sveitarstjórn eða sveitarstjórnir kunna að fela henni.
     Skólanefnd skal sjá um að öll skólaskyld börn í skólahverfinu njóti lögboðinnar fræðslu. Hún fylgist með og stuðlar að því að jafnan sé fyrir hendi fullnægjandi húsnæði og annar aðbúnaður, þar með talin útivistar - og leiksvæði nemenda. Í samráði við skólastjóra lítur nefndin eftir að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða á þessu sviði og gerir tillögur til sveitarstjórnar um úrbætur. Enn fremur getur skólanefnd lagt tillögur um umbætur í skólastarfi fyrir skólastjóra í skólahverfinu.
     Skólanefnd er samráðsaðili um ráðningar starfsmanna hlutaðeigandi skóla sbr. 30. 34. gr.

19. gr.


     Skólanefnd skal kosin til fjögurra ára í senn af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum í upphafi hvers kjörtímabils. Um kosningu í skólanefnd og starfshætti fer samkvæmt sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.
     Varamenn í skólanefndum skulu jafnmargir aðalmönnum og kosnir á sama hátt.
     Í sveitarfélagi þar sem skólahverfi eru tvö eða fleiri skulu fulltrúar í skólanefnd vera kosnir úr hópi íbúa í viðkomandi skólahverfi.
     Þar sem fleiri en eitt sveitarfélag standa saman að rekstri grunnskóla eða hluta hans skulu aðilar setja í stofnsamning ákvæði um aðild hvers og eins að skólanefnd.
     Fulltrúar kennara, skólastjóra og foreldra eiga rétt til setu á skólanefndarfundum með málfrelsi og tillögurétti.
     Grunnskólakennarar í skólahverfinu kjósa úr sínum hópi fulltrúa til að starfa með skólanefnd. Þar sem stöðugildi við grunnskóla í skólahverfi eru 15 eða færri skal kjörinn einn kennarafulltrúi en tveir þar sem stöðugildi eru 16 eða fleiri. Varamenn kennarafulltrúa skulu vera jafnmargir aðalmönnum.
    Skólastjórar eða aðstoðarskólastjórar í forföllum þeirra, eiga rétt til setu á skólanefndarfundum.
    Foreldrafélag eða samtök foreldra í skólahverfinu kjósa úr sínum hópi einn fulltrúa til starfa með skólanefnd.

20. gr.


     Skólastjóri er forstöðumaður grunnskóla, stjórnar og ber ábyrgð á starfi hans undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins. Hann hefur í starfi sínu samráð við kennara, skólanefnd og fræðslustjóra.
     Skólastjóri boðar til kennarafundar svo oft sem þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Auk þess skal boða til slíks fundar ef þriðjungur kennara æskir þess.
     Öllum föstum kennurum skólans er skylt að sækja kennarafund þá mánuði er skóli starfar ef fundurinn fer fram innan dagvinnumarka.
     Í skólum, sem eiga rétt á 8 stöðugildum eða fleiri auk skólastjóra, skal almennur kennarafundur í upphafi hvers skólaárs kjósa þriggja manna kennararáð sem í umboði kennarafundar er skólastjóra til ráðuneytis um stjórn skólans. Í öðrum skólum fer almennur kennarafundur með hlutverk kennararáðs.
     Ágreiningi milli skólastjóra og kennararáðs eða kennarafundar um meðferð tiltekins máls skal vísa til fræðslustjóra. Ef samkomulag tekst ekki, úrskurðar menntamálaráðuneytið um málið. Ákvörðun skólastjóra gildir uns úrskurður liggur fyrir, nema samkomulag hafi orðið um annað.
     Nánar skal kveðið á um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð.

21. gr.


     Starfsmönnum skóla er skylt að efla sem mest samstarf skóla og heimila, m.a. með því að kennarar miðli fræðslu um skólamál til foreldra og veiti upplýsingar um starfið í skólanum.
     Foreldrar barna í grunnskóla, skólastjóri eða almennur kennarafundur geta óskað eftir því að stofnuð séu samtök foreldra eða foreldra og kennara við skólann í þeim tilgangi að styðja skólastarfið og efla tengsl heimila og skóla. Skólastjóri skal þá boða til stofnfundar slíkra samtaka.
     Fulltrúi foreldra á rétt til setu á kennarafundum, fundum skólanefnda og fræðsluráða með málfrelsi og tillögurétti nema þegar fjallað er um mál einstakra nemenda.
     Samtökin setja sér starfsreglur.

22. gr.


     Nemendum grunnskóla er heimilt að stofna nemendaráð sem vinnur m.a. að félags-, hagsmuna - og velferðarmálum nemenda. Skólastjóri felur einum af kennurum skólans að aðstoða nemendaráð.
     Fulltrúi nemenda eða nemendaráðs á rétt til setu á fundum skólastjóra og kennararáðs, svo og á kennarafundum, með málfrelsi og tillögurétti, þegar rætt er um skipulag skólastarfsins.
     Nemendaráð hvers skóla skal setja sér starfsreglur.

III. KAFLI


Skólahúsnæði.


23. gr.


    Gerð skólamannvirkja er undirbúin heima í héraði af sveitarstjórn í samráði við skólanefnd.
     Stofnkostnaður grunnskóla greiðist af sveitarfélögum. Í hverju skólahverfi skal vera skólahúsnæði sem fullnægir þörfum grunnskóla við þær aðstæður sem þar eru. Við gerð eða breytingar skólamannvirkja skal m.a. tekið tillit til hvort nemendur ganga til skóla, er ekið þangað daglega, búa þar í heimavist eða fyrirkomulag er blandað.

24. gr.


    Eigi tvö sveitarfélög eða fleiri félag með sér um byggingu skólahúsnæðis skal miða skiptingu stofnkostnaðar við eftirtalin meginatriði, nema um annað semjist:
     íbúafjölda,
     útsvarsskyldar tekjur í sveitarfélögum næstliðið ár,
     þann barnafjölda sem hverju sveitarfélagi ber að senda í skólann,
     kennslustundafjölda í þeim bekkjum sem aðild sveitarfélags miðast við.
    Eigi einungis hluti sveitarfélags aðild að viðkomandi skólahverfi skal miða a - og b - liði við þann hluta.

25. gr.


     Í skólahúsi skal, auk kennsluaðstöðu fyrir allar kennslugreinar, gera ráð fyrir skólasafni; aðstöðu fyrir nemendur til náms, annarra starfa og hvíldar utan kennslustunda; aðgengi og aðstöðu fatlaðra; aðstöðu til að neyta málsverðar; snyrtiherbergjum; skrifstofu- og vinnuherbergjum skólastjórnenda og kennara; aðstöðu til heilsugæslu, íþróttaiðkana og almennrar félagsstarfsemi í þágu nemenda; húsnæði til sérkennslu og sálfræðiþjónustu og annars þess er lög þessi gera ráð fyrir. Ef henta þykir má ætla aðstöðu til íþrótta eða annarrar kennslu í öðru húsnæði í nágrenni skólans.
     Við gerð heimavista skal kappkostað að þeir minni sem mest á venjuleg heimili og þannig sé gengið frá að nemendur geti jafnan náð til umsjónarmanns heimavista.

26. gr.


     Sveitarstjórnir ákveða í samráði við hlutaðeigandi skólanefnd hvaða sérfræðingar skuli annast hönnun skólabygginga, þ.e. undirbúningsvinnu og áætlanagerð, þar með gerð uppdrátta.
     Tillöguuppdrættir að gerð skólamannvirkja skulu kynntir opinberlega í viðkomandi skólahverfi. Fulltrúar skólastjóra og kennara skulu vera með í ráðum við hönnun skólamannvirkja.
     Áður en framkvæmdir hefjast skal leitað eftir samþykki menntamálaráðuneytisins fyrir viðkomandi skólamannvirki.
     Skólanefnd gerir tillögu um nafn skóla. Menntamálaráðuneytið staðfestir nafngift að fenginni umsögn örnefnanefndar.

27. gr.


     Um listskreytingu skólamannvirkja fer eftir lögum nr. 71/1990, um Listskreytingasjóð ríkisins.

28. gr.


     Sveitarfélög annast viðhald skólahúsa og búnaðar á fullnægjandi hátt, þar á meðal endurnýjun kennslutækja, sbr. 83. gr., og greiðist viðhaldskostnaður af sveitarfélögum.

29. gr.


     Dagleg umsjón og umráð skólamannvirkja, þar á meðal skólastjóra - og kennarabústaða sem eru sameign ríkis og sveitarfélaga eða í eigu sveitarfélaga einna, skal vera í höndum skólanefndar í umboði sveitarstjórnar og skólastjóra í umboði menntamálaráðuneytisins.
     Sveitarstjórn er heimilt að ráðstafa skólahúsnæði eða hluta þess til æskulýðsstarfsemi, íþróttastarfsemi og almennrar félagsstarfsemi í þágu íbúa byggðarlagsins. Slíkt er þó aðeins heimilt að það raski í engu skólahaldi, félagslífi nemenda né annarri lögbundinni notkun húsnæðisins.
     Að fenginni umsögn hlutaðeigandi skólanefndar getur sveitarstjórn ákveðið að skólahúsnæði sé utan venjulegs skólatíma notað til gistingar og veitingareksturs. Tekjur af eignum skóla renna til sveitarsjóða.

IV. KAFLI


Starfslið grunnskóla.


30. gr.


    Við hvern skóla sem starfar samkvæmt lögum þessum skal vera skólastjóri.
     Menntamálaráðuneytið ræður skólastjóra, að fengnum rökstuddum tillögum og umsögnum skólanefndar, kennararáðs og fræðslustjóra sem í hlut eiga.

31. gr.


     Í grunnskóla sem á rétt á tíu kennurum eða fleiri í fullu starfi, auk skólastjóra, ræður menntamálaráðuneytið aðstoðarskólastjóra, að fengnum rökstuddum tillögum og umsögnum skólastjóra, skólanefndar og kennararáðs.
     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að ráða aðstoðarskólastjóra, að fenginni tillögu skólanefndar, skólastjóra og fræðslustjóra, enda þótt forsendur þær sem greindar eru í 1. mgr. séu ekki fyrir hendi. Einnig er menntamálaráðuneytinu heimilt að ráða fleiri en einn aðstoðarskólastjóra við einn og sama skóla vegna sérstakra aðstæðna, komi um það tillaga frá skólanefnd, skólastjóra og fræðslustjóra.
     Aðstoðarskólastjóri er staðgengill skólastjóra. Í skólum þar sem starfa færri en tíu kennarar ákveður skólastjóri í upphafi skólaárs í samráði við kennarafund og skólanefnd hver af föstum kennurum skólans skuli annast skólastjórn í forföllum hans.

32. gr.


     Í grunnskóla skal kennsla falin föstum kennurum eftir því sem við verður komið og stundakennurum að öðru leyti, sbr. þó 13. gr. laga nr. 48/1986. Heimilt er að ráða kennara í einni eða fleiri kennslugreinum fyrir tvö eða fleiri skólahverfi samtímis til þess að fullnægja kennsluþörf ef ekki er fullt verkefni fyrir kennarann í einu skólahverfi.

33. gr.


     Skólastjóri ræður kennara og aðra starfsmenn skóla sem teljast ríkisstarfsmenn í samráði við skólanefnd og innan heimilda fjárlaga. Sé ekki völ á kennara með full kennsluréttindi getur skólastjóri sent undanþágunefnd grunnskóla beiðni um að lausráða umsækjanda til bráðabirgða í samræmi við ákvæði laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
     Fræðslustjóri staðfestir ráðningar þessara starfsmanna.
     Skólastjóri ræður stunda - og forfallakennara við grunnskóla, sbr. þó lög nr. 48/1986.
     Sveitarstjórn eða skólanefnd í umboði hennar ræður þá starfsmenn skóla er teljast starfsmenn sveitarfélaga í samráði við skólastjóra. Starfsmenn þessir lúta stjórn skólastjóra um dagleg störf í skólanum á starfstíma skóla.

34. gr.


     Við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofur skulu starfa námsráðgjafar er annast náms - og starfsráðgjöf og persónulega ráðgjöf er snertir nám nemenda.
     Námsráðgjafar annast náms - og starfsfræðslu í samvinnu við kennara.
     Námsráðgjafar skulu ráðnir með sama hætti og kennarar. Starfssvið og menntun námsráðgjafa og umfang þjónustunnar skal nánar skilgreint í reglugerð.

35. gr.


     Menntamálaráðuneytið skipar skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og kennara við grunnskóla að fengnum tillögum umsagnaraðila.

36. gr.


    Stefnt skal að því að ráðningar í stöður kennara og skólastjórnenda fari fram eigi síðar en 1. maí ár hvert.
     Fræðslustjóri auglýsir stöður skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna grunnskóla sem teljast ríkisstarfsmenn.
     Þurfi að ráða skólastjórnendur eða kennara fyrirvaralítið má ráða í starfið án undangenginnar auglýsingar, en auglýsa skal slíkar stöður svo fljótt sem unnt er, sbr. þó 13. gr. laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

37. gr.


     Skólastjórar, aðstoðarskólastjórar, kennarar, og aðrir starfsmenn ríkisins sem ráðnir eru til starfa við grunnskóla skulu gegna þeim samkvæmt lögum, reglugerðum og erindisbréfi er menntamálaráðuneytið setur.
     Um vinnutíma og kjör starfsmanna grunnskóla fer eftir ákvæðum laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna og kjarasamningum stéttarfélaga eftir því sem við á.
     Um embættisgengi skólastjóra, aðstoðarskólastjóra og kennara við grunnskóla gilda ákvæði laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.

38. gr.


     Fyrir hverja bekkjardeild eða námshóp í grunnskóla skal skólastjóri velja umsjónarkennara í samráði við kennararáð eða kennarafund. Umsjónarkennarinn fylgist sérstaklega með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim og leitast við að efla samstarf skóla og heimila, sbr. 21. gr.
     Skólastjóra er heimilt að fela föstum kennurum árgangastjórn og fagstjórn, leiðsögn nýliða og leiðsögn kennaranema.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um hlutverk og starfssvið umsjónarkennara, árganga - og fagstjóra og leiðsögukennara.

39. gr.


     Skólastjóri við heimavistarskóla er jafnframt heimavistarstjóri. Í heimavistum skal daglegt eftirlit og umsjón með nemendum jafnframt vera í höndum kennara, fóstra eða annarra starfsmanna sem menntamálaráðuneytið viðurkennir.
     Kostnaður við gæslu á heimavist greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.
     Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um störf og starfslið í heimavistum og aðbúnað nemenda þar.

40. gr.


     Þegar kennari nær 55 ára aldri minnkar kennsluskylda hans um 1 / 6 , og er hann nær 60 ára aldri minnkar kennsluskylda hans enn um 1 / 6 af fullri kennsluskyldu. Til þess að öðlast þennan rétt þarf tíu ára kennsluferil.

41. gr.


     Menntamálaráðuneytið getur veitt kennara námsleyfi á föstum launum í allt að eitt ár til að efla þekkingu sína og starfshæfni. Leyfistímann skal nota til:
     reglulegs náms í viðurkenndri menntastofnun eða
     a.m.k. tveggja mánaða námsferðar sem skipulögð er og/eða boðið til af aðila eða stofnun sem menntamálaráðuneytið viðurkennir.
     Af því fé, sem veitt er á fjárlögum til að kosta námsleyfi kennara, má veita ferðastyrki og styrki til viðbótar námsleyfi. Menntamálaráðuneytinu er heimilt að auglýsa eftir umsækjendum til að leggja fyrir sig tiltekið nám gegn námsleyfi og/eða styrk.
     Enginn kennari getur á starfsævi sinni fengið hærri fjárhæð í námsleyfi og styrki en nemur tveggja ára embættislaunum.
     Að námsleyfi loknu er kennara skylt að senda ráðuneytinu skýrslu um nám sitt á leyfistímabilinu og er ráðuneytinu heimilt að birta hana.
     Námsleyfi má binda því skilyrði að sá er það hlýtur starfi að skólamálum á Íslandi í minnst þrjú ár að námi loknu.
     Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um skólastjórnendur.
     Setja skal reglugerð sem kveður nánar á um framkvæmd námsleyfis.

