Ferill 225. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 225 . mál.


Nd.

299. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Við 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna bætist: Sama gildir um leigu tjaldstæða og bifreiðastæða. Útleiga veitinga - og samkomuhúsnæðis er þó skattskyld.

2. gr.


     Í stað orðanna „fyrir færri en níu menn“ í 1. mgr. 10. gr. laganna komi: fyrir níu menn eða færri.


3. gr.


     6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laganna orðast svo: Öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða fyrir níu menn eða færri.

4. gr.


    3. málsl. 7. mgr. 27. gr. laganna orðast svo: Sama gildir ef bókhald og þau gögn, sem liggja fyrir um fjárhæðir á virðisaukaskattsskýrslu, verða ekki talin nægilega örugg eða ef tekjuskráning, þar með talið notkun sjóðvélar eða útbúnaður hennar eða notkun og form reikninga, er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim.

5. gr.


     Við 28. gr. laganna bætist eftirfarandi málsgrein:
     Vanræki skattskyldur aðili að færa tilskilið bókhald samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laga þessara eða nota tilskilið söluskráningarkerfi samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim eða ef söluskráningarkerfi er verulega áfátt skal skattrannsóknarstjóri með ábyrgðarbréfi beina til hans fyrirmælum um úrbætur. Ef fyrirmælum þessum er ekki sinnt innan 20 daga getur skattrannsóknarstjóri látið lögreglu stöðva atvinnurekstur viðkomandi á sama hátt og greinir í 3. mgr. þessarar greinar og þar til fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar.

6. gr.


     2. mgr. 40. gr. laganna orðast svo:
     Ef aðili vanrækir tilkynningarskyldu sína skv. 5. gr., vanrækir skyldu sína til að halda tilskilið bókhald samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þar með talið að hann vanrækir að skrá sölu sína í sjóðvél með fullnægjandi útbúnaði, vanrækir að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skýrslur eða gögn, svo sem ákveðið er í lögum þessum eða ákvæðum reglna, sem settar eru samkvæmt þeim, skýrir rangt eða villandi frá einhverju er varðar virðisaukaskattsskýrslur hans, þótt upplýsingarnar hafi ekki áhrif á skattskyldu hans eða skattgreiðslur, eða brýtur á annan hátt gegn lögum þessum eða ákvæðum reglna, sem settar eru samkvæmt þeim, skal hann sæta sektum, enda liggi eigi við brotinu þyngri refsing eftir þessum eða öðrum lögum.

7. gr.


     3. mgr. 43. gr. laganna, sbr. 13. gr. laga nr. 119/1989, orðast svo:
     Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu eða flutnings á vörum sem flytja á úr landi eða þau hafa selt hingað til lands.

8. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi. Endurgreiðsla skv. 7. gr. er þó heimil vegna viðskipta frá 1. janúar 1990.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í júní sl. kannaði skattrannsóknarstjóri notkun og ástand sjóðvéla sem notaðar eru af skattskyldum fyrirtækjum til skráningar sölu á vörum og þjónustu. Niðurstöður þeirrar könnunar voru þær að þó svo að staðan hefði batnað frá fyrri rannsóknum skorti enn mikið á að reglum um sjóðvélar væri framfylgt. Tíunda hvert sjóðsvélaskylt fyrirtæki reyndist ekki hafa sjóðvél og hjá meiri hluta þeirra er höfðu slíka vél var búnaði eða notkun á einhvern hátt ábótavant. Einungis um þriðjungur þeirra fyrirtækja sem skylt er að hafa sjóðvélar reyndist hafa þær í fullkomnu lagi.
    Þörf er á úrræðum til handa skattyfirvöldum til að taka í taumana með skjótum hætti. Hin hefðbundnu úrræði, sektir og áætlun skatts, þykja ekki nógu fljótvirk í þessu sambandi auk þess sem þörf er á meðölum sem knýja menn til aðgerða frekar en fjárútláta, þ.e. lokunaraðgerðum. Gert er þó ráð fyrir að hægt verðu að beita framangreindum úrræðum, sektum, áætlunum og lokunaraðgerðum, samhliða.
    Svipuð sjónarmið eiga við um tilhögun bókhalds, svo og aðrar söluskráningaraðferðir og er því gert ráð fyrir að hægt verði að grípa til sams konar úrræða við brotum á þeim reglum.
    Auk framangreindra breytinga á lögunum er þörf á að gera á þeim nokkrar smávægilegar efnisbreytingar vegna vandkvæða er komið hafa í ljós við framkvæmd.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Skv. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna er fasteignaleiga, þar með talin hótel - og gistiherbergjaleiga, undanþegin skattskyldu. Í framkvæmd hefur leiga tjaldstæða og bifreiðastæða einnig verið talin falla hér undir. Lagt er til að þessi starfsemi verði beinlínis nefnd, til nánari skýringar og fyllingar á þessari undanþágu.
    Nokkur brögð munu að því að félagasamtök og aðrir reyni að komast hjá greiðslu virðisaukaskatts að hluta af veitinga - og samkomuhaldi við leigu á samkomusal og kaup á mat. Leigan á salnum ein og sér er virðisaukaskattsfrjáls en veitingarnar skattskyldar. Erfitt er að koma í veg fyrir að kostnaður sé færður á milli frá skattskyldu sölunni og yfir á þá skattfrjálsu. Lagt er til að skammtímaleigan á veitinghúsnæði verði gerð skattskyld til að fyrirbyggja slík undanskot skattsins, svo og til þess að jafna samkeppnisaðstöðu við veitinga - og samkomuhús sem bera skattinn að fullu af sinni sölu.

