Ferill 233. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 233 . mál.


Nd.

442. Nefndarálit



um frv. til l. um tryggingagjald.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk á sinn fund Ólaf Davíðsson, Víglund Þorsteinsson og Bjarna Þór Jónsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda, Þórarin V. Þórarinsson og Hannes Sigurðsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands, Þórleif Jónsson og Guðlaug Stefánsson frá Landssambandi iðnaðarmanna, Hauk Halldórsson og Hákon Sigurgrímsson frá Stéttarsambandi bænda, Ágúst H. Elíasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Árna Benediktsson frá Félagi Sambands fiskframleiðenda, Svein Hjört Hjartarson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Láru V. Júlíusdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Vilhjálm Egilsson frá Verslunarráði Íslands, Magnús Pétursson, Bolla Þór Bollason og Snorra Olsen frá fjármálaráðuneytinu og Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Landssambandi iðnaðarmanna.
    Meiri hl. nefndarinnar fellst á nauðsyn þess að samræma launagjöld. Ljóst er að núgildandi fyrirkomulag er óhentugt og þungt í vöfum, jafnt fyrir skattgreiðendur og skattyfirvöld. Jafnframt telur meiri hl. nefndarinnar ljóst að sú breyting, sem felst í frumvarpinu, að innheimta tryggingagjald mánaðarlega í tengslum við gildandi staðgreiðslukerfi tekjuskatta einstaklinga, muni bæta skattskil verulega og draga úr möguleikum á undandrætti á skattinum.
    Ljóst er að í frumvarpinu felst nokkur íþynging á þeim greinum sem nú eru undanþegnar launagjöldum. Fyrir liggur að félagsmálaráðherra hefur ákveðið að skipa samstarfsnefnd ráðuneyta og Sambands íslenskra sveitarfélaga til þess að gera tillögur um með hvaða hætti afnám aðstöðugjalds geti átt sér stað og hvaða breytingar þurfi að gera á öðrum tekjustofnum sveitarfélaga. Ákveðið er að samstarfsnefndin hafi samráð við aðila atvinnulífsins um tillögugerðina.
    Meiri hl. nefndarinnar telur nauðsynlegt að tekin verði til endurskoðunar ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, m.a. að því er varðar bótaréttindi, enda fela ákvæði frumvarpsins um tryggingagjald í sér að fleiri aðilar munu greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Greint hefur verið frá því að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra muni skipa starfshóp til að endurskoða m.a. réttindaákvæði laga um atvinnuleysistryggingar.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur áherslu á nauðsyn þess að flýtt verði endurskoðun á lögum um aðstöðugjald.
    Meiri hl. nefndarinnar mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Sú breyting felur í sér að tryggingagjald verði í tveimur þrepum, þ.e. 2,5% og 6%.

Alþingi, 20. des. 1990.



Páll Pétursson,


form., frsm.

Guðmundur G. Þórarinsson,


fundaskr.

Ragnar Arnalds.


Jón Sæmundur Sigurjónsson.