42. gr.


     Til endurmenntunar skólastjórnenda og kennara á grunnskólastigi skal auk námsleyfa, sbr. 41. gr., verja fjárhæð sem til þess er ætluð á fjárlögum hverju sinni.

43. gr.


     Hafi starfsmaður grunnskóla gerst brotlegur við lög þessi eða reglugerðir samkvæmt þeim má vísa málinu til fræðslustjóra ásamt nauðsynlegum upplýsingum. Telji fræðslustjóri að aðgerðir í málinu þoli enga bið getur hann gert tafarlausar ráðstafanir til úrbóta um stundarsakir, en gefur þegar í stað skýrslu til menntamálaráðuneytisins sem tekur ákvörðun í málinu.
     Um meðferð slíkra mála fer að öðru leyti samkvæmt lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eftir því sem við á.

V. KAFLI


Starfstími grunnskóla.


44. gr.


    Reglulegur starfstími grunnskóla skal vera níu mánuðir á hverju skólaári, og hefjast 1. september, en ljúka 31. maí.
     Með hliðsjón af atvinnuháttum og aðstæðum í einstökum skólahverfum getur fræðslustjóri veitt tímabundna undanþágu frá framangreindum ákvæðum. Æski skólanefnd að hluta námsskyldu barna sé fullnægt með sumarskóla getur menntamálaráðuneytið heimilað það, að fenginni umsögn fræðslustjóra.
     Nánar skal kveðið á um starfstíma grunnskóla og grunnskólanemenda í reglugerð og með skóladagatali sem ráðuneytið gefur út árlega.

45. gr.


     Vikulegur kennslutími á hvern nemenda í grunnskóla skal að lágmarki vera þessi:
     í 1. bekk 1000 mínútur,
     í 2. bekk 1000 mínútur,
     í 3. bekk 1000 mínútur,
     í 4. bekk 1080 mínútur,
     í 5. bekk 1280 mínútur,
     í 6. bekk 1360 mínútur,
     í 7. bekk 1400 mínútur,
     í 8. bekk 1400 mínútur,
     í 9. bekk 1400 mínútur,
     í 10. bekk 1400 mínútur.
    Við ákvörðun daglegs og vikulegs starfstíma nemenda í grunnskóla skal þess gætt að í heild fari hann (þ.e. kennslutími, stundahlé og sjálfsnám utan kennslustunda) ekki fram yfir hæfilegt vinnuálag miðað við aldur nemenda og þroska.
     Daglegur kennslutími nemenda skal vera samfelldur með eðlilegum stundahléum og matartímum.
     Stundahlé í grunnskóla skulu að jafnaði vera 15 mínútur á móti hverjum 100 mínútum sem kenndar eru.
     Skólastjóri ákveður lengd kennslustunda í samráði við kennararáð/kennarafund. Meðallengd kennslustunda í grunnskóla telst vera 40 mínútur.

46. gr.


     Í grunnskóla skal jólaleyfi vera frá og með 21. desember til og með 3. janúar og páskaleyfi frá pálmasunnudegi til og með þriðjudegi eftir páska. Að öðru leyti skulu leyfisdagar ákveðnir í reglugerð.

VI. KAFLI


Námsskrá og kennsluskipan.


47. gr.


    Menntamálaráðuneytið setur grunnskólum aðalnámsskrá. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr.
     Í öllu starfi skólans skal leggja áherslu á:
     að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda,
     að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi,
     þjálfun í íslensku í öllum námsgreinum og leikræna og listræna tjáningu,
     hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir,
     skilning og frjótt, skapandi starf og jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms,
     að námið nýtist nemendum í daglegu lífi, frekara námi og starfi,
     að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi,
     margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni, safna - og heimildavinnu,
     náms - og starfsfræðslu, kynningu á atvinnulífi og námsleiðum til undirbúnings náms - og starfsvals.
     Við setningu aðalnámsskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms, sbr. 2. gr.
     Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.
     Í öllu skólastarfi skal tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, getu og áhugasviðum nemenda.

48. gr.


    Í aðalnámsskrá skal setja meginmarkmið og ákvæði um megininntak og skipulag náms og kennslu á þessum sviðum:
     Notkun íslensku í ræðu og riti, lestur, íslenskar bókmenntir og umræða um mál og málnotkun.
     Stærðfræði, hlutverk hennar í að lýsa fyrirbærum og leysa viðfangsefni, gildi röksemda, hlutfirringar og táknmáls.
     Listgreinar, fagurskyn, listhneigð og hagleikur; mynd - og handmennt, tónmennt, leiklist og dans.
     Heimilishald, heimilisrækt, neysla og hollusta.
     Líkams - og heilsurækt, íþróttir, sund.
     Eðli lifandi og lífvana náttúru, tækni og gagnkvæm áhrif manns og umhverfis.
     Mannlegt samfélag, samfélagshættir, umheimur og umhverfi nær og fjær í fortíð og nútíð, einkum með hliðsjón af Íslandi.
     Kristin trú og siður, önnur trúarbrögð og almenn lífsgildi.
     Erlend tungumál, að skilja og tjá sig á einu norðurlandamáli og ensku og kynnast menningu viðkomandi þjóða.
     Í aðalnámsskrá skal nánar kveðið á um uppbyggingu, áherslur og skipan náms í grunnskóla svo og hlutfallslega skiptingu tíma milli námssviða og námsgreina. Þess skal gætt að námið verði sem heildstæðast.
     Menntamálaráðuneytið hefur aðalnámsskrá grunnskóla stöðugt til athugunar og endurskoðunar og gerir tillögur um breytingar þegar þörf er talin á. Menntamálaráðuneytið gefur aðalnámsskrá grunnskóla út eigi sjaldnar en fimmta hvert ár.

49. gr.


     Í 8. 10. bekk mega námsgreinar vera að hluta frjálst val nemenda. Verja má allt að helmingi námstímans á hverju skólaári í valgreinar. Heimilt er að meta tímabundna þátttöku nemenda í atvinnulífinu á skólatíma sem nám, enda sé það skipulagt í samráði við skólann.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um valgreinar.

50. gr.


     Kennsla er veitt ókeypis í öllum opinberum grunnskólum.
     Ríkið sér nemendum í skyldunámi fyrir ókeypis námsgögnum. Námsgagnastjórn ákveður hvaða námsgögn eru látin í té og hvort þau eru afhent nemendum til eignar eða afnota.
    Námsbækur og önnur námsgögn sem skólar nota skulu vera í samræmi við gildandi lög og aðalnámsskrá. Vafamálum um hvort námsgögn uppfylla skilyrði laga og aðalnámsskrár má skjóta til sérstakrar nefndar sem skipuð skal einum fulltrúa frá Kennaraháskóla Íslands, einum fulltrúa frá Háskóla Íslands og einum fulltrúa frá Landssamtökum foreldrafélaga. Nefndin gefur út fullnaðarúrskurð í málum sem til hennar er skotið.
     Ekki er heimilt að krefja nemendur í skyldunámi um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn og annað efni sem þeim er gert skylt að nota samkvæmt lögum þessum og ríki og sveitarfélög eiga að leggja til.
     Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar.

51. gr.


     Í öllum grunnskólum skal nemendum gefinn kostur á að taka þátt í tómstunda - og félagsstarfi á vegum skólans. Tómstunda - og félagsstarf getur bæði verið liður í daglegu starfi og utan venjulegs skólatíma.
     Í félagsstarfi skal m.a. að því stefnt að nemendur verði færir um að taka að sér félagsleg störf í þjóðfélaginu.
     Kostnaður við félagsstörf greiðist af hlutaðeigandi sveitarfélagi.

VII. KAFLI


Réttindi og skyldur nemenda.


52. gr.


    Börnum og unglingum er skylt að sækja grunnskóla fái þau ekki hliðstæða kennslu annars staðar, sbr. 7. og 72. gr. þessara laga.
     Skólaskylda barns hefst við upphaf skólaárs á því almanaksári sem barnið verður sex ára. Foreldrar eða forráðamenn barns geta sótt um eða samþykkt að það hefji skólagöngu fyrr eða síðar en segir í lögum þessum um skólaskyldu sex ára barna. Skólastjóri getur veitt slíka heimild, að fengnum meðmælum hlutaðeigandi fræðsluskrifstofu.
     Ljúki nemandi öllu námi grunnskóla með tilskyldum árangri á skemmri tíma en tíu árum telst hann hafa lokið skyldunámi.
     Að höfðu samráði við foreldra eða forráðamenn, auk skólastjóra, getur fræðslustjóri heimilað nemanda að hverfa frá grunnskólanámi að loknum 9. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi og lýkur nemandi þá grunnskólanámi þeim mun síðar. Heimilt skal að meta þessa þátttöku nemandans í atvinnulífi til jafns við nám í tilteknum valgreinum 10. bekkjar.

53. gr.


     Börn og unglingar, sem að dómi kennara og annarra sérfræðinga skóla og fræðsluskrifstofu þurfa sérkennslu vegna erfiðleika í námi, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, eiga rétt á kennslu við sitt hæfi, sbr. 2. gr.
     Kennslan getur verið einstaklingsbundin eða farið fram í hópi innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérstökum deildum eða í sérskóla.
     Meginstefnan skal vera sú að kennslan fari fram í heimaskóla.
    Telji foreldrar barns eða forráðamenn, kennarar eða aðrir sérfræðingar skóla og fræðsluskrifstofu að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í heimaskóla geta forráðamenn sótt um skólavist fyrir það í sérskóla. Heimilt er að fela sérskóla að annast kennslu fatlaðra barna undir skólaskyldualdri, enda verði kennsla við hæfi þeirra ekki tryggð með öðrum hætti.
     Sérmenntaðir kennarar skulu annast kennsluna þar sem því verður við komið.
Menntamálaráðuneytið setur reglugerð um sérkennslu í grunnskólum.
     Menntamálaráðuneytið skal gera heildaráætlun um skipulag og framkvæmd sérkennslu í landinu.

54. gr.


     Í grunnskóla er heimilt að stofna nemendaverndarráð til að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra nemenda varðandi sérkennslu, námsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og heilsugæslu.
     Setja skal reglur um nemendaverndarráð.

55. gr.


    Á starfstíma skólans má nemandi ekki stunda vinnu utan hans valdi hún því að nemandinn geti ekki rækt nám sitt sem skyldi eða notið nauðsynlegrar hvíldar að dómi skólastjóra og kennara. Í slíkum tilvikum skal skólastjóri gera nemandanum, forráðamanni hans og hlutaðeigandi vinnuveitanda viðvart. Verði ekki bót á ráðin skal vísa málinu til fræðslustjóra. Vilji forráðamaður barnsins ekki hlíta ákvörðun fræðslustjóra getur hvor aðili um sig vísað málinu til barnaverndarnefndar.

56. gr.


     Nemendum ber að hlíta fyrirmælum kennara og starfsfólks skóla í öllu því er skólann varðar, fara eftir skólareglum og fylgja almennum umgengnisvenjum í samskiptum við starfsfólk og skólasystkin.
     Ef nemanda reynist verulega áfátt í hegðun ber kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og forráðamenn hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans.
     Meðan mál skv. 2. mgr. eru óútkljáð getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla um stundarsakir, enda tilkynni hann forráðamönnum nemanda og fræðslustjóra tafarlaust þá ákvörðun. Takist ekki að leysa málið innan skólans tekur fræðslustjóri það til meðferðar í samráði við skólanefnd.
     Óheimilt er að víkja nemanda úr skóla nema honum hafi verið tryggt annað úrræði.
     Í reglugerð skal mæla nánar fyrir um framkvæmd þessarar greinar.

VIII. KAFLI


Kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónusta.


57. gr.


    Fræðsluskrifstofa skal veita kennsluráðgjöf til leiðbeiningar kennurum í almennri kennslu og sérkennslu. Hún hefur faglega umsjón og eftirlit með nýbreytni - og þróunarstarfi og sérkennslu í grunnskólum umdæmisins.

58. gr.


     Á fræðsluskrifstofu skal halda uppi sálfræðiþjónustu. Eftir ósk foreldra, kennara og heilsugæslu skóla skal hún annast athuganir á nemendum sem annaðhvort eiga í sálrænum, tilfinningalegum, félagslegum eða öðrum skyldum erfiðleikum og nýtast ekki hæfileikar sínir í námi og starfi. Sálfræðiþjónusta leiðbeinir foreldrum og starfsmönnum skóla um uppeldi þessara nemenda og tekur þá sem með þurfa til greiningar eða vísar þeim á viðeigandi meðferð. Hún skal annast rannsóknir og athuganir á þessu sviði, vinna að forvörnum og stuðla að því að sálfræðileg þekking nýtist í skólastarfi.
     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að fela fræðsluskrifstofu að annast sálfræðiþjónustu á öðrum skólastigum, enda sé veitt til þess fé í fjárlögum.

59. gr.


     Á fræðsluskrifstofu eða í tengslum við hana er heimilt að reka kennslugagnamiðstöð og veita sérfræðilega ráðgjöf og þjónustu við stofnun og rekstur skólasafna.

60. gr.


    Fræðslustjóri gerir heildaráætlun fyrir sérfræðiþjónustu í fræðsluumdæminu. Þjónustan skal ná til allra grunnskóla og skal skipulögð miðað við aðstæður á hverjum stað. Heimilt er að fella alla þessa þjónustu í eina heild. Einnig er heimilt að reka hluta hennar utan fræðsluskrifstofu.
     Ákveða skal í reglugerð lágmarkssérfræðiþjónustu á fræðsluskrifstofum og fjölda starfsmanna og menntun þeirra.

61. gr.


     Forstöðumaður kennsluráðgjafar skal vera kennari með framhaldsmenntun í uppeldisfræðum. Forstöðumaður sálfræðiþjónustu skal vera sálfræðingur. Aðrir starfsmenn sérfræðiþjónustu fræðsluskrifstofa geta verið: kennarar, sérkennarar, uppeldisfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar eða aðrir sérfræðingar.
     Við ráðningu þess starfsfólks sem þessi grein tekur til skal taka tillit til reynslu og framhaldsmenntunar.
     Kostnaður við kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu greiðist úr ríkissjóði.

IX. KAFLI


Námsmat.


62. gr.


    Megintilgangur námsmats er örvun nemenda og námshjálp.
     Með námsmati í grunnskóla skal einnig reynt að afla sem öruggastrar og víðtækastrar vitneskju um það hver árangur hefur orðið af skólastarfinu. Hverjum kennara og skóla ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem aðalnámsskrá og skólinn setja þeim, sbr. 47. og 48. gr. Námsmat fer ekki eingöngu fram í lok námstímans, heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfsins, órjúfanlegt frá námi og kennslu.

63. gr.


    Námsmat í grunnskóla skal að jafnaði framkvæmt af kennurum skólans, sbr. þó 64. gr., og skulu nemendur stöðugt fá glöggar upplýsingar um námsárangur. Kennarar skulu gefa vitnisburð a.m.k. í lok hvers námsáfanga.
     Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra, nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemenda milli skóla. Þó skal heimilt að veita fræðsluyfirvöldum þessar upplýsingar og öðrum vegna fræðilegra rannsókna, enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.


64. gr.


     Menntamálaráðuneytið leggur grunnskólum til samræmd próf eða könnunarpróf. Skal einkum við það miðað að þessi próf veiti glögga vitneskju um árangur skólastarfsins.
     Kveða skal nánar á um fyrirkomulag prófanna og leiðbeiningar með þeim í reglugerð.

65. gr.


     Er grunnskólanámi lýkur skal nemandi fá skírteini er votti að hann hafi lokið skyldunámi samkvæmt lögum. Í skírteinið skal skrá vitnisburð í þeim námsgreinum er nemandi lagði stund á í 10. bekk.

66. gr.


     Menntamálaráðuneytið skipar prófdómara við samræmt námsmat, svo og trúnaðarmenn til aðstoðar við framkvæmd samræmdra prófa.
     Nánari ákvæði um tilhögun námsmats setur ráðuneytið í reglugerð. Þar skal og setja ákvæði um hvernig fylgst verði með námi þeirra nemenda á skólaskyldualdri sem eigi sækja almennan grunnskóla.