Um 2. og 3. gr.


     Ýmsir erfiðleikar hafa komið upp í framkvæmd vegna þess að ekki ber saman skilgreiningum umferðarlaga og virðisaukaskattslaga um hvað telja beri fólksbifreið. Umferðarlögin miða við átta farþega og færri meðan virðisaukaskattslögin miða við sjö farþega og færri. Eðlilegt þykir að miða við umferðarlögin í þessu sambandi, enda var ekki ætlunin í frumvarpi til laga um virðisaukaskatt að semja nýja skilgreiningu á hugtakinu fólksbifreið.

Um 4. 6. gr.


     Auk nýrrar heimildar í 28. gr. fyrir skattrannsóknarstjóra til að krefjast lokunar fyrirtækis er lagt til að ákvæði 27. og 40. gr. laganna verði gerð fyllri til þess að taka af allan vafa og jafnframt að ítreka heimildir skattyfirvalda til að áætla skattskylda veltu og beita sektum við brotum á reglum um tekjuskráningu, þar með töldum reglum um sjóðvélar.


Um 7. gr.


     Í 43. gr. laganna er gert ráð fyrir heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts sem erlend fyrirtæki hafa greitt hérlendis vegna kaupa, aðvinnslu, geymslu eða flutnings á vörum sem flytja á úr landi. Nú hafa komið upp tilvik þar sem um tvísköttun er að ræða vegna viðskipta erlendra aðila hér á landi í tengslum við vöru sem þeir selja hingað til lands. Hér má sem dæmi nefna að erlent fyrirtæki kaupir af íslenskum aðila þjónustu, svo sem vinnu við uppsetningu á vélum eða ábyrgðarviðgerð, vegna vöru sem hinn erlendi aðili selur hingað til lands. Erlendi aðilinn á ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskattsins vegna kaupa á þjónustunni frá hinum íslenska aðila auk þess sem hinn íslenski kaupandi vörunnar þarf að greiða virðisaukaskatt í tolli af heildarverðinu, t.d. vél og uppsetningu hennar. Hér verður því um tvísköttun að ræða á þjónustuhlutanum. Einnig getur orðið um tvísköttun að ræða vegna vörukaupa erlends aðila hérlendis, t.d. þegar erlendur seljandi vöru kaupir í hana varahlut hérlendis vegna ábyrgðarviðgerðar. Framangreind vandamál skapast vegna þess að um er að ræða millilið (hinn erlenda seljanda) sem ekki er skráður aðili hér á landi og á þar af leiðandi ekki rétt á innskattsfrádrætti.
    Lagt er til að ákvæði 43. gr. verði rýmkuð svo að einnig verði hægt að endurgreiða í þeim tilvikum þegar varan er seld hingað til lands.