Ferill 205. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 205 . mál.


Ed.

258. Frumvarp til laga



um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987.

Flm.: Salome Þorkelsdóttir, Eiður Guðnason, Eyjólfur Konráð Jónsson,


Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðmundur Ágústsson, Guðrún J. Halldórsdóttir,


Halldór Blöndal, Karl Steinar Guðnason, Margrét Frímannsdóttir,


Skúli Alexandersson, Valgerður Sverrisdóttir.



1. gr.


     Á eftir 1. mgr. 72. gr. laganna komi ný málsgrein er orðist svo:
     Barn, tólf ára eða yngra, sem hjólar eða er reitt á reiðhjóli, skal nota hlífðarhjálm.


2. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1991.

G r e i n a r g e r ð

.
    Árið 1988 tóku gildi ný umferðarlög og voru í þeim ýmis nýmæli sem ætlað var að bæta umferðaröryggi og draga úr slysum. Er ljóst að þær breytingar hafa á margan hátt náð tilætluðum árangri. Á síðasta þingi var þó samþykkt frumvarp, sem fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps flutti ásamt fleiri þingmönnum, um breytingar á lögunum og lutu þær að notkun bílbelta í aftursætum bifreiða.
     Frumvarp, sem í var ákvæði er varðar 1. gr. þessa frumvarps, hefur áður verið flutt en náði þá ekki fram að ganga. Í því var lagt til að börn væru skylduð til að nota hlífðarhjálma þegar þau hjóla eða eru reidd á reiðhjóli. Notkun slíkra hjálma hefur verið lögleidd, t.d. í Svíþjóð í mörg ár, og þykir sannað að notkun þeirra dregur úr alvarlegum höfuðáverkum vegna reiðhjólaslysa á börnum.
    Í nýlegri grein í félagsriti Bindindisfélags ökumanna, nr. 1 1990, er grein eftir Jónas Ragnarsson um könnun Hagvangs fyrir félagið á lögbindingu reiðhjólahjálma. Þar segir m.a.:
    „Um 90% þeirra sem tóku afstöðu til spurningar um lögleiðingu reiðhjólahjálma voru hlynnt þeirri ráðstöfun. Þetta var niðurstaðan úr könnun sem Hagvangur gerði fyrir Bindindisfélag ökumanna í janúar 1990. Spurt var: Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) setningu lagaákvæða um að börn á reiðhjólum skuli nota hjálma? Karlar voru hlynntari þessu en konur, íbúar á landsbyggðinni heldur hlynntari en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu en hins vegar var langskólagengið fólk ekki eins hlynnt lögbindingu reiðhjólahjálma eins og þeir sem höfðu styttri skólagöngu að baki.
    Ár hvert slasast hundruð hjólreiðamanna hér á landi. Í flestum alvarlegum reiðhjólaslysum verður höfuðið fyrir höggi, við fall eða árekstur. Þess vegna er eðlilegasta vörnin að verja höfuð hjólreiðamannsins eins og kostur er.
    Áhrif reiðhjólahjálma til að draga úr slysum hafa verið rannsökuð mikið erlendis. Í einni af nýjustu rannsóknunum, sem greint var frá í hinu virta bandaríska læknariti, The New England Journal of Medicine (25. maí 1989), var dregin sú ályktun að með notkun reiðhjólahjálma mætti draga úr hættu á alvarlegum höfuðmeiðslum um 85%. Niðurstöður annarra rannsókna hníga í sömu átt.
    Þeir hjálmar, sem nú eru á markaði, eru mun léttari og þjálli en eldri hjálmar og veita samt góða vörn gegn höggum. Kannanir sýna að hlutfallslega fáir hjólreiðamenn nota hjálma þrátt fyrir ótvírætt ágæti þeirra. Þetta hefur þó verið að breytast, bæði hér á landi og erlendis. Börn og unglingar, sem mest þurfa á hjálmum að halda, virðast þó ekki setja fyrir sig að nota þá samkvæmt erlendum athugunum. Jafnvel hefur verið bent á að börn líti upp til þeirra jafnaldra sinna sem nota hjálma.
    Það sem flestir eru sammála um að skorti er meiri fræðsla um gildi reiðhjólahjálma. Sú fræðsla þarf að vera bæði í fjölmiðlum og skólum, og ekki síst þarf að koma hvatning frá foreldrum. Bent hefur verið á að með réttum aðferðum megi hafa þau áhrif að hjálmar komist í tísku meðal barna og unglinga. Umferðarráð og Olíufélagið Skeljungur hafa tekið höndum saman um kynningu á hjálmunum og hefur það átak skilað árangri að þeirra mati.
    Sumir telja að notkun reiðhjólahjálma verði þó ekki almenn fyrr en hún verður lögbundin. Er þá m.a. vitnað til þess að ökumenn vélhjóla hér á landi fóru ekki að nota hjálma að nokkru marki fyrr en það var leitt í lög fyrir hálfum öðrum áratug. Svipuð reynsla var af tilraunum til að auka notkun bílbelta.“
    Á nýafstöðnu umferðarþingi flutti Tryggvi Þorsteinsson yfirlæknir fyrirlestur um hjólreiðaslys á Stór - Reykjavíkursvæðinu. Þar kom fram að 397 einstaklingar hefðu leitað til slysadeildar Borgarspítalans vegna meiðsla í hjólreiðaslysum. Tíu þurfti að vista á sjúkrahúsi og þar af einn vegna lífshættulegs ástands. Meiðsli á höfði voru algeng, heilahristing fengu 33 og voru fimm lagðir inn á sjúkrahús vegna þess. Fleiður og sár á andliti og hvirfli voru 133. Alls 39 hlutu brot á handlegg, þar af 25 á framhandlegg. Ellefu brotnuðu á fótum, þar af þrír um sköflung, og þrjú liðhlaup voru skráð. Átta viðbeinsbrotnuðu.
    Flest voru slysin í aldurshópnum að fimmtán ára aldri, eða 84%. Á umferðargötu eru skráð 90 slys og á þeim vettvangi meiddust sjö börn á aldrinum að fimm ára aldri og 30 börn á aldrinum 5 9 ára. Flest eru slysin á gangstíg eða annars staðar úti, eða 299, sem eru rúmlega 75% slysa. Alvarlegustu slysin urðu í sambandi við árekstur við bíla á umferðargötum og höfðu fjórir hinna innlögðu orðið fyrir bifreið.
    Í lok máls síns hvatti Tryggvi Þorsteinsson yfirlæknir reiðhjólafólk til að nota hjálm og taldi jafnframt mikilvægt að leggja áherslu á fræðslu um reiðhjólaakstur í skólum.