X. KAFLI


Skólaþróun, tilraunaskólar.


67. gr.


    Menntamálaráðuneytið hefur með höndum gerð áætlana um umbætur í skólastarfi, hefur yfirumsjón með þróunar - og tilraunastarfi í skólum, sér um endurskoðun aðalnámsskrár og hefur með höndum mat á skólum, skólastarfi og námsgögnum. Það veitir upplýsingar og leiðbeiningar um skólamál.
     Til þessara starfa skulu, auk fastráðinna starfsmanna, ráðnir sérfræðingar til allt að fjögurra ára í senn. Við ráðningu þeirra skal tekið tillit til kennslufræðilegrar menntunar og kennslureynslu.

68. gr.


     Árlega skal veita fé á fjárlögum í Þróunarsjóð grunnskóla. Menntamálaráðuneytið hefur umsjón með sjóðnum og setur reglur um styrkveitingar.

69. gr.


     Menntamálaráðuneytið getur veitt einstökum fræðsluumdæmum, skólahverfum og opinberum kennslustofnunum heimild til að reka tilraunaskóla eða gera tilraunir með ákveðna þætti skólastarfs með undanþágu frá ákvæðum laga og reglugerða, svo sem um nám, starfstíma skóla, kennslutilhögun, stundafjölda o.s.frv., enda brjóti slíkar undanþágur ekki í bága við 2. gr. þessara laga eða þrengi hlutverk grunnskóla frá því sem þar er gert ráð fyrir.
     Menntamálaráðuneytinu er heimilt að styrkja tilraunaskóla og sérstakar nýjungar eftir því sem fjárlög heimila hverju sinni.

XI. KAFLI


Skólasöfn.


70. gr.


    Í hverjum grunnskóla skal vera skólasafn. Heimilt er þó að sameina almenningsbókasafn og skólasafn ef það rýrir ekki gildi safnsins fyrir skólann, forstöðumenn beggja telja slíkt æskilegt og menntamálaráðuneytið samþykkir.
     Að skólasöfnum skal þannig búið að því er varðar húsnæði, bókakost, önnur námsgögn og starfslið að þau geti gegnt því hlutverki að vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu.
     Nánari ákvæði um skólasöfn, starfshætti, starfslið og menntun þess setur menntamálaráðuneytið í reglugerð.

XII. KAFLI


Heilsuvernd.


71. gr.


    Um heilsuvernd í grunnskóla fer eftir gildandi lögum um heilsuvernd í skólum. Sá aðili, sem fer með stjórn heilsuverndar í skólahverfi, skal hafa samráð við skólanefnd og skólastjóra um skipulagningu og fyrirkomulag þeirrar starfsemi.
     Skólastjóra ber að fylgjast með því að starfsfólk heilsuverndar ræki störf sín í skólanum í samræmi við þá tilhögun sem ákveðin hefur verið samkvæmt framangreindu.

XIII. KAFLI


Einkaskólar.


72. gr.


    Menntamálaráðuneytinu er heimilt að löggilda grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 3. gr., sem kostaðir eru af einstökum mönnum eða stofnunum, ef þeir starfa samkvæmt reglugerð eða skipulagsskrá sem ráðuneytið staðfestir, enda hlíti slíkir skólar sama eftirliti og reglum og aðrir grunnskólar. Börn sem þessa einkaskóla sækja hafa undanþágu skv. 7. gr., en forstöðumaður skal fyrir upphaf hvers skólaárs senda hlutaðeigandi skólanefnd og fræðslustjóra skrá um nemendur og tilkynna sömu aðilum allar breytingar á nemendaskrá jafnóðum og þær verða.
     Einkaskólar eiga ekki kröfu til styrks af almannafé.
     Skólagjöld eru háð samþykki menntamálaráðuneytisins.

XIV. KAFLI


Fjármál.


73. gr.


    Ríkissjóður greiðir launakostnað vegna almennrar kennslu í grunnskólum skv. 45., 47., 48. og 49. gr. með þeirri skólaskipan sem ákveðin er í hverju skólahverfi skv. 17. gr.
     Fjölda kennslustunda sem ríkissjóður greiðir skal miða við heildarfjölda nemenda er stunda nám samtímis í grunnskólum hvers skólahverfis skv. 74. og 75. gr.
     Að fengnu samþykki menntamálaráðuneytisins er heimilt að víkja frá þeim meginreglum, sem um getur í 1. og 2. mgr., þar sem fleiri en einn grunnskóli eða útibú er í sama skólahverfi. Skal þá tekið mið af eðlilegri skólasókn eftir búsetu nemenda og staðsetningu skóla innan skólahverfis.

74. gr.


     Að jafnaði skal við það miðað að nemendur í hverri bekkjardeild í grunnskóla séu ekki fleiri en 24 eftir að frá hafa verið taldir sérbekkir fyrir nemendur sem ekki stunda nám í almennum bekkjum grunnskóla.
     Við ákvörðun fjölda kennslustunda, sem ríkissjóður greiðir í hverjum grunnskóla, skal miða við að í 1. 3. bekk séu nemendur í einstökum bekkjardeildum ekki fleiri en 22 og í 4. 10. bekk ekki fleiri en 28.

75. gr.


     Í fámennum skólum, þar sem aldursflokkar í 1. 8. bekk eru saman í deild, skal við það miðað að nemendur í bekkjardeild séu ekki fleiri en hér segir:
     8 nemendur ef aldursflokkar eru fleiri en fjórir,
     12 nemendur ef aldursflokkar eru fjórir,
     17 nemendur ef aldursflokkar eru þrír,
     22 nemendur ef aldursflokkar eru tveir.
     Þegar sérstaklega stendur á getur fræðslustjóri ákveðið fjölgun um allt að fjóra nemendur í bekkjardeild gegn aukinni kennslu með fjölgun tíma.
     Í 9. og 10. bekk skal miða við að deildir séu eigi færri en aldursflokkar þeir sem sækja þessa bekki skólans. Til þess að 9. og 10. bekk grunnskóla verði haldið uppi í skólahverfi mega nemendur í þessum deildum þó ekki vera færri en 12 að meðaltali, nema að fenginni heimild menntamálaráðuneytisins.

76. gr.


     Heimilt er að blanda saman bekkjardeildum og aldurshópum ef skólinn telur sig þannig ná betur markmiðum aðalnámsskrár og sérstökum markmiðum skólans, enda sé kennslustundafjöldi innan samþykktra marka.
     Menntamálaráðuneytið setur reglur um greiðslur vegna skiptingar bekkjardeilda m.a. vegna verklegrar kennslu, svo og vegna valgreina í 8. 10. bekk.

77. gr.


     Auk almennrar kennslu greiðir ríkissjóður kennslukostnað vegna viðurkenndrar forfallakennslu, sjúkrakennslu og sérkennslu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.
     Samþykki viðkomandi skólanefnd og sveitarstjórn að kennslustundir og aðrar starfsstundir við skóla séu fleiri en samrýmist ákvæðum þessarar greinar, 73. og 77. gr., greiðist kostnaður vegna umframstundanna úr sveitarsjóði, nema menntamálaráðuneytið hafi heimilað annað.

78. gr.


     Auk kostnaðar við kennslu skv. 73. og 77. gr. greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun grunnskóla, námsráðgjöf og störf í skólasafni samkvæmt nánari ákvörðun í reglugerð, svo og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu kennara samkvæmt lagafyrirmælum eða ákvörðun menntamálaráðuneytis.
     Ríkissjóður greiðir enn fremur laun stjórnskipaðra prófdómara og kostnað er leiðir af kjarasamningum ríkisins við kennara.

79. gr.


     Sveitarfélög greiða allan annan rekstrarkostnað grunnskóla en laun vegna kennslu og stjórnunar eða kostnað vegna annarra þeirra rekstrarþátta sem greindir eru í lögum þessum sem verkefni ríkissjóðs.
     Sveitarfélög greiða m.a. efni til verklegrar kennslu, svo og pappír og ritföng, sem notuð eru í sameiginlegri starfsemi skólans og eru í hans vörslu.

80. gr.


     Skólastjóri skal árlega gera áætlun fyrir skóla sinn um fyrirkomulag kennslu, kennslustundafjölda og annan kostnað sem ríkissjóður og sveitarsjóður bera. Áætlunina skal miða við komandi skólaár. Áætlun þessa skal leggja fyrir skólanefnd og skal hún að því er fjármál sveitarfélaga varðar hljóta samþykki sveitarstjórnar, áður en hún er send fræðslustjóra fyrir 15. apríl ár hvert, eða annan þann dag sem menntamálaráðuneytið ákveður. Áætlun þessa skal endurskoða við upphaf skólaárs ef þörf krefur.
     Áætlun fyrir fræðsluumdæmið í heild sendir fræðslustjóri til menntamálaráðuneytisins á þeim tíma sem ráðuneytið ákveður.

81. gr.


     Menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd þessara laga.
     Hlutaðeigandi sveitarfélög annast fjármál og reikningshald, en geta falið skólanefnd, skólastjóra eða sérstökum reikningshaldara að hafa á hendi reikningshald í umboði sínu.
     Reikningar skólanna skulu endurskoðaðir á sama hátt og reikningar hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þar sem fleiri sveitarfélög en eitt standa að rekstri grunnskóla skulu hlutaðeigandi sveitarstjórnir sameiginlega tilnefna til fjögurra ára í senn tvo fulltrúa til að endurskoða reikninga skólans og tvo til vara. Menntamálaráðuneytið og aðilar í umboði þess skulu eiga aðgang að öllu slíku reikningshaldi og upplýsingum um skólakostnað.

82. gr.


     Ríkissjóður greiðir allan kostnað af rekstri fræðsluskrifstofu, þar með talinn allan kostnað við kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu í þeim skólum sem lög þessi taka til. Fjárveitingar til þessara starfa skulu greiddar mánaðarlega til fræðsluskrifstofu.
     Í reglugerð skal setja ákvæði um hvernig reikna skuli framlög til fræðsluskrifstofu.

83. gr.


     Sveitarfélög greiða stofnkostnað grunnskóla, sbr. 23. gr. Jafnframt falla úr gildi að því er tekur til grunnskóla ákvæði laga nr. 49/1967, um skólakostnað. Þó skulu haldast ákvæði þeirra laga um verðtryggingu stofnkostnaðarframlaga ríkissjóðs að því er tekur til framkvæmda sem fullgerðar voru eða hafnar í árslok 1989.
     Menntamálaráðuneytið setur reglur um lágmarksstærð grunnskólahúsnæðis og búnað þess.

XV. KAFLI


Gildistaka og reglugerð.


84. gr.


    Menntamálaráðuneytið setur nánari ákvæði í reglugerðir og reglur um framkvæmd laga þessara.

85. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög um grunnskóla, nr. 63/1974, með áorðnum breytingum, lög nr. 13/1962, um heyrnleysingjaskóla, og önnur lagaákvæði sem fara í bága við lög þessi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði 45. gr. um lágmarks vikulegan kennslutíma á hvern nemenda komi til framkvæmda á næstu þremur árum frá gildistöku laga þessara.
     Ákvæði 74. gr. um hámarksfjölda nemenda í 4. 10. bekk komi til framkvæmda á næstu þremur árum þannig að miðað verði við hámarkið 29 nemendur skólaárið 1991 92 og hámarkið 28 nemendur skólaárið 1992 93. Ákvæði 74. gr. um fjölda nemenda í 1. 3. bekk komi til framkvæmda á næstu þremur árum þannig að skólaárið 1991 1992 verði miðað við hámark 22 nemendur í 1. og 2. bekk og skólaárið 1992 1993 verði miðað við hámark 22 nemendur í 1. 3. bekk.
     Ákvæði 34. gr. um námsráðgjafa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofu komi til framkvæmda á næstu fimm árum frá gildistöku laganna samkvæmt ákvörðun í fjárlögum hverju sinni.
     Stefnt skal að því að ákvæði 3. gr. um einsetinn skóla komi að fullu til framkvæmda á næstu tíu árum frá gildistöku laganna samkvæmt áætlun sem unnin yrði í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Jafnframt verði á því árabili jafnt og þétt aukið við kennslutíma grunnskólanemenda að því marki að við lok tímabilsins verði vikulegur stundafjöldi allra nemenda 35 stundir, skóladagur samfelldur og nemendur eigi kost á skólamáltíðum.
     Að fimm árum liðnum frá gildistöku laga þessara skal menntamálaráðherra gera Alþingi grein fyrir framkvæmd og undirbúningi þeirra bráðabirgðaákvæða sem hér eru talin.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er í meginatriðum samhljóða frumvarpi til laga um grunnskóla sem lagt var fyrir 112. löggjafarþing vorið 1990.
    Frumvarpið er unnið í menntamálaráðuneytinu í ágúst til nóvember 1990 af sama starfshópi og samdi fyrra frumvarpið. Í starshópnum voru: Gerður G. Óskarsdóttir, ráðunautur menntamálaráðherra, Hrólfur Kjartansson, deildarstjóri grunnskóladeildar, Kolbrún Gunnarsdóttir, deildarstjóri sérkennsludeildar, Sigurður Helgason, deildarstjóri starfsmannadeildar, Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri skólamálaskrifstofu og Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri fjármálaskrifstofu.
    Starfshópurinn sem vann að frumvarpinu setti sér að breyta ekki 2. gr. grunnskólalaga og hrófla ekki við þeim greinum laganna sem breytt var með lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þegar á reyndi var þó óhjákvæmilegt að leggja til breytingar við nokkrar greinar til að gæta samræmis við aðra hluta frumvarpsins.
    Á meðan á samningu frumvarpsins stóð voru haldnir sérstakir umræðufundir með fulltrúum Kennarasambands Íslands og Samtaka íslenskra sveitarfélaga. Einnig var haldinn sameiginlegur fundur með fulltrúum Kennarasambandsins, Félags skólastjóra og yfirkennara, fræðslustjóra, Kennaraháskóla Íslands, Félags íslenskra skólasálfræðinga, Félags íslenskra námsráðgjafa og Félags skólasafnskennara. Á þessum fundum komu fram gagnlegar ábendingar bæði skriflegar og munnlegar sem starfshópurinn hafði til hliðsjónar við lokagerð frumvarpsins.
    Auk þess að hafa samráð við fulltrúa ýmissa samtaka, félaga og stofnana sem málið snertir hafði starfshópurinn hliðsjón af niðurstöðum nefnda og ályktunum ýmissa aðila um skólamál, umsögnum sem bárust sumarið 1990 um fyrra frumvarpið sem lagt var fram um vorið og álitsgerð umboðsmanns Alþingis um kaup á námsbókum og efnisgjald dags. 31. ágúst 1990. Einnig var tekið mið af frumvörpum til laga um breytingar á grunnskólalögum sem lögð hafa verið fyrir Alþingi á þessum áratug. Má þar nefna frumvarp til laga um breytingar á grunnskólalögum frá Ingvari Gíslasyni menntamálaráðherra 1983, frumvarp til laga um breytingar á grunnskólalögum sem flutt var af Skúla Alexanderssyni, Þórði Skúlasyni og Sveini Jónssyni 1986, frumvarp til laga um breytingar á grunnskólalögum flutt af Salome Þorkelsdóttur 1986, frumvarp til laga um grunnskóla frá Sverri Hermannssyni menntamálaráðherra 1987, frumvarp til laga um breytingar á grunnskólalögum flutt af Salome Þorkelsdóttur, Valgerði Sverrisdóttur, Guðrúnu Agnarsdóttur, Margréti Frímannsdóttur og Guðmundi Ágústssyni 1988 og frumvarp til breytinga á lögunum sem flutt var af Ragnhildi Helgadóttur, Birgi Ísl. Gunnarssyni og Þorsteini Pálssyni 1988, frumvarp til breytinga á grunnskólalögum sem flutt var af Guðrúnu Agnarsdóttur og Danfríði Skarphéðinsdóttur 1988.
    Helstu efnislegar breytingar frá frumvarpi því sem lagt var fyrir 112. löggjafarþing vorið 1990 eru þessar:
     Samstarfsnefnd menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga er fengið stærra hlutverk. Henni er einkum ætlað að gera áætlun um hvernig þeim markmiðum um einsetinn skóla, lengri og samfelldari skóladag, skólamáltíðir o.fl., sem sett eru fram í ákvæði til bráðabirgða, verði náð. Þessi markmið eru þess eðlis að ríki og sveitarfélög verða að leggjast á eitt og vera samstiga í framkvæmdum.
     Lagt er til að fræðsluráð fái nýtt hlutverk. Lög um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga breyttu hlutverki og verksviði fræðsluráða og skólanefnda í veigamiklum atriðum. Í frumvarpinu er lagt til að fræðsluráð verði samstarfsvettvangur skóla og sveitarfélaga í viðkomandi fræðsluumdæmi.
     Hlutverk skólanefnda markast af lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í frumvarpinu er lagt til að um kosningu skólanefnda fari samkvæmt sveitarstjórnarlögum og ákvæði um samsetningu og fjölda skólanefndarmanna verði einfölduð. Þá er gert ráð fyrir að skólanefndir geti gert tillögur og komið með ábendingar um umbætur í skólastarfi á sama hátt og áheyrnarfulltrúar kennara, skólastjóra og foreldra geta beint tillögum til skólanefnda um úrbætur í aðbúnaði.
     Fræðsluskrifstofum og fræðslustjóra er ætlað ákveðnara hlutverk, svo sem um skólaþróun, kennararáðningar, eftirlit með skólum og skólastarfi. Horfið er frá því að tala eingöngu um ráðningu kennara og skólastjórnenda í stað skipunar eða setningar eins og gert var í frumvarpinu vorið 1990. Engu að síður er framkvæmd ráðninga færð til þess horfs sem hefur verið að þróast að undanförnu en gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið skipi í stöður eins og hingað til.
     Horfið er frá orðalaginu „reglulegur starfstími grunnskólanemenda skal vera ...“ og orðalag gildandi laga látið halda sér, sbr. 44. gr. frumvarps þessa. Hið sama á við um ákvæði um jólaleyfi í grunnskóla, sbr. 46. gr.
     Bætt er inn nýrri grein um að kennsla skuli vera ókeypis og að nemendur skuli fá námsbækur í skyldunámi sér að kostnaðarlausu, sbr. 50. gr.
     Ákvæði um hámarksfjölda nemenda í bekk eru færð inn í fjármálakafla frumvarpsins, enda eru þær viðmiðanir grundvöllur fjölda kennslustunda sem ríkissjóður greiðir. Miðað er við hámarkið 28 nemendur í 4. 10. bekk í stað 30.
    Aðrar breytingar frá frumvarpi því sem lagt var fram á Alþingi vorið 1990 eru þær helstar að kaflaheitum hefur verið breytt, greinar og greinahlutar færðir til og uppröðun greina hefur verið breytt til að mynda rökrænni röð efnisatriða innan kafla.
    Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér frá lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, með áorðnum breytingum, eru þessar:
    Gildandi grunnskólalög eru að stofni til frá 1974. Síðan lögin tóku gildi hafa verið gerðar á þeim nokkrar breytingar. Þær stærstu eru vafalaust breytingar sem samþykkt laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, hafði í för með sér. Önnur veigamikil breyting var gerð vorið 1990 þegar sex ára börn urðu skólaskyld. Þær breytingar aðrar sem frumvarp þetta felur í sér eru að mestu aðlögun að þróun á síðustu tveimur áratugum.
    Valddreifing er eitt einkenni frumvarpsins. Þannig eru foreldrar og kennarar og einstakir skólastjórnendur kvaddir til verka oftar en í gildandi lögum. Þetta kemur m.a. fram í auknum verkum og ábyrgð fræðslustjóra, fræðsluskrifstofa og skólastjórnenda. Þetta birtist líka í því að gert er ráð fyrir því að skipta stærstu sveitarfélögunum í skólahverfi þar sem hvert hverfi hafi sína skólanefnd. Er það síðastnefnda í samræmi við frumvarp, sem lagt var fram í efri deild Alþingis 1988, frá þingmönnum úr öllum flokkum.
    

