Ferill 253. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 253 . mál.


Nd.

425. Frumvarp til laga



um breytingu á lyfjalögum, nr. 49/1978, með síðari breytingum.

Flm.: Ásgeir Hannes Eiríksson.



1. gr.


     4. gr. laganna orðist svo:
     Náttúruleg vítamín og önnur fæðubótaefni, sem fyrst og fremst eru ætluð sem uppbót á daglegt fæði, teljast ekki lyf og falla undir lög um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu - og nauðsynjavörum, nr. 24/1936.

2. gr.


     5. gr. laganna orðist svo:
    Skilgreining lyfjahugtaksins í 2. gr. laganna má ekki breyta með reglugerð eða á annan hátt.

3. gr.


     Síðari málsgrein 50. gr. laganna falli brott.

4. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Árið 1978 voru ný lyfjalög samþykkt á Alþingi og þar voru náttúruleg fæðubótaefni felld undir lyfjalögin. Þann 28. október 1980 var gefin út reglugerð nr. 579 um hvaða vörur lyfsalar og læknar mega selja og hafa á boðstólum, einnig um sölu vítamína og steinefna.
    Ákvæði í lyfjalögum og reglugerð um vítamín og önnur fæðubótaefni hafa frá upphafi sætt mikilli gagnrýni hjá fólki sem notar þessi efni að staðaldri og selur þau eða hefur kynnst þeim á annan hátt.
    Bent hefur verið á að með lyfjalögunum hafi mjög þrengt að almennri verslun með fæðubótaefni og eðlilegri notkun þeirra um leið. Fjöldi vörutegunda var með lögunum settur undir lyfsala en var áður seldur á frjálsum markaði hér á landi líkt og í nágrannalöndum okkar. Þetta gæti dregið úr notkun fæðubótaefna og því hugsanlega valdið skorti á þeim hjá landsmönnum og þannig stuðlað óbeint að auknu heilsuleysi.
    Maðurinn er það sem hann borðar og ekkert annað. Þess vegna telur flutningsmaður að fæða og fæðubótaefni eigi að falla undir sömu ákvæði í lögum og sama eftirlit hjá hinu opinbera. Fæðubótaefni eru ekki lyf í þessum skilningi frekar en fæðan sjálf. Þess vegna er lagt til í frumvarpi þessu að fæðubótaefni heyri framvegis undir matvælaeftirlit en ekki lyfjaeftirlit.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 2. gr. lyfjalaga eru lyf og lyfjahugtakið skilgreind. Það mun vera verk Vilmundar heitins Jónssonar fyrrum landlæknis. Skilgreining Vilmundar er bæði skýr og skorinorð. Í 4. gr. lyfjalaga eru vítamín skilgreind nánar þannig að brýtur í bága við skilgreiningu lyfja í 2. gr. sömu laga. Þarna gætir ósamræmis í lögunum og því eru lagðar til breytingar á 4. gr. lyfjalaganna.

Um 2. gr.


     Í 5. gr. lyfjalaga er enn dregið úr gildi 2. gr. sömu laga og verður 2. gr. nánast markleysa fyrir bragðið. Þess vegna leggur flutningsmaður líka til að 5. gr. lyfjalaganna verði breytt.

Um 3. gr.


     Í síðari málsgrein 50. gr. lyfjalaganna eru ákvæði sem heimila Lyfjaeftirliti að hafa eftirlit með öðrum fyrirtækjum eða öðrum vörum en lyfjum ef sérstakar ástæður mæla með.
    Hérna finnst flutningsmanni farið fullfrjálslega með heimildir til eftirlits og er þó nóg eftirlit fyrir í landinu. Því er lagt til í frumvarpinu að þessi liður sé felldur brott.