Kostnaðarskipting.


    Verkaskiptalögin taka af skarið um hver greiðir hvað og þar með um ábyrgð ríkis annars vegar og sveitarfélaga hins vegar á ýmsum þáttum skólahalds.
    

Einsetinn skóli.


    
Komið verði á einsetnum grunnskóla með samfelldum sjö stunda skóladegi. Nemendum gefist kostur á málsverði í skólanum. Þetta er undirstaða þess að unnt sé að lengja viðverutíma barna í skólum á sama tíma og þjóðfélagið byggir á þeirri forsendu að báðir foreldrar vinni utan heimilis. Með lengdum skóladegi er gert ráð fyrir því að unnt verði að sinna margvíslegum verkefnum í skólunum sem nú vinnst ekki tími til. Í ákvæði til bráðabirgða er við það miðað að þessu markmiði verði náð á tíu ára tímabili.
    

Grunnskólaráð.


    
Nýtt ákvæði um samstarfsvettvang þeirra aðila sem vinna að málefnum grunnskólans. Fulltrúar foreldrafélaga, kennarafélaga og kennaramenntunarstofnana verða í grunnskólaráði, auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, Námsgagnastofnunar og menntamálaráðuneytisins.
    

Samráðsnefnd menntamálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.


    
Hlutverk hennar verður stærra og ný verkefni eru tilgreind. Nefndin gegnir lykilhlutverki í gerð áætlunar vegna ákvæða til bráðabirgða.

Fræðsluskrifstofur.


    
Stöðu þeirra var breytt í verkaskiptalögunum og verksvið þeirra gert skýrara. Starfsmenn verða ríkisstarfsmenn. Gert er ráð fyrir deildaskipulagi fræðsluskrifstofa í frumvarpinu.

Kennsluráðgjafar.


    
Nýtt ákvæði. Kennsluráðgjafar starfa þegar á vegum fræðsluskrifstofa en hafa ekki verið sérstaklega nefndir í lögum áður.
    

Kennslugagnamiðstöðvar.


    
Nýtt ákvæði. Heimild til að stofna kennslugagnamiðstöðvar við fræðsluskrifstofur og koma á aðstoð við uppbyggingu skólasafna.

Fræðsluráð.


    
Breytt hlutverk og skipan. Samráðsvettvangur sveitarfélaga og skóla hvers umdæmis.

Skólanefndir.


    
Breytt hlutverk í kjölfar verkaskiptalaga. Fjöldi skólanefndarmanna og kosning þeirra verði samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Gerður verði stofnsamningur um aðild að skólanefnd þar sem fleiri en eitt sveitarfélag reka einn skóla.
    

Skólahverfi.


    
Fjölmennum sveitarfélögum verði skipt í skólahverfi. Miðað við að hámark 10 15 þús. íbúar myndi skólahverfi.
    

Foreldrar.


    
Áhrif og þátttaka foreldra eru aukin m.a. með aðild að grunnskólaráði og með áheyrnarfulltrúum á kennarafundum, skólanefndarfundum og í fræðsluráðum. Þetta stuðlar að stofnun formlegra samtaka foreldra í einstökum skólum og fræðsluumdæmum um allt land.

Ráðningar.


    
Breytt fyrirkomulag. Skólastjórar ráða kennara. Fræðslustjóri staðfestir f.h. ráðuneytis. Ráðuneytið skipar í stöður.

Námsráðgjafar.


    
Nýtt ákvæði. Námsráðgjafar geta starfað í einstökum skólum eða á fræðsluskrifstofum. Þeir eru ráðnir sem kennarar. Lagt er til að ákvæði um námsráðgjafa komi til framkvæmda á fimm árum.

Árgangastjórar, fagstjórar, leiðsögukennarar.


    
Nýtt ákvæði að hluta. Staðfesting á þróun síðustu ára.
    

Kennsluafsláttur vegna aldurs.


    Skilyrði fyrir kennsluafslætti lækkað úr 20 árum í 10.

Fjölgun kennslustunda.


    
Lenging á skóladegi 1. 3. bekkjar á næstu þremur árum í 25 stundir á viku. Sjö stunda heildstæður skóladagur allra grunnskólanemenda komi til framkvæmda á næstu tíu árum.
    

Lágmarksákvæði um kennslu.


    
Gert ráð fyrir því að ákvæðin um tímafjölda á hvern nemenda sem nú eru í grunnskólalögum verði lágmarksákvæði þannig að ekki verði heimilt að bjóða minni kennslu handa nemendum en grunnskólalög kveða á um.
    

Námsgögn.


    
Nýtt ákvæði í grunnskólalögum. Ítrekað að kennsla er ókeypis. Skýr ákvæði um ókeypis námsbækur í skyldunámi.

Nemendafjöldi í bekk.


    
Viðmiðunartala í 1. 3. bekk er lækkuð úr 30 nemendum í 22 nemendur Í 4. 10. bekk úr 30 nememendum í 28 nemendur.
    

Samkennsla í fámennum skólum.


    
Ákvæði rýmkuð til aukins sveigjanleika.
    

Sérkennsla.


    
Mörkuð er ákveðnari stefna um sérkennsluaðstoð í heimaskóla. Ákvæði um að gerð skuli áætlun um sérkennslu fyrir landið allt.
    

Nemendaverndarráð.


    
Nýtt ákvæði. Eykur líkur á samræmdum vinnubrögðum í sérkennslu og sérfræðiþjónustu við einstaka nemendur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


    

Um I. kafla.


Um 1. gr.


     Óbreytt 1. gr. grunnskólalaga.

Um 2. gr.


     Markmiðsgrein grunnskólalaga frá 1974 er tekin upp óbreytt. Með því er lögð áhersla á að í meginatriðum byggist frumvarpið á gildandi grunnskólalögum. Leitast er við að aðlaga lögin þeim breytingum sem orðið hafa í samfélaginu og skólakerfinu á þeim 15 árum sem liðin eru frá því að lög um grunnskóla voru samþykkt.

Um 3. gr.


     Í samræmi við lög nr 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, er sveitarstjórnum gert að ákveða hvort skóli skuli starfa sem ein stofnun eða vera skipt í einingar (t.d. 1. 4. bekkur, 8. 10. bekkur). Þó er stefnt að heildstæðum skóla, þ.e. skóla þar sem starfræktir eru allir bekkir grunnskólans frá 1. til 10. bekkjar undir einni stjórn. Í dreifbýli kann að vera heppilegt að sameina mjög fámenna skóla undir einni stjórn og á þessi grein einnig við um þá skipan mála. Samráð við menntamálaráðuneytið og samþykki er nauðsynlegt til að tryggja greiðslu kennslukostnaðar.
    Í greininni er ekki sett fram viðmiðun um stærð skóla eða eininga grunnskóla. Heppilegt þykir að skólar séu að öllu jöfnu ekki stærri en svo að þrjár bekkjardeildir (hliðstæður) séu í hverjum árgangi. Lætur nærri að í grunnskóla með 1. 10. bekk séu þá um 650 nemendur. Fjölmennari skólar þykja of stórir og ópersónulegir vinnustaðir fyrir nemendur og kennara. Hér er um viðmiðun að ræða, enda verður að taka tillit til óstöðugs íbúa - og nemendafjölda, t.d. í bæjum og borgarhverfum í örum vexti.
    Einnig eru þau nýmæli að skólar skuli vera einsetnir, þ.e. að hver bekkjardeild hafi sína skólastofu og stofur séu því sem næst jafnmargar og bekkjardeildir í viðkomandi skóla, auk sérgreinastofa. Þar með gefst möguleiki á að lengja skóladag nemenda og hafa hann samfelldan. Nútímaþjóðfélag kallar á slíkt fyrirkomulag bæði til þess að unnt sé að sinna ýmiss konar námi og starfi í skólunum sem ekki gefst ráðrúm til nú og einnig vegna þátttöku beggja foreldra í atvinnulífinu. Ljóst er að talsvert vantar á að skólahúsnæði í landinu sé nægjanlegt til þess að fullnægja þessum skilyrðum. Í athugun sem gerð var á vegum menntamálaráðuneytisins í byrjun árs 1989 kom í ljós að nú vantar í landinu rúmlega 500 kennslustofur til þess að einsetja megi alla grunnskóla (sjá bráðabirgðaákvæði). Því markmiði er unnt að ná á tíu árum með svipuðu framkvæmdafé til skólanna og lagt er fram á þessu ári. Í 10. gr. frumvarpsins er ákvæði um samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga sem m.a. er ætlað það hlutverk að gera áætlun um hvernig hægt verði að ná því markmiði um einsetinn skóla sem 3. grein felur í sér.

Um 4. gr.


     Merking greinarinnar er nánast óbreytt frá gildandi lögum. Áfram er stefnt að heimanakstri í stað heimavistar. Sveitarstjórnum er heimilt að fengnu samþykki ráðuneytisins að koma á fót skólaseljum þar sem heimanakstri til aðalskóla verður ekki við komið. Frumkvæðið er hér fært frá ráðuneytinu til sveitarstjórna. Í greininni er mörkuð sú stefna að yngri börn en 10 ára dvelji ekki í heimavist nema í undantekningartilvikum. Skólasel, sem eru eins konar útibú frá aðalskóla, skulu því koma í stað heimavista fyrir umrædda aldurshópa.
    Sú stefna að miða við heimangöngu eða akstur í stað heimavista þýðir aukinn skólaakstur. Í gildandi reglugerð um skólaakstur er sú viðmiðun notuð að nemendur séu að jafnaði ekki lengur en 90 mínútur á dag í akstri milli heimilis og skóla eða 45 mínútur hvora leið. Deila má um hver viðmiðunin eigi að vera en margir skólamenn og foreldrar telja 45 mínútna akstur í byrjun og lok hvers skóladags of mikið álag á nemendur, einkum þá yngstu.

Um 5. gr.


     Tvær síðustu málsgreinar 5. gr. gildandi laga eru felldar brott þar sem ákvæði þeirra eiga ekki við lengur vegna laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Orðalagi 1. mgr. er lítillega breytt en ekki gerðar efnislegar breytingar frá grunnskólalögum.

Um 6. gr.


    Þær breytingar eru gerðar á 6. gr. gildandi laga að skólastjóra er ætlað að vinna að lausn mála áður en þeim er vísað til fræðslustjóra og þar með til sérfræðinga sem starfa á fræðsluskrifstofum. Í ljósi þeirra breytinga sem verða á hlutverki skólanefnda í kjölfar laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, þykir ekki ástæða til að vísa málum af þessu tagi til skólanefnda.

Um 7. gr.


     Engin breyting frá gildandi lögum.

Um 8. gr.


     Þær breytingar, sem lagðar eru til við 8. gr. laganna, gera ráð fyrir því að skólastjóri, að höfðu samráði við umsjónarkennara, hafi heimild til þess að veita tímabundna undanþágu frá skólasókn telji hann til þess gildar ástæður. Í gildandi lögum veitir fræðslustjóri slíkar undanþágur að fenginni umsögn skólastjóra og skólanefndar, en það hefur reynst örðugt í framkvæmd. Hér er því verið að einfalda málsmeðferð. Þær tímabundnu undanþágur, sem hér um ræðir, eru t.d. vetrarorlof fjölskyldna, aðstoð við bændur á álagstímum, svo sem kringum réttir og aðrar slíkar tímabundnar fjarvistir sem skólastjóri metur gildar. Forráðamaður barnsins er þá ábyrgur fyrir því að nemandinn vinni upp það sem hann missir úr námi.

Um II. kafla.


    

Um 9. gr.


     Ný grein um stofnun grunnskólaráðs sem verði samstarfsvettvangur menntamálaráðuneytis, kennarasamtaka, Kennaraháskóla Íslands, Háskóla Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Námsgagnastofnunar og foreldra. Þessum samstarfsvettvangi er fyrst og fremst ætlað að samræma störf þeirra sem fjalla um málefni grunnskólans, stuðla að markvissara skólastarfi og þróun þess. Grunnskólaráð skal hafa yfirlit yfir gildandi lög og reglugerðir um grunnskólann, fylgjast með framkvæmd þeirra og gefa ráð um lagfæringu á þeim og samræmi á milli þeirra.
    Grunnskólaráð er hugsað sem ráðgefandi nefnd og vettvangur samráðs og upplýsinga milli þeirra stofnana, félaga og samtaka sem vinna að málum grunnskóla.
    Ráðuneytið setur grunnskólaráði erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um starfstilhögun og starfssvið ráðsins.

Um 10. gr.


     Ákvæði í 9. gr. gildandi laga um samstarfsnefnd ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem fjallar um fjárhagslega framkvæmd grunnskólalaganna er gert ítarlegra og lögð áhersla á mál sem lög nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, taka til. Samráðsnefndinni er fengið stærra hlutverk en áður m.a. með því að henni er ætlað að gera áætlun um einsetinn skóla, lengdan og samfelldan skóladag og skólamáltíðir, sbr. bráðabirgðaákvæði frumvarpsins, svo og um skólasöfn, heimavistir og félagsstörf nemenda og aðstöðu til sérkennslu. Slík áætlun sem gerð er af ríki og sveitarfélögum í sameiningu ætti að tryggja skjóta úrlausn mála, samræma aðgerðir og auka líkur á að framkvæmdir verði samstiga.

Um 11. gr.


     Hér eru gerðar þær breytingar á 10. gr. gildandi laga að nýir kaupstaðir bætast við í upptalningu. Heimildarákvæði laga nr. 29/1978, um stofnun sérstaks fræðsluumdæmis í sveitarfélögum með 10 þús. íbúa eða fleiri, er fellt niður.
    Ákvæði um að í hverju fræðsluumdæmi skuli vera fræðsluráð er flutt í 12. gr.

Um 12. gr.


     Í greininni er lagt til að fræðsluráð verði skilgreint á annan hátt en verið hefur og hlutverki þess breytt.
    Með lögum nr 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, hafa verið dregnar skýrari línur um verkefni þessara aðila á sviði skólamála. Verkaskiptalögin hafa m.a. breytt hlutverki og starfssviði skólanefnda og minnkað þörf fyrir fræðsluráð sem samráðsvettvang ríkis og sveitarfélaga í hverju umdæmi. Fræðsluráðin sem hafa starfað samkvæmt grunnskólalögunum hafa reynst kostnaðarsöm, einkum í dreifbýli, og misvirk. Engu að síður virðist full þörf fyrir þann vettvang sem fræðsluráðin hafa myndað til að fjalla um sameiginleg mál skóla í heilu fræðsluumdæmi. Með því að hafa fræðsluráðin áfram lögfest, en breyta hlutverki þeirra, gefst kostur á að halda uppi umræðu um skólamál umdæmis, samræma aðgerðir, koma við hagræðingu í skólaskipulagi og koma tillögum og hugmyndum um úrbætur á framfæri. Fræðsluráðin geta þannig orðið mikilvægur samráðsvettvangur sveitarstjórna og grunnskóla í umdæminu.

Um 13. gr.


     Greinin gerir ráð fyrir að fræðsluráð sé skipað að loknum sveitarstjórnarkosningum.
    Lagt er til að fræðslustjóri verði formaður fræðsluráðs. Miðað við breytt hlutverk fræðsluráðs, sbr. 12. gr., er eðlilegt að fræðslustjóri sé settur formaður. Með því móti verða fræðsluskrifstofur bakhjarl fræðsluráða og annast t.d. útvegun nauðsynlegra gagna, fundarboð, fundargerðir o.fl.
    Í greininni er haldið inni ákvæðum um fundarsetu foreldra eins og verið hefur. Æskilegt er að foreldrafélög í fræðsluumdæmi myndi með sér samtök sem síðan tilnefni fulltrúa til setu á fræðsluráðsfundum. Slík samtök foreldrafélaga eru nú aðeins starfandi í Reykjavík (SAMFOK).
    Gert er ráð fyrir að kostnaður vegna fræðsluráða sé nær eingöngu fólginn í fundarsetu og ferðum á fundi. Fræðsluráðin eru hugsuð sem samráðsvettvangur en ekki framkvæmdaraðili.

Um 14. gr.


     Í 32. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, er gerð sú breyting á grunnskólalögum að fræðslustjórar verða eingöngu fulltrúar menntamálaráðuneytisins.

Um 15. gr.


     Greinin er efnislega samhljóða 14. gr. grunnskólalaga. Verksvið fræðslustjóra er þó ekki skilgreint með ítarlegri upptalningu eins og í 14, gr. gildandi laga, enda á slík upptalning betur heima í reglugerð.
    Fræðslustjóri hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd laga um grunnskóla í umdæmi sínu. Þetta ákvæði tekur fyrst og fremst til þeirra framkvæmdaratriða sem starfsmenn ríkisins eiga að sinna. Engu að síður er óhjákvæmilegt að fræðslustjóri fylgist einnig með húsnæði og búnaði grunnskóla þótt skólabyggingar og aðbúnaður sé á verksviði sveitarfélaga. Húsnæði og búnaður getur haft afgerandi áhrif á möguleika starfsfólks skólanna til að uppfylla skyldur sínar varðandi nám og kennslu.

Um 16. gr.


     Greinin er í meginatriðum samhljóða þeirri breytingu sem varð á 15. gr. grunnskólalaga með lögum nr. 87/1989.
    Fellt er út að fræðslustjóri sé forstöðumaður fræðsluskrifstofu enda er það ákvæði komið áður í 15. gr.
    Bætt er inn ákvæði um að menntamálaráðuneytið verði að samþykkja þau verkefni sem fræðsluskrifstofur taka að sér fyrir sveitarfélög eða samtök þeirra eða þessir aðilar taka að sér fyrir fræðsluskrifstofur.
    Að öðru leyti fjallar greinin um meginverkefni fræðsluskrifstofu.


Um 17. gr.


     Greinin gerir ráð fyrir breytingu á skipan skólanefnda í sveitarfélögum með yfir 10 þúsund íbúa.
    Þetta er í samræmi við frumvarp sem lagt var fram á Alþingi 1988 af þingmönnum úr öllum flokkum (154. mál).
    Í greinargerð með því frumvarpi segir m.a.: „Tilgangur þessa frumvarps er að færa yfirstjórn skólamála, í þessu tilviki starf skólanefndar, nær vettvangi, auka lýðræði og áhrif íbúa skólahverfis á stjórn skóla og auðvelda þannig samstarf einstakra skóla og skólanefnda og gera það markvissara en nú er.“
    Flutningsmenn töldu að með þessum hætti væru auknar líkur á því að „málefni einstakra skóla fái betri umfjöllun og afgreiðslu fyrr en nú er og einnig að íbúar einstakra íbúðahverfa geti haft aukin áhrif á þróun skólamála í sínu nánasta umhverfi“.
    Flutningsmenn frumvarpsins höfðu einkum í huga þann vanda Reykvíkinga að Reykjavík er eitt skólahverfi samkvæmt grunnskólalögum. Þeir töldu þó að sami vandi gæti birst í öðrum byggðarlögum og því kæmi til greina að lækka viðmiðunartöluna 20 þúsund, t.d. í 10 þúsund ef aðrir þingmenn teldu það til bóta.
    Í 17. gr. er miðað við 10 þúsund íbúa og tekur breytingin því til Reykjavíkur og stærstu kaupstaða. Greinin gerir þó ráð fyrir nokkru svigrúmi sem felst í því að allt að 15 þús. íbúar geti staðið að baki skólanefnd.

Um 18. gr.


     Greinin fjallar um verkefni skólanefnda. Felld eru brott ákvæði um að skólanefndum sé heimilt að ráða sér starfsmann, skólafulltrúa, enda er slík ákvörðun á valdi viðkomandi sveitarfélaga hverju sinni.
    Felld eru brott ákvæði 2. og 3. mgr. 19. gr. grunnskólalaga, enda eiga þau ekki lengur við í ljósi verkaskiptalaganna.
    Lög nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, gera verksvið skólanefndar skýrara en áður. Skólanefnd er ótvírætt á vegum sveitarstjórnar eða - stjórna og starfar í umboði þeirra. Verksvið skólanefndar mótast því af ákvörðunum þeirra sem skipa þær en auk þess skulu þær fást við þau verkefni sem frumvarpið felur í sér. Í frumvarpinu eru dregnar þær meginlínur að skólanefndir sjái fyrst og fremst um mál sem lúta að húsnæði og búnaði grunnskóla en innra starf skólanna, nám og kennsla sé einkum á verksviði fræðsluskrifstofa.
    Þessi skýra verkaskipting kann að orka tvímælis. Farsælt og árangursríkt skólastarf er háð bæði gæðum kennslunnar og námsgagnanna sem ríkið stendur straum af en ekkert síður þeim aðbúnaði sem sveitarfélögum er gert að láta í té. Heillavænlegast er að allir aðilar, sem bera á einhvern hátt ábyrgð á skólahaldi, séu samtaka um að hlúa að því á allan hátt. Samstarf og samvirkni kann því að vera enn brýnni en áður. Skólanefndirnar kunna að vera ákjósanlegasti vettvangurinn til þess. Greinin gerir því ráð fyrir að nefndirnar geti fjallað um og beint tillögum og hugmyndum um umbætur í skólastarfi til skólanna á sama hátt og fulltrúar skólamanna leggja tillögur um úrbætur í aðbúnaði fyrir skólanefndir.

Um 19. gr.


     Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á 18. gr. gildandi laga hvað varðar skipan skólanefnda. Vísað er til sveitarstjórnarlaga um kosningu og starfshætti. Ákvæði um fjölda skólanefndarmanna eftir aðstæðum eru felld út enda gert ráð fyrir að sú ákvörðun liggi hjá viðkomandi sveitarstjórn eða samtökum sveitarstjórna.
    Gerðar eru nokkrar orðalagsbreytingar til samræmis við breytingar á 17. og 18. gr. frumvarpsins.
    Ákvæði þess efnis að í Reykjavík fari fræðsluráð með hlutverk skólanefndar er fellt brott til samræmis við 17. gr.
    Þær nýjungar eru teknar upp í greininni að foreldrar í hverju skólahverfi kjósi úr sínum hópi fulltrúa til starfa með skólanefnd.
     Felld er út síðasta málsgrein 18. gr. laganna enda óþörf.

Um 20. gr.


     Áréttað er í greininni að skólastjóri er forstöðumaður þess skóla sem hann starfar við, stjórnar starfi hans og ber ábyrgð á því.
    Staða skólastjóra hefur þótt óljós og er hér leitast við að skýra hana og einfalda gildandi lagatexta til að taka af tvímæli. Skólastjórar skulu starfa undir yfirstjórn menntamálaráðuneytisins sem setur þeim erindisbréf.
    Í samræmi við lög nr. 87/1989 er fellt út ákvæði í 20. gr. grunnskólalaga um að skólastjóri lúti yfirstjórn fræðsluráðs og skólanefndar. Í ljósi breytts hlutverks fræðsluráða og skólanefnda á það ákvæði ekki við lengur.
    Kennarafundur eða kennararáð í umboði þess skal vera skólastjóra til ráðuneytis við stjórn skólans. Bætt er inn ákvæði um hvernig fara skuli með hugsanlegan ágreining milli skólastjóra og kennara. Gert er ráð fyrir að ágreiningsefnum sé vísað til úrskurðar hjá fræðslustjóra sem reynir að leysa málið áður en það kemur til úrskurðar menntamálaráðuneytis.

Um 21. gr.


     Í greininni er lögð aukin áhersla á samskipti heimila og skóla og kennurum gert skylt að miðla fræðslu um skólamál til foreldra og veita upplýsingar um starfið í skólanum. Markmiðið er að foreldrar geti fylgst betur með námi barna sinna og þar með verið færari um að veita skólanum nauðsynlegt aðhald og hafa áhrif á skólastarfið.
    Réttur foreldra er aukinn með því að bæta inn ákvæði um að fulltrúi foreldra eigi rétt til setu á fundum skólanefnda og fræðsluráða auk kennarafunda.

Um 22. gr.


     Í greininni eru nokkrar orðalagsbreytingar frá gildandi lagatexta varðandi nemendaráð. Heimildin tekur til allra grunnskólanemenda í stað nemenda í 8. 10. bekk áður. Markmiðið er að efla félagsþroska nemenda þegar á unga aldri.
    Lögð er aukin áhersla á að nemendaráðin láti eigin mál til sín taka, svo sem félags-, hagsmuna - og velferðarmál.
    Réttur til setu nemendafulltrúa á fundum skólastjóra og kennararáðs og á kennarafundum er þó takmarkaður við fundi þar sem rætt er almennt um skipulag skólastarfsins.
    Nemendaráðið setur sér sjálft samþykktir til að starfa eftir.

Um III. kafla.


    

Um 23. gr.


     Greinin er efnislega samhljóða 34. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um 24. gr.


     Greinin er í samræmi við 35. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um 25. gr.


     Í greininni er skólahúsnæði skilgreint. Í orðalaginu „kennsluaðstaða fyrir allar kennslugreinar“ felst að í skólahúsnæði skulu vera kennslustofur eða aðstaða til að kenna allar þær námsgreinar og námsþætti sem lög, reglugerðir og aðalnámsskrá grunnskóla mæla fyrir um, þar með taldar list - og verkgreinar.
    Lögð er áhersla á mikilvægi skólasafns og að fatlaðir eigi greiða leið um húsnæðið og búi við aðstöðu sem gerir þeim kleift að njóta starfs og leiks til jafns við aðra. Með aðstöðu fyrir nemendur til náms, annarra starfa og hvíldar utan kennslustunda er átt við að nemendur hafi athvarf og viðunandi aðstöðu til að vinna eða nýta á annan hátt tíma sem kann að verða til við „göt“ í stundaskrá. Með orðalaginu „neyta málsverðar“ er átt við skólamáltíð eða svokallað skólanesti sem nemendur kaupa í skólanum eða hafa með sér að heiman. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að ríki og sveitarfélög geri í sameiningu áætlun um að koma skólamáltíðum á í grunnskólum sem ekki hafa þær þegar á boðstólum. Á meðan slík áætlun liggur ekki fyrir er eðlilegt að gera ráð fyrir að aðstaða til að neyta málsverðar sé með ýmsu móti í grunnskólum. Ef henta þykir má ætla aðstöðu til íþrótta eða annarrar kennslu í öðru húsnæði í nágrenni skólans. Þess verður þó að gæta að húsnæðið uppfylli almennar kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis og henti þeirri kennslu sem þar fer fram. Einnig felur orðalagið í nágrenni skólans í sér að nemendur eigi ekki að þurfa að eyða miklum tíma í ferðir á milli, skóladagur þeirra geti verið heillegur og fyllsta öryggis sé gætt á leið milli skólahúss og kennsluaðstöðu annars staðar.

Um 26. gr.


     Greinin gerir ráð fyrir að 2. mgr. gildandi lagagreinar falli niður, en í staðinn komi ákvæði um að tillöguuppdrættir að gerð skólamannvirkja skuli kynntir opinberlega í viðkomandi skólahverfi til þess að foreldrar og aðrir íbúar hafi tækifæri til að gera athugasemdir og koma með ábendingar.
    Einnig er gert ráð fyrir því að fulltrúar skólastjóra og kennara séu með í ráðum við hönnun skólahúsnæðis því að sjálfsagt þykir að þeir sem í skólum starfa hafi áhrif á gerð húsnæðis vegna sérþekkingar sinnar. Í flestum tilvikum yrði hér um skólastjóra og kennara viðkomandi skóla að ræða, en orðalagið „fulltrúar skólastjóra og kennara“ er valið til þess að tryggja að kennslu - og uppeldisfræðileg sjónarmið komist á framfæri þegar nýir skólar eru hannaðir.
    Þá eru einnig ákvæði um að áður en framkvæmdir hefjist skuli leitað eftir samþykki menntamálaráðuneytisins. Þetta er í samræmi við ákvæði í 83. gr. frumvarpsins sem er samhljóða 48. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Eðlilegt þykir að menntamálaráðuneytið fái upplýsingar um fyrirhuguð skólamannvirki í tvíþættum tilgangi. Í fyrsta lagi til þess að unnt sé að koma á framfæri athugasemdum vegna lágmarkskrafna um aðbúnað nemenda og vinnuaðstöðu kennara og í öðru lagi að ráðuneytið geti með nægjanlegum fyrirvara tekið afstöðu til kostnaðar við kennslu o.fl. sem af byggingu skólans leiðir.

Um 27. gr.


     Greinin er efnislega samhljóða 36. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um 28. gr.


     Greinin er efnislega samhljóða 37. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um 29. gr.


     Greinin er efnislega samhljóða 38. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    Bætt er inn til frekari áherslu að ráðstöfun skólahúsnæðis til annars en skólastarfs megi ekki raska venjulegu, lögbundnu skólahaldi né heldur félagslífi nemenda, enda er litið svo á að með félagslífi nemenda í skólanum sé verið að stuðla að miklilvægum uppeldis - og félagslegum markmiðum skólans. Áður en ákvarðanir eru teknar um aðra ráðstöfun skólahúsnæðis á starfstíma skóla en til náms og kennslu er eðlilegt að leitað sé álits skólastjóra á því hvort önnur starfsemi kunni að trufla skólahald.
    

Um IV. kafla.


    Þessi kafli hefur að hluta verið umsaminn, heiti hans stytt, röð greina er önnur en í grunnskólalögum og efnisatriði hafa verið flutt á milli greina til þess að fá skýrari heildarmynd af efni hans.

Um 30. gr.


     Um ráðningu, setningu og skipun kennara og skólastjóra fer samkvæmt lögum nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Því er ekki talin þörf á 2. mgr. 30. gr. laganna. Í þessu frumvarpi er ákvæði um skipun sett í 35. gr.
    Þá er það nýmæli að kennararáð geri tillögu til menntamálaráðuneytisins um ráðningu skólastjóra auk skólanefndar og fræðslustjóra. Tillögur kennararáðs koma þó ekki til þegar um er að ræða nýja skóla og kennarar hafa ekki verið ráðnir.
    Í greininni er talað um rökstuddar tillögur og umsagnir til að leggja áherslu á vandað og vel ígrundað mat þeirra sem ákvæðið tekur til.

Um 31. gr.


    Starfsheitinu yfirkennari samkvæmt gildandi lagagrein er breytt í starfsheitið aðstoðarskólastjóri. Þetta er gert til að undirstrika að þessi starfsmaður er fyrst og fremst aðstoðarmaður skólastjóra. Menntamálaráðuneytið ræður aðstoðarskólastjóra, að fengnum tillögum skólastjóra, skólanefndar og kennararáðs og skal fylgja tillögunum rökstudd umsögn.
    2. mgr. felur í sér heimild til að ráða aðstoðarskólastjóra þótt forsendur þær sem 1. mgr. kveður á um séu ekki fyrir hendi. Hér er t.d. átt við skólasel, sbr. 4. gr., og þegar þannig háttar til að grunnskóli starfar í einingum sbr. 3. gr. Heimildarákvæðið tekur einnig til þess að ráða megi fleiri en einn aðstoðarskólastjóra við einn og sama skóla ef hlutaðeigandi skólanefnd, skólastjóri og fræðslustjóri leggja það til og sérstakar aðstæður krefjast þess. Hér er t.d. átt við skóla sem eru tímabundið mjög fjölmennir.
    Í skólum sem ekki eiga rétt á ráðningu aðstoðarskólastjóra felur skólastjóri í samráði við skólanefnd og kennara í upphafi skólaárs einum af föstum kennurum skólans að annast skólastjórn í forföllum sínum. Þetta er gert til að tryggja stjórn skólans forfallist skólastjóri skyndilega.
    Fellt er niður ákvæði um að ráðherra sé skylt að fara eftir tillögum umsagnaraðila ef þeir eru sammála um að mæla með ákveðnum umsækjanda í stöðu aðstoðarskólastjóra þar sem ekki þykir ástæða til að hafa þau sérákvæði um þessa starfsmenn eingöngu.

Um 32. gr.


     Efnislega óbreytt ákvæði 1. og 2. mgr. 37. gr. grunnskólalaga. Vísað er til laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
    3., 4. og 5. mgr. 37. gr. laganna verða 39. gr. frumvarpsins.
    Þegar talað er um fasta kennara er átt við þá kennara sem ráðnir eru í 1 / 2 starf eða meira.
    Ef kennari er ráðinn til að gegna kennslu í fleiri en einu skólahverfi verður að gera ráð fyrir að ríkissjóður standi straum af kostnaði við ferðir á milli skóla.

Um 33. gr.


     Nú er ráðningu þannig háttað að menntamálaráðuneytið setur eða skipar kennara, að fengnum tillögum skólastjóra, skólanefndar og fræðslustjóra.
    Þrátt fyrir þessi ákvæði hefur ráðning kennara raunverulega verið í höndum skólastjóra. Breytingin er því fyrst og fremst formleg þar sem rétt þykir að það fyrirkomulag sé lögfest.
    Gert er ráð fyrir að skólastjóri ráði kennara, námsráðgjafa og annað starfslið sem telst ríkisstarfsmenn í samráði við skólanefnd. Takist ekki að fá kennara með full kennsluréttindi til að sækja um auglýsta stöðu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir skal skólastjóri sækja um undanþágu til að ráða tiltekinn starfsmann til kennslustarfa í samræmi við 13. gr. laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra.
    Fræðslustjórar munu staðfesta ráðningarsamninga í umboði menntamálaráðuneytisins.
    Síðasta málsgrein 33. gr. fjallar um ráðningu annarra starfsmanna skóla. Enda þótt þessir starfsmenn, svo sem húsverðir, ræstingafólk, gangaverðir og skrifstofufólk sé ráðið af sveitarstjórnum og að tilhlutan skólanefnda, þykir nauðsynlegt að tryggja samræmi í störfum þeirra og starfsmanna sem annast nám og kennslu. Því er gert ráð fyrir að skólastjóri hafi yfirsýn yfir og umsjón með daglegum störfum allra starfsmanna í skólanum á starfstíma skóla. Eðlilegt er að sveitarstjórnir hafi daglega verkstjórn á hendi utan venjulegs starfstíma skóla, t.d. á sumrin.

Um 34. gr.


     Tekið er upp það nýmæli að námsráðgjafar skuli starfa við einstaka grunnskóla eða fræðsluskrifstofur og sinna ráðgjöf við nemendur um mál er tengjast námi þeirra. Hér er um að ræða náms - og starfsráðgjöf og persónulega ráðgjöf.
    Uppeldishlutverk skólans hefur stóraukist hin síðari ár án þess að skólanum hafi verið búin aðstaða til að mæta því sem skyldi. Breyttir þjóðfélagshættir, fjölbreytt námsframboð og mismunandi undirbúningur undir atvinnulíf og starfsréttindi kallar á markvissa ráðgjöf við nemendur.
    Námsráðgjöfum er einnig ætlað að sinna náms - og starfsfræðslu í samvinnu við kennara. Reiknað er með að t.d. bekkjarkennarar eða fagkennarar sinni fræðslunni en námsráðgjafi liðsinni þeim um skipulag og efni. Námsleiðum hefur fjölgað mjög á framhaldsskólastigi og fjölbreytni starfa í atvinnulífinu eykst stöðugt. Grunnur að starfsvali er lagður snemma á ævi hvers einstaklings og því er mikilvægt að börnum sé kynnt atvinnulífið með ýmsum hætti og í tengslum við margar námsgreinar allan grunnskólann.

Um 35. gr.


     Óbreytt ákvæði um skipun í stöður.

Um 36. gr.


     Ný grein sem kemur í stað 33. gr. grunnskólalaga.
    Hér er gert ráð fyrir að fræðslustjórar auglýsi lausar stöður við grunnskóla í stað menntamálaráðuneytisins þar sem þeir eru nær vettvangi.
    Þá er gert ráð fyrir að gengið sé frá ráðningum fyrir 1. maí í stað 1. júlí til þess að ráðningum sé lokið áður en skólastarfi lýkur að vori og þar með sé hægt að skipuleggja næsta skólaár fyrr en nú er.

Um 37. gr.


    35. gr. grunnskólalaga er hér óbreytt að öðru leyti en því að fellt er niður ákvæði um að skólastjórar og kennarar heimavistarskóla skuli ekki fá skipun fyrr en eftir tveggja ára reynslu við störf í slíkum skóla, sbr. lög nr. 48/1986.

Um 38. gr.


     Í 38. gr. grunnskólalaga er tekið fram að skólastjórar velji umsjónarkennara bekkja. Hér er gerð sú breyting að skólastjórar velja umsjónarkennara í samráði við kennararáð eða kennarafund til þess að tryggja að kennarar séu með í ráðum. Engu að síður hefur skólastjóri síðasta orðið um val á umsjónarkennurum.
    Skólastjóra er enn fremur heimilað að fela föstum kennurum árgangastjórn og fagstjórn svo og leiðsögn nýliða eftir nánari reglum er menntamálaráðuneytið setur um hlutverk þeirra.
    Nokkur reynsla er þegar komin af starfi árganga - og fagstjóra og leiðsögukennara í grunnskólum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem menntamálaráðuneytið hefur aflað um árganga - og fagstjórn, leikur ekki vafi á að hér er um að ræða störf sem stuðla að skipulegri og samfelldari vinnubrögðum en áður. Árganga - og fagstjórar samræma nám og kennslu, afla upplýsinga og gagna, skipuleggja samráð innan skóla og milli skóla og hafa yfirsýn yfir skólastarfið. Þeir gegna einnig mikilvægu hlutverki við undirbúning og gerð skólanámsskrár sem er eins konar heildaráætlun um starf tiltekins skóla.
    Leiðsögukennarar hafa það hlutverk að koma nýliðum inn í starfið. Hlutverk þeirra er mikilvægt í ljósi skorts á kennurum með full réttindi. Mikill fjöldi leiðbeinenda (kennarar sem ekki hafa réttindi samkvæmt lögum nr 48/1986) er ráðinn að grunnskólum ár hvert og umtalsverður hluti þess hóps hefur ekki kennt áður. Reyndum grunnskólakennurum, þ.e. leiðsögukennurum er falið að upplýsa nýliða um skólann og skólastarfið og vera þeim til halds og trausts fyrsta kennsluárið.

Um 39. gr.


     3., 4. og 5. mgr. 37. gr. laganna eru settar fram í sérstakri grein sem er samhljóða 40. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um 40. gr.


     Þessi ákvæði eru í 36. gr. grunnskólalaga.
    Greinin breytist þannig að skilyrði fyrir kennsluafslætti við 55 og 60 ára aldur verður 10 ára kennsluferill í stað 20 ára. Hér er átt við afslátt af kennsluskyldu en ekki minnkun á starfsskyldu. Bent skal á að hjá framhaldsskólakennurum er kennsluafsláttur vegna aldurs ekki bundinn lengd starfsferils.

Um 41. gr.


     Ákvæði 40. gr. í gildandi lögum um orlof eru einfölduð. Í stað orlofs er notað orðið námsleyfi sem undirstrikar enn betur markmið greinarinnar. Í stað orlofstímans er talað um leyfistímann af sömu ástæðu.

Um 42. gr.


     Í greininni er orðinu skólastjórnenda bætt í textann til að leggja áherslu á rétt þeirra til endurmenntunar.

Um 43. gr.


     Greinin er efnislega óbreytt 55. gr. gildandi laga. Orðalag er einfaldað og efni 1. og 2. mgr. fellt saman.

Um V. kafla.


    V. kafla grunnskólalaga er hér skipt í tvo kafla. 41., 44. og 45. gr. grunnskólalaganna eru látnar mynda einn kafla um starfstíma.

Um 44. gr.


     Gert er ráð fyrir 9 mánaða reglulegum starfstíma grunnskóla frá 1. september til 31. maí. Í 2. mgr. er heimild til tímabundinnar undanþágu frá þessari meginreglu.
    Í 41. gr. gildandi laga er reglulegur starfstími grunnskóla hins vegar mismunandi eftir skólahverfum eða 7 9 mánuðir.
    Hér á eftir fylgir tafla yfir nemendafjölda í grunnskólum landsins skólaárið 1988/1989 skipt niður eftir starfstíma þeirra og til samanburðar sama skipting skólaárið 1973/1974:


    TAFLA, REPRÓ.







    Stefnt er að því að jafna þennan mun og er það í samræmi við þróunina á síðustu árum eins og ofangreind tafla sýnir.
    Í síðustu málsgrein er kveðið á um reglugerð og skóladagatal. Gert er ráð fyrir að þar komi fram nánara skipulag starfstímans í grunnskólum, hvernig hann skiptist í áfanga, fjöldi starfsdaga kennara, frídagar, tími til prófa og námsmats o.fl. Með hliðsjón af þessu er lagt til að 60. gr. grunnskólalaga falli burt.

Um 45. gr.


     Efni 44. gr. laganna hefur verið raðað á nýjan leik til að fá rökræna röð málsgreina.
    Í 1. mgr. er orðalagið sem næst fellt út en í stað þess sett lágmark í a j - liðum. Lágmarkskennsla sem nemendur í grunnskóla eiga rétt á verður ákveðnari með þessu móti, sjá enn fremur ákvæði til bráðabirgða.
    Í a j - liðum er lagt til að vikulegur skólatími yngri barna verði aukinn að lágmarki í 1000 mínútur eða 5 kennslustundir á dag að jafnaði miðað við 5 daga kennsluviku.
    Í eftirfarandi töflu er samanburður á vikulegum kennslustundafjölda samkvæmt
     gildandi lögum,
     gildandi viðmiðunarstundaskrá,
     lágmarki í 45. gr. frumvarps þessa og
     hámarki í ákvæðum til bráðabirgða í frumvarpi þessu.
    Miðað er við að meðallengd kennslustundar sé 40 mínútur.



    TAFLA, REPRÓ.











    Í neðri bekkjum grunnskólans er því lagt til að vikulegur kennslutími verði aukinn og er það í samræmi við kröfur í þjóðfélagi þar sem báðir foreldrar vinna utan heimilis. Með lengdum skóladegi er auk þess gert ráð fyrir því að unnt verði að sinna margvíslegum verkefnum í skólanum sem nú vinnst ekki tími til.
    2. mgr. er óbreytt 1. mgr. laganna. Hér er um almennt ákvæði að ræða sem varðar vinnuálag á nemendur.

Um 46. gr.


     Greinin er óbreytt 45. gr. grunnskólalaga.

Um VI. kafla.


    

Um 47. gr.


    42. gr. grunnskólalaga er hér skipt í fjórar greinar.
    Í fyrsta hluta greinarinnar er í raun kveðið nánar á um þau meginatriði sem fjallað er um í 2. gr. laganna. Þau eru sameiginleg öllum námsgreinum og koma ekki einungis fram í daglegri kennslu heldur í öllu starfi skólans. Hér er fyrst og fremst lögð aukin áhersla á þessi atriði og tekið tillit til þeirrar þróunar sem orðið hefur frá setningu laganna 1974 fremur en að um efnisbreytingar sé að ræða.
    Í stað orðsins kennslufræði í gildandi lögum er hér notað orðið kennsluskipan. Með þessari breytingu er lögð áhersla á faglegt sjálfstæði skóla og að starfslið þeirra velji þær kennsluaðferðir sem við eiga hverju sinni. Með kennsluskipan er átt við að aðalnámsskrá segi fyrir um skipulag náms, t.d. röðun námsefnis á námsár í megindráttum.

Um 48. gr.


     Í a i - liðum eru ákvæði um á hvaða sviðum skuli setja markmið og inntakslýsingar í aðalnámsskrá. Hér er ekki um efnislegar breytingar að ræða þótt uppröðun sé lítillega breytt frá gildandi lagagrein. Aukin áhersla er lögð á hlut skólans í að stuðla að heilbrigði og hollustu. Listir og verkmenntir fá líka aukið vægi.

Um 49. gr.


     Greinin fjallar um valgreinar en um þær eru ákvæði í 1. og 3. mgr. 42. gr. laganna.
    Það tíðkast almennt í grunnskólum að nemendum í 10. bekk sé gefinn kostur á að velja um nokkrar námsgreinar. Sjaldgæft er að nemendur 8. og 9. bekkjar eigi kost á valgreinum. Á síðustu árum hefur þó færst í vöxt að bjóða fram valgreinar fyrir 9. og 10. bekk eða 8., 9. og 10. bekk sameiginlega. Einkum á þetta við um fámenna skóla.
    Tilgangurinn með því að bjóða valkosti í námi er einkum sá að reyna að höfða til sem flestra nemenda. Vitað er að nemendur hafa ekki allir áhuga á því sama og erfitt er að vekja áhuga allra samtímis á sama viðfangsefni. Greinin á þó ekki við um almennt val í námi, t.d. um verkefni innan námsgreina, heldur um val milli námsgreina.
    Skólar hafa fram til þessa haft mjög frjálsar hendur um hvaða valgreinar eru boðnar. Framboðið ræðst einkum af því hvaða möguleikar eru á að útvega kennara og hvaða aðstaða er fyrir hendi. Upphaflega mun hugmyndin hafa verið sú að valgreinaframboðið væri einkum á sviði lista og verkmennta. Í auglýsingu um skiptingu kennslustunda milli námsgreina, sem menntamálaráðuneytið gefur út, er sérstaklega mælt með því að eftirtaldar greinar séu boðnar fram: Heimilisfræði, mynd - og handmennt, sjóvinna, starfsfræðsla, kynning atvinnuveganna, tónmennt, hljóðfæraleikur, kórstarf, tölvufræði, vélfræði, viðskiptagreinar, bókfærsla, vélritun.
    Í könnun sem menntamálaráðuneytið gerði 1977 78 kom í ljós að um 60 mismunandi valgreinar voru í boði í skólum landsins. Önnur könnun, sem gerð var 1986 1987, leiddi í ljós að 76 mismunandi greinar voru í boði.

Um 50. gr.


     Greinin er ný.
    Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 23/1990, um Námsgagnastofnun, segir: „Nemendur í skyldunámi skulu fá ókeypis námsgögn til eignar eða afnota samkvæmt ákvörðun námsgagnastjórnar.“
     Þetta ákvæði hefur verið túlkað á mismunandi hátt. Sumir vilja skilja þetta þannig að allar námsbækur og öll önnur gögn, svo sem pappír, sem nemendur í skyldunámi þurfi yfirleitt á að halda, eigi að vera ókeypis hvaðan sem þau koma. Aðrir líta svo á að ákvæðið eigi við um þau gögn sem Námsgagnastofnun framleiðir eða útvegar fyrir það fé sem stofnunin hefur til ráðstöfunar í fjárlögum hverju sinni.
    Í 5. gr. laganna um Námsgagnastofnun, þar sem fjallað er um hlutverk stofnunarinnar, segir m.a. : „Stofnunin annast gerð, útgáfu, framleiðslu og dreifingu á náms - og kennslugögnum miðað við íslenskar þarfir og aðstæður. Hún kaupir og framleiðir fræðslumyndir eða er aðili að gerð þeirra.“ Enn fremur segir: „Hún kaupir, selur og dreifir náms- og kennslugögnum frá öðrum aðilum.“
    Í álitsgerð umboðsmanns Alþingis dags. 31. ágúst 1990, sem fjallar um kaup á námsbókum, viðurkenningu á námsbókum og efnisgjöld, kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að láta nemendur í skyldunámi kaupa námsbækur, að menntamálaráðuneytinu hafi borið samkvæmt eldri lögum um Námsgagnastofnun að annast viðurkenningu á námsgögnum og að óheimilt sé að ætla nemendum að greiða svokallað efnisgjald. Niðurstöður sínar varðandi námsbækur og viðurkenningu á þeim byggir umboðsmaður einkum á því ákvæði 9. gr. laga nr. 45/1979, um Námsgagnastofnun, að skólum sé heimilt að nota önnur námsgögn en þau sem Námsgagnastofnun gefur út ef þau hafa hlotið viðurkenningu menntamálaráðuneytisins. Niðurstaða umboðsmanns var eftir sem áður sú að óheimilt væri að ætla nemendum að greiða námsgögn þótt þau hefðu fengið viðurkenningu menntamálaráðuneytisins. Þetta ákvæði um viðurkenningu á námsgögnum er ekki lengur í lögum um Námsgagnastofnun.
    Kaup á námsbókum og öðrum námsgögnum, viðurkenning ráðuneytis á námsgögum og innheimta svonefndra efnisgjalda í skólum eru álitamál og sú var ástæða þess að þau komu til kasta umboðsmanns Alþingis. Það eru skiptar skoðanir um skilgreiningu á orðinu námsgögn og menn getur jafnvel greint á um skilgreiningu á því hvað er námsbók. Skilgreining á því hvað er skyldunám eða skyldunámsgrein er ekki skýr. Námsgagnastofnun hefur t.d. ekki úthlutað ókeypis námsbókum í valgreinum enda afar erfitt í framkvæmd í ljósi þess hve margar og fjölbreytilegar valgreinar eru í boði, sbr. athugasemdir við 49. gr.
    Ýmsar skilgreiningar eru uppi á því hvaða „efni“ svokölluð efnisgjöld fela í sér. Fyrir þá fjármuni eru oftast keyptar pappírsvörur, möppur, stílabækur, litir o.fl. sem nemendur hafa fram til þessa útvegað sjálfir. Einnig eru gjarnan keyptar t.d. matvörur vegna heimilisfræði og efni til að nota í mynd - og handmennt enda neyta nemendur matarins sjálfir og eiga þau myndverk, smíðisgripi eða hannyrðir sem þeir búa til úr efninu. Í slíkum tilvikum er álitamál hvort líta ber á efni sem „námsgögn“.
    Eftir að ráðuneytinu barst álitsgerð umboðsmanns Alþingis var leitað umsagnar fleiri aðila sem málið varðar, svo sem Námsgagnastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Enn fremur var kannað í grunnskólum hvaða námsefni nemendur hefðu verið látnir kaupa og hvaða efnisgjald hefði verið innheimt skólaárið 1989 1990 og haustið 1990. Að vandlega athuguðu máli varð niðurstaða ráðuneytisins eftirfarandi:
     Um kaup á námsgögnum.
    
Fallist er á að Námsgagnastofnun eigi að láta nemendum í skyldunámi í té ókeypis námsgögn. Þessi niðurstaða er kjarninn í álitsgerð umboðsmanns Alþingis og þýðir að óheimilt er að láta grunnskólanemendur kaupa námsgögn.
    Með skyldunámi er átt við þær námsgreinar og námsþætti sem grunnskólalög og aðalnámsskrá grunnskóla gera ráð fyrir að kenndar séu í grunnskólum.
    Námsgögn eru samkvæmt skilgreiningu í aðalnámsskrá grunnskóla námsbækur, kennsluleiðbeiningar, handbækur, myndbönd, hljómbönd, veggspjöld, tölvuforrit, efni til list - og verkgreina og önnur slík gögn sem nauðsynleg eru í skyldunámi.
    Námsgagnastofnun lætur nemendum í skyldunámi í té ókeypis námsgögn nema efni til verklegrar kennslu sem sveitarfélög greiða. Framlag ríkisins til námsgagna fer einungis til Námsgagnastofnunar. Framkvæmdin og mat á því hvað teljast nauðsynleg gögn, svo og ákvarðanir um nýtingu fjármuna er lögbundið verkefni námsgagnastjórnar. Þar eiga sæti fulltrúar Kennarasambands Íslands, Hins íslenska kennarafélags, Félags skólastjóra og yfirkennara, Kennaraháskóla Íslands, fræðslustjóra og menntamálaráðuneytisins auk áheyrnarfulltrúa foreldra.
     Um efnisgjald.
    
Fallist er á álit umboðsmanns Alþingis um efnisgjald. Skólum er ekki heimilt að krefja nemendur um fé til að standa straum af kostnaði sem fellur undir almennan rekstur skóla. Sveitarfélögum ber að greiða rekstrarkostnað grunnskóla. Í því felst m.a. efniskaup til verklegrar kennslu, kaup á kennslutækjum og búnaði, svo og pappír og ritföngum sem notuð eru í sameiginlegri starfsemi skólans og eru í hans vörslu.
    Opinberum aðilum er ekki skylt að leggja nemendum til gögn til persónulegra nota bæði í skóla og heima og hefð er fyrir að foreldrar útvegi. Dæmi um slík gögn eru stílabækur, reikningsbækur, blýantar, pennar, strokleður, reglustrikur, yddarar, plastmöppur, litir o.fl. í þeim dúr. Skólum er heimilt að útvega nemendum slík gögn gegn endurgjaldi ef foreldrar óska þess eða samkomulag næst þar um.
     Um viðurkenningu á námsgögnum.
    
Lagaákvæðið, sem þessi niðurstaða byggir á, var í lögum nr. 45/1979, um Námsgagnastofnun, sem nú eru fallin úr gildi. Ákvæðið er ekki í nýjum lögum nr. 23/1990, um Námsgagnastofnun, sem leystu eldri lög af hólmi.
    Formleg „gæðastimplun“ á öll námsgögn þýðir óhjákvæmilega rækilega miðstýringu, mikinn kostnað og í raun eftirlit með starfsemi Námsgagnastofnunar. Þetta þykir ekki vænleg lausn og síst til þess fallin að stuðla að þróun námsefnisgerðar eða til að auka sjálfstæði skóla. Engu að síður þarf að vera vettvangur til að leysa ágreiningsefni um gæði námsgagna, vettvangur sem foreldrar, nemendur, kennarar og útgefendur geta skotið málum til.
    Í samræmi við þessar niðurstöður er tekið af skarið um það í 50. gr. frumvarpsins að nemendur í skyldunámi skuli ekki greiða fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem þeim er gert skylt að nota. Þetta þýðir í raun að skólar eiga að fá öll námsgögn frá Námsgagnastofnun eða fyrir milligöngu hennar. Í 79. gr. frumvarps þessa er lagt til að kveðið sé á um skyldur sveitarstjórna varðandi kostnað við efni til verklegrar kennslu, pappírskostnað og annað sem fellur undir rekstur.
    Lagt er til að sérstök nefnd verði sett á stofn til að skera úr um vafamál varðandi gæði námsgagna. Nefndin hafi fullnaðarúrskurð í málum sem til hennar er skotið enda lagt til að hún sé þannig skipuð að nefndarmenn eða þeir sem tilnefna þá hafi ekki beinna hagsmuna að gæta. Gert er ráð fyrir að nefndin leiti álits sérfræðinga eftir eðli máls hverju sinni.
    1. mgr. 50. gr. er óbreytt ákvæði 6. gr. laga nr 55/1974, um skólakerfi.

Um 51. gr.


     Hér er gerð sú áherslubreyting frá gildandi lögum að tómstunda - og félagsstarf fari ekki aðeins fram utan venjulegs skólatíma heldur geti einnig verið liður í daglegu starfi. Margs konar hagræði getur verið að því að fella félags - og tómstundastörf að eða inn í stundaskrá skólanna t.d. vegna skipulags á skólaakstri. Tekið skal fram að gerður er greinarmunur á tómstunda - og félagsstörfum sem sveitarfélög standa straum af samkvæmt þessari grein og svonefndri félagsmálafræðslu sem er hluti af skyldunámi og greidd sem kennsla.
    Síðasta málsgrein 43. gr. grunnskólalaga um kennaranámskeið á vegum menntamálaráðuneytisins er felld brott, enda eru slík námskeið fremur verkefni stofnana sem annast kennaramenntun en ráðuneytisins.
    3. mgr. er samhljóða 41. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um VII. kafla.


Um 52. gr.


    Fellt er niður ákvæði um vorskóla þar sem þeir eru nú aflagðir. Að öðru leyti er orðalag 49. gr. grunnskólalaga einfaldað.

Um 53. gr.


     Gildandi lagagreinar nr. 50, 51 og 52 um sérkennslu eru hér settar í eina grein umorðaðar og færðar til nútímaviðhorfa til sérkennslu, þarfa fatlaðra og stöðu þeirra í þjóðfélaginu.
    Ýmis ákvæði í áðurnefndum greinum grunnskólalaga sem vart eiga við lengur eru felld út.
    Meginmarkmiðið er að fatlaðir og aðrir þeir sem þarfnast sérkennslu sitji við sama borð og aðrir nemendur með hliðsjón af markmiðsgrein gildandi grunnskólalaga; kennslan taki mið af fötlun nemandans og heildaraðstæðum hans og fari að öðru jöfnu fram í heimaskóla. Gert er ráð fyrir að þörf nemenda fyrir sérkennslu og/eða aðstoð við fatlaða nemendur verði metin út frá þeim markmiðum sem aðalnámsskrá grunnskóla setur. Námsleiðir, kennsluaðferðir og önnur aðstoð sé metin með tilliti til þess hvers nemandinn þarfnast af öðru tagi eða til viðbótar því sem almennir nemendur þarfnast til að ná markmiðum aðalnámsskrár.

Um 54. gr.


     Ný grein sem fjallar um nemendaverndarráð en því er ætlað að samræma skipulag og framkvæmd ýmissar þjónustu við nemendur. Hér er einkum átt við sérkennslu, námsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og heilsuvernd. Stundum hefur þótt skorta á að samræmi væri í aðgerðum þeirra aðila sem fjalla um mál einstakra nemenda á þessum sviðum og jafnvel stefnt í gagnstæðar áttir án þess menn viti hverjir af öðrum. Nemendaverndarráðið er hugsað sem samráðsvettvangur þeirra aðila sem hér um ræðir. Slík ráð hafa nú um skeið starfað í nokkrum skólum og þótt gefast vel.

Um 55. gr.


     Greinin er efnislega óbreytt 53. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að orðið skólalæknir fellur út en í stað þess kemur orðið kennari. Rétt þykir að kennari nemanda sem fylgist með daglegu starfi hans dæmi hér um ásamt skólastjóra.

Um 56. gr.


     54. gr. grunnskólalaga er hér umorðuð og reynt að tryggja að viðbrögð við hegðunarvandkvæðum séu skipuleg og markviss.
    Í 5. mgr. er nýtt ákvæði um að nemanda sé ekki vikið úr skóla án þess að ráðstafanir séu gerðar til að tryggja honum skólavist annars staðar eða önnur úrræði.

Um VIII. kafla.


Um 57. gr.


    Ný grein sem kemur að nokkru í stað ákvæða í 14. gr. laganna.
    Gildandi lög gera ráð fyrir ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu á vegum fræðsluskrifstofu. Í lögunum er gert ráð fyrir að félagsráðgjafar, sálfræðingar og sérkennarar annist þá þjónustu. Þróunin hefur hins vegar orðið sú að við ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu starfa nú nær eingöngu sálfræðingar. Hins vegar hafa fræðsluskrifstofur í síauknum mæli sinnt kennsluráðgjöf bæði vegna almennrar kennslu og sérkennslu, ásamt nýbreytni - og þróunarstarfi og símenntun kennara. Sá þáttur sérfræðiþjónustu hefur ekki fallið undir ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu.
    Sú skipting á sérfræðiþjónustu fræðsluskrifstofanna annars vegar í kennsluráðgjöf (57. gr. frumvarpsins) og hins vegar sálfræðiþjónustu (58. gr. frumvarpsins) er því í raun staðfesting á þróun síðustu ára.

Um 58. gr.


    Sálfræðiþjónustu fræðsluskrifstofa er ætlað svipað hlutverk í þessu frumvarpi og í IX. kafla gildandi laga. Kaflinn er hér einfaldaður, efni hans fellt í 58., 60. og 61. gr. frumvarpsins og samræmt hlutverki fræðsluskrifstofa. Heitið sálfræðiþjónusta er tekið upp í stað ráðgjafar - og sálfræðiþjónusta.
    Bætt er við heimild til þess að fela sálfræðiþjónustu verkefni við forskóla og framhaldsskóla. Tilgangurinn með því er að tryggja samfellu í þessari mikilvægu þjónustu sem skólakerfið veitir nemendum.
    Gert er ráð fyrir að upptalning á verkefnum í stafliðum 67. gr. laganna komi í reglugerð, sbr. 60. gr.

Um 59. gr.


     Þetta er ný grein sem heimilar rekstur kennslugagnamiðstöðva við fræðsluskrifstofur og þjónustu við skólasöfn.
    Kennslumiðstöð Námsgagnastofnunar í Reykjavík hefur starfað síðan 1983. Þar hefur verið haldið uppi öflugri kynningu og upplýsingastarfsemi og almennri þjónustu við starfsfólk skóla. Kennarar hafa nýtt sér í ríkum mæli þá aðstöðu og aðstoð sem þar er boðin fram, en augljósir annmarkar eru á því að kennarar utan Reykjavíkur geti haft af henni full not. Möguleikar Kennslumiðstöðvarinnar í Reykjavík á að þjóna landsbyggðinni til jafns við Reykjavíkursvæðið eru enn fremur takmarkaðir.
    Þegar er kominn vísir að svonefndum kennslugagnasöfnum við fræðsluskrifstofur utan Reykjavíkur. Nefnd sem skipuð var til að fjalla um kennslugagnamiðstöðvar í tengslum við fræðsluskrifstofur skilaði áliti fyrir stuttu og mælir mjög eindregið með frekari uppbyggingu á þessu sviði. Alþingi samþykkti ályktun um málið 1985 og menntamálaráðuneytið hefur farið fram á fjárveitingar til að koma á fót og efla þá þjónustu sem kennslugagnamiðstöðvar í tengslum við fræðsluskrifstofur geta í té látið. Greinin staðfestir því þróun síðustu ára í því skyni að jafna aðstöðu skóla í landinu.

Um 60. gr.


     Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fræðslustjórar skipuleggi sérfræðiþjónustu fræðsluskrifstofanna með tilliti til aðstæðna í hverju umdæmi. Í reglugerð um fræðsluskrifstofur skal ákveða lágmarkssérfræðiþjónustu. Í heildaráætlun fræðslustjóra þarf m.a. að koma fram hvaða sérfræðingar eru nauðsynlegir og hvers konar fyrirkomulag á sérfræðiþjónustu fellur best að aðstæðum. Vegna samgangna og landfræðilegra aðstæðna kann að vera nauðsynlegt að þjónustunni sé komið fyrir í eins konar útibúi frá fræðsluskrifstofu.
    Í fjölmennari fræðsluumdæmum má gera ráð fyrir að sérfræðiþjónustan verði deildaskipt. Við þá deildaskiptingu er brýnt að tengsl sérkennslu við kennslufræðideild og sálfræðideild verði tryggð vegna þeirrar stefnu að fatlaðir stundi nám við hlið ófatlaðra.

Um 61. gr.


     Ef sérfræðiþjónusta fræðsluskrifstofu er deildaskipt er gert ráð fyrir, eðli málsins samkvæmt, að sálfræðingur sé forstöðumaður sálfræðideilda, en að kennari með framhaldsmenntun í uppeldisfræðum, þar með töldum sérkennslufræðum, sé forstöðumaður kennsluráðgjafar. Sé sérfræðiþjónustu komið fyrir í einni deild koma áðurnefndir sérfræðingar til álita þegar forstöðumaður er ráðinn, enda séu uppfyllt þau skilyrði sem kunna að verða sett í reglugerð.

Um IX. kafla.


Um 62. gr.


    56. gr. laganna er hér óbreytt að öðru leyti en því að megintilgangur námsmats er færður fram til áherslu.

Um 63. gr.


     57. gr. laganna er hér óbreytt að öðru leyti en því að orðið námsmat kemur í stað próf, enda litið svo á að próf í venjulegum skilningi séu hluti af námsmati og ýmsar aðrar aðferðir en próf geti hentað betur til að afla upplýsinga um sum markmið náms. Með hliðsjón af þessu er 60. gr. grunnskólalaga felld út, sjá einnig 44. gr. frumvarpsins.
    Ekki þykir ástæða til að binda í lögum að einkunnir og vitnisburðir séu færðir í prófbækur og einkunnabækur.

Um 64. gr.


     Meginbreytingin sem gerð er á 58. gr. grunnskólalaga er sú að ekki er lengur tiltekið í hvaða námsgreinum skuli halda samræmd próf. Þá er ekki lengur gert ráð fyrir stöðluðum prófum. Ákvæði laganna um stöðluð próf hefur ekki komið til framkvæmda enda afar tímafrekt, kostnaðarsamt og vafi á að gagnsemi slíkra prófa réttlæti kostnaðinn. Auk þess hafa markmið, námsefni og kennsluhættir í grunnskóla verið í örri þróun og því líkur á að staðla þyrfti próf mjög oft.
    Með 16. gr. laga nr. 57/1988, um framhaldsskóla, eru sérstök inntökuskilyrði í framhaldsskóla afnumin. Þar með er fallin brott ein meginforsenda samræmdra lokaprófa í grunnskóla. Samræmdum lokaprófum í 10. bekk (áður 9. bekk) hefur fækkað og vorið 1990 var aðeins haldið samræmt próf í íslensku og stærðfræði. Með hliðsjón af þessari þróun og 16. gr. framhaldsskólalaga hefur umræða um samræmd próf beinst að svokölluðum könnunarprófum. Samræmd könnunarpróf eru ekki bundin við síðasta mánuð grunnskólagöngu heldur hugsuð þannig að þau megi leggja fyrir í hvaða árgangi sem er. Tilgangur þeirra er að gefa nemendum, kennurum og fræðsluyfirvöldum upplýsingar um stöðu mála í tiltekinni námsgrein eða námsþætti. Einn galli samræmdra prófa í lok síðasta námsárs grunnskóla er sá að skólanum gefst ekki ráðrúm til að bregðast við niðurstöðum þeirra. Samræmd könnunarpróf koma að þessu leyti betur til móts við nemendur og kennara.
    Gert er ráð fyrir að nánari útfærsla og fyrirkomulag samræmdra prófa og könnunarprófa verði skilgreint í reglugerð.

Um 65. gr.


     58. gr. laganna er breytt á þann veg að í stað þess að tilgreina valgreinar sérstaklega er talað um námsgreinar í 10. bekk, þar með teljast valgreinar.

Um 66. gr.


     2. og 3. mgr. 61. gr. laganna eru felldar út enda óþarfar.

Um X. kafla.


    Heiti kaflans er breytt til samræmis við efni hans.

Um 67. gr.


    62. og 63. gr. grunnskólalaga eru hér færðar saman í eina grein.
    Í stað „ ... gerð áætlana um umbætur í starfi skóla, rannsóknar - og tilraunastarf í skólum ...“ er gert ráð fyrir að menntamálaráðuneytið hafi yfirumsjón með þróunar - og tilraunastarfi í skólum. Í þessu felst m.a. að hafa frumkvæði að og gera áætlanir um umbætur í grunnskólum og fylgjast með þróun og nýbreytni sem aðrir eiga frumkvæði að.
    Eðlilegt má telja að eiginlegar skólarannsóknir fari fram á vegum rannsóknastofnana, svo sem Rannsóknastofnunar uppeldis - og menntamála, Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
    Mat á skólum, skólastarfi og námsgögnum tekur til almenns eftirlitshlutverks ráðuneytisins bæði í þeim tilgangi að afla vitneskju um hvar umbóta er þörf og fylgjast með framkvæmd laga og reglugerða sem kveða á um skóla og skólastarf.
    Ákvæði um útgáfu námsefnis og kennaramenntun í 62. gr. gildandi laga eru óþörf þar eð lög um Námsgagnastofnun og Kennaraháskóla Íslands fela í sér hvernig með þau mál skuli fara.
    Í stað námstjóra í 63. gr. laganna er í frumvarpinu talað um sérfræðinga og gert ráð fyrir að þeir geti starfað bæði í menntamálaráðuneytinu og á fræðsluskrifstofum.

Um 68. gr.


     Þróunarsjóður grunnskóla hefur þegar verið stofnaður og er úthlutað árlega fé úr honum samkvæmt sérstökum reglum. Ekki er gert ráð fyrir að sjóðurinn standi straum af rannsóknum, námsleyfum eða breytingum á húsnæði og aðstöðu heldur styrki skóla, kennarahópa eða einstaka kennara sem hafa frumkvæði að umbótum í námi og kennslu og skipulagi skólastarfs.
    Með þessu móti er ýtt enn frekar undir faglegt frumkvæði og ábyrgð skóla og kennara og svigrúm til umbóta í skólastarfi aukið.

Um 69. gr.


     1. mgr. 65. gr. grunnskólalaga er efnislega óbreytt.
    2. mgr. er felld út enda óþörf í ljósi laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í staðinn kemur heimild til að styrkja sérstakar nýjungar eða tilraunaskóla.

Um XI. kafla.


Um 70. gr.


    Heiti kaflans breytist úr Bókasöfn í Skólasöfn. 72. gr. gildandi laga er færð að nútímaviðhorfum um hlutverk og starfsemi skólasafna.
    Skólasöfn hafa reynst vera eitt af meginhjálpartækjum í skólastarfinu. Með skólasafni er átt við safn bóka, kennslutækja, námsgagna og annarra gagna sem koma að notum við nám og kennslu. Nauðsynlegt er að vel sé búið að skólasöfnum bæði hvað varðar húsnæði, aðbúnað, gagnakost og starfslið. Sérstakt húsnæði er víðast nauðsynlegt en í fámennum skólum getur þurft að samnýta húsrými.
    Sveitarfélög annast rekstur grunnskóla og sjá þar með um að aðstaða fyrir skólasafn sé fullnægjandi og kaupa bækur og önnur gögn á safnið. Ríkið greiðir hins vegar starfsfólki skólasafna laun, sbr. 43. gr. laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Því er nauðsynlegt að bæði ríki og sveitarfélög setji nánari reglur um skólasöfnin, búnað þeirra og starfslið.

Um XII. kafla.


Um 71. gr.


    73. gr. gildandi laga er einfölduð og færð til samræmis við framkvæmd heilsuverndar í skólum í dag.

Um XIII. kafla.


Um 72. gr.


    Greinin er efnislega óbreytt 75. gr. gildandi laga að öðru leyti en því að bætt er við ákvæði um að skólagjöld séu háð samþykki menntamálaráðuneytisins. Sams konar ákvæði er í 5. gr. laga nr. 55/1974, um skólakerfi.

Um XIV. kafla.


    Fjármálakafli frumvarpsins tekur í öllum meginatriðum mið af þeim breytingum er urðu á grunnskólalögum við samþykkt laga nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    46., 47. og 48. gr. grunnskólalaga eru fluttar inn í kaflann um fjármál, enda eru ákvæði þessara greina grundvöllur kostnaðar ríkissjóðs vegna kennslu.
    Ákvæði 74. 79. gr. grunnskólalaga eru efnislega samhljóða lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
    76. gr. frumvarps þessa felur hins vegar í sér breytingar frá ákvæðum 76. gr. grunnskólalaga, en þeirri grein var ekki breytt með ákvæðum laga nr. 87/1989. Breytingar þessar stefna að einföldun og taka mið af breyttri verkaskiptingu.

Um 73. gr.


     Samkvæmt frumvarpsgreininni greiðir ríkissjóður alla almenna kennslu sem ákveðin er á hverjum tíma í samræmi við nemendafjölda í hverju skólahverfi og eðlilega skiptingu í námshópa.

Um 74. gr.


     Í raun er hér verið að staðfesta þá þróun sem orðið hefur. Meðalfjöldi nemenda í bekk hefur minnkað og er 22 24 nemendur í stærri skólum. Meðaltal er lægra í fámennum skólum.
    Í gildandi lögum er ákvæði um að nemendafjöldi í bekkjardeild fari ekki yfir 30 sem þýðir að þegar þannig stendur á er hópnum skipt í tvær bekkjardeildir og fjöldi kennslustunda sem skólinn hefur til ráðstöfunar ákveðinn út frá því. Frumvarpið gerir ráð fyrir að lækka þessa tölu í 28 í 4. 10. bekk, sjá ákvæði til bráðabirgða.
    Enn fremur er gert ráð fyrir því að í 1. 3. bekk (6, 7 og 8 ára börn) fari nemendafjöldi einstakra bekkja aldrei yfir 22. Þessi viðmiðun er í raun þegar komin á í 1. bekk. Eðlilegt er að í skólabyrjun þar sem grunnur er lagður að skólagöngu séu færri nemendur í bekk en þegar ofar dregur. Hvort tveggja er að nemendur þurfa meiri einstaklingsaðstoð og mikilvægt er að tryggja sem best grundvallarfærni, svo sem í lestri.

Um 75. gr.


    Hér eru 47. og 48. gr. grunnskólalaga felldar saman í eina grein enda eiga þær við um fámenna skóla þar sem óhjákvæmilegt er að kenna árgöngum saman.
    Orðalag 1. og 2. mgr. 47. gr. gildandi laga er einfaldað. Í greininni er miðað við samkennslu nemenda í fámennum skólum í 1. 8. bekk (6 13 ára nem.) í stað 1. 6. bekk áður (7 12 ára).
    Stafliður a) er viðbót og setur hámark á nemendafjölda í skólum þar sem mjög fáir nemendur eru í árgangi. Með þessari viðbót er heimild laga til samkennslu rýmkuð nokkuð og greinin nær betur yfir margs konar afbrigði og sveiflur sem gjarnan koma upp í mjög fámennum skólum.
    Síðasta mgr. 75. gr. frumvarpsins er efnislega svipuð 48. gr. gildandi laga. Breytingar eru til samræmis við fyrri hluta greinarinnar.

Um 76. gr.


     1. mgr. heimilar skólum að blanda saman aldurshópum. Margir skólar hafa þegar tek
ið upp slíkt skipulag bæði tímabundið og til lengri tíma og í fámennum skólum er blöndun árganga óhjákvæmileg. Blöndun árganga hentar vel til að ná ýmsum markmiðum náms og kennslu í grunnskólum, svo sem um félagsþroska, samvinnu og jafnrétti. Enn fremur er með slíku skipulagi oft auðveldara að laga námsefni og námskröfur að einstaklingum.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að skipta bekkjum vegna verklegrar kennslu. Meginreglan hefur verið sú að miða við hálfa bekki í svonefndum verklegum greinum, smíðum, hannyrðum og heimilisfræði.

Um 77. gr.


     Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um kennslukostnað vegna forfallakennslu, sjúkrakennslu og sérkennslu í reglugerð.

Um 78. gr.


     Óbreytt ákvæði 77. gr. grunnskólalaga, sbr. 43. gr. laga nr. 87/1989 að öðru leyti en því að bætt er við orðinu „námsráðgjafi“ í 1. mgr. til samræmis við ákvæði 34. gr. þessa frumvarps.

Um 79. gr.


     1. mgr. er óbreytt ákvæði 78. gr. grunnskólalaga, sbr. 44. gr. laga nr. 87/1989.
    2. mgr. er viðbót sem er tilkomin vegna niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að óheimilt sé að innheimta efnisgjöld af nemendum og að sveitarfélögum beri að standa straum af öllum rekstrarkostnaði grunnskóla.

Um 80. gr.


     Ákvæði 80. gr. grunnskólalaga eru hér felld að lögum nr. 87/1989, um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Um 81. gr.


     Óbreytt ákvæði 81. gr. grunnskólalaga, sbr. 46. gr. laga nr. 87/1989, að öðru leyti en því að fellt er út úr 1. mgr. ákvæði um ársreikninga skóla. Hliðstætt ákvæði kemur fram í lok 3. mgr.

Um 82. gr.


     Óbreytt ákvæði 82. gr. grunnskólalaga, sbr. 47. gr. laga nr. 87/1989, að því frátöldu að talað er um kennsluráðgjöf og sálfræðiþjónustu í stað ráðgjafar - og sálfræðiþjónustu í samræmi við aðrar greinar frumvarpsins.

Um 83. gr.


     Óbreytt ákvæði 83. gr. grunnskólalaga, sbr. 48. gr. laga nr. 87/1989.


Um XV. kafla.


Um 84. gr.


    Engar athugasemdir.

Um 85. gr.


    Verði frumvarp þetta að lögum falla úr gildi lög um grunnskóla, nr. 63/1974, með áorðnum breytingum, lög um heyrnleysingjaskóla, nr. 13/1962, svo og þau lagaákvæði er kunna að brjóta í bága við þau.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Um ákvæði til bráðabirgða vísast til inngangs að greinargerð.